Stjarneðlisfræðingur naglhreinsar

Í fjölmiðlum hefur undanfarið verið fjallað um erfiðleika fólks frá öðrum löndum að fá menntun sína metna hér á landi. Sögð var saga kvensjúkdómalæknis frá Úkraínu sem fær ekki vinnu við hæfi en starfar sem ófaglærður starfsmaður á leikskóla og eiginmaður hennar samlendur, sem er skurðlæknir að mennt, vinnur í eldhúsi á spítala.

Ekki er það svo að þetta fólk sé nýkomið til landsins og vinni fyrir sér með þessum hætti til bráðabirgða í nokkrar vikur eða mánuði, meðan pappírar eru að berast með póstinum, eða Landlæknisembættið að lesa yfir háskólaskírteinin sem fólkið kom með með sér, og setja íslenskan stimpil á lækningaleyfið. Nei, þetta ágæta fólk hefur dvalið hér á landi í 11 ár og kvensjúkdómalæknirinn unnið á leikskólanum í 8 ár samfleytt en ekki haft árangur sem erfiði þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá vinnu við hæfi. Heima í Úkraínu höfðu þau „bæði starfað við kennslu á kennslusjúkrahúsi að loknu sérfræðinámi í læknisfræði“, eins og segir í fréttinni sem krækt er í hér ofar. 

Það verður að viðurkennast að oft hafa svipaðar sögur flogið fyrir. Ég er nú svo grænn að hafa haldið að mestur hluti þessara sagna væru flökkusögur, þó ég viðurkenndi svona með sjálfum mér að einhver fótur hlyti að vera fyrir þessu.

En hvernig stendur á þessari voðalegu tregðu? Er íslensk menntun svo framúrskarandi að annarra þjóða skólakerfi séu alls ekki samboðin okkur? Það stenst illa, því fjölmargir Íslendingar stunda sitt læknisfræðinám í útlöndum. Ég þekki t.d. einn af stórum hópi sem nemur í Ungverjalandi, sómadreng mikinn. Varla fara Íslendingar til útlanda að læra ef þeir þurfa að bíða í einn og hálfan eða tvo áratugi eftir því að fá menntun sína metna hér á landi, eins og innflytjendur þurfa að gera? Og varla hafa allir þessir íslensku krakkar sem fara utan til náms ákveðið að koma ekkert heim og starfa bara til frambúðar í landinu sem þeir læra í? 

Eru Íslendingar svo sjálfhverfir og illa haldnir af minnimáttarkennd að þeir geti ekki hugsað sér að láta einhverja útlendinga lækna sig, eða starfa við önnur sérfræðistörf hér á landi? Varla á maður að trúa því? 

En hver er þá ástæðan fyrir þessari tregðu að meta prófskírteini frá skólum erlendis? Þetta vandamál er ekki einskorðað við háskólamenntun til starfsréttinda, eins og læknisfræði. 

Tveir yngstu synir okkar hjóna voru skiptinemar við miðskóla (High-School) í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í báðum tilvikum var um að ræða virta einkaskóla sem höfðu full réttindi þar í landi til að útskrifa nemendur með réttindi til hásólanáms. Báðir synirnir stunduðu nám á lokaári og luku tilskildum prófum. Þeir höfðu því unnið sér rétt til að setjast á skólabekk á háskólastigi í Bandaríkjunum.

Báðir settust þeir hins vegar, eftir dvölina þar „westra“, aftur á skólabekk í Fjölbrautaskóla Suðurlands og luku þar stúdentsprófinu sínu. Annar fékk að vísu fáséðan styrk sem veittur er skiptinemum í Bandaríkjunum til háskólanáms og hóf nám strax haustið eftir miðskólaprófið í „College“ í St. Paul í Minneapolis en ákvað svo að una ekki lengur þar í landi og kom heim til að ljúka sínu stúdentsprófi og bachelorgráðu. 

Hvað kemur þetta málinu við? Jú, einmitt. Hvað fengu þeir metið af námi sínu þegar heim var komið? Af heilu skólaári og útskrift með réttindi til háskólanáms í USA, jafnvel námi á háskólastigi að hluta? Það voru ekki nein ósköp, sannast sagna. Þó starfsfólk FSu reyndi af bestu getu og vilja að rýna eitthvað í skjölin voru aðeins metnar einhverjar einingar hér og þar, ótilgreint val, enska kannski, líffræði og eitthvað fleira.

Hvernig stendur á þessum árekstrum milli skólakerfa og prófa – og batnar ekki allt þegar íslenska stúdentsprófið hefur verið stytt í þrjú ár, sambærilegt við t.d. miðskólanám í Bandaríkjunum? Hætt er við að þá gleymist að taka með í reikninginn að fyrsta árið í College, ef ég hef tekið rétt eftir, er almennt undirbúningsnám, og að því loknu tekur við þriggja ára bachelornám. Hér á landi fara nemendur hins vegar beint í sitt bachelornám að loknu stúdentsprófi:

Highschool + College = 7 ár (3+4) í Bandaríkjunum

Framhaldsskóli + háskóli = 7 ár (4+3) á Íslandi.

 

Ekki er gott að hver sem er fái lækningaleyfi, önnur sérhæfð starfsréttindi eða stúdentspróf á silfurfati eftir nám í útlöndum. En getur verið að þetta þurfi að vera svona flókið, erfitt og seinlegt? Er svona stjórnsýsla, eins og íslensku hjónunum frá Úkraínu er boðin, ekki hrein og klár lítilsvirðing við borgarana? Er þetta boðlegt?  

 

Í nógu að snúast í vetur

„Við gerum bara ráð fyrir því að þetta taki gildi næsta haust og við þurfum að vera reiðubúin með allar námsbrautalýsingar 1. mars og við höfum ekki fengið neinar aðrar dagsetningar, þannig að það verður í nógu að snúast í vetur“.

„…þannig að það verður í nógu að snúast í vetur…“ segir Hjalti Jón Sveinsson formaður Skólameistarafélags Íslands í fréttum RÚV í gær.

Formaður skólameistarafélagsins hefði gjarnan mátt geta þess í fréttaviðtalinu að ríkisvaldið gerir ekki ráð fyrir neinu fjármagni til að vinna að samningu nýrra námsbrautalýsinga. Ætlar Hjalti Jón að vinna þessa vinnu sjálfur? Á hann við að í nógu verði að snúast hjá honum sjálfum í vetur, að semja námsbrautalýsingar meðfram skólastjórnuninni, næstu 5 mánuði – og fyrir ekkert? Er skólastjórnun ekki tímafrekari en svo að hægt sé að bæta þessu inn í vinnuskylduna? Kannski byrja daginn á þessu, svona frá átta til hálftíu, og snúa sér að stjórnuninni eftir morgunkaffið?

