Af félagshyggju og pólitísku ati

Það hefur lengi verið ljóst að helstu valdaflokkarnir í íslenskum stjórnmálum, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafa verið mér þyrnir í augum. Fyrir því eru einfaldar og augljósar ástæður, sem vikið verður að síðar.

En þegar nánar er skoðað finn ég góðan málefnalegan hljómgrunn með þessum flokkum, og ýmsum öðrum dregnum úr sama sauðakofa. Mín pólitík er einföld. Hún er félagslegs eðlis.

Og þar eru einmitt snertifletirnir við fyrrnefnd stjórnmálaöfl. Framsóknarflokkurinn hefur samvinnuhugsjónir opinberlega í sínum grundvallarplöggum og, a.m.k. fyrrum, skilgreindur sem „félagshyggjuflokkur“. Og þó í stefnuplöggum Sjálfstæðisflokksins fari lítið fyrir orðinu „félagshyggja“ en meira fyrir tali um „frelsi einstaklingsins“ er þar að finna frasa eins og „gjör rétt – þol ei órétt“, sem er prýðilegur frasi til að flagga og flestir ættu að geta sungið glaðhlakkalega, með sínu nefi. Þetta einkennilega „bann“ við notkun orðsins „félagshyggja“ í ræðu og riti innan Sjálfstæðisflokksins er einmitt það: einkennilegt. Vegna þess að flokkurinn, og fulltrúar hans, eru blessunarlega alveg sannfærðir í sinni félagshyggju; sennilega er flokkurinn „harðsvíraðasti“ félagshyggjuflokkur landsins, og jafnvel þó víðar væri leitað.

Frá upphafi vega, a.m.k. allan lýðveldistímann, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið iðnastur allra stjórnmálaflokka við að úthluta samfélagslegum gæðum með félagslegum hætti, og Framsóknarflokkurinn fylgir þar fast á hæla. Skiptir þá engu máli hvers kyns gæði um er að ræða: aðgengi að auðlindum þjóðarinnar, góðum byggingalóðum, bankastjórastöðum, kennara og skólastjórastöðum, embættum dómara, sýslumanna, lögreglustjóra, háskólaprófessora, ráðuneytisstjóra og forstjóra ríkisstofnana, ásamt almennum störfum í ráðuneytum og ríkisstofnunum. Við þetta má bæta félagslegri úthlutun bankalána, varnarliðseigna, heildsöluleyfa, ríkisfyrirtækja stórra og smárra o.s.frv. o.s.frv. Það væri að æra óstöðugan að telja upp öll hin félagslegu góðverk þessara flokka.

Nú hefur Framsóknarflokkurinn aldrei reynt að þvo af sér hinn „félagslega“ samvinnustimpil, svo mér sé kunnugt, og hann því í góðri trú að framfylgja sínum hugsjónum. En Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar hefur aldrei viljað, í hógværð sinni og feimni, kannast við það opinberlega að vera félagshyggjuflokkur, heldur lagt á það áherslu í ræðu og riti að frjálsir einstaklingar keppi um gæðin á eigin forsendum til að tryggja að hinir hæfustu njóti ávaxtanna. Segja má að eina félagshyggjan sem flokkurinn er tilbúinn að viðurkenna sé sú að hinir vanhæfari muni ævinlega og náðarsamlegast njóta góðs af iðju hinna hæfari, hvort sem er „með eða án leyfis“ eða hvort þeir verðskulda það eður ei. Þessi félagshyggja hefur verið kölluð „brauðmolakenning“ og er vissulega göfug félagshyggja, þó hún sé fremur afleidd en sjálfsprottin. Slík félagshyggja er líka í algerri mótsögn við raunverulegt markmið og hjartalag flokksmanna, þar sem logar hin einlæga og gefandi félagshyggja.

Ég, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn erum sem sagt sammála um að það sé bæði eðlilegt og sjálfsagt að úthluta ýmsum samfélagsgæðum á félagslegum grunni, en ekki einvörðungu eftir hörðum samkeppnissjónarmiðum þar sem fjárhagslegur styrkur, „réttu samböndin“, fjölskyldu- og vinatengsl óhjákvæmilega skekkja samkeppnisstöðuna umtalsvert með tilheyrandi auknum ójöfnuði og óréttlæti.

Í gegnum tíðina hefur það komið æ betur í ljós að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum finnst eðlilegt og sjálfsagt að fjárhagslegur styrkur, „réttu samböndin“, fjölskyldu- og vinatengsl ráði líka við hina félagslegu úthlutun gæðanna og að réttu samböndin og tengslin séu staðfest með flokksskírteinum. Í hinu „pólitíska ati“ við félagslega úthlutun gæða hefur frasinn „gjör rétt – þol ei órétt“ alveg gleymst!

