Árið 2021

Árið 2021 er að renna sitt skeið á enda. Eins og hjá öðrum landsmönnum skiptust á skin og skúrir hjá okkur. Við hefðum t.d. gjarnan viljað vera meira á ferðinni, en þegar á allt er litið höfum við undan engu að kvarta. Við komumust þó til Stokkhólms í haustfríinu til að heimsækja litlu fjölskylduna okkar þar, en tengdadóttirin Bryndís Dagmar hóf sérnám sitt í endurhæfingalækningum síðsumars.This image has an empty alt attribute; its file name is Sif-2.jpg Það hefur verið svo að þegar ein fjölskyldan flytur heim, þá fer önnur af landi brott. Myndsímtöl eru svo alveg dásamleg tækni sem bjargar miklu þegar söknuðurinn knýr á.

Þó heilsan hefði mátt vera betri á köflum er næsta víst að aðrir höfðu það verra, minna milli handa og meiri erfiðleika við að stríða. Við hjónin eigum líka því láni að fagna að geta unað hvort við annað heima hjá okkur, að mestu án stríðsátaka, höfum lafað saman í tæp 39 ár og því orðin ágætlega sjóuð hvort í öðru. Við gefum lítið fyrir þá bábilju að það sé einhverskonar frelsisskerðing að njóta friðar á eigin heimili í sóttvarnaskyni, sjálfum okkur og öðrum til heilla.

Það sem stendur upp úr á árinu er að gæfan hefur gengið okkur við hlið og afkomenda okkar, allri fjölskyldunni. Þó ekki hafi allir lokið einhverjum „stóráföngum“ er okkur löngu orðið ljóst aðThis image has an empty alt attribute; its file name is Margrét-3.jpg mesta vegtyllan, alla vega hérna megin grafar, er heilsa og hamingja. Hvor tveggja hafa þær sannarlega verið með okkur öllum í liði.

Nokkra „hápunkta“ má þó nefna hér. Nýtt barnabarn bættist í hópinn, og fékk nafnið Sif, dóttir Ara og Rebekku Rutar. Hún er alveg jafn dásamleg og öll hin 9 barnabörnin okkar. Sveir mér ef hún er ekki fegursta barn sem fæddist á árinu, og ekkert bara „norðan Alpafjalla“. 

Þá bættust tvær stórglæsilegar stúdínur í hópinn, þegar Margrét útskrifaðist frá VÍ í maí og JasmínThis image has an empty alt attribute; its file name is Soffía.jpg frá FÁ núna í desember. Þessar ungu konur eru báðar á grænni grein og amma og afiThis image has an empty alt attribute; its file name is Raggi-2.jpg auðvitað alveg gríðarlega stolt af stóru stelpunum sínum. Þriðja glæsistúlkan í hópi barnabarna, hún Soffía Sif, kláraði grunnskólann og hóf nám í Borgó í haust. Og að lokum lauk Raggi tengdasonur námi í meistaraskólanum og ber nú titilinn Trésmíða- og byggingameistari.

Á næsta ári er von á þriðju stúdínunni, fermingu, og gott ef ekki stórafmæli! Já, já, já. Það er víst ekkert lát á þeim, sem minnir á að sá sem hér ritar náði þeim áfanga að verða sextugur og átti því láni að fagna að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar. Um meira verður ekki beðið. 

Það sem hefur miður farið á árinu er að mestu takmarkað við hið pólitíska svið. „Æi, er ekki bara best að gera ekki neitt af viti“ lýsir því best. Engar hugsjónir, ekkert frumkvæði, engar umbætur eða nýjungar. Bara haldið áfram á sjálfstýringu á sömu, gömlu spillingarateinunum. Vonarstjarnan Kartín Jakobsdóttir, sem gekk í björg fyrir fjórum árum, lokaði í haust á eftir sér og dansar í myrkrinu með tröllunum – á ekki afturkvæmt að séð verður, því miður. Ekki meira um þá hörmungarsögu alla, nóg að vísa í upplýsandi umfjöllun HÉR og HÉR.

Eins og lofthjúpurinn og náttúran einkennist mannlífið af síauknum öfgum og firringu. Það fyrra auðvitað afleiðing af því síðartalda. Það eru hamfaratímar með gróðureldum, skýstrókum, flóðum, hitabylgjum, drepsóttum, stöðugum stríðsátökum, ofbeldi, einelti og „útilokunarmenningu“. Samfélagsumræðan fer um eins og skýstrókur og skilur eftir sig auðn og eyðileggingu. Hvert fárið af öðru skellur á. Hvað ætli taki við af „blóðmerafárinu“? Það er tímanna tákn að hópur sem berst að eigin sögn gegn ofbeldi og fyrir jafnrétti skuli velja sér nafnið „Öfgar“. Stöðva öfgar ofbeldi? Leiða þær til jafnræðis? 

Nei, fetum aðra slóð. Blásum í glæður hugsjónar um frið, jöfnuð, og manngildi. Höfum hugrekki til að breyta samfélaginu til batnaðar en stöndum ekki kyr með hendur í vösum meðan forréttindalestin brunar hjá.

Megi þjóðin upp af vanans ánauð 

og óráðssvefni vakna.

Hún vaxi upp úr firringu og finni

úr fllækjum sálar rakna.

Árið gefi hamingju og heilsu

og huggi þá er sakna.

 

 

Sextíu síður af kjaftæði

Ég lagðist í þá pílagrímsför að lesa stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Mestmegnis vegna þess að þó ég þættist þess fullviss að hann væri jafn innihaldsrýr og fram hefur komið í fjölmiðlum að hann er, þá er alltaf betra að skoða hlutina sjáfur en að láta aðra segja sér hvernig þeir eru.

Við fyrstu sýn

Við fyrstu sýn vekur athygli að mikið er lagt upp úr hönnun og útliti skjalsins. Ekkert til sparað í myndum og undir útdrætti tilvitnaðra meginfrasa eru lagðar heilu síðurnar. Hér hefur einhver hönnunarstofan fengið vel fyrir sinn snúð. Á fyrstu 21 síðunni, sem er almenn lýsing á markmiðum í samfelldu máli, er einhver texti á 11 síðum. Seinni hlutinn, síður 24-60, er kaflaskiptur eftir „málaflokkum“ og markmiðin sem áður var búið að segja frá í samfelldu máli listuð upp í afmarkaða punkta, og ekki nema 9 auðar síður, þó lítið sé á mörgum, eins og mikilvægt er í kennslubókum fyrir byrjendur.

Stíll og framsetning

Helsta einkenni textans er hástemmdur helgisagnastíll, og greinilegt að kunnáttumaður í trúarlegri upphafningu hefur farið fingrum um lyklaborð. Lykilfrasar í textanum eru: horft verður til – stuðlað að – unnið að – að styðja við – lögð áhersla á – með það að markmiði að – hugað að því að – o.s.frv. Rætt er við lesendur í móðurlegum, hlýlegum og alþýðlegum tón, í fyrstu persónu, „við viljum“ þetta og hitt. Allt mjög kunnáttusamlega gert til að skapa rétta stemmningu og viðmót; það er hinn mildi og réttláti jesúbróðirbesti sem talar við lærisveina sína, en ekki hinn refsingasami drottinn allsherjar að messa yfir söfnuðinum.

Innihaldið

Innihaldið er í stórum dráttum merkingarlaus froða, sem lítt er hönd á festandi. Manni dettur ósjálfrátt í hug Jón Gnarr og Besti flokkurinn sem gerði einmitt stólpagrín að svonalöguðu með því að segjast ætla að gera „allskonar fyrir aumingja“, ef ég man rétt. Hér er markmiðið augljóslega að enginn geti efast um góðvild og umhyggju þríeykisins sem stendur að sáttmálanum. Hins vegar er lítið að frétta af því hvernig eigi að borga fyrir alla pakkana og hvernig eigi að koma þeim öllum fyrir undir trénu.

Strax í inngangi grípa augað nokkrir frasar sem vekja bros: „Við tökumst á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði“ – „skapa sátt um nýtingu auðlinda“ og svo þessi óborganlegi brandari: „Markmið síðasta kjörtímabils var að byggja upp traust í samfélaginu …“

Allir vita örlög síðast talda markmiðsins og sú vitneskja er ekki til þess fallin að „byggja upp traust“ á fagurgalanum sem á eftir fer.

Nokkur efnisatriði

Nokkur efnisatriði er rétt að tína út.

Fyrst má frægan nefna hálendisþjóðgarðinn, helsta flagg Vg í síðasta stjórnarsáttmála, sem troðið var eins og blautum sokk ofan í flokkinn á nýliðnu kjörtómabili, og hann nú dreginn sundur og saman í háði: Þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum á efstu fjallstindum og jökulhvelum!

Næst má nefna einbeittan vilja flokkanna að selja banka og fjármálastofnanir til sinna manna svo þeir geti leikið sér með meiri peninga. Þetta heitir að „halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfnu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða“ (bls. 5). Allir vita af langri reynslu að einsskiptisábati af sölu ríkiseigna verður ekki nýttur til uppbyggingar innviða – og að árlegur arður af t.d. Landsbankanum er fljótur að borga upp kaupverðið og gæti nýst mun betur til lengri tíma litið til hagsbóta fyrir almenning á margvíslegan hátt.

