Kappið og umhyggjan

Í því þunnildi sem Fréttablaðið annars er leynist stundum feitmeti. Í dag gerir t.d. Sif Sigmarsdóttir að umræðuefni það sem hún kallar, eftir öðrum, „ferilskrárdyggðir“ og „líkræðudyggðir“ og ályktar réttilega að vonlaust sé að færa rök fyrir því „að stjórnandi í gjaldeyrismiðlun … sé þarfari þegn en starfsmaður í umönnun á elliheimili.“

Til að undirstrika þetta grípur augað eftir nokkrar flettingar framhjá opnuauglýsingum fyrirsögnin „Vertu ofurhetja í einn dag“ þar sem Anna Steinsen „hvetur landsmenn til að leggja sig enn frekar fram fyrir hönd þeirra sem minna mega sín.“

Venjulega er hugtakið ‘ofurhetja’ tengt fyrrnefndum ‘ferilskrárdyggðum’, skemmst er að minnast ‘útrásarvíkinga’ sem þáverandi forseti lofaði og bar á höndum sér, og óbilandi trú margra á okkar helstu gróðapunga, þó ekki séu vandir að meðulum, s.s. mútum og aflandsbraski.

Hin fleygu einkennisorð íþróttahreyfingarinnar – „Hærra, lengra, hraðar“ – stjórna um of öllu samfélaginu. Þó hóflegur keppnisandi sé góður þá er krafan um stöðugan, óheftan vöxt að sundra því sem við viljum kalla SAMfélag manna, hreinlega að gera út af við lífríki jarðarinnar.

Þegar að er gáð fer enginn hvorki hærra, lengra né hraðar án þess að standa á grunni, hvort sem það eru sjálfboðaliðar undir starfi íþróttahreyfingarinnar eða skólakerfi, velferðarkerfi og aðrar sameiginlegar auðlindir undir framgangi „athafnamanna“ og ‘gróðapunga’.

Það er fegurðin í umhyggjunni sem einhvers er verð en ferilskráin lítils virði á sjúkrabeði og í mótlæti.Séra Friðrik hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: „Látið kappið ekki bera fegurðina ofurliði“.

 

Af Hálendisþjóðgarði

Hálendisþjóðgarður – Stórkostlegt tækifæri eða stórhættuleg árás á land og lýð?

Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum undanfarið um stjórnar-frumvarp umhverfisráðherra um Hálendisþjóðgarð, skárra væri það. Skiptist þar að vonum í tvö horn – og eru höggin látin dynja. Hvorug fylkingin hefur enn veitt hinni rothögg, þó viljann skorti ekki. Það varð ekki til að efla vitræna umræðu um málið í samfélaginu að forseti Alþingis skyldi missa stjórn á skapi sínu og tala um að „örlítill grenjandi minnihluti“ héldi í gíslingu þessum síðasta lífsbjörgunarhring Vinstri grænna um að koma einu stefnumáli í gegn.

En um hvað snýst þetta mál, sem allir eru að fara á límingunum yfir? Er þetta frumvarp nauðsynlegt framlag til náttúruverndar, varðveislu náttúru, sögu og menningarminja fyrir komandi kynslóðir, gegn óafturkræfri virkjana- og framkvæmdagleði – eða stórvarasöm aðför að sjálfræði sveitarfélaga, ferðafrelsi almennings um hálendið, frumkvæði og atvinnusköpun einstaklinga, að ekki sé talað um árás á bændur og búalið sem hefur öldum saman haft lítt skertan afnota- og umráðarrétt yfir afréttum? Stórkostlegt tækifæri eða stórhættuleg árás á land og lýð? Eða eitthvað þar á milli?

Af því lítið er að marka hávaðann úr bergmálshellum liggur beinast við að lesa þetta blessaða frumvarp, en það má finna á síðu Alþingis, hér

Tilgangur og markmið

Frumvarpið fjallar „um friðlýsingu og verndun náttúrufars, sögu og menningar innan Hálendisþjóðgarðs, um stjórnun, valdheimildir og rekstur þjóðgarðsins og skiptingu hans í rekstrarsvæði.“ (1. gr.)

Markmiðin eru að vernda „náttúru og sögu þjóðgarðsins … [g]efa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru, menningar og sögu … [s]tuðla að því að almenningur geti stundað útivist … [l]eitast við að efla samfélag og styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og á landinu öllu, meðal annars með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar á gæðum svæðisins“ (3.gr.). Ennfremur eru markmiðin að „[e]ndurheimta vistkerfi sem hafa raskast … [v]arðveita þjóðlendur í þjóðgarði og viðhalda virði þeirra“ (3. gr.).

Þjóðgarðinum er líka ætlað að vera „vettvangur umræðu og ákvarðanatöku um landnýtingu … [s]tuðla að rannsóknum og fræðslu … ýta undir aukinn skilning almennings“ … og „[s]tuðla að samvinnu og samstarfi við félög og sjálfboðaliða …“ (3. gr.)

Ekki verður séð að nokkur maður þurfi að setja sig upp á móti tilgangi og markmiðum frumvarpsins. Eða hvað?

Skipulag og valdheimildir

Hálendisþjóðgarður er ríkisstofnun“ og „fer sérstök stjórn skipuð af ráðherra“ með stjórn hans. „Forstjóri … framfylgir stefnumótun og áætlunum … stjórnar … og ber ábyrgð á stjórnun og rekstri“ (6. gr.). Hann „skal vera í ríkiseign“ nema annað sé talið hentugra og um það „náist samkomulag við landeiganda“… . Heimilt er að friðlýsa land „með samþykki landeiganda“ og um friðlýsinguna skal gerður „samningur milli ráðherra og landeiganda“ þar sem fram kemur „hvaða landnýting er heimil“… (4. gr.).

Ríkissjóði er heimilt „að kaupa fasteign, mannvirki og nytjaréttindi“ og hálendisþjóðgarði er „heimilt … að taka eignarnámi land, mannvirki og réttindi til að framkvæma friðun“… Eignarnám, kaup og bótaréttur eru háð „almennum reglum“ og takmörkunum í lögum (5. gr.).