Nei, hann á ekki við það. Hann á við það að ætlast verður til þess að kennarar bæti þessari vinnu ofan á sín daglegu störf, kennsluna, kauplaust í frítíma sínum á kvöldin og um helgar.

Þar stendur hnífurinn í kúnni, eins og ævinlega.

Kennarar krefjast engra ofurlauna

Kjarasamningar framhaldsskólakennara runnu út í lok janúar sl. og stéttin er því samningslaus. Samninganefnd ríkisins hefur ekkert að bjóða, og hefur greinilega ekki umboð stjórnvalda til að gera það sem menntamálaráðherra og fleiri stjórnmálamenn hafa sagt opinberlega að þurfi að gera: að hækka laun kennara.

Mikil samstaða ríkir meðal kennaranna og nemendur hafa stutt þá einhuga, m.a. með kröfustöðu á Austurvelli, enda varðar það þá og framtíð þeirra, ekki síður en starfandi kennara, að kennaralaun séu mönnum bjóðandi. Nýliðun í kennarastéttinni hefur verið léleg lengi undanfarið og meðalaldur framhaldsskólakennara er nú kominn í 56 ár. Framhaldsskólanemar munu ekki velja kennaranám þegar þeir sjá að byrjunarlaunin sem nýliðum í kennslu bjóðast eftir 5 ára háskólanám og meistarapróf eru 300.000 krónur. Yngstu kennararnir munu líka flýja skólana. Stór hópur framhaldsskólakennara fer á eftirlaun á næsta áratug. Hverjir eiga að taka við af þeim? Ekki er að sjá að stjórnvöld hafi teljandi áhyggjur af því.

Einstaklingsmiðuð þjónusta, utan sem innan kennslustofunnar

Á síðustu árum hefur orðið mikil breyting í framhaldsskólunum. Nánast allir, eða meira en 95% af hverjum árgangi, halda sem betur fer áfram námi eftir grunnskóla. Ánægjulegt er líka að viðhorfsbreyting hefur orðið gagnvart námserfiðleikum af ýmsu tagi. Vandi hvers einstaklings er greindur af fagmönnum og með því lagður grunnur að aðstoð við hæfi. Um leið hefur kennarastarfið orðið margfalt flóknara, gerðar eru auknar kröfur til kennara með nýjum verkefnum, sérlausnum og einstaklingsmiðaðri þjónustu, utan sem innan kennslustofunnar. Í þessu ljósi er það rétt skref að lengja kennaranámið og endurskoða innihald þess, til að efla kennara framtíðarinnar og gera þeim betur kleift að takast á við aukinn fjölbreytileika og flóknari aðstæður. Flestir telja það vonandi eðlilegt að þessu fylgi aukinn kostnaður: að 5 ára nám sé dýrara en 3ja ára nám og að borga þurfi stétt sem þarf masterspróf til starfsréttinda hærri laun en ef aðeins væri krafist bachelorgráðu. Eða hvað?

Stefnt í þverögfuga átt

Blóðugur niðurskurður í framhaldsskólunum, a.m.k. 12 milljarðar undanfarinn tæpan áratug, hefur þvingað skólana til að fara í þveröfuga átt en augljósast mætti telja að stefnt væri: fjölgað hefur almennt í námshópum og fámennari valáfangar verið skornir, eða kennsla í þeim skert, á sama tíma og aðstæður hrópa á minni hópa og aukna fjölbreytni í námsframboði til að koma betur til móts við ólíkar einstaklingsþarfir. Margir skólanna ramba nefnilega á barmi gjaldþrots. Stofnanasamningar, sem gefa áttu færi á „sveigjanleika“ og launaskriði, eru orðin tóm, því ekkert verður af engu. Laun framhaldsskólakennara hafa hækkað minna en hjá öllum öðrum stéttum hér á landi frá 2006 og eru nú 17% lakari en annarra háskólamenntaðra starfsmanna hjá ríkinu. Verri starfskjör, aukið álag og lélegri laun, fyrir lengri (og vonandi betri) menntun, hafa þegar valdið atgervisflótta, eins og fram hefur komið. 

Ekki þarf að fara mörgum orðum um áhrif þessarar sveltistefnu. Þjóðfélag sem í framtíðinni verður að reiða sig æ meir á nýsköpun, hátækni- og þekkingariðnað til að halda uppi viðunandi lífskjörum þarf á vel menntuðu fólki, öflugu skólakerfi og úrvals kennurum að halda. Nemendur sem nú sitja í framhaldsskólunum, og gætu annars hugsað sér að verða kennarar, munu leita annað, mennta sig til starfa sem gefa þeim a.m.k. möguleika á að framfleyta fjölskyldu. Hverjir eiga þá að kenna komandi kynslóðum, sem þjóðin á allt undir að standi fyrir nýsköpun í auknum mæli?

Stytting náms mun auka brottfall

Við þessar aðstæður mætti ætla að frá stjórnvöldum kæmu hugmyndir til endurbóta. En svo er ekki. Helstu tillögurnar þaðan koma frá menntamálaráðherra um „að stytta framhaldsskólann“ og frá sveitarstjórnarstiginu „að láta kennara gera meira af því sem þeir eru bestir í, að kenna“. Ráðherrann fullyrðir að styttingin muni bæta skólastarf. Þar er hann á villigötum. Í fyrsta lagi er framhaldsskólinn meira en bara bóknámsbrautir til stúdentsprófs. Vandinn snýr ekki að þeim sem geta tekið stúdentspróf á þremur árum (margir gera það nú þegar) heldur hinum sem gengur erfiðlega að ljúka því á fjórum árum, af ýmsum ástæðum. Stytting náms mun þess vegna auka brottfall, ekki minnka það. Fleiri af þeim sem glíma við námserfiðleika, eða þurfa að vinna með skóla, munu hætta námi. Athyglinni ætti fremur að beina að eflingu verk-, list- og starfsnáms og hvetja þannig fleiri nemendur til að velja slíkt nám í stað stúdentsbrautanna. Þetta kostar peninga, sem stjórnvöld eru ekki reiðubúin að leggja til.

Fremur ætti að minnka kennsluskylduna en auka hana

Varðandi tilvitnuð orð málsmetandi sveitarstjórnarmanna er það að segja að þau lýsa algeru skilningsleysi á eðli kennarastarfsins og aðstæðum í grunnskólunum. Markmiðið er, eins og með styttingaráformum ráðherrans, að spara peninga. En krafa sveitarfélaganna um meiri kennslu felur um leið í sér skerðingu á tíma kennaranna til undirbúnings og úrvinnslu, foreldrasamskipta, teymisvinnu, samráðs og annarra starfa sem óhjákvæmilega fylgja því að kenna grunnskólabekk. Í „skóla án aðgreiningar“ og við breyttar aðstæður vegna aukins hegðunar- og námsvanda veitir kennurum sannarlega ekki af þeim tíma sem þeir nú hafa til að sinna starfi sínu af fagmennsku og metnaði, og fremur ætti að minnka kennsluskylduna en auka hana, ef mönnum er alvara með því að mikilvægt sé að bæta skólastarf og að sinna hverjum nemanda betur á eigin forsendum.

