Bergþór Jóelsson, langa-, langa-, langafi minn var fæddur 3. febrúar árið 1800 í Efri-Lækjardal í Austur-Húnavatnssýslu. Hann ólst upp heima hjá foreldrum sínum, a.m.k. til 16 ára aldurs. Hann kvæntist Guðbjörgu Árnadóttur árið 1835, en hún var dóttir Árna bónda í Helguhvammi og Þórunnar Þorvaldsdóttur, bónda í Krossanesi. Bróðir Guðbjargar var Jón bóndi á Illugastöðum á Vatnsnesi, og þar hófu þau Bergþór búskap sinn. Seinna bjuggu þau á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi og 1845-1860 á Syðri-Þverá. Eftir að Guðbjörg dó 1865 fór Bergþór aftur að Illugastöðum. Hann lést 1888.
Greinasafn eftir: Gylfi Þorkelsson
Ættfræði: Um Jóelsætt, 1. þáttur
Það sem einna skemmtilegast er að ræða við elskulega móður mína, þessi síðustu misserin, er ættfræði – og „gamlir tímar“. Þar er hún enn oftast á heimavelli, þó einstaka leikur fari fram á útivelli. Ég dró því fram 1. bindi Jóelsættar, gruflaði nokkuð í því og tók síðan bókina með mér í heimsókn fyrr í dag. Við mæðginin sátum svo drjúga stund, meðan regnið buldi á glerinu, og reyndum að glöggva okkur á fólki – okkar fólki.
Vigdís ársgömul – Kveðja frá afa
Liðið núna eitt er ár,
ævin varla hafin.
Bæði gefið bros og tár,
blíðu og kærleik vafin.
Lýsa upp heiminn ljósar brár,
ei lítið montinn afinn.
Vinna munt þú marga dáð,
málin stöðugt ræðir.
Yndi hefur um þig stráð,
ömmuhjörtun bræðir.
Um fingur þér, sem fínan þráð,
foreldrana þræðir.
Óskrifað er æviblað,
enn þarf vernda haginn
svo dembir þér ekki á dýpsta vað,
af dæmum lærist aginn.
Vigdís, þú töltir tign af stað!
Til hamingju með daginn!
Er ekkert að gera í fangelsum?
Heilmikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um stöðu mála í fangelsum landsins. Þetta er allt frá vönduðum úttektum, viðtölum við fanga, starfsfólk fangelsanna og forstöðumenn, yfir í lítt rökstudda sleggjudóma, eins og gengur og gerist. Fagna ber áhuga á málefnum fanga, aukinni umræðu um aðstæður þeirra og leiðir til úrbóta.
Menntun fanga
Líklega er óhætt að slá fram þeirri alhæfingu að nám í fangelsum gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga og möguleikum þeirra á að feta sig aftur inn í samfélagið. „Nám er besta betrunin“ er frasi sem oft er gripið til á tyllidögum – og margir hafa líka fyrir satt hversdagslega. Í skýrslu nefndar frá 2008, á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands og dóms- og menntamálaráðuneyta, um stefnumótun í menntunarmálum fanga, var þetta ein meginniðurstaðan. Og líklega eru flestir í okkar samfélagi sammála því að mikilvægast sé að í fangelsum fái einstaklingar tækifæri til að bæta sig en séu þar ekki eingöngu til að taka út refsingu.
„Farðu nú varlega, ástin mín“
Þegar börnin okkar fara akandi eitthvert, t.d. hér á milli Selfoss og Reykjavíkur, segjum við gjarnan: „Farðu svo varlega“. Það er eins og mig minni líka að við höfum varað þau við að fara upp í bíla með ókunnugum, þegar þau voru lítil. Og þegar elsta barnabarnið, stórglæsileg 17 ára kjarnakona, kom sl. sumar í fyrsta skipti akandi austur yfir Fjall í heimsókn til ömmu og afa á Selfossi, nýkomin með bílpróf og með fullan bíl af jafnaldra vinkonum, sagði ég, miðaldra, hvítur karl, ábyggilega við hana áður en hún renndi úr hlaði: „Farðu nú varlega, ástin mín“.