Þarna er strax kominn fram ásteitingarsteinn. Þrátt fyrir fögur orð um samninga og samþykki landeigenda er eignarnámsheimild væntanlega þyrnir í augum og fyrsti vísir að þeim pirringi sem lýsir sér í athugasemdum eins og „ríkisbákn“, „ofríki ríkisvaldsins gegn almennum borgurum“ að ekki sé talað um hið landlæga vantraust á því að ríkisstofnun gæti hagsmuna þegnanna fremur en sjálfs sín. Hins vegar liggur það auðvitað fyrir að eignarnámsheimildir eru ekki uppfinning umhverfisráðherra við samningu þessa frumvarps.

Varðandi landnýtingu segir nánar í frumvarpinu að „[h]álendis-þjóðgarður, að fenginni tillögu viðkomandi umdæmis-ráðs, veitir leyfi til nýtingar lands og landsréttinda innan þjóðgarðsins“, samkvæmt ákvæðum laga, „í stað sveitarstjórnar“ og er heimilt að „semja um endurgjald vegna afnota“ þeirra sem heimilaðar eru (21. gr.). „Hefðbundin landnýting, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hrein-dýraveiði og veiði í ám og vötnum, er rétthöfum heimil“, innan ramma laga „og að nýtingin sé sjálfbær“ (22. gr.). Gjaldtaka er heimil fyrir veitta þjónustu, gistingu, leyfi vegna viðburða eða verkefna. Heimilt er líka að „takmarka fjölda aðila sem stunda tiltekna atvinnutengda starfsemi … eða þeirra sem fá leyfi til nýtingar lands og landsréttinda að loknu hlutlægu mati og vali á umsækjendum. Gjöldum „skal ráðstafað til að mæta kostnaði við vinnslu og afgreiðslu umsókna, rekstur og þjónustu, uppbyggingu og viðhald innviða og eftirlit með dvalargestum og rekstraraðilum innan marka þjóðgarðsins og á starfsstöðvum hans“ (32. gr.).

Hér kemur eitruð pilla: „í stað sveitarstjórnar“. Með frumvarpinu er sem sagt vald til að veita leyfi til að nýta land og gæði innan marka þjóðgarðsins, sem þau nú hafa á sínum afréttum, tekið af sveitarstjórnum. Annað í þessu ætti ekki að valda deilum; sveitarstjórnir, og landeigendur eftir atvikum, hafa væntanlega nú þegar vilja og hag af því að takmarka aðgengi með einhverjum hætti, bæði fjölda gesta og aðila sem stunda ferðaþjónustu eða aðra atvinnustarfsemi, taka gjald fyrir veitta þjónustu og passa upp á „sjálfbæra nýtingu“. Þarna er skýrt að gjöld skuli notuð til innri uppbyggingar í þjóðgarðinum, sem ekki veitir af. Þegar stunda sveitarfélögin umfangsmikla gjaldtöku af t.d. hestaferða-mönnum á hálendinu, ferðir þeirra eru „fjöldatakmarkaðar“ við gistipláss í skálum, og ýmsar fornar reið- og þjóðleiðir eru háðar takmörkunum af ýmsu tagi, svo nærtækt dæmi sé tekið. Sveitarfélögin leigja rekstur smalaskála og girðingarhólfa, til einstaklinga. En sem sagt: Nú á „ríkisbáknið“ að taka yfir stjórnun á þessum leyfisveitingum og aðgengistakmörkunum – og það stendur þversum í koki hreppsnefnda og búaliðs.

Einnig fer það fyrir brjóstið á sveitarstjórnum að þrátt fyrir meirihluta sveitarfélaganna í stjórn og umdæmisráðum þurfi þær með þessum lögum að deila valdi yfir „eigin afréttum“ með öðrum sveitarstjórnum. Tungnamenn, Hreppamenn, Laugdælir, Grímsnesingar, Skeiðamenn og Flóamenn þyrftu til dæmis að vera sammála og standa saman um aðgerðir á Kili, í Kerlingarfjöllum eða við Skjaldbreið, í stað þess að hver hreppur um sig geti tekið sínar ákvarðanir í friði fyrir öðrum, eins og nú er í pottinn búið. Um þetta er auðvitað hægt að deila og þegar sveitarstjóri Bláskóga-byggðar viðraði þessa skoðun í útvarpsviðtali, kallaði einhver þetta „þúfnaviðhorf“ – þ.e. að engum öðrum en Tungnamönnum komi það við hvað gert er á meginhluta lands frá Gullfossi að Hveravöllum. Það er skiljanlegt að sveitarstjórnir berjist fyrir eigin hagsmunum, ekkert síður en jeppakallar eða hestaferðaleigur. En á móti kemur það sjónarmið að örfáir hreppsnefndarmenn eigi ekki að geta ráðskast með öræfin að eigin geðþótta, jafnvel þó þeir hafi verið kosnir í lýðræðislegum kosningum. Til þess eru hagsmunir of stórir og víðtækir. Öllum landsmönnum koma öræfin við. Um það á ekki að þurfa að deila.

Um þetta segir að auki að stjórn þjóðgarðsins eigi að „móta stefnu fyrir atvinnutengda starfsemi innan þjóðgarðsins“ og með henni „leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi“ í nágrenninu. Allir kátir með þetta, ekki satt? En í kjölfarið segir að óheimilt sé „að reka atvinnutengda starfsemi í Hálendisþjóðgarði án þess að gerður sé tímabundinn samningur“ og ráðherra á að setja í reglugerð ákvæði „um slíka starfsemi og tímalengd samninga.“

Yfir þessu er kvartað, ekkert sé hægt að gera án þess að beðið sé eftir samningsgerð og leyfum í óratíma, fyrir jafnvel smæstu viðvikum, á leið erindis í gegnum völundarhús ógurlegs og óvinveitts stjórnunarbákns. Undir má taka að þetta ferli mætti vera liprara.

Stjórn

Í stjórn Hálendisþjóðgarðs sitja 11 fulltrúar, þar af 6 fulltrúar sveitarfélaga og 1 fulltrúi frá hverjum eftirfarandi aðila; útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, bændasam-tökum, ferðaþjónustusamtökum og formaður skipaður af ráðherra. „Ef rekstrarsvæðum þjóðgarðsins er fjölgað … fjölgar fulltrúum sveitarfélaga í stjórn … sem því nemur“ (8. gr.). Stjórn er ætlað að hafa umsjón með, móta stefnu, hafa yfirumsjón með gerð tillagna um t.d. verndaráætlun og atvinnustefnu, bera ábyrgð á rekstri, samræma starf mismunandi svæða og hafa eftirlit með framkvæmd reglna (9. gr.).