Slík aðferð við félagslega úthlutun samfélagsgæða heitir spilling. Henni ber alltaf og alls staðar að hafna og berjast gegn með oddi og eggju, samkvæmt mínum skilningi. Þess vegna get ég ekki stutt þessa flokka, þrátt fyrir okkar sameiginlegu almennu hugmynd um félagslega úthlutun samfélagsgæða, og á bágt með að skilja að aðrir geti fremur gert það en ég.

Af sömu ástæðu get ég ekki heldur stutt stjórnmálamenn og flokka sem horfa gegnum fingur sér á „félagshyggju“ Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins, taka þátt, snúa að henni blinda auganu, eða hvítþvo hana með sáttmála.

Félagshyggju fylgi jöfnuður, réttlæti og frelsi. Það er ekki flókið.

 

Vigdís Finnbogadóttir 90 ára

Vigdís Finnbogadóttir, fyrsta konan í víðri veröld sem varð þjóðkjörinn forseti, er 90 ára í dag.

Vigdís kveikti vonarglóð

sem varð að stóru báli:

Syngjum landi ástaróð,

öllu höfnum prjáli.

Klafa brjótið, kannið slóð,

konur, beitið páli!

Saman tali þjóð við þjóð

þýðu friðarmáli.

 

Áramótin 2019-2020

Þetta var aldeilis úrvalsgott ár þegar litið er inn á við – á fjölskylduna. Allir við heilsu og hamingju, þó auðvitað hrjái einn og einn einhverjir kvillar, eins og gengur. En þegar hismið er greint frá kjarnanum þá búum við hjónin við sannkallað barna- og fjölskyldulán. Það er ekki sjálfgefið að yngsta barnið af sex nái þrítugsgsaldri án stóráfalla í fjölskyldunni. Fyrir það ber að þakka. Og vona það besta. Elska og njóta.

Undirritaður komst loks í langþráða aðgerð; hnjáliðsskipti, og allt gengur í framhaldinu að vonum skv. bestu manna yfirsýn. Vonir standa til að ganga og hreyfing verði í boði næstu árin með þvífylgjandi heilsueflingu. Annars er mesti spenningurinn nú hvort nýja hnéð þoli ekki örugglega útreiðar a.mk. jafnvel, og helst betur, en hið gamla og ónýta gerði ágætlega. Anna María er stálslegin; þó hún bíði líka eftir hnjáliðsskiptum á báðum og sé fyrir vikið hætt að hlaupa, þá gengur hún úti í náttúrunni af miklum móð, og lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna. Við þurftum að láta tíkina Freyju fara á vit feðra sinna og mæðra og söknuður er að henni, elskulegt og yndælt kvikindi.

Úr samfélaginu eru verri tíðindi. Sívaxandi misskipting í okkar ríka samfélagi með alvarlegum afleiðingum – eins og eilífum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu – er mikið áhyggjuefni. Og sífellt koma upp á yfirborðið ný og ný spillingarmál. Allir gerðu sér svo sem grein fyrir viðvarandi spillingu: hið gamla helmingaskiptakerfi stærstu stjórnmálaflokkanna var grundvallað með fullveldinu og ól þá spillingu sem hefur verið landlæg allar götur síðan; og þá meðvirkni sem byggst hefur upp meðal þjóðarinnar. Allt of margir hafa litið, og líta enn, undan eða með velþóknun á skattsvikara og gráðuga undanskotsmenn – „vinnukonuútsvar“ stórgróssera í gegnum tíðina, aflandsreikninga nútímans – og náin faðmlög stjórnmála og viðskiptalífs sem kristallast í formönnum tveggja stjórnmálaflokka, beggja fyrrum forsætisráðherra, og svo núverandi sjávarútvegsráðherra. Að ekki sé talað um dómstólana og allt hitt svínaríið.

Vonbrigði ársins eru Vinstri grænir. Björt framtíð og Viðreisn slitu stjórnarsamstarfi þegar spilling dómsmálaráðherra (tveggja fremur en eins) Sjálfstæðisflokksins opinberaðist. Vinstri grænum dettur slíkt ekki í hug en láta sér vel líka að innanbúðarmaður í Samherja, gerspilltu fyrirtæki, sé ráðherra sjávarútvegsmála. Þeir láta sér vel líka að vinna með manni sem nýtti sér innherjaupplýsingar og seldi í „sjóði 9“ korter í hrun og sagði um þann gjörning:  „…ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til …“. Auk þess að sitja á skattaskjólsupplýsingum og fá lögbann dæmt á þann fjölmiðil sem ætlaði að birta upplýsingarnar fyrir kosningar. Svo eitthvað sé nefnt. Í ofanálag hefur Vgf svikið öll kosningaloforð sín er vörðuðu jöfnun lífskjara. Skömm að því.