Í þriðja lagi er stórhættulegt ákvæði, eins og bent hefur verið á, um inngrip í vinnumarkaðsmál: „Til að stuðla að auknum fyrirsjáanleika og bæta verklag verður embætti Ríkissáttasemjara eflt, til dæmis með því að koma á fót standandi gerðardómi. Leikreglur vinnumarkaðar verða skýrðar með nýjum starfskjaralögum …“ (bls. 5). Hvað þýðir það að skýra leikreglur vinnumarkaðar? Hér er, eins og annars staðar í plagginu, enginn grunnur að standa á. Til hagsbóta fyrir hvern eiga ný starfskjaralög að vera? Launafólk? Atvinnurekendur? Hvaða hagsmunir eru þarna að baki? Hér vantar allt kjöt á beinin, og tilgangurinn með því að hafa þetta svo almennt orðað er augljóslega sá að fela hið raunverulega markmið, sem er að koma böndum á verkalýðshreyfinguna, kjarasamninga og vinnudeilur.

Í fjórða lagi eru fyrirheit um aukna einkavæðingu samgöngumannvirkja („á minni vakt“). Þetta er orðað svo í plagginu: „Tilteknum þjóðhagslega arðsömum framkvæmdum, sem bæta munu lífsgæði fólks og stækka atvinnu og þjónustusvæði, verður flýtt á grundvelli fölbreyttari fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila“ (bls. 18). Hér er þó ekkert verið að fela neinn tilgang í orðskrúði, og ber að þakka fyrir það. En ekki samrýmist það áætlunum um að „takast á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði“, sem vitnað var til hér í upphafi, því kostnaður almennings við einkaframkvæmd í samgöngukerfinu er margfaldur á við opinbera framkvæmd.

Í fimmta lagi á að halda áfram að leggja niður og sameina stofnanir. Nú hringja varúðarbjöllur, því reynslan sýnir að hið raunverulega markmið með slíkum aðgerðum er að gelda eftirlit á völdum sviðum. Hér heitir það að „efla og styrkja“: „Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða gerðar breytingar á fyrirkomulagi samkeppnismála og samkeppniseftirlits og það eflt með sameiningu stofnana, lagabreytingum og styrkingu samtaka neytenda“ (7). Á grundvelli þessa „markmiðs“ er hægt að gera nánst allt sem mönnum dettur í hug, og það er ekki beint traustvekjandi, verður að segja.

Í sjötta lagi má benda á virkjanastefnu stjórnarinnar:

„Sátt verður að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takt við vaxandi orkunotkun samhliða útfösun jarðefnaeldsneytis …“ (9). Þessi klausa er í fullkomnu samræmi við langflest annað í „sátt“málanum: troðið er saman í eina efnisgrein alveg andstæðri sýn, hér annars vegar „grænni“ sýn á náttúruna og hins vegar „nýtingarsýn“. Og það er ljóst að taktur nýtingarstefnu verður genginn, þó textinn sé flúraður með „viðkvæmri náttúru“ og „sátt um nýjar virkjanir“. Hver ætli eigi að vera sáttur? Landvernd eða Landsvirkjun? Sjálfstæðisflokkurinn eða almenningur í þessu landi? Íbúar viðkomandi svæða eða jarðýtukallar? „Viðkvæm náttúra“, mæ ass!

Þá er það lögreglurikið: „Lögreglan og önnur lögregluyfrvöld þurfa að vera í stakk búin til að mæta þeim miklu samfélagslegu áskorunum sem leiða af skipulagðri glæpastarfsemi, tækniþróun, nýjum hugbúnaðarlausnum, hnattvæðingu og farskipta- og nettengingum“ (14). Hvað á þetta eiginlega að þýða? Á að fjölga í lögregluliðinu og veita því aukið fjármagn til að sinna störfum sínum? Eða á að veita lögreglunni auknar valdbeitingarheimildir? Aukinn búnað? – kannski heimildir til vopnaburðar? Hver veit það? Og hvernig er líklegt að nýr dómsmálaráðherra túlki þessa innihaldslausu frasa?

Jöfnuðurinn

Jafnræði og „jafnt aðgengi“ kemur hér vissulega við sögu, mest í tengslum við heilbrigðis- og menntamál. Eftirfarandi tilvitnanir gefa það til kynna að byggja eigi aftur upp heilbrigðis- og menntastofnanir út um allt land, þannig að íbúar njóti allir sömu þjónustu, hvar sem þeir búa:

„Jafnframt viljum við tryggja að jafnræði ríki í aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntunartækifærum …“ (18). Haldið verður áfram að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu til að tryggja jafnt aðgengi“ (21). „Heilbrigðisstofnanir verða styrktar til að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og aðgengi jafnað um land allt“ (21).

Allir gera sér hins vegar grein fyrir því að undanfarna áratugi hafa heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni markvisst verið skornar niður við trog, þannig að hluti þjóðarinnar býr við mjög skerta þjónustu, einmitt íbúar í hinum dreifðari byggðum. Allir vita líka að sjúkrahús, heilsugæslur og öldrunarstofnanir vítt og breitt um landið munu ekki fá það fjármagn sem nauðsynlegt er til að veita þá þjónustu sem íbúarnir eiga skilið og þær gjarnan vilja. Ekki þarf annað en að hugsa til framkomu ríkisvaldsins gagnvart sveitarfélögum í yfirfærslu verkefna milli stjórnsýslustiganna, og sveltistefnu við fjármögnun hjúkrunarheimila, til að átta sig á því að fjas ríkisstjórnarforingjanna um jöfnuð og jöfn tækifæri er hjóm eitt og fals. Þeir eru bara öngvir jafnaðarmenn, heldur eitthvað allt annað.

Stjórnarskráin og lýðræðið

Loka„kaflinn“ í stjórnarsáttmálanum, síðustu andvörpin, fjalla um stjórnarskrá og kosningalög. Þar eru settir fram tveir punktar, textinn teygir sig alveg í tæpar 7 línur með því að spássían taki nánast hálft blaðið. Þvílíkur metnaður, verð ég að segja!

Um þetta hefur nokkuð verið fjallað í fjölmiðlum, en í ljós kemur að lýðræðisást formanna Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vg takmarkast við framkvæmdavaldsræði og sérfræðingaræði. Setja á „af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði […] og efna „til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar“ (57). Hér sker yfirlætið gagnvart almennum kjósendum í augu. Almenningi kemur þetta mál bara ekkert við. Það eru sérfræðingar fræðasamfélagsins sem eiga að segja okkur hvernig grundvallarsáttmáli þjóðarinnar hljómi. Hér skal ríkja sáttmáli fræðasamfélagsins og ríkisstjórnarinnar um lýðveldið Ísland. Takk fyrir túkall!

Löngu er vitað að þessir aðilar ætla sér ekki að taka mark á lýðræðislegri niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Ástæðan fyrir því er tvennskonar í einfaldleika sínum:

Annars vegar er að sú tillaga sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá felur í sér töluverðrar lýðræðisumbætur, ákvæði um aukinn rétt almennings og þings til að krefjast bindandi þjóðaratkvæðagreiðslna um mikilvæg mál, og ákvæði um jöfnun vægis atkvæða í kosningum til Alþingis. Hins vegar vegna auðlindaákvæðisins, sem er grundvöllur að raunverulegum og óskoruðum yfirráðum þjóðarinnar yfir fiskimiðunum.

Þetta geta ríkisstjórnarflokkarnir ekki samþykkt því ójöfnuður atkvæða er þeim í hag, jafnvel sem nemur nokkrum þingmönnum, sem og það meirihluta- og framkvæmdavaldsræði sem hér viðgengst í stað lýðræðis. Og hinir raunverulegu eigendur flokkanna sætta sig ekki við yfirráð þjóðarinnar yfir fiskimiðunum.

Lengi væri hægt að halda áfram en það myndi ekki breyta neinu um niðurstöðuna: 60 síður af kjaftæði – þar af um þriðjungur auður.

 

 

Kosningaprófin

Það er gaman að þessum kosningaprófum. Væntanlega eru niðurstöðurnar fengnar með því að bera svör þátttakenda saman við stefnuskrár flokkanna. Við það er sá fyrirvari að lítið er að marka stefnuskrárnar; annars vegar er það sem þar stendur gleymt og grafið strax eftir kosningar og hins vegar er þar ýmislegt ósagt sem gert er. Í stefnuskránum er fyrst og fremst það sem flokkshestarnir telja að laði að kjósendur, en hitt sem er nær raunveruleika flokkanna látið ósagt.

Ég játa það að vera ólesinn í stefnuskrám, en ímynda mér að í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sé t.d. ekkert um að flokkurinn hækki skatta ótæpilega á þá sem lægstar hafa tekjurnar, að í dómstólum og hjá lögregluembættum skuli Sjálfstæðismenn einir vera hæfir til starfa eða að formaðurinn skuli nýta sér innherjaupplýsingar til að lauma undan peningafúlgum.

Sömuleiðis efast ég um að Miðflokkurinn minnist í stefnuskrá sinni á að þingmenn flokksins skuli drekka sig fulla í vinnutíma og hrauna yfir konur og öryrkja eða að formaðurinn skuli geyma fé í skattaskjólum.

Einnig kæmi það verulega á óvart að Framsóknarflokkurinn hafi efnisgrein í stefnuskrá sinni um að eingöngu skuli skipa flokkshesta í opinber embætti og nefndir, hvað þá að einn og sami framsóknarmaðurinn skuli skipaður formaður í tugum nefnda og skólanefndir framhaldsskóla skuli eingöngu skipaðar framsóknarmönnum.

Vinstri grænir gætu haft það í sinni stefnuskrá að ekki skuli leggja sérstakan skatt á ofurríka og að alls ekki megi láta þjóðina njóta sanngjarns arðs af auðlindum sínum. Eða ekki.

Svo fáein dæmi séu tekin af fjölmörgum mögulegum.

Svona eru stefnuskrárnar nú með öllu ómarktækar og niðurstöður úr kosningaprófum því í besta falli til skemmtunar.