 

Hálendisþjóðgarði er skipt í a.m.k. sex rekstrarsvæði“ en heimilt er að fjölga þeim, „og skal þá fulltrúum sveitarfélaga í stjórn þjóðgarðsins fjölgað sem því nemur“ … en rekstrarsvæðin eru „sjálfstæð rekstrareining“ undir stjórn umdæmisráða, skipuðum af ráðherra til fjögurra ára í senn. Í umdæmisráðum eru 9 fulltrúar, þar af fimm „tilnefndir sameiginlega af sveitarfélögum“ á viðkomandi svæði, úr hópi sveitarstjórnarmanna eða sveitarstjóra, vel að merkja. Þar að auki er tryggt að öll sveitarfélög á viðkomandi svæði eigi sinn fulltrúa í umdæmisráði, þannig að ef sveitarfélögin eru fleiri en 5 þá verða sveitarstjórnafulltrúarnir í umdæmisráði fleiri en fimm, jafn margir sveitarfélögunum. Hinir fulltrúarnir í umdæmisráði eru tilnefndir, einn frá hverjum aðila, af útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, bændasamtökum, „nytjaréttarhafa“ (Landsvirkjun) og ferðaþjónustu-samtökum ( 11. gr.).

 

Af þessu má ráða að sveitarfélögin hafa bæði tögl og hagldir við stjórnun og stefnumótun þjóðgarðsins. Þau eru með hreinan meirihluta bæði í stjórn og í umdæmisráðum. Má það vera betra? Já, svo virðist vera, því umdæmisráðin, sem sveitarfélögin ráða í sameiningu, hafa það hlutverk fyrir sitt rekstrarsvæði

að gera tillögur um „stjórnunar og vernaráætlun“, vera til ráð-gjafar öðrum sem að koma (forstjóra, þjóðgarðsverði, stjórn) um náttúruvernd, veita umsagnir um atvinnustefnu o.fl., gera tillögu að fjárhagsáætlun „innan fjárhagsramma“ stjórnar, sinna samstarfi við „stofnanir, sveitarfélög, landeigendur og hagsmunaaðila um málefni rekstrarsvæðisins og fá slíka aðila til ráðgjafar við töku stefnumarkandi ákvarðana“, fjalla um umsóknir um nýtingarleyfi, undirbúa „samninga um atvinnu-tengda starfsemi á rekstrar-svæðinu“ og vinna með þeim „sem reka slíka starfsemi innan þjóðgarðs“ (12. gr.).

 

Vissulega gætu aðrir hagsmunaaðilar þurft að sætta sig við að lenda í „grenjandi minnihluta“ gagnvart ofurvaldi sveitarfélaganna í stjórn og umdæmisráðum, t.d. ferðaþjónustuaðilar og jeppakallar svo dæmi séu tekin. En eru þeir það ekki nú þegar, þar sem allt vald er á hendi sveitarstjórna, í samvinnu við forsætisráðuneytið, á núverandi skilgreindum þjóðlendum? Hver segir að samstarf sveitarfélaga og forsætisráðuneytis um þjóðlendur muni ævinlega vera það, þó samskiptin séu farsæl nú um stundir? Er ekki skemmst að minnast þess að sveitarfélög og landeigendur voru í bullandi átökum og málarekstri við ríkisvaldið um þjóðlendur? Fyrst nú er allt fallið þar í ljúfa löð, hver segir að það geti ekki einnig átt við um samskipti við Hálendisþjóðgarð, þegar fram líða stundir, þó brösugt verði í upphafi?

En þetta er ekki alveg svona einfalt. Í 15. grein um málsmeðferð kemur fram

að stjórn geti gert breytingar á tillögum umdæmisráðs, að fenginni umsögn þess, og að haft skuli „samráð við eigendur lands innan þjóðgarðsins, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila á svæðinu“ við þær breytingar. Einnig að tillaga að áætlun skuli „auglýst opinberlega og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en endanleg tillaga er borin undir ráðherra“. Vald ráðherra er ítrekað þannig að hann staðfesti tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun og geti gert breytingar á henni telji hann að hún fari í bága við lög eða reglugerð.

Þarna bætist við flækjustig: Umdæmisráð hefur lagt mikla vinnu í tillögur. Stjórn vill gera breytingar á tillögunum en ber fyrst að leita umsagnar umdæmisráðs, eiga samráð við landeigendur, sveitarstjórnir og hagsmunaaðila. Hvað gæti þetta ferli tafið framgang máls lengi? Og svo eftir dúk og disk, þegar öllu er til skila haldið, getur ráðherra, bara sisvona með einu pennastriki, ógilt alla fyrirhöfnina! Hér hringja viðvörunarbjöllur og full ástæða til að skoða þetta betur.

Meginstjórntækið

Meginstjórntæki Hálendisþjóðgarðs er „stjórnunar- og verndar-áætlun“, þar sem tilgreind skulu „markmið verndar, stefna stjórnar og leiðir til að framfylgja stjórnun og vernd“ … á einstökum svæðum … verndaraðgerðum, verndarflokkum, endurheimt vistkerfa, vöktun, landnýtingu, fræðslu, öryggismálum, mannvirkjagerð, stefnu stjórnar um staðsetningu og fyrirkomulag gestastofa og þjónustustöðva innan þjóðgarðs, samgöngum og öðrum innviðum á svæðinu. Þar skal fjallað um umferðarrétt almennings, aðgengi að svæðinu, not þess og takmarkanir sem gilda á einstökum svæðum“… sem einnig „ná til jaðarsvæða þjóðgarðsins“, hvaða almennu skilyrði „eru fyrir atvinnustarfsemi“ … og hvort / hvernig takmarka megi „atvinnutengda starfsemi“. Með stjórnunar- og verndaráætlun má líka setja skilyrði um það „hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að þær raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum, vatnafari, landslagi, víðernum eða menn-ingarminjum“ (14. gr.).