Kennarar hafa engan áhuga á verkföllum og krefjast engra ofurlauna, aðeins sanngjarnrar leiðréttingar út frá eðlilegum samanburði við opinbera starfsmenn með sambærilega menntun. Kjarabarátta þeirra varðar ekki bara starfandi kennara og launaseðil þeirra, heldur ekki síður komandi kynslóðir sem munu þurfa sífellt betri menntun til að sinna framtíðarstörfum sem gefa þjóðinni færi á að standast alþjóðlega samkeppni um framleiðni og lífskjör. Slík úrvalsmenntun verður ekki í boði án góðra kennara. Fáir nemendur, og engir afbragðsnemar, munu velja kennaranám við núverandi aðstæður. Það er mikið áhyggjuefni.

Greinin birtist í héraðsblaðinu Selfoss – Suðurland, 27. febrúar 2014

Til varnar framhaldsskólunum

Tilvitnun

Kjarasamningar framhaldsskólakennara eru runnir út. Stéttin er því samningslaus. Samningaviðræður hafa engum árangri skilað og deilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Hann hefur ekki náð neinum árangri enn. Kennarar funduðu í gær í öllum skólum og mikil samstaða ríkir meðal þeirra um grundvallaratriðin. Launin eru óboðleg og hafa þegar valdið því að fjöldi umsókna í kennaranám hefur hrunið og nýliðun í kennarastéttinni er léleg. Meðalaldur framhaldsskólakennara er 56 ár. Framhaldsskólanemendur munu ekki velja kennaranám að loknu stúdentsprófi þegar þeir sjá að byrjunarlaunin sem nýliðum bjóðast eftir 5 ára háskólanám og masterspróf eru 300.000 krónur. Þeir velja sér annað starfsnám. Yngstu kennararnir munu flýja skólana. Fjöldi kennara fer á eftirlaun á næsta áratug. Engir koma í staðinn og skólarnir standa auðir. 

Þetta blasir við ef fram heldur sem horfir. Kennarar í Fjölbrautaskóla Suðurlands funduðu í gær, eins og félagar þeirra hringinn í kringum landið, og samþykktu eftirfarandi ályktun, sem útskýrir vel stöðuna:

Nú, þegar kjarasamningur framhaldsskólakennara er útrunninn, bólar hvorki á vilja Samninganefndar ríkisins til að ná samningum né skilningi á þeirri alvarlegu stöðu sem skólakerfið stendur frammi fyrir. Á sama tíma og kennaranám er lengt og stöðugt eru gerðar auknar kröfur til kennara með nýjum verkefnum og flókinni einstaklingsmiðaðri þjónustu, utan sem innan kennslustofunnar, hafa launakjörin hríðversnað.

 Laun framhaldsskólakennara hafa hækkað minna en hjá öllum öðrum stéttum frá 2006 og eru nú 17% lakari en annarra háskólamenntaðra starfsmanna hjá ríkinu. Verri starfskjör, aukið álag og lélegri laun fyrir meiri menntun, hafa þegar valdið hruni umsókna í kennaranám og slakri nýliðun í stéttinni, þar sem meðalaldurinn er nú vel yfir 50 ár. Byrjunarlaun nýútskrifaðs framhaldsskólakennara eru um 300.000 krónur á mánuði og ef ekki verður gripið í taumana með róttækum hætti nú þegar munu þeir ekki ráða sig til kennslu og yngri kennarar flýja úr stéttinni á næstu árum, með alvarlegum afleiðingum fyrir skólakerfið.

 Undanfarinn áratug hafa 12-14 milljarðar króna verið skafnir innan úr framhaldsskólakerfinu og fjárframlög ríkisins til skólanna eru nú undir sk. launastiku. Margir framhaldsskólar ramba því á barmi gjaldþrots og við þessar aðstæður segir sig sjálft að stofnanasamningar, sem ætlað er að veita svigrúm til launaskriðs, eru marklausir og skólarnir ófærir um að sækja fram og sinna þróunarstarfi.

 Ekki þarf að fara orðum um áhrif þessarar sveltistefnu á nemendur og þjóðfélagið allt, þjóðfélag sem í framtíðinni verður að reiða sig æ meir á nýsköpun, hátækni- og þekkingariðnað til að halda uppi viðunandi lífskjörum í þessu landi. Þar sem nýliðun í stéttinni er nú þegar langt undir þörf   þarf að spyrja þeirrar knýjandi spurningar hverjir eigi að kenna þeim sem ætla sér að starfa á þessum sviðum í framtíðinni?

 Framkoma SNR í samningaviðræðum við framhaldsskólakennara undanfarið lýsir algeru skilningsleysi á þeim vanda sem við er að etja. Félagsfundur KFSu lýsir fullri ábyrgð á þeirri skömm sem við blasir á hendur stjórnvöldum og stjórnmálastéttinni á Íslandi. Fundarmenn eru tilbúnir að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til varnar framhaldsskólastiginu og lýsa hér með eftir þjóðarsátt um endurreisn og eflingu þess. 

PISA – Stóridómur er fallinn!

Nú er hafið enn eitt upphlaupið í skólamálaumræðunni á Íslandi. Niðurstöður úr PISA-könnun komu í dagsljósið og það var eins og við manninn mælt: Allir fjölmiðlar voru uppfullir af niðurstöðunum og viðbrögðum við þeim. Mikil speki víða, satt að segja!

Það sem olli mestum áhyggjum voru viðbrögð menntamálaráðherrans. Hann fór nánast með himinskautum í yfirlýsingum sínum. Annars kemur lítið á óvart lengur í skóla- og menntamálaumræðu hér á landi. Það sem nær í gegn í fjölmiðlunum eru mest þröngsýnar, frasakenndar upphrópanir, þar sem staglast er um hríð af töluverðum eldmóði á einni hlið mála. „Verðið vel við og mælið eigi æðru, því að él eitt mun vera, en þó skyldi langt til annars slíks“, sagði Njáll við heimilsfólk í brennunni forðum. Það sama á við um íslenska skólamálaumræðu. Hún gengur yfir eins og hver annar hríðarbylur sem skellur á, og svo fara menn að ræða eitthvað annað (og brýnna).

