Eyðimerkuróráð

Þrammandi‘ í eyðimörk þrír,

af þorsta er hugur óskýr.

Svo líðanin batni

leita að vatni

en dropinn hjá guði er dýr!

 

Andinn í óráði dalar,
bara ímyndun þorstanum svalar.

Í sturlun þeir ná

stjörnur að sjá

og til þeirra himinninn talar!!!

 

Á kvöldgöngu kærustupar,

hún komin á steypirinn var.

Þau gönguleið breyta

og á gistihús leita

en vertinn þar veitir afsvar:

 

„Þið finnið í fjárhúsi hey.

Bara fyrningar reyndar, OK?“

Þar Jósef á ný

fer að jagast í því

að varla sé María mey:

 

„Ég hef aldrei hold þitt séð bert

og hitt höfum við aldrei gert.

Það er hlálegt að blanda

í þetta heilögum anda!!!

Hvað heldur þú að þú sért?“

 

Af tuðinu María mæddist,

upp í myglaða jötuna læddist

og myrkrið óp klauf.

Hennar meyjarhaft rauf

freslarinn þegar hann fæddist.

 

 

Í þorpinu

Þorparinn þrautgóður var,
á þakkir og hrósið ei spar.
Í orðfæri „linur“:
„Elskan“ og „vinur“,
og kleip svo í kellingarnar.

Konan hjá kunningjum sat
í kaffi, og bauð sér í mat,
til að þefa upp fréttir
og það var nú léttir
ef fásinnu fundið þar gat.

Strákur á þrítugu stóð,
staðarins uppháhalds jóð.
Að spóla í brekkum
á belgvíðum dekkjum
stundaði, miklum af móð.

Stelpan á liðinu lúin
fyrir löngu í huganum flúin.
Þá bar þar að Dana
sem barnaði hana-
og þar með var draumurinn búinn!

Borgarblús

Í borginni lögmaður bjó
sem bergði af stressinu fró.
Keppti við grannann
í græðgi, og vann ´ann.
Frá dýrðinni ungur svo dó.

Frúin er fínasta snobb
sem faðmaði annan, hann Rob.
Hún aðeins fær unað
við allsnægt og munað,
á rándýran kobbidí kobb.

Dóttirin orðin er djörf,
af drykkju um helgar oft stjörf
og af afskiptaleysi
þessu ógissla pleisi
hugsar hún þegjandi þörf.

Sonurinn beinni á braut,
bráðger og sterkur sem naut.
Á kagganum fer um
fullur af sterum,
flottur, en geðið í graut.

 

Saga úr sveitinni

Í afdalakoti bjó kall,
sem kúkaði‘ og hrækti í dall.
Japlandi roðið
og reykjandi moðið
reið hann svo fullur á fjall.

Og kellingin feiknmikið fall
sem forðaðist gesti og spjall.
Í myrkustu krókum
hún muldi úr brókum
í soðningu, saman við gall.

Syni var stillt upp á stall,
samt stundaði ónytjubrall.
Góða fylli í kvefi
fékk hann úr nefi
svo allur varð grár eins og gjall.

Dóttirin iðaði öll
úti um móa og völl.
Í dagbækur skráði
að skemmtun hún þráði,
skagfirska sveiflu og böll.

Árið 2014

Eftir hörmung hafta,

héraðsbresti mesta,

þulu af lygaþvælu,

þéttan reyk af prettum,

veldi tryggt útvaldra

á votri auðlind, brauði,

þreyttir minnimáttar

mola leita’ í holum.

 

Rósir Reykjavíkur

rasísk meðul brasa,

svo kreddufúsir kjósi

kristin teboðslista.

Keflum íhaldsöflin,

aftur finnum kraftinn.

Skipið þjóðar skríði

skár á nýju ári.

 

Heimsósómi

Heilbrigðiskerfi á heljarþröm,
höktandi beinagrind.
Menntagyðjan er mergsogin,
máttlaus og næstum blind.
Dómsvaldið í dauðateygjum,
dapurleg hryggðarmynd.
Ríkisútvarpið rekið á gaddinn,
eins og riðuveik, horuð kind.
En framkvæmdavaldið fleytir rjómann
í friði, og leysir vind.

Lykilatriðin

„Arionbanki greiddi rúmlega hundrað lykilstarfsmönnum bankans um 380 milljónir króna í kaupauka á síðasta ári.“ Þetta kemur fram á visir.is.

 

Svo lykilstarfsmenn lifi dús

og litið geti sólina

við helmingum okkar hungurlús

og herðum sultarólina.

 

H(r)aust stemmning

Sumartáta sárum trega

siglir bát í naust.

Farfakáta, klæðilega

kjóla mátar haust.

 

Haustin eru hefðbundin. Náttúran skiptir um föt og tjaldar því sem til er og mannlífið allt kemst í fastari skorður – fyrsta kóræfingin er í kvöld:

 

Sýnir haustið stílbrögð stór,

storð á vetur setur.

Brýnir raust í karlakór

hver sem betur getur.

 

Á dv.is mátti lesa þann 13. september að karlmannlegt útlit á borð við sterka kjálka, áberandi kinnbein, stælta upphandleggi og brjóstkassa, heilluðu gjarnan konur en slíkir karlar byðu ekki upp á besta sæðið:

 

Konur hrausta karlmenn þrá,

um kjálka svera og lungun.
Ef eymingja þær hátta hjá
hætta vex á þungun.

 

 

 

Af Bjarnagreiða og fleiru

Haustið lætur á sér kræla þetta árið með hefðbundnum hætti:

 

Kunnugt er nú komið haust,

kuldableytudrulla

og aftur byrjað, endalaust,

alþingi að bulla.

 

Elfa bróðurdóttir mín er alveg yndisleg. Hún benti fólki á að taka upp léttara hjal á Facebook og gaman væri líka að tala um það sem vel er heppnað. Ég tek hana á orðinu:

 

Ég nú verð að játa að

ég er nokkuð góður.

Rökin sem að sanna það

má sjá í dóttur bróður.

 

Núna er eitt barnið í þingliði Sjálfstæðisflokksins að berjast við að koma brennivíni í matvörubúðir:

 

Þegar bjór og brennivín

í búðum hér mun fást,

kaupstaðarangan óðar dvín,

á mér mun varla sjást.

 

Ekki var blekið þornað á fjármálafrumvarpsdrögum Bjarna og félaga þegar tilkynnt var um verðlækkun á krúseronum, en eins og menn vita er ekki étið mælt í þeim:

 

Í útrás vilja aftur skeiða,

efla ríkra hag.

Toyota býður Bjarnagreiða

bara strax í dag!