Stjórnunar- og verndaráætun hefur sem sagt víðtækt valdsvið, sem tekur til náttúruverndar, landnýtingar, upplýsingaskyldu og fræðslu, aðgengis og atvinnu-starfsemi. Þessu fagna margir, ekki síst því að komið sé á samræmdri stefnumörkun um hálendið, vernd náttúru, sögu og menningarminja á öræfum Íslands, en ekki sé stefnt út og suður, og undir mjög takmörkuðum hópi fólks komið hvað verður um þessi dýrmæti sem allir Íslendingar eigi bæði rétt og heimtingu á að fá að hafa áhrif á og njóta um aldir alda. Næg dæmi eru til sem gefa tilefni til að óttast einmitt það að stundargróði þeirra sem eru á dögum hverju sinni í hverju landshorni ráði för, fremur en meiri hagsmunir almennings. Aðrir líta málið öðrum augum og telja „heimamenn“ ætíð best til þess fallna að gæta að umhverfi sínu, náttúru og landsgæðum, enda hafi þeir sýnt það og sannað „undanfarið“ að þeir hafi og geti lyft grettistaki, t.d. við uppgræðslu. Enn aðrir meta öræfin aðeins í fjölda megavatta og jarðýta, eða sem leikvöll fyrir sjálfan sig.

Umgengni

Jarðrask og mannvirkjagerð er óheimil ef slíkar framkvæmdir stangast á við markmið þjóðgarðsins eða stjórnunar- og verndaráætlun hans og þeir sem „fara um Hálendisþjóðgarð og dveljast þar, svo sem vegna ferðalaga eða í atvinnuskyni, eru bundnir af stjórnunar- og verndaráætlun“ og lögum um náttúru-vernd (16. gr.).

 

Eins og gefur að skilja er bannað að „valda spjöllum eða raski“ þó vegaframkvæmdir sem „lúta ströngum skilyrðum um lágmarks-rask“ séu heimilar að fengnu leyfi yfirvalda þjóðgarðsins (17. gr.). Skýrt er að almenningur má ferðast um og dvelja í þjóðgarðinum, með almennum skilyrðum um umgengni, varúð og tillitsemi gagnvart „náttúru, menningarminjum og mannvirkjum“ og hlýðni við fyrirmæli starfsmanna. Ráðherra setur reglugerð um „dvöl, umgengni og umferð“ (18. gr.).

 

Ennfremur segir í 18. grein: „Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í Hálendisþjóðgarði er bannaður. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega svo fremi sem jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Í reglugerð sem ráðherra setur er heimilt að banna akstur vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum þjóðgarðsins allt árið um kring eða á tilteknum tímum ársins.“ Heimilt er að „setja skilmála um umferð loftfara“, gera skal grein fyrir öllum vegum sem aka má og tekið fram að tamarka má umferð „tiltekinn tíma ársins eða binda hana við tiltekna notkun, svo sem veiðar, smölun búfjár eða annarra landbúnaðarstarfa eða rannsóknir“.

Þessi ákvæði fara fyrir brjóstið á mörgum, sem óttast vald til að takmarka umferð og finnst vegið að ferðafrelsi sínu. Ekki verður samt séð að hér séu nein sérstök nýmæli. Nú þegar er utanvegaakstur bannaður, hálendisvegir eru iðulega lokaðir vegna aurbleytu eða ófærðar og ferðalangar í friðlöndum eru bundnir af reglum um umgengni á viðkvæmum svæðum. Engin ástæða er til annars en að slíkar umgengnisreglur séu í heiðri hafðar víðar, um allt hálendið. Bann við hrossa-rekstrum gegnum Þjófadali hefur verið í gildi árum saman svo dæmi sé tekið, og ekki að ástæðulausu. Það þarf ekki þjóðgarð til að banna ýmislegt, sem áður var gert, er ógleymanlegt og væri gaman að mega gera.

Þjónusta og eftirlit

Þjónusta við gesti þjóðgarðsins og upplýsingar eru veittar á meginstarfsstöðvum … og skal a.m.k. ein … rekin fyrir hvert rekstrarsvæði“. Einnig eru tilteknar gestastofur og þjónustustöðvar þar sem veitt er þjónusta og fræðsla um náttúruvernd. Stjórn ákveður staðsetningu og rekstarfyrirkomulag en ráðherra „er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um staðsetningu meginstarfsstöðva“ (24. gr.).

 

Á hverju rekstrarsvæði er „a.m.k. einn þjóðgarðsvörður sem ráðinn er af forstjóra“ og sinnir daglegum rekstri „í samráði við umdæmisráð og forstjóra“. Hann ber ábyrgð á fjárreiðum síns rekstrarsvæðis, fylgir ákvörðunum forstjóra og stjórn samkvæmt þeirri stefnu sem í gildi er, vinnur með og undirbýr fundi umdæmisráðs og hefur tillögurétt á fundum þess (13. gr.).

 

Starfsfólki er ætlað að „veita fræðslu og upplýsingar um öryggi gesta innan þjóðgarðsins“ og vera „lögreglu og öðrum björgunar- og viðbragðsaðilum til aðstoðar komi upp hættu- eða neyðarástand“ (19. gr.).

 

Þjóðgarðsverðir og landverðir annast eftirlit á sínu svæði og samskipti við lögreglu og önnur eftirlitsstjórnvöld vegna brota á lögum“ og reglugerðum, og „er heimilt að loka Hálendis-þjóðgarði eða einstökum svæðum“ og „vísa úr þjóðgarðinum hverjum þeim sem brýtur gegn ákvæðum laga …“ (25. gr.).

 

Einnig að „stöðva för fólks og farartækja … ef það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir brot á ákvæðum laga“ og stöðva tafarlaust „framkvæmd eða athöfn“ sem hafin hefur verið án leyfis“ eða talin er stafa af henni „yfirvofandi hætta eða verulegt tjón“ (28. gr.). Sömuleiðis að afturkalla leyfi, að undangenginni viðvörun, ef skilyrðum er ekki fullnægt (29.gr.).