Sendi „hugheilar“ óskir um gleðilegt nýtt ár.

Gleði og farsældar fjölskyldan naut,
fyrir það bljúgur nú þakka.
Hamingja, ekki neitt óþarfa skraut,
til áranna næstu ég hlakka.

 

Sparibúið á spillingarbraut
speglar sig broshýrt á þingi
viðskiptaliífið og valdstjórn, með graut
sem vonar að þjóðin svo kyngi.

 

Nú árið er liðið og engu ég skaut
upp hér að þessu sinni
femur en áður. Frá mér nú þaut
ein flísin af ævinni minni.

 

 

 

Nýja íslenska stjórnarskráin

Ágætu Selfyssingar og nærsveitamenn!

Jólagjöfin í ár er bókin „Nýja íslenska stjórnarskráin“.

Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996, ritar formálsorð þessarar fallegu bókar, sem hefur að geyma nýju stjórnarskrána ásamt ítarlegum sögulegum inngangi eftir Þorvald Gylfason.

Hægt er að nálgast bókina hjá undirrituðum á einfaldan hátt, og á mjög hagstæðu verði, aðeins 1.200 kr.

Svona skal fara að:

  1. Greiða inn á reikning Stjórnarskrárfélagins (Upphæð = fjöldi eintaka x 1.200 kr.). Skýring: “stjórnarskrá” (kt. 5908102230) (reikningsnúmer: 0513-14-403456)
  2. Senda kvittun í greiðsluferlinu á netfangið mitt: gylfithorkelsson@gmail.com
  3. Hringja í mig í síma 895-8400 og við komum okkur saman um hvenær og hvar ég afhendi pöntunina.

Kveðja,

Gylfi Þorkelsson

Klausturbænir íslenskrar stjórnmálamenningar

Stórviðrið sem geisar í dag í fjölmiðlum og netheimum mun vonandi hafa afleiðingar. Vonandi verður dreginn af því lærdómur. Engu breyta þó viðbrögð viðkomandi einstaklinga; þeim er ekki við bjargandi. Það sem skiptir raunverulegu máli er annars vegar hvort þingheimur allur og hins vegar þjóðin læri sína lexíu.

Halda áfram að lesa

Slumpum bara í þá uppbótum …

Ég var að kíkja í nýgerðan kjarasamning FF og FS við Ríkið. Ekki er þar, fremur en vant er, að sjá kennimörk tiltölulega nýs menntamálaráðherra sem lýst hafði yfir bráðri nauðsyn þess að stórbæta kjör kennara. Bjóst svo sem varla neinn við því að nokkur innistæða væri fyrir þeim orðum. En staðfestist svart á hvítu í þessari samningsnefnu.

Halda áfram að lesa

Þögn er samþykki

„Með þögninni er tekin afstaða með gerandanum“, segir hin hugrakka Embla Kristínardóttir, sem nauðgað var á fermingaraldri af tvítugum íþróttamanni.

Þetta er bitur sannleikur sem á við allt ofbeldi. Skólabörnum er innrætt að rangt sé að standa hjá og þegja þegar þau verða vitni að einelti. Því með þögn og aðgerðarleysi er tekin afstaða með ofbeldinu.

Halda áfram að lesa

Baráttan um Ísland

„Þetta er baráttan um Ísland“, sagði Jóhanna Sigurðardóttir í stórfróðlegri heimildamynd í sjónvarpinu um daginn. Það var við hæfi að þessi setning hljómaði einmitt nú, þegar verið er að leggja lokahönd á enn eina sölu landsins í hendur spilltra auðkýfinga. Og í fréttunum „mátti heyra jódyn“ [… ] og sjá „mann og konu ríða með margt hesta ásamt sveinum moldargötuna inn vellina í átt til Kaldadals […]. Þau voru bæði dökkklædd og hestar þeirra svartir.“

Halda áfram að lesa

Er ekkert að gera í fangelsum?

Heilmikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um stöðu mála í fangelsum landsins. Þetta er allt frá vönduðum úttektum, viðtölum við fanga, starfsfólk fangelsanna og forstöðumenn, yfir í lítt rökstudda sleggjudóma, eins og gengur og gerist. Fagna ber áhuga á málefnum fanga, aukinni umræðu um aðstæður þeirra og leiðir til úrbóta.

Halda áfram að lesa