Sósíalistaflokkurinn 89%

Píratar 89%

Vinstri Græn 83%

Samfylkingin 82%

Flokkur Fólksins 77%

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn 73%

Viðreisn 69%

Framsóknarflokkurinn 62%

Miðflokkurinn 54%

Sjálfstæðisflokkurinn 47%

Skrifað 13.09.21

Angólasnúningurinn

Í nóvember 2013 flugu „hákarlarnir“ þrír til Íslands, í boði Samherja, þeir Shacky Shangala, formaður lagaendurskoðunarnefndar Namibíu og síðar dómsmálaráðherra, Tamson Hatuikulipi (Fitty), tengdasonur sjávarútvegsráðherrans Esau, og James Hatuikulipi, frændi hans. Vert er að geta þess að Tamson hafði aldrei komið nálægt hvorki útgerð eða sjávarútvegi né alþjóðaviðskiptum og frændinn ekki nálægt útgerð, þó hann væri reyndur í viðskiptum. Af þessum sökum er vel skiljanlegt að Samherja hafi þótt skynsamlegt að borga þeim gríðarlegar upphæðir fyrir „ráðgjöf“. Eða ekki.

En nú voru þeir sem sagt komnir til Íslands. Ekkert var til sparað í kostnaði og risnu vegna ferðarinnar og gert víðreist með þá félaga að skoða athafnasvæði Samherja hér á landi, m.a. Síldarvinnsluna í Neskaupstað, sem skv. Samherja, með samþykki Fiskistofu, er alls ótengdur aðili hér innanlands þó hún sé kynnt sem „uppsjávardeild Samherja í Neskaupstað“ erlendis.

Með hákörlunum í för voru tveir menn, annars vegar sonur sjávarútvegsráðherra Angóla og hins vegar aðalráðgjafi sama ráðherra. Ekki var þetta samt nein „opinber heimsókn“. En hvern þremilinn voru þessir Angólamenn að þvælast til Íslands í lúxusferð í boði Samherja?

Milli Namibíu og Angóla var í gildi tvíhliða samningur um nýtingu fiskveiðiauðlinda hvors annars. Þetta vissi Shacky Shangala mæta vel. Hrossamakrílveiðar eru hins vegar mun torsóttari og dýrari fyrir ströndum Angóla, og aflinn minni en í Namibíu og því felst hagnaðarvonin í því að fyrirtæki skráð í Angóla nýti sér tvíhliða samkomulagið til að veiða í landhelgi Namibíu. Kvótinn sem byggir á þessu samkomulagi ríkjanna er mun stabílli og til lengri tíma en annar kvóti, enda grundvallaður á milliríkjasamningum, sem ekki er slitið sisvona.

Og þarna er komið verðugt verkefni fyrir stöndugt fyrirtæki og lausnamiðað, eins og Samherja. Fimmmenningunum var flogið í höfuðstöðvar Samherja á Akureyri til að „setja upp leikplanið“, sem fólst í því að nálgast kvóta í Namibíu þótt enginn kvóti væri á lausu. Fléttan fólst í því að stofna sérstakt fyrirtæki í Angóla, Namgomar, sem svo fengi úthlutað milliríkjakvótanum í Namibíu. „Það fyrirtæki myndi síðan gera samning við Samherja um að nýta kvótann. Allt að tíu þúsund tonn fengjust með þessum hætti til langs tíma“ (Ekkert að fela, bls. 219).

Stjórnarformaður lagaendurskoðunarnefndar Namibíu og forstöðumaður þróunarsjóðs sjávarútvegsins í Angóla, nýkomnir frá Íslandi, skrifuðu síðan sjávarútvegsráðherrum beggja landa samhljóða bréf þar sem mælt var sterklega með því að semja við hið virta og öfluga alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtæki Samherja um nýtingu kvótans.

Til að tryggja samstarfið fóru Samherjamenn ásamt hákörlunum þremur til Angóla og hittu þar ráðamenn. Allur kostnaður og lúxus greiddur af Samherja. Til að gera langa sögu stutta gekk þetta í gegn. „Gentlemen, We are in Business.“ skrifar Shacky Shangala hróðugur í tölvupósti. Hinum megin varar Aðalsteinn Helgason undirmenn sína hjá Samherja sterklega við því að gera nokkuð varðandi Angóla-kvótann nema með samþykki „kallsins“. Hver ætli nú „kallinn“ sé?

Nú var Samherji sem sagt kominn með 10.000 tonna viðbótarkvóta í hrossamakríl við Namibíustrendur, með dyggri aðstoð náinna samstarfsmanna og fjölskyldumeðlima ráðherra í ríkisstjórnum ríkjanna tveggja, Namibíu og Angóla. (Því má skjóta hér inn að allur kvóti sem Samherji komst yfir í Namibíu var jafnhliða tekinn af öðrum kvótahöfum, aðilum sem a.m.k. einhverjir borgðu skatt í Namibíu og sköpuðu atvinnu í landinu. Nokkuð sem Samherji notaði í auglýsingaskyni til að sannfæra heimamenn um að þeir væru verðugir kvótans, allt að 1000 störf og verksmiðjur í landi- allt svikið). Það má líklegt teljast að öll þessi fyrirhöfn, að ráðskast með milliríkjasamninga í fjarlægum löndum í gegnum nákomna aðila ráðamanna sé verð samfélagsverðlauna, riddarakrossa, fyrir óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf í þágu alþýðunnar. Eða ekki.

Hinir greiðviknu samstarfsmenn fengu sannarlega sinn skerf, stóran hluta af kvótaleigunni.

Gengið var endanlega frá samningum milli Samherja og „milliliðanna“ um skiptingu hagnaðar af „Angóla snúningnum“ á fundi í höfuðstöðvum Samherja á Höfðatorgi 20. ágúst 2014. Í fundarhléi á þeim fundi skrapp Þorsteinn Már fram og kom til baka með gest, sem stoppaði stutt við, en Þorsteinn kynnti sem „ráðherrann minn“.

Til að koma greiðslum rétta leið dugðu ekki lengur frystigeymslur sem voru ekki til, skúffufyrirtæki í Namibíu eða íþróttatöskur undir þá peninga sem skipta þurftu um hendur. Skúffufélag Samherja á Kýpur, Esja Seafood, skrifaði því undir samninginn við skúffufélagið Namgomar um leigu á Angólakvótanum. Og greiðslur til hinna viljugu samstarfsmanna fóru til skúffufélags þeirra í Dúbaí. Fyrsta greiðslan frá Samherja á Kýpur mun hafa farið til Dúbaí 4 dögum eftir Höfðatorgsfundinn.

Í heildina nema þessar greiðslur Samherja til Dúbaí næstum hálfum milljarði íslenskra króna og til viðbótar eru greiðslur frá öðru skúffufélagi Samherja á Kýpur til annars skúffufélags í Dúbaí upp á ríflega hálfa milljón bandaríkjadollara, þar til í janúar 2019. Þetta snýst ekki um smáauratalningar.

Ekki þarf að taka það fram að hagnaðurinn af þessum veiðum var hvorki skattlagður í Namibíu né Angóla. Til voru vel kunnar „snyrtilegar leiðir til að komast hjá skattgreiðslum“.

Svona gerast kaupin á eyrinni. En Gvendur gamli skútukall er með öllu utanveltu í þeim kaupum.

Skrifað 9.08.21

Ekkert að fela?

Ekkert að fela. Á slóð Samherja í Afríku eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stefán Drengsson er fróðlegt rit í meira lagi. Þar er flett ofan af slíku skítabixi að lygilegra er en hver lygasaga. Um þetta hefur verið fjallað í Kveik, Stundinni og víðar, en stefnir í að þessi mál verði þögguð núna í aðdraganda kosninga.

Að minnsta kosti er merkilegt að hinir hugumstóru réttlætisriddarar í Vg og óþreytandi baráttufólk gegn kúgun og spillingu, skuli ekki hafa þetta mál efst á sínum umræðulista síðasta mánuðinn fyrir kosningar. En nei, þar ríkir grafarþögn. Aðrir verða því að halda þessum málum á lofti.

Til að réttlæta kvótaúthlutun í hrossamakríl til Samherja, sem hafði ekki kvótaleyfi, þurfti að breyta lögum í Namibíu. Til þess mútaði Samherji sínum mönnum, sk. „hákörlum“ nátengdum sjávarútvegsráðherra Nabimíu, sem meðal annars voru formaður lagaendurskoðunarnefndar landsins og tengdasonur ráðherrans. Tilvonandi lagabreytingar voru unnar í nánu samstarfi við Samherja, og að undirlagi fyrirtækisins auðvitað, því þeirra hagsmunir voru undir. Til að ná hrossamakrílkvóta af öðrum útvegsfyrirtækjum benti Samherji sínum mönnum þar syðra m.a. á íslensk lög um hámarkskvóta „tengdra aðila“, sem hér á landi er 12% af heildarkvóta í landhelginni.

Þetta gekk eftir og með þessum, og ýmsum fleiri „snúningum“, komst Samherji yfir umtalsverðan kvóta í þessari verðmætu tegund. Samherji fékk auk þess kvótann á miklu lægra verði en aðrir, enda vel tengdur inn í æðsta stjórnkerfi Namibíu. Það er svo athyglisvert að Samherji borgaði mun hærra verð í mútur til að komast yfir kvótann heldur en fyrir kvótann sjálfan, og sveik öll loforð um atvinnuuppbyggingu í Namibíu, byggingu verksmiðja í anda þeirra sem rekin voru á Dalvík og hjá uppsjávardeildinni í Neskaupstað, 500 störf í fiskvinnslu ef hann fengi, ef hann bara fengi … kvóta.