Menntamálaráðherra hefði farið það betur að sýna yfirvegun og stillingu, sýna það að æðsti yfirmaður menntamála í landinu áttaði sig á því að í jafn flóknu ferli og menntunin er, væru engin próf og engin svör einhlít, að engar töfralausnir væru til, að viðhlítandi skýringar yrðu ekki gripnar á lofti heldur þyrfti að kafa djúpt eftir þeim og í mörgum vötnum.

Það má þó segja ráðherranum til hróss að hann áttar sig á mikilvægi læsis og vinnur að sögn að lestrarkennsluátaki. Eina áhyggjuefnið varðandi þetta frumkvæði er síðasti liður orðsins „lestrarkennsluátak“. Það er nefnilega komið nóg í íslensku samfélagi af „átaksverkefnum“ þar sem markmiðin gleymast um leið og verkefninu lýkur. En það er samt ánægjulegt að læsið er á dagskrá. Ráðherrann (og fleiri) hefðu gjarnan mátt lesa pistilinn um það hér á síðunni – og taka mark á því sem þar stendur, með fleiru sem hér hefur verið ritað um þennan málaflokk.

En aftur að PISA-könnuninni. Það er sjálfast ekki gott að íslenskum skólabörnum fari aftur á þessu prófi. Þó verður að hafa í huga að í upphafi komu þau afleitlega út í samanburði, síðan lagaðist ástandið á tímabili, eitthvað mismunandi eftir greinum, en nú er sem sagt staðan orðin grafalvarleg aftur. Fleiri þjóðir í nágrenninu eru áhyggjufullar, t.d. Danir, en ekki síður Svíar. Það verður sem sé að hafa í huga að árangur í PISA-könnunum hefur verið sveiflukenndur, hvaða skýringar sem eru á því.

Áður en hraðniðurstaða fæst í það hvers vegna börnin okkar eru svo aftarlega á merinni, áður en hannaðar eru skyndilausnir til að bjarga málunum og áður en menn geta farið að tala um eitthvað annað (og brýnna) málefni í fjölmiðlunum, væri ráðlegt að skoða sjálfan „Stóradóm“ – prófið sjálft. Hvernig er það upp byggt? Hvað mælir það? Er það í samræmi við annað námsmat í íslenskum grunnskólum? Eru börn í öðrum löndum vanari en íslensk börn að taka sambærileg próf? Hefur PISA-prófið þróast í sömu átt og námskrá og skólastarf á Íslandi undanfarin ár – heldur í áttina frá þekkingu að hæfni?

Er ekki allt í lagi að velta fyrir sér ýmsum svona spurningum um þetta blessaða próf, og koma slíkum vangaveltum á framfæri við þjóðina, áður en byrjað er að hrópa á torgum um ástandið hjá íslenskum skólabörnum og í íslenskum skólum?

Það var ágætt að hlusta á Kastljósið í gærkvöldi. Þar höfðu bæði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Ásgeir Beinteinsson margt gott til málanna að leggja – meðal annars um ábyrgð foreldra á námi og viðhorfum barna sinna til skólans og kennaranna – alveg þar til í blálokin að Þorbjörg Helga datt í frasa þeirra Sjálfstæðismanna í anda Kató gamla um kjarasamninga kennara. Ásgeir náði sem betur fer að svara því að þeir hefðu aldrei truflað skólastarfið hjá honum.

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu máli í skóla- og menntamálaumræðu að halda ró sinni, hugsa til langs tíma og gera sér ekki þá grillu að hægt sé að grípa í leiðinni tilbúinn skyndibita til að næra menntakefið.

Það er góðs viti að nýjustu lögin um bæði grunn- og framhaldsskóla hafa lifað tvo menntamálaráðherra, hvorn af andstæðum væng stjórnmálanna. Vonandi fer sá sem nú situr ekki á taugum og skiptir um hest í miðri á.

Hverju er brýnast að breyta í skólakerfinu?

Margt gott kom fram hjá Sölva Sveinssyni í Viðtalinu á RÚV. Eitt af því lýtur að umræðu um ónógan sveigjanleika í skólakerfinu. Stjórnmálamenn sjá í því samhengi ekkert annað en vinnutíma kennara og kennsluskyldu. Sölvi benti á lög sem hindra eðlilegt flæði milli skólastiga.

Þá má benda á þann misskilning, sem víða hefur riðið húsum, að litlir skólar séu ómögulegir af því þar ÞURFI að hafa samkennslu og því er streðað við að sameina skóla út og suður, stækka árgangana og hnoða öllum sem eru fæddir sama árið í gegnum sama námsefnið á sama tíma, burtséð frá þroska þeirra og námsgetu.

Það var alsiða í mínum litla barnaskóla að nemendum væri „flýtt“ um eitt ár. Ég útskrifaðist t.d. með stúdentspróf 19 ára, eins og að drekka vatn. Samt var ég 4 ár í menntaskóla. Fyrir nokkrum árum var gerð aðför að þessum litla barnaskóla og hann sameinaður öðrum skóla í fjarlægri sveit. Af hverju? Jú, það átti að vera svo voðalegt fyrir börnin að vera í samkennslu árganga. Og þetta ráðlögðu sérfræðingar. Hvílíkt rugl.

Samkennsla er ein leið til að bjóða börnum að fara hraðar, eða hægar, í gegnum skólakerfið eftir því hvað hentar þeim, hverju og einu. Sölvi talaði um að nemendur væru hvergi færri á hvern kennara en hér á landi og skólakerfið væri dýrt miðað við árangur. Á sama tíma dásamaði hann svo þann lúxus sem hann byggi við að reka lítinn skóla og geta sinnt hverjum nemanda betur!

Það er hárrétt hjá Sölva að þrátt fyrir eilíft tal stjórnmálamanna um nauðsyn þess að efla verk- og listnám, þá gera þeir ekkert í málinu. Tækifærin, og vilji, eru til staðar víða í kerfinu en aðbúnaður verknáms er víða óaðlaðandi – að ekki sé talað um „duldu“ námskrána; hefðirnar og pressuna í þjóðfélaginu á nemendur að feta sig í bóknámið.

Öll umræðan nú til dags snýst um brottfall og styttingu náms til stúdentsprófs. Það er forgangsmál menntamálaráðherrans. Er það ekki lýsandi dæmi um villigöturnar sem þjóðmálaumræðan um menntamál er á? Af hverju er ekki forgangsmál ráðherrans að ræða um iðn-, verk- og listnám? Af hverju tönnlast fjölmiðlarnir á styttingu stúdentsprófs og vinnutíma kennara, þegar önnur mál eru brýnni? Er ekki líklegra til árangurs í brottfallsbaráttunni að taka nú til aðgerða til eflingar verk- og listnáminu, frekar en að eyða allri orku í að stytta nám í framhaldsskólum til stúdentsprófs?