 

Refsingar fyrir brot geta varðað „sektum eða fangelsi allt að tveimur árum“, gera má upptækt „ökutæki sem notað hefur verið við að fremja brot“ teljist spjöll á náttúru alvarleg eða sérlega vítaverð (30. gr.).

Við þessi ákvæði hafa verið gerðar tvenns konar athugasemdir fyrst og fremst. Sumir þola alls ekki að „ríkisbáknið blási út“ og sjá ofsjónum yfir kostnaði og fjölda starfa. Það er sjónarmið í sjálfu sér. Á móti kemur að landbyggðarfólk ætti að fagna fjölgun starfa í hinum dreifðu byggðum. Í stað þess að standa í því að flytja, og nauðga í sumum tilvikum, ríkisstofnunum „út á land“ eru augljós tækifæri í því að skapa ný störf, ekki síst störf fyrir háskólamenntað fólk, sem kvartað hefur verið yfir að ekki séu til staðar í fábreyttu atvinnulífi sveitanna, með þeim afleiðingum að unga fólkið flýr óðul feðranna og sest að „fyrir sunnan“, eða í útlöndum, þar sem starfsmetnaði þeirra er fremur fullnægt. Hálendiþjóðgarður getur vissulega orðið viðspyrna hvað þetta varðar og skapað fjölda starfa og tækifæra til atvinnu-sköpunar, fyrir hámenntaða sem aðra.

Hin hliðin á gagnrýninni varðar valdheimildir starfsliðsins. Heyrst hefur sú gagnrýni að landverðir séu dubbaðir upp í einhverskonar löggur sem geti stöðvað ferðir fólks, rekið það burtu og gott ef ekki handtekið. Að þjóðgarður verði einhverskonar lögregluríki þar sem engum sé vært nema undir hælnum á „eftirlitinu“. Auðvitað er alltaf hætta á því að manneskjur miklist yfir valdi og ofmetnist í búningi. En ég veit ekki betur en slíkt eftirlit sé þegar til staðar, og að landverðir séu upp til hópa greiðvikið fólk sem nýtur þess að leiðbeina og aðstoða ferðalanga. Það er ekki fyrr en ferðalangurinn fer yfir strikið að „höfð eru afskipti“ af honum, enda nauðsynlegt. Hver vill að hálendið sé eftirlitslaust og að ekki sé „tekið á“ umhverfissóðum og spjöllum þeirra?

Jaðarsvæði – virkjanaframkvæmdir

Skilgreina skal í reglugerð jaðarsvæði, sem teljast utan friðlýsts svæðis og verndarflokka, og þar „er heimilt að starfrækja virkjanir og háspennulínur sem eru í rekstri við stofnun hans og gera breytingar á þeim“. Ef jaðarsvæði liggja „nálægt þjóðgarði“ má setja um þau ákvæði í reglugerð og stjórnunar- og verndaráætlun. Nýjar virkjanir má starfrækja á jaðarsvæðum, en aðeins þær sem þegar hafa verið skilgreindar í nýtingarflokki þegar lög um hálendisþjóðgarð taka gildi. „Ef virkjunarkostur er að undangengnu mati fluttur í orku-nýtingarflokk úr biðflokki er heimilt að gera ráð fyrir viðkomandi virkjun á jaðarsvæði“, hafi Alþingi samþykkt þá breytingu. Aðrar nýjar virkjanir eru óheimilar, sem og „nýjar háspennulínur í lofti“ (23. gr.).

Þetta auðvitað fer fyrir brjóstið á „virkjanasinnum“. Um virkjanir hefur þjóðin deilt í áratugi, ef ekki aldir. Hér er þó augljóslega reynt að fara bil beggja með því að skilgreina jaðarsvæði og hleypa áfram þeim virkjanakostum sem þegar hafa verið skilgreindir í nýtingarflokki, og jafnvel ef kostur er fluttur úr biðflokki í nýtingarflokk skv. samþykkt Alþingis. Ekki verður því séð að um sé að ræða eitthvert „náttúruverndarofbeldi gegn virkjunum, atvinnusköpun og framförum í þessu landi“ eins og mesta virkjanaöfgaliðið heldur fram. Hér er gefinn töluverður slaki í áframhaldandi virkjanaframkvæmdum, þó ekki sé gert ráð fyrir nýjum, ómetnum svæðum undir virkjanir.

Ágreiningur og kærur

Ákvarðanir og ágreining má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem fellir endanlegan úrskurð (26. gr.) Heimilt er að krefjast sanngjarnra úrbóta með hæfilegum fresti vegna náttúru-spjalla, í samráði vði byggingafulltrúa ef um leyfisframkvæmd er að ræða, og ef ekki er orðið við tilmælum má leggja á „dagsektir allt að 500.000 kr. þar til úr er bætt“ og að láta vinna verk á kostnað viðkomandi ef fyrirmæli eru vanrækt (27. gr.).

 

Lög um Hálendisþjóðgarð fella úr gildi lög um Vatnajökuls-þjóðgarð en starfsfólk hans hefur forgang um störf í nýjum þjóðgarði. Ákvæði laganna hafa ekki áhrif á „gildi þeirra skipulags-áætlana sem settar hafa verið fyrir landsvæði innan Hálendis-þjóðgarðs fyrir gildistöku“ laganna (Ákvæði til bráðabirgða).

Lokaorð

Eðlilegt er að allir „hagsmunaaðilar“ hafi hátt í umræðunni, til að reyna að vernda eigin hagsmuni gagnvart lagasetningu af þessu tagi. Þetta á jafnt við um sveitar-félög, bændur, ferðaþjónustufyrirtæki, frístundafélög og einstaklinga, alla þá sem telja sig hafa hagsmuni af því að aðgengi að og not af hálendinu og öræfum Íslands sé í samræmi við eigin þarfir. Þetta mál varðar alla Íslendinga, ekki bara beina hagsmunaaðila eða nærsveitunga þjóðgarðs.

Háværastar hafa verið raddir sem vilja tryggja eigið skipulagsvald og umráðarétt. Hátt tala líka þeir sem eru í prinsippinu á móti ríkisrekstri og opinberum umsvifum, hinu „ósveigjanlega ríkisbákni“ og útgjöldunum sem fylgja úr ríkissjóði, hinni „óhjákvæmilegu sóun“ í ríkisrekstri. Ekki megi hrifsa af heimamönnum það vald að hafa áhrif á eigið nærumhverfi, enda tryggi þeir bestu og hagkvæmustu stjórnunina.