Á sama tíma og Samherji borgaði réttum aðilum fyrir að koma hámarkskvóta inn í namibísk lög, svo ráðherrann gæti réttlætt kvótaúthlutun til velgjörðamanna sinna á Akureyri, var 12% markið hér heima þýðingarlítið í augum eigenda fyrirtækisins, en Samherji og Síldarvinnslan í Neskaupstað voru jafnan í 2. og 3. sæti á „kvótalistanum“ á eftir Brimi hf. og samanlagt vel yfir markinu.

Árið 2013 keypti Síldarvinnslan Berg-Hugin í Vestmannaeyjum og kvótann með. Bæjaryfirvöld gerðu athugasemdir því með þessu færu Samherji/Síldarvinnslan vel yfir 12% markið og kaupin því ólögleg. Samherji svaraði fyrir sig og talaði um villandi fullyrðingar og vísvitandi tilraunir til að gera málið tortryggilegt, fyrirtækin væru alls ekki tengd. Engu skipti þótt Þorsteinn Már væri stjórnarformaður Síldarvinnslunnar og Samherji ætti 45% í Síldarvinnslunni. Né að Samherji kynnti víða erlendis að fyrirtækið væri það stærsta á Íslandi, það ræki botnfiskvinnslu á Dalvík en „uppsjávardeild í Neskaupstað“. „Alls ekki tengdir aðilar“, eins og öllum er væntanlega ljóst …

líka eftirlitsaðilanum með lögunum, Fiskistofu, sem taldi Samherja og Síldarvinnsluna ekki tengda aðila. Samkeppniseftirlitið var á öðru máli og taldi ástæðu til að rannsaka málið. Hvað varð um þá rannsókn? Henni var hætt vegna fjárskorts og seinagangs hjá Samkeppniseftirlitinu, málið dagaði uppi vegna annarra verkefna og skorts á mannafla til að sinna öllum verkefnum (Ekkert að fela, bls. 174-181).

Þannig hlær Samherji með öllum kjaftinum að íslensku eftirlitskerfi, íslenskum almenningi, sem sagður er eiga fiskveiðiauðlindina, og ekki síst ríkisstjórninni og stjórnmálamönnum, sem ýmist vilja ekki eða þora ekki að taka á spillingunni. Enda kynnti Þorsteinn Már, eins og frægt hefur orðið, sjávarútvegsráðherrann sem „sinn mann í ríkisstjórninni“ á klíkufundi með Namibíumönnunum á skrifstofum Samherja í einni boðsferðinni hingað til lands.

Fleira athyglisvert af umfjöllunarefni Ekkert að fela gæti ratað hér á síðuna, t.d. hinn eitraði „Angólasnúningur“.

Skrifað 28.09.21

Hvað er að vera „útlitsgallaður“?

Lengi hafa ýmsar vörur verið auglýstar á afslætti vegna þessa. Merkingin er þá sú að varan sé heil og nothæf, virki eins og til er ætlast, en líti ekki nákvæmlega eins út og framleiðslustaðlar gera ráð fyrir. Þvottavél gæti t.d. hafa rispast í flutningum o.s.frv. Fólk fær þá fullnýtanlegan grip á góðu verði, ef það lætur rispuna eða beygluna ekki trufla sig. Enda hlutverk hans þá ekki að vera stofustáss til fegurðarauka.

Síðan færist þessi hugtakanotkun yfir í lífríkið. „Útlitsgallaðar“ rófur og kartöflur eru á niðursettu verði. Bragðið og næringargildið er auðvitað hið sama. En blessuð rófan er ekki svona fagurlega dropalaga og það truflar hið haþróaða formskyn nútímamannsins.

Ég viðurkenni að mér hnykkti nokkuð við þegar ég las í fjölmiðlum um „útlitsgallaða“ laxa í sjókvíum.

Erum við ekki farin að seilast nokkuð langt í yfirlætinu gagnvart lífríkinu og náttúrunni? Er lífríkið fyrir okkur bara staðlaðir nytjahlutir og öllum frávikum fleygt?

Hvað er næst? Eru þeir sem hafa skaðast í slysum þar með „útlitsgallaðir“? Og fatlaðir? Hvar endar þessi vitleysa?

Ekki er ég nógu fróður til að vita hvort efnanotkun í garðyrkju veldur því að sumar rófur verða „útlitsgallaðar“, eða hvort það er „náttúrulegur fjölbreytileiki“. Mannskepnan fæðist allskonar, sem betur fer, og hví ekki aðrar lífverur líka? Og allir hafa heyrt talað um stökkbreytingar …

En þrátt fyrir náttúrulegan fjölbreytileika lífríkisins (sem ætti að útiloka allar hugmyndir um „útlitsgalla“) þykist ég vita að margháttuð „frávik“ í náttúrunni eru af mannavöldum. Eiturefna- og hormónanotkun í landbúnaði, og verksmiðjubúskapur með dýr, hefur margháttaðar afleiðingar, vansköpun og dauða.

Þetta hefur maðurinn reynt með eftirtektarverðum árangri á sjálfum sér. Afleiðingar kjarnorkusprenginga og -slysa er nærtækasta dæmið. Út úr því komu „útlitsgallaðir einstaklingar“, svo farið sé alla leið með hina normalíseruðu og ógeðfelldu hugsun að náttúran sé hannaður hlutur á valdi mannsins og lúti fegurðarskyni hans, eins og það birtist á hverjum tíma.

Ég eftirlæt það siðfræðingum að meta hvort dauðar flugur á framrúðu og „útlitsgallaðir“ og dauðir laxar í sjókvíum séu sambærileg dæmi um inngrip mannskepnunnar í gang náttúrunnar.

En „útlitsgallað“ lífríki? Nei takk.

Skrifað 12.08.21

Af hagsmunaöflum

Í grein Þorsteins Pálssonar, „Landsliðseinvaldur“, í Fréttablaði dagsins segir m.a.:
 
„Í auðlindamálumsnýst ágreiningurinn um það hvort einkaréttur til nýtingar á auðlindum í þjóðareign eigi að vera tímabundinn. Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn vilja að einkarétturinn verði áfram ótímabundinn í sjávarútvegi en tímabundinn varðandi allar aðrar auðlindir.
 
VG og Framsókn fylgja þeirri afstöðu, þvert á stefnu sína, til að rugga ekki stjórnarsamstarfinu og halda opnum möguleika á framhaldi þess.
 
Afsökunarbeiðni Samherja um helgina þjónaði aðallega þeim tilgangi að auðvelda Sjálfstæðisflokknum ap halda samstarfsflokkunum í þeirri klemmu.
 
Kjósi VG að hefja samstarf við einhverja af stjórnarandstöðuflokkunum, að Miðflokknum fráskildum, þarf hreyfingin að taka upp fyrri stefnu um tímabundinn einkarétt …. “
 
Hér er margt merkilegt.

Í fyrsta lagi er auðvitað ágreiningur um að nýting auðlinda eigi að vera „einkaréttur“ – sem erfist milli kynslóða, en ekki bara um tímabindingu. Sá ágreiningur kristallast í yfirgnæfandi stuðningi almennings við auðlindaákvæði „nýju stjórnarskrárinnar“, sem stjórnvöld hunsa með öllu, af augljósum ástæðum: peningastyrkir frá hagsmunaaðilum stjórna stefnunni.
 
Í öðru lagi er merkilegt að flokkur sem segist í ræðu og riti byggja tilveru sína á (viðskipta)frelsi skuli styðja og berjast með kjafti og klóm fyrir einokun á nýtingu aðeins einnar auðlindar, en alls ekki annarra. Skýringin á því er nokkuð augljós: peningastyrkir frá hagsmunaaðilum stjórna flokknum.
 
Í þriðja lagi að VG og Framsókn skuli forsmá eigin stefnu til að viðhalda ógeðfelldu stjórnarsamstarfi og framferði Samherja. Skýringin á því er augljós: Peningastyrkir frá hagsmunaaðilum stjórna flokkunum.
 
Í fjórða lagi er merkilegt og upplýsandi um tengsl „Samherjastjórnarinnar“ við Samherja að tilgangur afsökunarbeiðninnar skuli vera að bæta stöðu Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar – enda sama „skæruliðadeild“ almannatengla að baki báðum aðilum, fjármögnuð af hagsmunaðailum.
 
Í fimmta lagi er upplýsandi að benda á að VG þurfi „að taka upp fyrri stefnu“ ef „landsliðseinvaldurinn“ kysi að velja ekki sama gamla gengið í liðið eftir kosningar. Á því eru engar líkur, því peningastyrkir frá hagsmunaaðilum stjórna flokknum – þó einvaldurinn þykist ekki skilja orðið „hagsmunaaðili“.

Þetta er meira en lítið ógeðfellt, allt saman.

„…varðstaða um sérhagsmuni.“

Það er erfitt að skilja hvers vegna stjórnmálaflokkar, sem gefa sig út fyrir að vinna að almannahagsmunum, berjast með kjafti og klóm gegn yfirráðum almennings yfir sjávarauðlindinni og úthlutun á tímabundnum nýtingarrétti á henni. Það er þó svo sjálfsagt, einfalt og auðskilið að tímabundinn nýtingarréttur, burtséð frá því gjaldi sem nýtingarrétturinn væri seldur á, þjónar hagsmunum almennings en ótímabundinn, arfgengur nýtingarréttur sem verið er að reyna að koma á endanlega um aldur og ævi gerir það ekki, heldur sérhagsmunum fárra.

Það má segja að afstaða Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Miðflokksins komi ekki á óvart, enda þessir flokkar þekktir að því að vinna fyrst og fremst að sérhagsmunum, þegar almannahagsmunir og sérhagsmunir rekast á. Hins vegar kemur það á óvart að Vinstrihreyfingin grænt framboð skuli vera svo grímulaus sérhagsmunagæsluflokkur fyrir hina  fámennu, ofurríku auðklíku Íslands og raun ber vitni – í ljósi fagurgala flokksins á fyrri árum um velferð okkar „minnstu bræðra og systra“.