Það er svo margt fleira sem þarf að kafa í en statistík um t.d. árafjölda, kostnað á nemanda og brottfall í samanburði við milljónaþjóðir til að komast að skynsamlegri niðurstöðu um það hvernig VIÐ HÉR Á LANDI viljum hafa OKKAR skólakerfi.

Auk þess leiðir stytting stúdentsbrauta framhaldsskólanna ekki til minna brottfalls. Á það verka aðrir kraftar. Getur einhver bent menntamálaráðherranum á þetta?

Óbótastefna

Nú styttist í að margir kjarasamningar á vinnumarkaði renni út. Margir búast við hörðum átökum. Kennarar eru meðal þeirra stétta sem þurfa að setjast að samningaborðinu á næsta ári. Samningar framhaldsskólakennara renna út 31. janúar, grunnskólakennara stuttu seinna og leikskólakennara síðar á árinu.

Ráðamenn hafa látið hafa það eftir sér að hækka þurfi laun kennara. Bæði menntamálaráðherra, viðsemjandi framhaldsskólakennara, og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, viðsemjanda grunnskólakennara, segjast hafa skilning á nauðsyn þessa. Meintar launahækkanir eru þó bundnar skilyrðum. Skýrt hefur komið fram að ekki eigi að veita auknu fé inn í skólana í þessum tilgangi heldur eigi fjármagnið „að koma innan úr kerfinu“. Fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp boðar líka áframhaldandi niðurskurð í framhaldsskólunum, svona viðbótarglaðning við þá a.m.k. 12 milljarða sem skornir hafa verið á undanförnum árum.

En hvernig ætla þessir herramenn að skafa fjármagn til launahækkana innan úr langsveltu skólakerfinu? Þær fyrirætlanir liggja fyrir klárt og kvitt svo kennarar þurfa ekki lengur að velkjast í neinum vafa, hafi einhverjir þeirra gert það. Það á sem sagt ekkert að hækka launin heldur láta kennarana vinna meira. Menntamálaráðherra ætlar að stytta nám til stúdentsprófs í framhaldsskólum um eitt ár og fækka með því kennurum um a.m.k. 25%. Svo á að hjóla í vinnutímann, afnema „kennsluskylduna“ og láta kennarana kenna fleiri kennslustundir. Með því er hægt að fækka kennurum enn meira.

Formaður SÍS, sem nú sækist eftir efsta sætinu á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir sveitarstjórnakosningarnar næsta vor, orðar þessa stefnu flokksins enn skýrar en menntamálaráðherrann í grein í Fréttablaðinu í dag, sem hann kallarVið getum bætt okkur. Þar segir hann: „Hægt er að nýta fjármagnið betur með því að breyta kennsluskyldunni og draga úr skrifræði innan skólanna þannig að kennarar hafi meiri tíma með nemendum og geti kennt meira. Það hefur þau áhrif að hægt er að reka kennsluna með færri kennurum.“ Kennarar og nemendur í Reykjavík eiga sem sagt von á góðu!

Launakostnaður er langstærsti útgjaldaliðurinn í ölllum rekstri, jafnt ríkisrekstri sem öðrum, svo yfirvöld geta með þessum aðgerðum sparað umtalsverðar fjárhæðir. Eitthvað verður sjálfsagt nýtt til að hækka launataxtana. Ekki er ástæða til að efast um það. En þá hækkun munu kennarar þurfa að kaupa dýru verði og vinna margfalt fyrir hverri viðbótarkrónu.

Svonefnd „kennsluskylda“ sem skilgreind er í kjarasamningum kennara er viðurkenning á því að hverri kennslustund fylgi bæði undirbúningur og úrvinnsla. Allir ættu að skilja það að enginn hleypur með góðum árangri óundirbúinn beint af götunni inn í kennslustund. Þar bíður nefnilega svo fólkinn veruleiki mismunandi námsgetu, félagsþroska og greininga, svo eitthvað sé nefnt, að útilokað er annað en vera vel undirbúinn og þaulskipulagður, svo ekki fari allt úr böndunum. Úrvinnslan felst m.a. í námsmati, samstarfi kennara, foreldrasamskiptum,tiltekt og ýmiskonar skráningu. Þetta er þó aðeins brot af hinum ytri veruleika og undirbúningurinn og úrvinnslan í höfði kennarans öll ótalin, þó varað geti sólarhringum saman.

Kennsluskyldan er viðurkenning á því að til þess að kennari geti haldið uppi vitrænu starfi og verið nemendum sínum allt í senn bakhjarl, hvatning og leiðarvísir, þá getur hann ekki „kennt“ samfleytt frá 8-16. Kennarinn verður að fá rými í stundatöflunni bæði til að undirbúa og vinna úr kennslustundum. Allt fram á síðustu ár hefur ríkt skilningur á þessu meðal viðsemjenda kennara. Nú blasir við alger viðsnúningur á því. Ráðamenn horfa greinilega til fordæmis danskra yfirvalda og þess forkastanlega ofbeldis sem þau nýlega beittu hið lýðræðislega samningsfrelsi og kennarastéttina þar í landi.

 Og það er ekki aðeins kennarinn sem á heimtingu á því að þessum órjúfanlega hluta kennarastarfsins sé sinnt af alúð, heldur varðar „kennsluskyldan“ ekki síður hagsmuni nemenda. Þeir eiga skýlausan rétt á því að vandað sé til alls skólastarfs. Án undirbúnings og úrvinnslu verður kennslustundin hvorki fugl né fiskur.

Fullvíst er að ef hugmyndin um kennsluskylduna verður þurrkuð út úr kennarastarfinu, eða gerð að algeru aukaatriði, og kennarar látnir kenna enn fleiri kennslustundir í dagvinnu, þá munu þeir bara þurfa að vinna meira en þeir þegar gera eftir að skóla lýkur, á kvöldin og um helgar. Þeir munu ekki fá greitt fyrir þá  vinnu. Þeir munu standa frammi fyrir tveimur kostum – og báðum slæmum: Að vinna kauplaust í frítíma sínum eða hætta að kenna. Lítið mun leggjast fyrir tímabundnar taxtahækkanir í ónýtum gjaldmiðli.

Þessi stefna, sem Sjálfstæðisflokkurinn keyrir nú fram af auknum þunga bæði í ríkisstjórn og sveitarstjórnum, er kynnt sem umbótastefna í skólamálum. Það eru öfugmæli. Þetta er óbótastefna sem mun valda langtímatjóni á skólakerfinu, ef af verður.