Ég leyfi mér að fullyrða að þessi varúðarorð – og mörg, mörg, ótalmörg fleiri af sama toga í gegnum tíðina, voru ekki sögð í þeim tilgangi að „færa ábyrgðina frá gerandanum yfir á þolandann“, ef svo skelfilega myndi henda að eitthvað hörmulegt kæmi fyrir. Það er því miður ekki öllum treystandi í umferðinni – ekki heldur öllum þeim sem bjóða blessuðum börnunum far heim úr skólanum, nú eða ævarandi vináttu og ást. Við þetta verðum við manneskjur að búa og því ágæt almenn grundvallarregla „að fara varlega“.
Undanfarið hefur allt verið á hvolfi á miðlum yfir gráhærðum, hvítum geðlækni á efri árum sem vogaði sér að segja við konur að þær ættu að fara varlega í að treysta hverjum sem er fyrir nektar- og klámmyndum af sér, því súrnað geti í samböndum og myndirnar endað á Internetinu. Sem þær því miður stundum gera. Geðlæknir þessi skíðlogar nú á vandlætingarbáli fyrir að færa ábyrgðina á slíkum myndbirtingarglæpum frá gerandanum yfir á þolandann og gott ef ekki líka fyrir að rífa niður traust, sem sé eitt það mikilvægasta í mannlegum samskiptum.
Nú veit ég ekki hvenær eðlilegt er að treysta annarri manneskju fyrir nektar- og kynlífsmyndum af sjálfum sér. En almennt séð hljóta að vera á því einhver takmörk, varla t.d. á fyrsta stefnumóti eða öðru. Hvað fólk gerir í svefnherberginu er einkamál þess og ef einhverjir telja kvikmyndun nauðsynlegan þátt í eðlilegu sambandi elskenda, krydd í kynlífið o.s.frv., þá er engra annarra að dæma eða hafa skoðun á því.
Og þó traust sé óumdeilanlega grundvöllur að góðu sambandi, þá er ekki öllum treystandi. Kannski engum algerlega, ef út í það er farið, því haft er fyrir satt að engin manneskja sé fullkomin. Konur (og karlar) hafa fengið að kenna á þessu. Þær hafa verið beittar margskonar ofbeldi í samböndum síðan sögur hófust, jafnvel eftir langvarandi, „gegnheilt og traust“ samband.
Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt og ábyrgðin á því verður ekki frá gerendum tekin – ekki einu sinni með því að biðja fólk að fara varlega.
Gengisfall
Það eru ekki bara bankarnir okkar sem rændir voru innan frá. Smá saman er verið að hola innan móðurmálið með einhæfni og merkingarlausum frösum. Þessu verður ekki betur lýst en með því að vitna í Andra Snæ Magnason, en í smásögunni Sofðu ást mín segir hann svo:
„Peningafölsurum er hent í steininn vegna þess að þeir offramleiða peninga sem eyðileggja hagkerfið þegar gjaldmiðillinn tapar gildi sínu. En hver á að spyrna við fótum þegar gengi dýrustu orða tungunnar lækkar? Setningar eins og „ég elska þig“ þokast sífellt nær frösum eins og „I love you“ sem hafa fyrir löngu tapað allri merkingu. „I love you“ merkir ekki mikið meira en „mér líkar alveg sæmilega við þig“ eða jafnvel „bless“ og oft „ekki neitt“. Í hvert skipti sem maður elskar að borða ís, eða maður elskar Toyotur og pizzur, þá fellur gengið og menn þurfa sífellt fleiri og stærri lýsingarorð til að tjá hug sinn. Unglingar sóa orðinu á fyrsta stefnumóti og menn prenta það á boli og loks endar það sem klisja sem er ekki eyðandi á nokkurn mann. En hvernig á maður að orða sínar dýpstu tilfinningar þegar orðið sjáflt verður merkingarlaust? Ef það er búið að slíta það úr sambandi við hjartað og tengja það í staðinn við plasthjörtu og súkkulaði. […]
Hvað gerum við ef „ég elska þig“ verður jafn lítils virði og ágætt eða sæmilegt „I love you“? Þá hefur hjartað ekkert til að nota nema úrelta mynt. […]
Amma hefur aldrei sagt þetta orð svo ég viti. Samt veit ég að það býr í henni, hún geymir það eins og gimstein, orðið skín úr augum hennar.“
Sögnin „að elska“ er smám saman að missa gildi sitt í tungumálinu og það sama á við um fjöldamörg önnur innihaldsrík og lýsandi orð. Í hvert sinn sem fólk t.d. „gerir“ listaverk (ljóð, leikrit, málverk o.s.frv) forsmáir það sagnir eins og að yrkja, semja, mála – og fletur út málið.