Undir flest af þessu má taka, en benda jafnframt á í leiðinni að lýðkjörnir fulltrúar heimamanna, sveitarstjórnirnar, hafa bæði tögl og hagldir í yfirstjórn þjóðgarðsins. Sá böggull fylgir að vísu skammrifi að sveitarstjórnirnar verða að vinna saman að hagsmunum sínum. Er það til of mikils mælst? Eða hyggjast þau leggjast í skotgrafir gamals hrepparígs? Augljóst er einnig að meginástæðan fyrir þungri stjórnsýslu og þessu „ríkisbákni“ er vilji höfunda til að koma til móts við sem flesta; að tryggja eins og kostur er að allir geti komið sínum sjónarmiðum að við stefnumótun og ákvarðanir. Vissulega væri einfaldara og skilvirkara að einn réði. En viljum við það? Viljum við fámennis eða klíkustjórnun yfir fjöregginu?

Sveitarfélögin kvarta sérstaklega undan því að það sé „ólýðræðislegt“ að aðrir en kjörnir fulltrúar komi að ákvarðanatöku, og legga til að ýmis félagasamtök geti haft áheyrnarfulltrúa í umdæmisráðum og í stjórn en ekki fullgilda þátttakendur. Um þetta má deila og halda því fram á móti að því fleiri sem koma að ákvörðunum, því lýðræðislegri sé niðurstaðan. Það hefur greinilega verið niðurstaða frumvarps-höfunda. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru taldar lýðræðislegasta aðferðin til að greiða úr málum. Í þeim taka samt ekki þátt kjörnir fulltrúar, aðeins almennir borgarar.

Sú skoðun hefur verið viðruð að ómetanlegt framlag sjálfboðaliða við umbætur á hálendinu sé í hættu með stofnun þjóðgarðs. Bændur og búalið, sem hefur grætt upp örfoka land á afréttinum sínum, í sjálfboðavinnu og með ærnum tilkostnaði úr eigin vasa, svo dæmi sé tekið, muni ekki með gleði í hjarta leggja slíkt af mörkum í ríkisvæddum þjóðgarði, enda muni þeir heldur ekki geta stjórnað því hvaða umbótaframkvæmdir eru brýnastar og þeir tilbúnir að leggja á sig að koma á koppinn. Ekki megi lyfta litlafingri nema skv. samningi. Á þessu er raunveruleg hætta.

Á móti er rétt að spyrja hvort sjálfboðaliðar þurfi ekki nú þegar samþykki yfirvalda fyrir slíkum verkefnum? Vaða menn núna upp á afrétt án vitneskju og samþykkis sveitarstjórna, byggingafulltrúa og skipulagsyfirvalda? Það kæmi mér á óvart ef svo er. Og þegar að er gáð myndu það vera sömu aðilarnir sem hefðu það hlutverk að taka afstöðu til umbótaverkefna af ýmsu tagi eftir stofnun þjóðgarðs; jú, rétt til getið, lýðræðislega kjörið sveitarstjórnarfólk. Þannig að ákvörunarvaldið færist ekki ýkjalangt í burtu. Svo má spyrja sig hver ástin og umhyggjan er fyrir afréttinum sínum, hálendinu og öræfum Íslands, ef það skiptir mestu máli hvert hið stjórnsýslulega yfirvald er, fremur en þörfin fyrir umbætur og viljinn til að leggja sitt af mörkum fyrir náttúruna og landið.

Sumt í þessu frumvarpi þarf að laga til. Það er ekki ofsögum sagt að stjórnsýslan í kringum þjóðgarðinn er þung í vöfum og hægt að benda á mörg dæmi um að tillögur hagsmunaaðila og heimamanna, sem lagðar væru fram eftir samráð út og suður, má reka öfugar ofan í þá með einu pennastriki af ráðherra. Það styrkir að vísu stöðu hagsmunaaðila, og sveitarfélaganna sérstaklega, að vera ráðandi á tveimur stjórnsýslustigum, bæði í umdæmisráðum og í stjórn þjóðgarðsins. Það þyrfti einbeittan „brotavilja“ af hálfu ráðherra að ganga þvert gegn tillögum sem hafa hlotið slíka tvöfalda blessun. Ansi hreint einbeittan yfirgang, sem varla væri hægt að jafna til annars en valdníðslu og lögbrota dómsmálaráðherra undanfarna ártatugi gagnvart dómstólum landsins.

Á það má að lokum benda að margir þeir sem nú tala hvað hæst um ofríki og yfirgang ríkisvaldsins í þjóðgarðsmálinu eru alveg sannfærðir um að ríkið skuli eitt ráðskast með aðra „þjóðlendu“: hafið í kringum landið, og úthluta þar gríðarlega verðmætum nýtingarrétti til afar takmarkaðs hóps fyrir lítið – og á kostnað „heimamanna“ í hverjum firði, sem sitja fyrir vikið verklausir og gjaldþrota, og heilu byggðarlögin í sárum. Ekki hafa sveitar-félögin neitt skipulagsvald á þeirri þjóðlendu, hvað þá félagasamtök eða einstaklingar. Og margir þeir sem berjast harðast fyrir rétti og völdum heimamanna gegn frumvarpi um Hálendisþjóðgarð berjast jafn einbeittir blóðugri baráttu gegn rétti heimamanna og atvinnufrelsi eistaklinga við sjávarsíðuna. Sem er merkilegt í sjálfu sér.

Frumvarp um Hálendisþjóðgarð þarf að laga. Það verður örugglega gert í meðförum þingsins. En að það sé óalandi og óferjandi er fráleitt. Ég get því hvorki skipað mér í hóp með þeim sem telja að málum sé miðlað nóg, jafnvel of, og óhætt sé að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir, né í hóp hins grátgjarna minnihluta – hreint alls ekki.

 

Af félagshyggju og pólitísku ati

Það hefur lengi verið ljóst að helstu valdaflokkarnir í íslenskum stjórnmálum, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafa verið mér þyrnir í augum. Fyrir því eru einfaldar og augljósar ástæður, sem vikið verður að síðar.