 

Enn skal brýnt og skorið – Sunnlendingar aftastir á fjárlagamerinni

Það er ekki ofsögum sagt að fjárlagafrumvarpið sem nú er til umræðu í þinginu hafi valdið titringi víða: innibyrgðum gleðihristingi til sjávar, en ónotahrolli bæði í sollinum og til sveita. Töldu margir að eftir hin mögru ár í kjölfar tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans og ríkissjóðs væri botninum náð og niðurskurðarhnífurinn yrði lagður á hilluna um sinn. En aldeilis ekki. Enn skal brýnt og skorið. Það vekur sérstaka athygli margra og óhug að undir hnífinn er leidd sjálf kýrin Velferð, sem þegar má telja í rifin af löngu færi, en tuddinn Stórútvegur, sem rorrar í þverhandarþykku spiklagi, fær a.m.k. næsta aldarfjórðunginn að graðga í sig kjarnfóðrinu, óáreittur í kálgarði kerlingar, sem á tyllidögum er víst kölluð fjallkona.

Reyndar eru Sunnlendingar orðnir þaultamdir í því að vera undirmálsfólk þegar kemur að fjárveitingum frá ríkisvaldinu til byggðaþróunarverkefna ýmiskonar, t.d. á sviði menningar- og fræðslu, að undanskildum Vestmannaeyingum sem ávallt tekst að koma ár sinni vel fyrir borð, og því ætti það kannski ekki að koma á óvart að ríkisstjórnin ráðist með fjárlagafrumvarpið að vopni þar að sem minnstrar mótstöðu er vænst: á hinn sunnlenska menntagarð.

Eftir áralanga baráttu tókst loks að knýja ríkisvaldið til að skrifa undir samninga um viðbyggingu við Hamar, verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands. Öllum ætti að vera kunnugt um hvernig eigendur skólans, sveitarfélögin á Suðurlandi, hafa með framsýni og óbilandi trú á gildi öflugrar menntastofnunar í héraði tekið frumkvæðið aftur og aftur þegar nauðsyn hefur kallað á stækkun og viðbætur við skólann. Sú saga hefur verið margrakin hvernig safnað hefur verið í sjóði til að hefja framkvæmdir – og lána ríkinu fyrir sínum hlut – til að gera þennan skóla að því sem hann er orðinn. Það sama gildir um fyrirhugaða og löngu tímabæra stækkun verknámshússins.

Nú gerist það, undir langþreyttum eilífðarsöng sitjandi menntamálaráðherra um mikilvægi þess að efla verknám í landinu, að undirritaðir samningar um fjárveitingar til verknámshúss FSu. eru dregnir undir nýbrýnda niðurskurðarbredduna.

Á Suðurlandi eru fleiri öflugar menntastofnanir en FSu. Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi hefur starfað af krafti síðan 1999, og með síauknum umsvifum. Frá upphafi hefur Fræðslunetið boðið upp á símenntun og fullorðinsfræðslu, bæði nám í tengslum við skólakerfið og fjölbreytt tómstundanámskeið. Síðustu ár hefur sérstök áhersla verið lögð á að efla þann hóp fólks sem horfið hefur frá hefðbundnu námi án þess að ljúka viðurkenndum prófum. Í þessu sambandi má nefna námsleiðir eins og Grunnmenntaskólann, Aftur í nám og Raunfærnimat iðngreina, þar sem fólki sem unnið hefur lengi við iðn sína án tilskilinna réttinda gefst kostur á að fá reynslu sína og sérþekkingu metna til eininga í skólakerfinu. Fræðslunetið hefur nýlega tekið undir sinn væng Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð fatlaðs fólks, og það miðlaði háskólanámi heim í hérað þar til sunnlensk sveitarfélög, önnur en Vestmannaeyjabær, stofnuðu formlega Háskólafélag Suðurlands þann 19. des. 2007. Háskólafélagið hefur gefið fjölda manns tækifæri til að stunda háskólanám í ýmsum greinum án þess að þurfa að rífa sig upp og flytja í önnur héruð. Mikilvægi þess verður seint fullmetið.

Á vegum Háskólafélagsins, og í samstarfi þess og Fræðslunetsins, hefur verið stofnað til metnaðarfullra verkefna til að efla þær sunnlensku byggðir sem staðið hafa höllustum fæti hvað varðar atvinnutækifæri og íbúaþróun. Þar má til dæmis nefna Kötlu-jarðvang , sem er þegar orðin alþjóðlega viðurkennd vísindastofnun, og nú síðast stofnun þekkingarseturs í Vík og á Kirkjubæjarklaustri, með starfsmanni sem ætlað er að meta menntunarþörf á svæðinu, skipuleggja námskeið og hvetja íbúa til að nýta sér ný tækifæri til menntunar. Þetta síðasttalda, bráðnauðsynlega verkefni er grundvallað á fjármunum í Sóknaráætlun Suðurlands, sem öllum að óvörum hefur verið þurrkuð út úr fjárlagafrumvarpinu og því er staða verkefnisstjórans, og verkefnið í heild sinni, í algjöru uppnámi.

En víkjum nú að upphafi þessa máls og langlundargeði sunnlenskra gagnvart grófri mismunun þegar kemur að útdeilingu byggðaþróunarframlaga ríkisins til landshlutanna. Aðilar að Kvasi, samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, eru alls 11 á landinu öllu. Að auki eru starfandi staðbundnir háskólar á Vestfjörðum (á Ísafirði), Vesturlandi (á Bifröst og Hvanneyri), Norðurlandi vestra (að Hólum í Hjaltadal) og í Eyjafirði (Háskólinn á Akureyri) og svo þekkingarsetur sem hafa með háskólanám að gera í Þingeyjarsýslum, á Austurlandi, á Suðurlandi, Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum.

Þessi fimm síðasttöldu svæði má segja að búi við sambærilegar aðstæður, að því leyti að þar eru bæði símenntunarmiðstöð og þekkingarsetur um háskólanám. Hugtakið „sambærilegar aðstæður“ nær þó ekki nema til hinna ytri aðstæðna og þjónustunnar sem veitt er; þegar kemur að fjárveitingum verður þetta hugtak, eins og sum önnur, heldur en ekki teygjanlegt. Í eftirfarandi töflu kemur þetta vel fram:

Stofnanir í viðkomandi
fimm landshlutum
Fjárlagafrv.
2014
Samtals
(milljónir)
Þekkingarnet Þingeyinga
38,5
38,5
Þekkingarnet Austurlands
Fræða- og þekkingarsetur á Vopnafirði
56,5
8,8
 
65,3
Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi
Háskólafélag Suðurlands
18,8
15,5
 
34,3
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
Þekkingarsetur Suðurnesja
21,5
16,0
 