Og í hvert skipti sem þjóðin velur til forystu spillta aflandsprinsa og svindlara gengisfellir hún falleg og nauðsynleg orð eins og „siðferði“ og „heiðarleiki“ og holar innan allan merkingargrunninn svo hann hrynur.
Á hverju eiga næstu kynslóðir að byggja siðferðisgrunn sinn ef orðin sjálf verða merkingarlaus? Ef búið er að slíta þau frá rótum með því að tengja þau við hvern sem er, hampa og lyfta í hæstu hæðir mönnum sem láta eins og það sé bara allt í lagi að vera siðlaus svindlari?
Við áramót 2016-2017
„Nú árið er liðið í aldanna skaut“
og aldrei það komi til baka
með Icehot, sem Borgun til skyldmenna skaut,
í skjólin þeir auðmagni raka,
og forsætisráðherrann flagsækið naut,
fnæsandi, siðspillt og gaga,
vort Alþingi, hæstvirt, er lægst núna laut,
samt ljóst að af miklu’ er að taka,
því lífeyrisfrumvarp á launþegum braut
sem lítt höfðu unnið til saka.
Nýtt ár er í vændum, og útlitið svart,
því afturhaldsstjórn er í pípum
sem gefa mun almenningseigurnar skart
til útvaldra’, í passlegum klípum,
og auðmönnum hleypa á fljúgandi fart,
þessum forhertu, siðlausu týpum,
en sjúklingur! fljóta til feigðar þú þarft
í fenjum með botnlausum dýpum.
Ég játa, mér finnst þetta helvíti hart.
Til heilbrigðra meðala grípum!
Jólakveðja 2016
Stríðs í heimi hrjáðum,
hungursneyðar, leiðum,
er fjöldi enn, sem um aldir,
óttasleginn á flótta.
Eins og Jósef Jesúm
úr jötu tók, um götur
hrakinn, úr landi sem hundur,
svo hlífa mætti lífi.
Þennan mæta manninn
myrtu valdsmenn kaldir
sem þelið ekki þoldu
þýða, og hylli lýðsins.
Nú á tímum „nýjum“
neglum á krossa, steglum,
þá sem valdi velgja
vel undir uggum, við stugga.
Augum lítum ætíð
Assange þannig og Manning.
Af lífi, og sögulegu,
lærum, vinir kærir.
Aðeins andófslundin
oki lyftir. Tyftir
illan bifur. Hjá öllum
til árs og friðar miði.
Hérna blessuð börnin
brosa sem sól um jólin.
Annars staðar þau stuðar
stríð með sprengjuhríðum.
Selja vesturveldi
vopnin. Huga opnum!
Innum oss að þessu:
Eru þau mannverur?
Hernaðurinn gegn kennarastéttinni
Anna Lára Pálsdóttir fór vel yfir það í pistli á visir.is hvernig veist hefur verið að kennarastéttinni frá því rekstur grunnskólanna var færður yfir til sveitarfélaganna. Nánast allt sem hún tínir til á við um framhaldsskólana líka, en þeir eru á ábyrgð ríkisins eins og flestir munu vita og því sama hvorum megin hryggjar kennarstéttin liggur hvað yfirstjórn varðar. Halda áfram að lesa