Þorsteinn Pálsson skrifar góða grein í Fréttablaðið í dag um auðlindamálin og vekur athygli á því að í frumvarpi umhverfisráðherra Vg um hálendisþjóðgarð komi fram skýrt og skorinort „að óheimilt sé að reka atvinnustarfsemi í Hálendisþjóðgarði án þess að gerður sé tímabundinn samningur um slíka starfsemi“ og jafnframt að um þetta virðist ríkisstjórnarflokkarnir vera algjörlega sammála, þó þeir deili um flest annað í frumvarpinu.

„Tímabinding réttinda er“, í lýðræðisríkjum, „meginregla þegar stjórnvöld úthluta takmörkuðum gæðum til einstaklinga eða félaga þeirra til hagnýtingar“, segir Þorsteinn og bendir á að þetta gildi hér á landi um orkuframleiðslu, nýtingu auðlinda í jörðu og um fiskeldi.

Á sama tíma og Vg leggur fram frumvarp um tímabindindingu nýtingarréttar sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar á hálendinu telur flokkurinn „nauðsynlegt að Alþingi hafi svigrúm til þess að viðhafa sérreglu um nýtingu sjávarauðlinda í almennum lögum.“ Með allt öðrum hætti en öðrum sameiginlegum auðlindum.

Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir vilja alls ekki samþykkja auðlindaákvæði „nýju stjórnarskrárinnar“ er einmitt sú að það myndi taka það vald af Alþingi að úthluta nýtingu sjávarauðlindarinnar með almennum lögum til útvalinna, myndi setja bönd á sérhagsmunagæsluna.

Því „[t]ilgangurinn með stjórnarskrárbundnum takmörkunum á valdi Alþingis er einatt sá að tryggja jafna stöðu borgaranna og koma í veg fyrir hvers kyns mismunun.“

Það getur ríkisstjórnin alls ekki hugsað sér – og forsætisráðherra sem leiðtogi hennar, og formaður Vg, gengur því fram fyrir skjöldu með tillögum sínum að stjórnarskrárbreytingum. Allt til að verja sérhagsmunagæslu í sjávarútvegi gegn almannahagsmunum.

 

Kappið og umhyggjan

Í því þunnildi sem Fréttablaðið annars er leynist stundum feitmeti. Í dag gerir t.d. Sif Sigmarsdóttir að umræðuefni það sem hún kallar, eftir öðrum, „ferilskrárdyggðir“ og „líkræðudyggðir“ og ályktar réttilega að vonlaust sé að færa rök fyrir því „að stjórnandi í gjaldeyrismiðlun … sé þarfari þegn en starfsmaður í umönnun á elliheimili.“

Til að undirstrika þetta grípur augað eftir nokkrar flettingar framhjá opnuauglýsingum fyrirsögnin „Vertu ofurhetja í einn dag“ þar sem Anna Steinsen „hvetur landsmenn til að leggja sig enn frekar fram fyrir hönd þeirra sem minna mega sín.“

Venjulega er hugtakið ‘ofurhetja’ tengt fyrrnefndum ‘ferilskrárdyggðum’, skemmst er að minnast ‘útrásarvíkinga’ sem þáverandi forseti lofaði og bar á höndum sér, og óbilandi trú margra á okkar helstu gróðapunga, þó ekki séu vandir að meðulum, s.s. mútum og aflandsbraski.

Hin fleygu einkennisorð íþróttahreyfingarinnar – „Hærra, lengra, hraðar“ – stjórna um of öllu samfélaginu. Þó hóflegur keppnisandi sé góður þá er krafan um stöðugan, óheftan vöxt að sundra því sem við viljum kalla SAMfélag manna, hreinlega að gera út af við lífríki jarðarinnar.

Þegar að er gáð fer enginn hvorki hærra, lengra né hraðar án þess að standa á grunni, hvort sem það eru sjálfboðaliðar undir starfi íþróttahreyfingarinnar eða skólakerfi, velferðarkerfi og aðrar sameiginlegar auðlindir undir framgangi „athafnamanna“ og ‘gróðapunga’.

Það er fegurðin í umhyggjunni sem einhvers er verð en ferilskráin lítils virði á sjúkrabeði og í mótlæti.Séra Friðrik hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: „Látið kappið ekki bera fegurðina ofurliði“.

 

Af Hálendisþjóðgarði

Hálendisþjóðgarður – Stórkostlegt tækifæri eða stórhættuleg árás á land og lýð?

Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum undanfarið um stjórnar-frumvarp umhverfisráðherra um Hálendisþjóðgarð, skárra væri það. Skiptist þar að vonum í tvö horn – og eru höggin látin dynja. Hvorug fylkingin hefur enn veitt hinni rothögg, þó viljann skorti ekki. Það varð ekki til að efla vitræna umræðu um málið í samfélaginu að forseti Alþingis skyldi missa stjórn á skapi sínu og tala um að „örlítill grenjandi minnihluti“ héldi í gíslingu þessum síðasta lífsbjörgunarhring Vinstri grænna um að koma einu stefnumáli í gegn.

En um hvað snýst þetta mál, sem allir eru að fara á límingunum yfir? Er þetta frumvarp nauðsynlegt framlag til náttúruverndar, varðveislu náttúru, sögu og menningarminja fyrir komandi kynslóðir, gegn óafturkræfri virkjana- og framkvæmdagleði – eða stórvarasöm aðför að sjálfræði sveitarfélaga, ferðafrelsi almennings um hálendið, frumkvæði og atvinnusköpun einstaklinga, að ekki sé talað um árás á bændur og búalið sem hefur öldum saman haft lítt skertan afnota- og umráðarrétt yfir afréttum? Stórkostlegt tækifæri eða stórhættuleg árás á land og lýð? Eða eitthvað þar á milli?

Af því lítið er að marka hávaðann úr bergmálshellum liggur beinast við að lesa þetta blessaða frumvarp, en það má finna á síðu Alþingis, hér

Tilgangur og markmið

Frumvarpið fjallar „um friðlýsingu og verndun náttúrufars, sögu og menningar innan Hálendisþjóðgarðs, um stjórnun, valdheimildir og rekstur þjóðgarðsins og skiptingu hans í rekstrarsvæði.“ (1. gr.)

Markmiðin eru að vernda „náttúru og sögu þjóðgarðsins … [g]efa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru, menningar og sögu … [s]tuðla að því að almenningur geti stundað útivist … [l]eitast við að efla samfélag og styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og á landinu öllu, meðal annars með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar á gæðum svæðisins“ (3.gr.). Ennfremur eru markmiðin að „[e]ndurheimta vistkerfi sem hafa raskast … [v]arðveita þjóðlendur í þjóðgarði og viðhalda virði þeirra“ (3. gr.).

Þjóðgarðinum er líka ætlað að vera „vettvangur umræðu og ákvarðanatöku um landnýtingu … [s]tuðla að rannsóknum og fræðslu … ýta undir aukinn skilning almennings“ … og „[s]tuðla að samvinnu og samstarfi við félög og sjálfboðaliða …“ (3. gr.)

Ekki verður séð að nokkur maður þurfi að setja sig upp á móti tilgangi og markmiðum frumvarpsins. Eða hvað?

Skipulag og valdheimildir

Hálendisþjóðgarður er ríkisstofnun“ og „fer sérstök stjórn skipuð af ráðherra“ með stjórn hans. „Forstjóri … framfylgir stefnumótun og áætlunum … stjórnar … og ber ábyrgð á stjórnun og rekstri“ (6. gr.). Hann „skal vera í ríkiseign“ nema annað sé talið hentugra og um það „náist samkomulag við landeiganda“… . Heimilt er að friðlýsa land „með samþykki landeiganda“ og um friðlýsinguna skal gerður „samningur milli ráðherra og landeiganda“ þar sem fram kemur „hvaða landnýting er heimil“… (4. gr.).

Ríkissjóði er heimilt „að kaupa fasteign, mannvirki og nytjaréttindi“ og hálendisþjóðgarði er „heimilt … að taka eignarnámi land, mannvirki og réttindi til að framkvæma friðun“… Eignarnám, kaup og bótaréttur eru háð „almennum reglum“ og takmörkunum í lögum (5. gr.).

Þarna er strax kominn fram ásteitingarsteinn. Þrátt fyrir fögur orð um samninga og samþykki landeigenda er eignarnámsheimild væntanlega þyrnir í augum og fyrsti vísir að þeim pirringi sem lýsir sér í athugasemdum eins og „ríkisbákn“, „ofríki ríkisvaldsins gegn almennum borgurum“ að ekki sé talað um hið landlæga vantraust á því að ríkisstofnun gæti hagsmuna þegnanna fremur en sjálfs sín. Hins vegar liggur það auðvitað fyrir að eignarnámsheimildir eru ekki uppfinning umhverfisráðherra við samningu þessa frumvarps.

Varðandi landnýtingu segir nánar í frumvarpinu að „[h]álendis-þjóðgarður, að fenginni tillögu viðkomandi umdæmis-ráðs, veitir leyfi til nýtingar lands og landsréttinda innan þjóðgarðsins“, samkvæmt ákvæðum laga, „í stað sveitarstjórnar“ og er heimilt að „semja um endurgjald vegna afnota“ þeirra sem heimilaðar eru (21. gr.). „Hefðbundin landnýting, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hrein-dýraveiði og veiði í ám og vötnum, er rétthöfum heimil“, innan ramma laga „og að nýtingin sé sjálfbær“ (22. gr.). Gjaldtaka er heimil fyrir veitta þjónustu, gistingu, leyfi vegna viðburða eða verkefna. Heimilt er líka að „takmarka fjölda aðila sem stunda tiltekna atvinnutengda starfsemi … eða þeirra sem fá leyfi til nýtingar lands og landsréttinda að loknu hlutlægu mati og vali á umsækjendum. Gjöldum „skal ráðstafað til að mæta kostnaði við vinnslu og afgreiðslu umsókna, rekstur og þjónustu, uppbyggingu og viðhald innviða og eftirlit með dvalargestum og rekstraraðilum innan marka þjóðgarðsins og á starfsstöðvum hans“ (32. gr.).