37,5
Fræðslu- og símenntunarmiðst. Vestm.
Þekkingarsetur Vestmannaeyja
21,5
25,4
 
 46,9

Af þessum samanburði má glöggt sjá að Sunnlendingar eru aftastir á merinni. Rökin um nálægð við Reykjavík halda ekki, því þó álíka langt sé til höfuðborgarinnar frá t.d. Keflavík, Selfossi og Borgarnesi, þá vandast málið nokkuð fyrir þá röksemdafærslu þegar komið er í uppsveitir Árnessýslu, Rangárvallasýslu, að ekki sé talað um Skaftafellssýslurnar eða Hornafjörð, sem sótt hefur um aðild að Fræðslunetinu- símenntun á Suðurlandi frá og með næstu áramótum. Til að setja fjárveitingar skv. fjárlagafrumvarpi 2014 í samhengi við íbúafjölda og landfræðilegan veruleika (stærð í km2 og lengd vegakerfis) er gagnlegt að skoða næstu töflu:

Svæði
Fjárv. / íbúa
Fjárv. / km2
Fjárv. / km
Vestmannaeyjar
11.111
2.710.983
6.700.000
Þingeyjarsýslur
7.986
2.085
39.007
Austurland
5.252
2.940
27.681
Suðurnes
1.768
45.181
176.056
Suðurland
1.749
1.393
11.437

Af þessum samanburði ætti enginn að velkjast í vafa um það hverjir bera skarðan hlut frá borði. Rétt er að taka fram að í þessum útreikningum er Hornafjörður hluti Austurlands. Ef áætlanir ganga eftir munu Hornfirðingar hins vegar starfa með Sunnlendingum frá og með næstu áramótum, og mun þá halla enn frekar á Suðurland, þar sem ekki er í fjárlagafrumvarpinu tekið neitt tillit til þeirrar gríðarlegu stækkunar þjónustusvæðis Sunnlendinga sem yfirvofandi er og menntamálaráðuneytinu er fullkunnugt um. Allt tal um jafnræði íbúa í þessu landi til menntunar verður í ljósi þessa í besta falli hlægilegt.

Það er þó huggun harmi gegn að á fundi sem þingmenn Suðurlands héldu nýverið með sveitarstjórnarfólki og fleirum í Ráðhúsi Árborgar, sóru nær allir stjórnarþingmennirnir af sér ábyrgð á þessum nöturlegu tölum. Við getum þá treyst því að þeir muni ekki samþykkja fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp óbreytt?

Það sem er þó ekki síður mikilvægt fyrir þingmennina, annað en að koma skikki á fjárlög 2014, er að tryggja að þar til bært fólk setjist yfir það nú þegar að útbúa vitræna reiknireglu sem tryggi til frambúðar jafnræði milli landshlutanna hvað varðar fjárframlög til símenntunarstöðva og þekkingarsetra. 

Greinin birtist í blaðinu Selfoss – Suðurland (21.tlb. 2. árg.) 7. nóvember 2013

 

Íslandsmótið í menntun

Margir átta sig á því að menntun er lykill að farsæld, þó vitaskuld megi finna ágæt dæmi um að menn komist vel af án langrar skólagöngu. Ég hygg að allir stjórnmálaflokkar hafi það t.d. á stefnuskrá sinni með einhverjum hætti að „hækka menntunarstig“, enda sé það forsenda fyrir nýjum tækifærum, nýjum störfum, nýjum og auknum útflutningstekjum – já, hagvexti framtíðar.

Til að ná þessu markmiði þarf að vinna að því að sem flestir haldi áfram námi sem lengst og einhverjir vaxi upp í að verða frumkvöðlar og standi fyrir nýsköpun og þróun sem leiði samfélagið fram á við, helst í fremstu röð í samkeppni þjóðanna. Og þá kemur til kasta nægilega vel menntaðs vinnuafls að sinna öllum nýsköpuðu og þróuðu störfunum.

En menntun er auðvitað dýpra hugtak en svo að hægt sé að afgreiða það á svo einfaldan hátt. Menntun er fyrst og síðast mikilvæg fyrir hvern einstakling, stuðlar að jákvæðri sjálfsvitund, siðferðisþroska og velferð. Að þessu leyti verður menntun ekki mæld í einkunnum og prófgráðum og allur samanburður gerist erfiður, jafnvel ómögulegur, en líka tilgangslaus, því lífsfylling eins verður trauðla sett á mælistiku annars.

Undanfarið hafa orðið háværar á ný raddir sem telja keppnisanda líklegastan til að bæta skólastarf. Gamalkunn er umræðan um nauðsyn þess að bera saman skóla eftir meðaleinkunnum nemenda á lokaprófum: sá skóli sé bestur þar sem meðaleinkunnin er hæst og lægsta meðaleinkunnin sé aumur afrakstur starfs í „lélegasta“ skólanum. Helstu rökin fyrir slíkum samanburði eru að hann sé nauðsynlegur fyrir foreldra og nemendur, svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um val á skóla, og ekki síður hollar stjórnendum og starfsfólki (í „lélegu“ skólunum) til að geta nú tekið sig á.

Þeir sem hafa gefið sér tíma til að hugleiða málið litla stund, og ekki eru pikkfastir í trúarbragðafræði frjálsrar samkeppni, vita að allir aðrir mælikvarðar en meðaleinkunn nemenda á lokaprófi eru betri til að meta gæði skóla og skólastarfs. Fyrir þá sem verða að hafa „beinharðar staðreyndir“ í höndunum, samanburðartölur, er strax skárra að skoða meðaleinkunnir ákveðins nemendahóps annars vegar við innritun og hins vegar við útskrift. Þannig má hugsanlega nálgast þann „virðisauka“ sem hver skóli skapar, og bera þá svo saman, ef það er málið.

Til viðbótar við þessi gamalkunnu stef hafa nýverið bæst nokkrar raddir á sama tónsviði. Nú er hafin ný sókn að styttingu framhaldsskólans og boðaðar hafa verið auknar kröfur um námsframvindu á háskólastigi til að fá námslán. Báðar þessar aðgerðir eru til þess hugsaðar að spara fé. En þær munu jafnframt hafa ófyrirsjáanleg áhrif á líf og framtíðaráætlanir fjölda ungmenna. Þær munu lítil áhrif hafa á „bestu“ nemendurna sem búa við „bestu aðstæðurnar“. En þessi aukna keppnisharka í skólakerfinu mun hrekja stóran hóp fólks frá námi, fólk sem þarf, vegna fjölskylduaðstæðna, efnahags, heilsufars eða námsörðugleika af ýmsum toga, að glíma við fleira í lífinu en bara námið. Er það rétta leiðin til að hækka menntunarstig þjóðarinnar?