En þegar nánar er skoðað finn ég góðan málefnalegan hljómgrunn með þessum flokkum, og ýmsum öðrum dregnum úr sama sauðakofa. Mín pólitík er einföld. Hún er félagslegs eðlis.

Og þar eru einmitt snertifletirnir við fyrrnefnd stjórnmálaöfl. Framsóknarflokkurinn hefur samvinnuhugsjónir opinberlega í sínum grundvallarplöggum og, a.m.k. fyrrum, skilgreindur sem „félagshyggjuflokkur“. Og þó í stefnuplöggum Sjálfstæðisflokksins fari lítið fyrir orðinu „félagshyggja“ en meira fyrir tali um „frelsi einstaklingsins“ er þar að finna frasa eins og „gjör rétt – þol ei órétt“, sem er prýðilegur frasi til að flagga og flestir ættu að geta sungið glaðhlakkalega, með sínu nefi. Þetta einkennilega „bann“ við notkun orðsins „félagshyggja“ í ræðu og riti innan Sjálfstæðisflokksins er einmitt það: einkennilegt. Vegna þess að flokkurinn, og fulltrúar hans, eru blessunarlega alveg sannfærðir í sinni félagshyggju; sennilega er flokkurinn „harðsvíraðasti“ félagshyggjuflokkur landsins, og jafnvel þó víðar væri leitað.

Frá upphafi vega, a.m.k. allan lýðveldistímann, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið iðnastur allra stjórnmálaflokka við að úthluta samfélagslegum gæðum með félagslegum hætti, og Framsóknarflokkurinn fylgir þar fast á hæla. Skiptir þá engu máli hvers kyns gæði um er að ræða: aðgengi að auðlindum þjóðarinnar, góðum byggingalóðum, bankastjórastöðum, kennara og skólastjórastöðum, embættum dómara, sýslumanna, lögreglustjóra, háskólaprófessora, ráðuneytisstjóra og forstjóra ríkisstofnana, ásamt almennum störfum í ráðuneytum og ríkisstofnunum. Við þetta má bæta félagslegri úthlutun bankalána, varnarliðseigna, heildsöluleyfa, ríkisfyrirtækja stórra og smárra o.s.frv. o.s.frv. Það væri að æra óstöðugan að telja upp öll hin félagslegu góðverk þessara flokka.

Nú hefur Framsóknarflokkurinn aldrei reynt að þvo af sér hinn „félagslega“ samvinnustimpil, svo mér sé kunnugt, og hann því í góðri trú að framfylgja sínum hugsjónum. En Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar hefur aldrei viljað, í hógværð sinni og feimni, kannast við það opinberlega að vera félagshyggjuflokkur, heldur lagt á það áherslu í ræðu og riti að frjálsir einstaklingar keppi um gæðin á eigin forsendum til að tryggja að hinir hæfustu njóti ávaxtanna. Segja má að eina félagshyggjan sem flokkurinn er tilbúinn að viðurkenna sé sú að hinir vanhæfari muni ævinlega og náðarsamlegast njóta góðs af iðju hinna hæfari, hvort sem er „með eða án leyfis“ eða hvort þeir verðskulda það eður ei. Þessi félagshyggja hefur verið kölluð „brauðmolakenning“ og er vissulega göfug félagshyggja, þó hún sé fremur afleidd en sjálfsprottin. Slík félagshyggja er líka í algerri mótsögn við raunverulegt markmið og hjartalag flokksmanna, þar sem logar hin einlæga og gefandi félagshyggja.

Ég, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn erum sem sagt sammála um að það sé bæði eðlilegt og sjálfsagt að úthluta ýmsum samfélagsgæðum á félagslegum grunni, en ekki einvörðungu eftir hörðum samkeppnissjónarmiðum þar sem fjárhagslegur styrkur, „réttu samböndin“, fjölskyldu- og vinatengsl óhjákvæmilega skekkja samkeppnisstöðuna umtalsvert með tilheyrandi auknum ójöfnuði og óréttlæti.

Í gegnum tíðina hefur það komið æ betur í ljós að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum finnst eðlilegt og sjálfsagt að fjárhagslegur styrkur, „réttu samböndin“, fjölskyldu- og vinatengsl ráði líka við hina félagslegu úthlutun gæðanna og að réttu samböndin og tengslin séu staðfest með flokksskírteinum. Í hinu „pólitíska ati“ við félagslega úthlutun gæða hefur frasinn „gjör rétt – þol ei órétt“ alveg gleymst!

Slík aðferð við félagslega úthlutun samfélagsgæða heitir spilling. Henni ber alltaf og alls staðar að hafna og berjast gegn með oddi og eggju, samkvæmt mínum skilningi. Þess vegna get ég ekki stutt þessa flokka, þrátt fyrir okkar sameiginlegu almennu hugmynd um félagslega úthlutun samfélagsgæða, og á bágt með að skilja að aðrir geti fremur gert það en ég.

Af sömu ástæðu get ég ekki heldur stutt stjórnmálamenn og flokka sem horfa gegnum fingur sér á „félagshyggju“ Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins, taka þátt, snúa að henni blinda auganu, eða hvítþvo hana með sáttmála.

Félagshyggju fylgi jöfnuður, réttlæti og frelsi. Það er ekki flókið.

 

Vigdís Finnbogadóttir 90 ára

Vigdís Finnbogadóttir, fyrsta konan í víðri veröld sem varð þjóðkjörinn forseti, er 90 ára í dag.

Vigdís kveikti vonarglóð

sem varð að stóru báli:

Syngjum landi ástaróð,

öllu höfnum prjáli.

Klafa brjótið, kannið slóð,

konur, beitið páli!

Saman tali þjóð við þjóð

þýðu friðarmáli.

 

Áramótin 2019-2020

Þetta var aldeilis úrvalsgott ár þegar litið er inn á við – á fjölskylduna. Allir við heilsu og hamingju, þó auðvitað hrjái einn og einn einhverjir kvillar, eins og gengur. En þegar hismið er greint frá kjarnanum þá búum við hjónin við sannkallað barna- og fjölskyldulán. Það er ekki sjálfgefið að yngsta barnið af sex nái þrítugsgsaldri án stóráfalla í fjölskyldunni. Fyrir það ber að þakka. Og vona það besta. Elska og njóta.