Hér kemur eitruð pilla: „í stað sveitarstjórnar“. Með frumvarpinu er sem sagt vald til að veita leyfi til að nýta land og gæði innan marka þjóðgarðsins, sem þau nú hafa á sínum afréttum, tekið af sveitarstjórnum. Annað í þessu ætti ekki að valda deilum; sveitarstjórnir, og landeigendur eftir atvikum, hafa væntanlega nú þegar vilja og hag af því að takmarka aðgengi með einhverjum hætti, bæði fjölda gesta og aðila sem stunda ferðaþjónustu eða aðra atvinnustarfsemi, taka gjald fyrir veitta þjónustu og passa upp á „sjálfbæra nýtingu“. Þarna er skýrt að gjöld skuli notuð til innri uppbyggingar í þjóðgarðinum, sem ekki veitir af. Þegar stunda sveitarfélögin umfangsmikla gjaldtöku af t.d. hestaferða-mönnum á hálendinu, ferðir þeirra eru „fjöldatakmarkaðar“ við gistipláss í skálum, og ýmsar fornar reið- og þjóðleiðir eru háðar takmörkunum af ýmsu tagi, svo nærtækt dæmi sé tekið. Sveitarfélögin leigja rekstur smalaskála og girðingarhólfa, til einstaklinga. En sem sagt: Nú á „ríkisbáknið“ að taka yfir stjórnun á þessum leyfisveitingum og aðgengistakmörkunum – og það stendur þversum í koki hreppsnefnda og búaliðs.

Einnig fer það fyrir brjóstið á sveitarstjórnum að þrátt fyrir meirihluta sveitarfélaganna í stjórn og umdæmisráðum þurfi þær með þessum lögum að deila valdi yfir „eigin afréttum“ með öðrum sveitarstjórnum. Tungnamenn, Hreppamenn, Laugdælir, Grímsnesingar, Skeiðamenn og Flóamenn þyrftu til dæmis að vera sammála og standa saman um aðgerðir á Kili, í Kerlingarfjöllum eða við Skjaldbreið, í stað þess að hver hreppur um sig geti tekið sínar ákvarðanir í friði fyrir öðrum, eins og nú er í pottinn búið. Um þetta er auðvitað hægt að deila og þegar sveitarstjóri Bláskóga-byggðar viðraði þessa skoðun í útvarpsviðtali, kallaði einhver þetta „þúfnaviðhorf“ – þ.e. að engum öðrum en Tungnamönnum komi það við hvað gert er á meginhluta lands frá Gullfossi að Hveravöllum. Það er skiljanlegt að sveitarstjórnir berjist fyrir eigin hagsmunum, ekkert síður en jeppakallar eða hestaferðaleigur. En á móti kemur það sjónarmið að örfáir hreppsnefndarmenn eigi ekki að geta ráðskast með öræfin að eigin geðþótta, jafnvel þó þeir hafi verið kosnir í lýðræðislegum kosningum. Til þess eru hagsmunir of stórir og víðtækir. Öllum landsmönnum koma öræfin við. Um það á ekki að þurfa að deila.

Um þetta segir að auki að stjórn þjóðgarðsins eigi að „móta stefnu fyrir atvinnutengda starfsemi innan þjóðgarðsins“ og með henni „leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi“ í nágrenninu. Allir kátir með þetta, ekki satt? En í kjölfarið segir að óheimilt sé „að reka atvinnutengda starfsemi í Hálendisþjóðgarði án þess að gerður sé tímabundinn samningur“ og ráðherra á að setja í reglugerð ákvæði „um slíka starfsemi og tímalengd samninga.“

Yfir þessu er kvartað, ekkert sé hægt að gera án þess að beðið sé eftir samningsgerð og leyfum í óratíma, fyrir jafnvel smæstu viðvikum, á leið erindis í gegnum völundarhús ógurlegs og óvinveitts stjórnunarbákns. Undir má taka að þetta ferli mætti vera liprara.

Stjórn

Í stjórn Hálendisþjóðgarðs sitja 11 fulltrúar, þar af 6 fulltrúar sveitarfélaga og 1 fulltrúi frá hverjum eftirfarandi aðila; útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, bændasam-tökum, ferðaþjónustusamtökum og formaður skipaður af ráðherra. „Ef rekstrarsvæðum þjóðgarðsins er fjölgað … fjölgar fulltrúum sveitarfélaga í stjórn … sem því nemur“ (8. gr.). Stjórn er ætlað að hafa umsjón með, móta stefnu, hafa yfirumsjón með gerð tillagna um t.d. verndaráætlun og atvinnustefnu, bera ábyrgð á rekstri, samræma starf mismunandi svæða og hafa eftirlit með framkvæmd reglna (9. gr.).

 

Hálendisþjóðgarði er skipt í a.m.k. sex rekstrarsvæði“ en heimilt er að fjölga þeim, „og skal þá fulltrúum sveitarfélaga í stjórn þjóðgarðsins fjölgað sem því nemur“ … en rekstrarsvæðin eru „sjálfstæð rekstrareining“ undir stjórn umdæmisráða, skipuðum af ráðherra til fjögurra ára í senn. Í umdæmisráðum eru 9 fulltrúar, þar af fimm „tilnefndir sameiginlega af sveitarfélögum“ á viðkomandi svæði, úr hópi sveitarstjórnarmanna eða sveitarstjóra, vel að merkja. Þar að auki er tryggt að öll sveitarfélög á viðkomandi svæði eigi sinn fulltrúa í umdæmisráði, þannig að ef sveitarfélögin eru fleiri en 5 þá verða sveitarstjórnafulltrúarnir í umdæmisráði fleiri en fimm, jafn margir sveitarfélögunum. Hinir fulltrúarnir í umdæmisráði eru tilnefndir, einn frá hverjum aðila, af útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, bændasamtökum, „nytjaréttarhafa“ (Landsvirkjun) og ferðaþjónustu-samtökum ( 11. gr.).

 

Af þessu má ráða að sveitarfélögin hafa bæði tögl og hagldir við stjórnun og stefnumótun þjóðgarðsins. Þau eru með hreinan meirihluta bæði í stjórn og í umdæmisráðum. Má það vera betra? Já, svo virðist vera, því umdæmisráðin, sem sveitarfélögin ráða í sameiningu, hafa það hlutverk fyrir sitt rekstrarsvæði

að gera tillögur um „stjórnunar og vernaráætlun“, vera til ráð-gjafar öðrum sem að koma (forstjóra, þjóðgarðsverði, stjórn) um náttúruvernd, veita umsagnir um atvinnustefnu o.fl., gera tillögu að fjárhagsáætlun „innan fjárhagsramma“ stjórnar, sinna samstarfi við „stofnanir, sveitarfélög, landeigendur og hagsmunaaðila um málefni rekstrarsvæðisins og fá slíka aðila til ráðgjafar við töku stefnumarkandi ákvarðana“, fjalla um umsóknir um nýtingarleyfi, undirbúa „samninga um atvinnu-tengda starfsemi á rekstrar-svæðinu“ og vinna með þeim „sem reka slíka starfsemi innan þjóðgarðs“ (12. gr.).

 

Vissulega gætu aðrir hagsmunaaðilar þurft að sætta sig við að lenda í „grenjandi minnihluta“ gagnvart ofurvaldi sveitarfélaganna í stjórn og umdæmisráðum, t.d. ferðaþjónustuaðilar og jeppakallar svo dæmi séu tekin. En eru þeir það ekki nú þegar, þar sem allt vald er á hendi sveitarstjórna, í samvinnu við forsætisráðuneytið, á núverandi skilgreindum þjóðlendum? Hver segir að samstarf sveitarfélaga og forsætisráðuneytis um þjóðlendur muni ævinlega vera það, þó samskiptin séu farsæl nú um stundir? Er ekki skemmst að minnast þess að sveitarfélög og landeigendur voru í bullandi átökum og málarekstri við ríkisvaldið um þjóðlendur? Fyrst nú er allt fallið þar í ljúfa löð, hver segir að það geti ekki einnig átt við um samskipti við Hálendisþjóðgarð, þegar fram líða stundir, þó brösugt verði í upphafi?

En þetta er ekki alveg svona einfalt. Í 15. grein um málsmeðferð kemur fram

að stjórn geti gert breytingar á tillögum umdæmisráðs, að fenginni umsögn þess, og að haft skuli „samráð við eigendur lands innan þjóðgarðsins, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila á svæðinu“ við þær breytingar. Einnig að tillaga að áætlun skuli „auglýst opinberlega og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en endanleg tillaga er borin undir ráðherra“. Vald ráðherra er ítrekað þannig að hann staðfesti tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun og geti gert breytingar á henni telji hann að hún fari í bága við lög eða reglugerð.

Þarna bætist við flækjustig: Umdæmisráð hefur lagt mikla vinnu í tillögur. Stjórn vill gera breytingar á tillögunum en ber fyrst að leita umsagnar umdæmisráðs, eiga samráð við landeigendur, sveitarstjórnir og hagsmunaaðila. Hvað gæti þetta ferli tafið framgang máls lengi? Og svo eftir dúk og disk, þegar öllu er til skila haldið, getur ráðherra, bara sisvona með einu pennastriki, ógilt alla fyrirhöfnina! Hér hringja viðvörunarbjöllur og full ástæða til að skoða þetta betur.