Steininn tók þó úr þegar fram komu kröfur um að raða skólum í Reykjavík eftir árangri á lesskimunarprófum í 2. bekk. Staðreyndin er sú að upplýsingar af þessu tagi eru persónulegar og eiga ekkert erindi við aðra en nemendurna sjálfa, foreldra þeirra og kennara. Þær geta gagnast í því samhengi að setja viðkomandi barni persónulega námskrá. Það mun heita á fræðimáli „einstaklingsmiðað nám“, og er talið fínt um þessar mundir. Gæðaröðun grunnskóla eftir lestrarfærni 7 ára barna er ekki bara tilgangslaus, heldur arfaslæm hugmynd sem mun hafa neikvæðar afleiðingarnar til langs tíma, m.a. á sjálfsmynd barna og íbúa í heilu hverfunum, þar sem t.d. er hátt hlutfall fólks með annað móðurmál en íslensku, og fyrirsjáanlegt er að lestrarfærni á framandi máli í upphafi skólagöngu er ekki fullkomin. Hún mun ala á ranghugmyndum og skekkja sjálfsmynd margra, styrkja t.d. þá „elítuhugsun“ sem meira en nóg er af nú þegar.

Það er yfrið nóg af keppni í skólakerfinu: Gettu betur, Skólahreysti og fleira í sama dúr gera meira en að seðja keppnisþörfina. Ef sú braut verður gengin áfram, sem nú er farið að feta sig eftir, og skólarnir gerðir að einhverskonar leikvöngum fyrir „Íslandsmeistarmótið í menntun“, þá er raunveruleg hætta á ferðum.

Greinin birtist í Kjarnanum 19. september 2013

Hlauptu, krakki, hlauptu!

Nú er hafið enn eitt áhlaupið að styttingu náms til stúdentsprófs. Menntamálaráðherra hefur í fjölmiðlum sagt að öll rök hnígi að þessu, því í öðrum löndum sé námstíminn ári styttri en hérlendis. Öðrum rökum virðist ekki til að dreifa. Fleiri hafa tekið undir þetta og jafnvel haldið því fram að vegna þessa séu ungmenni á Íslandi „þrepi á eftir“. Aðrir, t.d. Anna María Gunnarsdóttir og Jón Páll Haraldsson hér í Fréttablaðinu, hafa reynt að dýpka umræðuna og bent á að taka verði með í reikninginn margvíslegan aðstöðumun milli Íslands og annarra landa þegar farið er í jafn flókinn samanburð.

Þau áform að stytta framhaldsskólann hafa lengi verið á teikniborðinu og því hefur jafnvel verið haldið blákalt fram að styttingin sé vænleg leið til þess að draga úr brottfalli og bæta skólastarf, sem skili litlum árangri miðað við fjárframlög.

Gott og vel. Lengi má bæta skólastarf og ekki skal dregið úr nauðsyn þess að vera sífellt á tánum hvað það varðar. En margt gott má segja um framhaldsskólakerfið, enda hafa löggjafinn og ráðuneytisfólk, og pedagógar á þeirra vegum, undanfarin a.m.k. 40 ár setið í svitabaði við að kreista fram leiðir til að koma betur til móts við áhuga, þarfir og getu nemenda, fjölga námsleiðum og auka sveigjanleika kerfisins, svo allir gætu fundið sér eitthvað við hæfi. M.a. eru fjölbrautaskólarnir skilgetið afkvæmi þessarar viðleitni, sem og öll löggjöf frá 1970. Þrátt fyrir þetta þrjóskast langflest íslensk ungmenni enn við og innrita sig á bóknámsbrautir til stúdentsprófs.

En þetta var útúrdúr. Stytting framhaldsskólans mun, ein og sér, hvorki bæta skólastarf né draga úr brottfalli. Það sorglega við þetta allt sama er hve innilega hugmyndasnauð umræðan er. Nemendur sem fá 8,0 eða hærra í meðaleinkunn á grunnskólaprófi munu vissulega ljúka stúdentsprófi vandræðalaust á þremur árum. Brottfallsvandinn herjar ekki á þá og stytting námstíma mun lítil áhrif hafa á námsárangur þeirra eða framtíðarplön. Þeir munu bara leysa sín mál, hér eftir sem hingað til, þrátt fyrir skólakerfið. Það hafa þeir lengi sýnt í áfangaskólunum, byrjað á framhaldsskólanámi á grunnskólaaldri og lokið svo stúdentsprófi á mettíma.

Styttingaráformin munu hins vegar uppfylla ríkulega hið dulda markmið, sem ekki virðist mega ræða upphátt: að spara peninga. Vel að merkja: nokkur undanfarin ár hafa verið sparaðir a.m.k. 12 milljarðar í framhaldsskólakerfinu, sem er víst orðið ódýrara hér en víða annars staðar. Hver er þá vandinn?

Öll nálgun menntamálaráðherrans að skólamálum er þess eðlis að hann líti á menntun sem keppnisíþrótt. Haldin eru „héraðsmót“ víða um land sem jafnframt eru úrtökumót fyrir „landsmót“ á þjóðarleikvanginum. U.þ.b. 95% hvers árgangs skráir sig til keppni, langflestir í hlaupagreinar og hingað til hafa allir sem komast í mark átt þess kost að keppa á landsmótinu.

En nú ákveður sem sagt mótsstjórinn að herða tímamörkin í 10 sekúndur, enda hlaupa margir í útlöndum svo hratt. „Öll rök“ hníga sem sagt að þessari breytingu. Þessi ákvörðun breytir að vísu engu fyrir hina fáu fótfráustu, þá sem eru skráðir í 100 metrana. En hvað um „keppendur“ í 200 metrum, maraþoni, 50 km. göngu eða grindahlaupi? Mun þetta leiða til betri árangurs og minna brottfalls meðal þeirra? Þvert á móti munu enn fleiri detta og meiða sig, hverfa á brott á sjúkrabörum án þess að eiga afturkvæmt, eða þurfa að setjast á hnjaskvagninn og fá aðhlynningu við hliðarlínuna áður en þeir geta haldið áfram, auðvitað langt frá tímamarkinu, undir stöðugum köllum úr stúkunni: „Hlauptu, krakki, haluptu!“ Hundraðmetrahlaupararnir eru löngu komnir í sturtu.

Það sem íslensk ungmenni eiga heimtingu á frá menntamálaráðherra eru ekki illa dulbúnar sparnaðarhugmyndir, heldur hugmyndir um það hvernig til stendur að koma til móts við lang- og grindahlauparana, þá sem hentar illa að hlaupa bara nógu hratt, en gætu jafnvel fundið sig í köstum eða stökkum. Hugmyndir um það hvernig má sannfæra afrenndan kúluvarpara til að skrá sig sjálfviljugan í kúluvarp en ekki 3000 m. hindrunarhlaup, sem hann þarf að ljúka á 10 sek.

Slíkar hugmyndir gætu dregið úr brottfalli og bætt skólastarf – og mættu gjarnan vera forgangsmál nýskipaðs menntamálaráðherra. 

Greinin birtist á visir.is 17. september 2013