Undirritaður komst loks í langþráða aðgerð; hnjáliðsskipti, og allt gengur í framhaldinu að vonum skv. bestu manna yfirsýn. Vonir standa til að ganga og hreyfing verði í boði næstu árin með þvífylgjandi heilsueflingu. Annars er mesti spenningurinn nú hvort nýja hnéð þoli ekki örugglega útreiðar a.mk. jafnvel, og helst betur, en hið gamla og ónýta gerði ágætlega. Anna María er stálslegin; þó hún bíði líka eftir hnjáliðsskiptum á báðum og sé fyrir vikið hætt að hlaupa, þá gengur hún úti í náttúrunni af miklum móð, og lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna. Við þurftum að láta tíkina Freyju fara á vit feðra sinna og mæðra og söknuður er að henni, elskulegt og yndælt kvikindi.

Úr samfélaginu eru verri tíðindi. Sívaxandi misskipting í okkar ríka samfélagi með alvarlegum afleiðingum – eins og eilífum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu – er mikið áhyggjuefni. Og sífellt koma upp á yfirborðið ný og ný spillingarmál. Allir gerðu sér svo sem grein fyrir viðvarandi spillingu: hið gamla helmingaskiptakerfi stærstu stjórnmálaflokkanna var grundvallað með fullveldinu og ól þá spillingu sem hefur verið landlæg allar götur síðan; og þá meðvirkni sem byggst hefur upp meðal þjóðarinnar. Allt of margir hafa litið, og líta enn, undan eða með velþóknun á skattsvikara og gráðuga undanskotsmenn – „vinnukonuútsvar“ stórgróssera í gegnum tíðina, aflandsreikninga nútímans – og náin faðmlög stjórnmála og viðskiptalífs sem kristallast í formönnum tveggja stjórnmálaflokka, beggja fyrrum forsætisráðherra, og svo núverandi sjávarútvegsráðherra. Að ekki sé talað um dómstólana og allt hitt svínaríið.

Vonbrigði ársins eru Vinstri grænir. Björt framtíð og Viðreisn slitu stjórnarsamstarfi þegar spilling dómsmálaráðherra (tveggja fremur en eins) Sjálfstæðisflokksins opinberaðist. Vinstri grænum dettur slíkt ekki í hug en láta sér vel líka að innanbúðarmaður í Samherja, gerspilltu fyrirtæki, sé ráðherra sjávarútvegsmála. Þeir láta sér vel líka að vinna með manni sem nýtti sér innherjaupplýsingar og seldi í „sjóði 9“ korter í hrun og sagði um þann gjörning:  „…ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til …“. Auk þess að sitja á skattaskjólsupplýsingum og fá lögbann dæmt á þann fjölmiðil sem ætlaði að birta upplýsingarnar fyrir kosningar. Svo eitthvað sé nefnt. Í ofanálag hefur Vgf svikið öll kosningaloforð sín er vörðuðu jöfnun lífskjara. Skömm að því.

Sendi „hugheilar“ óskir um gleðilegt nýtt ár.

Gleði og farsældar fjölskyldan naut,
fyrir það bljúgur nú þakka.
Hamingja, ekki neitt óþarfa skraut,
til áranna næstu ég hlakka.

 

Sparibúið á spillingarbraut
speglar sig broshýrt á þingi
viðskiptaliífið og valdstjórn, með graut
sem vonar að þjóðin svo kyngi.

 

Nú árið er liðið og engu ég skaut
upp hér að þessu sinni
femur en áður. Frá mér nú þaut
ein flísin af ævinni minni.

 

 

 

Nýja íslenska stjórnarskráin

Ágætu Selfyssingar og nærsveitamenn!

Jólagjöfin í ár er bókin „Nýja íslenska stjórnarskráin“.

Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996, ritar formálsorð þessarar fallegu bókar, sem hefur að geyma nýju stjórnarskrána ásamt ítarlegum sögulegum inngangi eftir Þorvald Gylfason.

Hægt er að nálgast bókina hjá undirrituðum á einfaldan hátt, og á mjög hagstæðu verði, aðeins 1.200 kr.

Svona skal fara að:

  1. Greiða inn á reikning Stjórnarskrárfélagins (Upphæð = fjöldi eintaka x 1.200 kr.). Skýring: “stjórnarskrá” (kt. 5908102230) (reikningsnúmer: 0513-14-403456)
  2. Senda kvittun í greiðsluferlinu á netfangið mitt: gylfithorkelsson@gmail.com
  3. Hringja í mig í síma 895-8400 og við komum okkur saman um hvenær og hvar ég afhendi pöntunina.

Kveðja,

Gylfi Þorkelsson

Klausturbænir íslenskrar stjórnmálamenningar

Stórviðrið sem geisar í dag í fjölmiðlum og netheimum mun vonandi hafa afleiðingar. Vonandi verður dreginn af því lærdómur. Engu breyta þó viðbrögð viðkomandi einstaklinga; þeim er ekki við bjargandi. Það sem skiptir raunverulegu máli er annars vegar hvort þingheimur allur og hins vegar þjóðin læri sína lexíu.

Halda áfram að lesa

Slumpum bara í þá uppbótum …

Ég var að kíkja í nýgerðan kjarasamning FF og FS við Ríkið. Ekki er þar, fremur en vant er, að sjá kennimörk tiltölulega nýs menntamálaráðherra sem lýst hafði yfir bráðri nauðsyn þess að stórbæta kjör kennara. Bjóst svo sem varla neinn við því að nokkur innistæða væri fyrir þeim orðum. En staðfestist svart á hvítu í þessari samningsnefnu.

Halda áfram að lesa

Þögn er samþykki

„Með þögninni er tekin afstaða með gerandanum“, segir hin hugrakka Embla Kristínardóttir, sem nauðgað var á fermingaraldri af tvítugum íþróttamanni.

Þetta er bitur sannleikur sem á við allt ofbeldi. Skólabörnum er innrætt að rangt sé að standa hjá og þegja þegar þau verða vitni að einelti. Því með þögn og aðgerðarleysi er tekin afstaða með ofbeldinu.

Halda áfram að lesa