Meginstjórntækið

Meginstjórntæki Hálendisþjóðgarðs er „stjórnunar- og verndar-áætlun“, þar sem tilgreind skulu „markmið verndar, stefna stjórnar og leiðir til að framfylgja stjórnun og vernd“ … á einstökum svæðum … verndaraðgerðum, verndarflokkum, endurheimt vistkerfa, vöktun, landnýtingu, fræðslu, öryggismálum, mannvirkjagerð, stefnu stjórnar um staðsetningu og fyrirkomulag gestastofa og þjónustustöðva innan þjóðgarðs, samgöngum og öðrum innviðum á svæðinu. Þar skal fjallað um umferðarrétt almennings, aðgengi að svæðinu, not þess og takmarkanir sem gilda á einstökum svæðum“… sem einnig „ná til jaðarsvæða þjóðgarðsins“, hvaða almennu skilyrði „eru fyrir atvinnustarfsemi“ … og hvort / hvernig takmarka megi „atvinnutengda starfsemi“. Með stjórnunar- og verndaráætlun má líka setja skilyrði um það „hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að þær raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum, vatnafari, landslagi, víðernum eða menn-ingarminjum“ (14. gr.).

Stjórnunar- og verndaráætun hefur sem sagt víðtækt valdsvið, sem tekur til náttúruverndar, landnýtingar, upplýsingaskyldu og fræðslu, aðgengis og atvinnu-starfsemi. Þessu fagna margir, ekki síst því að komið sé á samræmdri stefnumörkun um hálendið, vernd náttúru, sögu og menningarminja á öræfum Íslands, en ekki sé stefnt út og suður, og undir mjög takmörkuðum hópi fólks komið hvað verður um þessi dýrmæti sem allir Íslendingar eigi bæði rétt og heimtingu á að fá að hafa áhrif á og njóta um aldir alda. Næg dæmi eru til sem gefa tilefni til að óttast einmitt það að stundargróði þeirra sem eru á dögum hverju sinni í hverju landshorni ráði för, fremur en meiri hagsmunir almennings. Aðrir líta málið öðrum augum og telja „heimamenn“ ætíð best til þess fallna að gæta að umhverfi sínu, náttúru og landsgæðum, enda hafi þeir sýnt það og sannað „undanfarið“ að þeir hafi og geti lyft grettistaki, t.d. við uppgræðslu. Enn aðrir meta öræfin aðeins í fjölda megavatta og jarðýta, eða sem leikvöll fyrir sjálfan sig.

Umgengni

Jarðrask og mannvirkjagerð er óheimil ef slíkar framkvæmdir stangast á við markmið þjóðgarðsins eða stjórnunar- og verndaráætlun hans og þeir sem „fara um Hálendisþjóðgarð og dveljast þar, svo sem vegna ferðalaga eða í atvinnuskyni, eru bundnir af stjórnunar- og verndaráætlun“ og lögum um náttúru-vernd (16. gr.).

 

Eins og gefur að skilja er bannað að „valda spjöllum eða raski“ þó vegaframkvæmdir sem „lúta ströngum skilyrðum um lágmarks-rask“ séu heimilar að fengnu leyfi yfirvalda þjóðgarðsins (17. gr.). Skýrt er að almenningur má ferðast um og dvelja í þjóðgarðinum, með almennum skilyrðum um umgengni, varúð og tillitsemi gagnvart „náttúru, menningarminjum og mannvirkjum“ og hlýðni við fyrirmæli starfsmanna. Ráðherra setur reglugerð um „dvöl, umgengni og umferð“ (18. gr.).

 

Ennfremur segir í 18. grein: „Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í Hálendisþjóðgarði er bannaður. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega svo fremi sem jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Í reglugerð sem ráðherra setur er heimilt að banna akstur vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum þjóðgarðsins allt árið um kring eða á tilteknum tímum ársins.“ Heimilt er að „setja skilmála um umferð loftfara“, gera skal grein fyrir öllum vegum sem aka má og tekið fram að tamarka má umferð „tiltekinn tíma ársins eða binda hana við tiltekna notkun, svo sem veiðar, smölun búfjár eða annarra landbúnaðarstarfa eða rannsóknir“.

Þessi ákvæði fara fyrir brjóstið á mörgum, sem óttast vald til að takmarka umferð og finnst vegið að ferðafrelsi sínu. Ekki verður samt séð að hér séu nein sérstök nýmæli. Nú þegar er utanvegaakstur bannaður, hálendisvegir eru iðulega lokaðir vegna aurbleytu eða ófærðar og ferðalangar í friðlöndum eru bundnir af reglum um umgengni á viðkvæmum svæðum. Engin ástæða er til annars en að slíkar umgengnisreglur séu í heiðri hafðar víðar, um allt hálendið. Bann við hrossa-rekstrum gegnum Þjófadali hefur verið í gildi árum saman svo dæmi sé tekið, og ekki að ástæðulausu. Það þarf ekki þjóðgarð til að banna ýmislegt, sem áður var gert, er ógleymanlegt og væri gaman að mega gera.

Þjónusta og eftirlit

Þjónusta við gesti þjóðgarðsins og upplýsingar eru veittar á meginstarfsstöðvum … og skal a.m.k. ein … rekin fyrir hvert rekstrarsvæði“. Einnig eru tilteknar gestastofur og þjónustustöðvar þar sem veitt er þjónusta og fræðsla um náttúruvernd. Stjórn ákveður staðsetningu og rekstarfyrirkomulag en ráðherra „er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um staðsetningu meginstarfsstöðva“ (24. gr.).

 

Á hverju rekstrarsvæði er „a.m.k. einn þjóðgarðsvörður sem ráðinn er af forstjóra“ og sinnir daglegum rekstri „í samráði við umdæmisráð og forstjóra“. Hann ber ábyrgð á fjárreiðum síns rekstrarsvæðis, fylgir ákvörðunum forstjóra og stjórn samkvæmt þeirri stefnu sem í gildi er, vinnur með og undirbýr fundi umdæmisráðs og hefur tillögurétt á fundum þess (13. gr.).

 

Starfsfólki er ætlað að „veita fræðslu og upplýsingar um öryggi gesta innan þjóðgarðsins“ og vera „lögreglu og öðrum björgunar- og viðbragðsaðilum til aðstoðar komi upp hættu- eða neyðarástand“ (19. gr.).

 

Þjóðgarðsverðir og landverðir annast eftirlit á sínu svæði og samskipti við lögreglu og önnur eftirlitsstjórnvöld vegna brota á lögum“ og reglugerðum, og „er heimilt að loka Hálendis-þjóðgarði eða einstökum svæðum“ og „vísa úr þjóðgarðinum hverjum þeim sem brýtur gegn ákvæðum laga …“ (25. gr.).

 

Einnig að „stöðva för fólks og farartækja … ef það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir brot á ákvæðum laga“ og stöðva tafarlaust „framkvæmd eða athöfn“ sem hafin hefur verið án leyfis“ eða talin er stafa af henni „yfirvofandi hætta eða verulegt tjón“ (28. gr.). Sömuleiðis að afturkalla leyfi, að undangenginni viðvörun, ef skilyrðum er ekki fullnægt (29.gr.).

 

Refsingar fyrir brot geta varðað „sektum eða fangelsi allt að tveimur árum“, gera má upptækt „ökutæki sem notað hefur verið við að fremja brot“ teljist spjöll á náttúru alvarleg eða sérlega vítaverð (30. gr.).

Við þessi ákvæði hafa verið gerðar tvenns konar athugasemdir fyrst og fremst. Sumir þola alls ekki að „ríkisbáknið blási út“ og sjá ofsjónum yfir kostnaði og fjölda starfa. Það er sjónarmið í sjálfu sér. Á móti kemur að landbyggðarfólk ætti að fagna fjölgun starfa í hinum dreifðu byggðum. Í stað þess að standa í því að flytja, og nauðga í sumum tilvikum, ríkisstofnunum „út á land“ eru augljós tækifæri í því að skapa ný störf, ekki síst störf fyrir háskólamenntað fólk, sem kvartað hefur verið yfir að ekki séu til staðar í fábreyttu atvinnulífi sveitanna, með þeim afleiðingum að unga fólkið flýr óðul feðranna og sest að „fyrir sunnan“, eða í útlöndum, þar sem starfsmetnaði þeirra er fremur fullnægt. Hálendiþjóðgarður getur vissulega orðið viðspyrna hvað þetta varðar og skapað fjölda starfa og tækifæra til atvinnu-sköpunar, fyrir hámenntaða sem aðra.

Hin hliðin á gagnrýninni varðar valdheimildir starfsliðsins. Heyrst hefur sú gagnrýni að landverðir séu dubbaðir upp í einhverskonar löggur sem geti stöðvað ferðir fólks, rekið það burtu og gott ef ekki handtekið. Að þjóðgarður verði einhverskonar lögregluríki þar sem engum sé vært nema undir hælnum á „eftirlitinu“. Auðvitað er alltaf hætta á því að manneskjur miklist yfir valdi og ofmetnist í búningi. En ég veit ekki betur en slíkt eftirlit sé þegar til staðar, og að landverðir séu upp til hópa greiðvikið fólk sem nýtur þess að leiðbeina og aðstoða ferðalanga. Það er ekki fyrr en ferðalangurinn fer yfir strikið að „höfð eru afskipti“ af honum, enda nauðsynlegt. Hver vill að hálendið sé eftirlitslaust og að ekki sé „tekið á“ umhverfissóðum og spjöllum þeirra?

