Vér hrægammar

VÉR HRÆGAMMAR

Bjarg-Ráður

hefur látið boðin

út ganga:

 

„Hrægammar

mati Forsendu-Brest

af sjálfheldufé

afdala“.

 

Ég er hrægammur.

 

Sit yfir

minni séreignarhjörð

í þokuslæðingi

og degi tekið að halla.

 

Framundan

er Vogunarskarð

til friðsælli byggða

og í boði

að tína í sig á leiðinni

einn og einn skrokk

 

af eigin fé.

 

„Hrægammar

skulu ekki fá

að kemba hærurnar.“

 

Flóttaleiðin

PR-ræða forsætisráðherrans á framsóknarfundi á Hótel Selfossi um síðustu helgi var að mörgu leyti alveg meinfyndin. Hann varaði fundarmenn ábúðarfullur við því að auðvitað myndi hin illa stjórnarandstaða bæði snúa út úr öllu saman og ljúga hikstalaust þegar skuldaleiðréttingatillögurnar hans yrðu kynntar í lok þeirrar viku sem nú er brátt á enda runnin:

Bera andstæðingar sig,

útúrsnúning feta,

ætla’ að ljúga upp á mig

öllu sem þeir geta.

 

Þá er tónninn sleginn: ekki skiptir máli úr þessu hver mun hugsanlega gagnrýna tillögurnar sem allir bíða spenntir eftir, né fyrir hvað eða á hvaða forsendum. Allri gagnrýni verður svarað þannig að um sé að ræða útúrsnúninga eða lygar. Enda hafi svo sem engu verið lofað beint (jafnvel þó hægt sé að endursýna loforðaupptökurnar).

Þessi ræða var að vísu ekki ætluð þeirri sauðtryggu hjörð sem mætt var á fundinn, heldur var hún til útflutnings – í gegnum fjölmiðlana til þjóðarinnar allrar. Þessi ræða var tilraun til að hafa einhverja stjórn á umræðunni og atburðarásinni, forsætisráðherra var að skapa sér og fylgismönnum sínum varnarstöðu – og flóttaleið ef nauðsyn krefði. Almannatenglar og blaðafulltrúar forsætisráðuneytisins hafa áttað sig á því að brýn þörf væri fyrir áætlun af þessu tagi. Það skemmtilega er hve „gagnsætt“ allt þetta ferli er. Og á ekki öll stjórnsýslan einmitt að vera gagnsæ?

Þó planið sé gott er eiginlega vandræðalegt hve stjórnarandstaðan hefur verið hógvær og varkár í gagnrýni sinni, enda engar tillögur fram komnar og fátt sem hönd á festir í því sambandi. Menn hafa mest verið að velta vöngum og lýsa áhyggjum af afleiðingum hugsanlegra möguleika.

Gagnrýnin hefur ekkert síður komið úr öðrum hornum en stjórnarandstöðuhorninu og sumpart beinst að ráðaleysinu, að ekkert hafi gerst mánuðum saman þrátt fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra bæði fyrir og eftir kosningar um að skuldaniðurfellingarloforðin byggðu á þaulhugsuðum áætlunum sem ráðist yrði í STRAX. Allt væri þetta kristalstært, og snilldin fælist ekki síst í því að enginn kostnaður myndi falla á ríkissjóð!

Sumir hafa kallað þetta lýðskrum, óframkvæmanlega barbabrellu ætlaða að slá glýju í augu kjósenda. Við fáum að vita um það í vikulokin hvort svo er, og hvort ríkissjóður verður eins stikkfrí og lofað hefur verið.

Miklu meira áberandi en gagnrýni stjórnarandstöðunnar hafa verið hróp framsóknarmanna sjálfra á torgum um ósanngjarnar árásir úr öllum áttum. Þeir hafa verið alveg einfærir um að halda því á lofti hvað aðrir eru voðalega vondir við þá: smá meðvirkni kæmi sér víst ekki illa.

Það eru ekki síður Seðlabankinn, samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, hagfræðingar og sérfræðingar af ýmsu tagi sem hafa haft uppi varnaðarorð. En allt eru þetta víst grunsamlegir aðilar og ekki síður líklegir til að grípa til útúrsnúninga og lyga en óforbetranlegt stjórnarandstöðuliðið!

Nú er ekkert annað að gera en bíða eftir því hvað forsætisráðherrann dregur upp úr hatti sínum. Fjallið hefur loks tekið jóðsóttina. Öll vonumst við eftir einhverju brilljant-íni. 

Fundinn fjársjóður

Á sunnudaginn var Anna María að grúska eitthvað í skápum og kössum með gömlu dóti. Svo kemur hún, þessi elska, og réttir mér samanbrotið, línustrikað blað sem hún hafði fundið. Þegar ég brýt sundur blaðið þekki ég strax rithöndina hans pabba heitins. Og viti menn. Á blaðið hefur hann skrifað mér kveðju í tilefni fertugsafmælis míns, fyrir hönd þeirra mömmu. Kveðjan er fallegt ávarp og fjórar frumsamdar vísur, sem ég var búinn að steingleyma að væru til, og eru mér því sannarlega fundinn fjársjóður. Vísurnar eru svona:

Íþróttunum alla tíð,

einkum snjall í körfu.

Finnur lausn í harðri hríð,

hugarflugi djörfu.

 

Hesta sína heiðra kann,

hátt á fjöllum ríður.

Á fullum kostum flengist hann,

fjörðið ólgar, sýður.

 

Áfram lítur æfileiðar

undralönd.

Tíðast hefur tvo til reiðar,

tölt við hönd.

 

Farsæll hefur fjóra tugi

farið keikur.

Enda er hann ofurhugi,

aldrei smeykur. 

 

Annars gáfu foreldrar mínir mér hestastein í fertugsafmælisgjöf, stuðlaberg úr Hrepphólum  sem stendur í hlaðinu og festur hefur verið við járnhringur – og svolítill áletraður málmplatti með tilefninu og tveimur vísum, þar sem minnst er fyrsta alvöru gæðingsins sem ég eignaðist og geymi alla tíð næst hjarta:

Átti Hreimur hylli í för,

hratt þó steymdu árin.

Ennþá dreymir ólgufjör,

aldrei gleymist klárinn.

 

Vítt um landið velja má

vegi margrar gerðar.

Leystu hestinn, leggðu á,

löngun er til ferðar.

 

Pabbi kunni sannarlega að setja saman vísur – og hefði gjarnan mátt gera meira af því.

Enn skal brýnt og skorið – Sunnlendingar aftastir á fjárlagamerinni

Það er ekki ofsögum sagt að fjárlagafrumvarpið sem nú er til umræðu í þinginu hafi valdið titringi víða: innibyrgðum gleðihristingi til sjávar, en ónotahrolli bæði í sollinum og til sveita. Töldu margir að eftir hin mögru ár í kjölfar tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans og ríkissjóðs væri botninum náð og niðurskurðarhnífurinn yrði lagður á hilluna um sinn. En aldeilis ekki. Enn skal brýnt og skorið. Það vekur sérstaka athygli margra og óhug að undir hnífinn er leidd sjálf kýrin Velferð, sem þegar má telja í rifin af löngu færi, en tuddinn Stórútvegur, sem rorrar í þverhandarþykku spiklagi, fær a.m.k. næsta aldarfjórðunginn að graðga í sig kjarnfóðrinu, óáreittur í kálgarði kerlingar, sem á tyllidögum er víst kölluð fjallkona. Halda áfram að lesa