Jaðarsvæði – virkjanaframkvæmdir

Skilgreina skal í reglugerð jaðarsvæði, sem teljast utan friðlýsts svæðis og verndarflokka, og þar „er heimilt að starfrækja virkjanir og háspennulínur sem eru í rekstri við stofnun hans og gera breytingar á þeim“. Ef jaðarsvæði liggja „nálægt þjóðgarði“ má setja um þau ákvæði í reglugerð og stjórnunar- og verndaráætlun. Nýjar virkjanir má starfrækja á jaðarsvæðum, en aðeins þær sem þegar hafa verið skilgreindar í nýtingarflokki þegar lög um hálendisþjóðgarð taka gildi. „Ef virkjunarkostur er að undangengnu mati fluttur í orku-nýtingarflokk úr biðflokki er heimilt að gera ráð fyrir viðkomandi virkjun á jaðarsvæði“, hafi Alþingi samþykkt þá breytingu. Aðrar nýjar virkjanir eru óheimilar, sem og „nýjar háspennulínur í lofti“ (23. gr.).

Þetta auðvitað fer fyrir brjóstið á „virkjanasinnum“. Um virkjanir hefur þjóðin deilt í áratugi, ef ekki aldir. Hér er þó augljóslega reynt að fara bil beggja með því að skilgreina jaðarsvæði og hleypa áfram þeim virkjanakostum sem þegar hafa verið skilgreindir í nýtingarflokki, og jafnvel ef kostur er fluttur úr biðflokki í nýtingarflokk skv. samþykkt Alþingis. Ekki verður því séð að um sé að ræða eitthvert „náttúruverndarofbeldi gegn virkjunum, atvinnusköpun og framförum í þessu landi“ eins og mesta virkjanaöfgaliðið heldur fram. Hér er gefinn töluverður slaki í áframhaldandi virkjanaframkvæmdum, þó ekki sé gert ráð fyrir nýjum, ómetnum svæðum undir virkjanir.

Ágreiningur og kærur

Ákvarðanir og ágreining má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem fellir endanlegan úrskurð (26. gr.) Heimilt er að krefjast sanngjarnra úrbóta með hæfilegum fresti vegna náttúru-spjalla, í samráði vði byggingafulltrúa ef um leyfisframkvæmd er að ræða, og ef ekki er orðið við tilmælum má leggja á „dagsektir allt að 500.000 kr. þar til úr er bætt“ og að láta vinna verk á kostnað viðkomandi ef fyrirmæli eru vanrækt (27. gr.).

 

Lög um Hálendisþjóðgarð fella úr gildi lög um Vatnajökuls-þjóðgarð en starfsfólk hans hefur forgang um störf í nýjum þjóðgarði. Ákvæði laganna hafa ekki áhrif á „gildi þeirra skipulags-áætlana sem settar hafa verið fyrir landsvæði innan Hálendis-þjóðgarðs fyrir gildistöku“ laganna (Ákvæði til bráðabirgða).

Lokaorð

Eðlilegt er að allir „hagsmunaaðilar“ hafi hátt í umræðunni, til að reyna að vernda eigin hagsmuni gagnvart lagasetningu af þessu tagi. Þetta á jafnt við um sveitar-félög, bændur, ferðaþjónustufyrirtæki, frístundafélög og einstaklinga, alla þá sem telja sig hafa hagsmuni af því að aðgengi að og not af hálendinu og öræfum Íslands sé í samræmi við eigin þarfir. Þetta mál varðar alla Íslendinga, ekki bara beina hagsmunaaðila eða nærsveitunga þjóðgarðs.

Háværastar hafa verið raddir sem vilja tryggja eigið skipulagsvald og umráðarétt. Hátt tala líka þeir sem eru í prinsippinu á móti ríkisrekstri og opinberum umsvifum, hinu „ósveigjanlega ríkisbákni“ og útgjöldunum sem fylgja úr ríkissjóði, hinni „óhjákvæmilegu sóun“ í ríkisrekstri. Ekki megi hrifsa af heimamönnum það vald að hafa áhrif á eigið nærumhverfi, enda tryggi þeir bestu og hagkvæmustu stjórnunina.

Undir flest af þessu má taka, en benda jafnframt á í leiðinni að lýðkjörnir fulltrúar heimamanna, sveitarstjórnirnar, hafa bæði tögl og hagldir í yfirstjórn þjóðgarðsins. Sá böggull fylgir að vísu skammrifi að sveitarstjórnirnar verða að vinna saman að hagsmunum sínum. Er það til of mikils mælst? Eða hyggjast þau leggjast í skotgrafir gamals hrepparígs? Augljóst er einnig að meginástæðan fyrir þungri stjórnsýslu og þessu „ríkisbákni“ er vilji höfunda til að koma til móts við sem flesta; að tryggja eins og kostur er að allir geti komið sínum sjónarmiðum að við stefnumótun og ákvarðanir. Vissulega væri einfaldara og skilvirkara að einn réði. En viljum við það? Viljum við fámennis eða klíkustjórnun yfir fjöregginu?

Sveitarfélögin kvarta sérstaklega undan því að það sé „ólýðræðislegt“ að aðrir en kjörnir fulltrúar komi að ákvarðanatöku, og legga til að ýmis félagasamtök geti haft áheyrnarfulltrúa í umdæmisráðum og í stjórn en ekki fullgilda þátttakendur. Um þetta má deila og halda því fram á móti að því fleiri sem koma að ákvörðunum, því lýðræðislegri sé niðurstaðan. Það hefur greinilega verið niðurstaða frumvarps-höfunda. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru taldar lýðræðislegasta aðferðin til að greiða úr málum. Í þeim taka samt ekki þátt kjörnir fulltrúar, aðeins almennir borgarar.

Sú skoðun hefur verið viðruð að ómetanlegt framlag sjálfboðaliða við umbætur á hálendinu sé í hættu með stofnun þjóðgarðs. Bændur og búalið, sem hefur grætt upp örfoka land á afréttinum sínum, í sjálfboðavinnu og með ærnum tilkostnaði úr eigin vasa, svo dæmi sé tekið, muni ekki með gleði í hjarta leggja slíkt af mörkum í ríkisvæddum þjóðgarði, enda muni þeir heldur ekki geta stjórnað því hvaða umbótaframkvæmdir eru brýnastar og þeir tilbúnir að leggja á sig að koma á koppinn. Ekki megi lyfta litlafingri nema skv. samningi. Á þessu er raunveruleg hætta.

Á móti er rétt að spyrja hvort sjálfboðaliðar þurfi ekki nú þegar samþykki yfirvalda fyrir slíkum verkefnum? Vaða menn núna upp á afrétt án vitneskju og samþykkis sveitarstjórna, byggingafulltrúa og skipulagsyfirvalda? Það kæmi mér á óvart ef svo er. Og þegar að er gáð myndu það vera sömu aðilarnir sem hefðu það hlutverk að taka afstöðu til umbótaverkefna af ýmsu tagi eftir stofnun þjóðgarðs; jú, rétt til getið, lýðræðislega kjörið sveitarstjórnarfólk. Þannig að ákvörunarvaldið færist ekki ýkjalangt í burtu. Svo má spyrja sig hver ástin og umhyggjan er fyrir afréttinum sínum, hálendinu og öræfum Íslands, ef það skiptir mestu máli hvert hið stjórnsýslulega yfirvald er, fremur en þörfin fyrir umbætur og viljinn til að leggja sitt af mörkum fyrir náttúruna og landið.

Sumt í þessu frumvarpi þarf að laga til. Það er ekki ofsögum sagt að stjórnsýslan í kringum þjóðgarðinn er þung í vöfum og hægt að benda á mörg dæmi um að tillögur hagsmunaaðila og heimamanna, sem lagðar væru fram eftir samráð út og suður, má reka öfugar ofan í þá með einu pennastriki af ráðherra. Það styrkir að vísu stöðu hagsmunaaðila, og sveitarfélaganna sérstaklega, að vera ráðandi á tveimur stjórnsýslustigum, bæði í umdæmisráðum og í stjórn þjóðgarðsins. Það þyrfti einbeittan „brotavilja“ af hálfu ráðherra að ganga þvert gegn tillögum sem hafa hlotið slíka tvöfalda blessun. Ansi hreint einbeittan yfirgang, sem varla væri hægt að jafna til annars en valdníðslu og lögbrota dómsmálaráðherra undanfarna ártatugi gagnvart dómstólum landsins.

Á það má að lokum benda að margir þeir sem nú tala hvað hæst um ofríki og yfirgang ríkisvaldsins í þjóðgarðsmálinu eru alveg sannfærðir um að ríkið skuli eitt ráðskast með aðra „þjóðlendu“: hafið í kringum landið, og úthluta þar gríðarlega verðmætum nýtingarrétti til afar takmarkaðs hóps fyrir lítið – og á kostnað „heimamanna“ í hverjum firði, sem sitja fyrir vikið verklausir og gjaldþrota, og heilu byggðarlögin í sárum. Ekki hafa sveitar-félögin neitt skipulagsvald á þeirri þjóðlendu, hvað þá félagasamtök eða einstaklingar. Og margir þeir sem berjast harðast fyrir rétti og völdum heimamanna gegn frumvarpi um Hálendisþjóðgarð berjast jafn einbeittir blóðugri baráttu gegn rétti heimamanna og atvinnufrelsi eistaklinga við sjávarsíðuna. Sem er merkilegt í sjálfu sér.

Frumvarp um Hálendisþjóðgarð þarf að laga. Það verður örugglega gert í meðförum þingsins. En að það sé óalandi og óferjandi er fráleitt. Ég get því hvorki skipað mér í hóp með þeim sem telja að málum sé miðlað nóg, jafnvel of, og óhætt sé að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir, né í hóp hins grátgjarna minnihluta – hreint alls ekki.