Jesú í göngugötunni

Englaryk

Guðrún Eva Mínervudóttir

JPV útgáfa

Reykjavík 2014

 

Ekki er ég fastur lesandi Guðrúnar Evu en gæti hugsað mér að kanna höfundarverk hennar betur.

Þetta er vel skrifað, það vantar ekki, ljúfur og fallegur texti, og sögunni vindur hnökralaust fram. Segir af unglingsstúlku í Hólminum og fjölskyldu hennar. Hvörf verða þegar hún hittir Jesú bróður besta á götu úti í sólarlandaferð.

Flækjan sem leysa þarf úr eru þau áhrif á fjölskyldu, vini og nærsamfélag sem það hefur að hún segir frá atburðinum og breytir hegðun sinni í samræmi við hina trúarlegu upplifun.

Persónur eru dregnar nokkuð skýrum dráttum, þær eru trúverðugt, „venjulegt millistéttarfólk“ og fremur viðkunnanlegt barasta.

Helst er að skorti meiri dýpt í þetta allt saman, fyrir minn smekk. Meiri andstæður og átök. Lesandanum er hvergi ögrað að ráði, honum er nokkurn veginn sama um þetta fólk, en söguefnið gefur vissulega tilefni til að kafa dýpra í sálarangist unglingsstúlku á kynþroskaaldri sem lendir upp á kant við fjölskyldu, vini og samfélagsnormin.

En mjög læsileg bók og ábyggilega mörgum að skapi. Því ekki vilja allir hart undir tönn, heldur kjósa fremur auðmeltari rétti.

Skrifað 09.11.21

Hugarórar bilaðs manns

Eldur í höfði

Karl Ágúst Úlfsson

Benedikt bókaútgáfa

Reykjavík 2021

 

Karl Ágúst er vitaskuld landskunnur og dáður höfundur, já og hæfileikaríkur listamaður á mörgum sviðum, en þetta mun vera fyrsta skáldsagan, þó ótrúlegt megi virðast að ekki finnist annað slíkt verk í bólgnu safni hans.

Eldur í höfði fjallar um geðsjúkan mann, þráhyggju hans og veruleikafirringu, og kallast að því leyti á við verkið „Vertu úlfur“ (sem ég hef reyndar ekki lesið heldur „aðeins“ séð í Borgarleikhúsinu). En þetta átti ekki að vera um Unnsteinsson heldur Úlfsson.

Ég verð að segja að nákvæmar útlistanir á stærðfræðiformúlum, verkfræði- og tónfræðilegum úrlausnarefnum eru með miklum ólíkindum, a.m.k. fyrir leikmann á þeim sviðum, og ímynda ég mér, að því gefnu að ekki sé um helberan skáldskap að ræða, að höfundurinn hafi ekki hrist þau vísindi öll fram úr ermi náttsloppsins við kaffidrykkju einn gráan sunnudagsmorgun.

En þetta er býsna góð skáldsaga. Vel fléttuð og vel skrifuð. Og ekki 1000 blaðsíður af málalengingum, eins og nú eru nokkuð í tísku hjá „betri höfundum“. Hér er textinn markviss og á köflum meitlaður, en kemur á sama tíma vel til skila hugarórum og ímyndunarveiki bilaðs manns. Sögupersónunnar. Sem er ekki sjálfgefið að takist. Vel gert.

Ég bíð spenntur eftir næstu skáldsögu Karls Ágústs Úlfssonar.

Skrifað 2. okt. 21

Kappið og umhyggjan

Í því þunnildi sem Fréttablaðið annars er leynist stundum feitmeti. Í dag gerir t.d. Sif Sigmarsdóttir að umræðuefni það sem hún kallar, eftir öðrum, „ferilskrárdyggðir“ og „líkræðudyggðir“ og ályktar réttilega að vonlaust sé að færa rök fyrir því „að stjórnandi í gjaldeyrismiðlun … sé þarfari þegn en starfsmaður í umönnun á elliheimili.“

Til að undirstrika þetta grípur augað eftir nokkrar flettingar framhjá opnuauglýsingum fyrirsögnin „Vertu ofurhetja í einn dag“ þar sem Anna Steinsen „hvetur landsmenn til að leggja sig enn frekar fram fyrir hönd þeirra sem minna mega sín.“

Venjulega er hugtakið ‘ofurhetja’ tengt fyrrnefndum ‘ferilskrárdyggðum’, skemmst er að minnast ‘útrásarvíkinga’ sem þáverandi forseti lofaði og bar á höndum sér, og óbilandi trú margra á okkar helstu gróðapunga, þó ekki séu vandir að meðulum, s.s. mútum og aflandsbraski.

Hin fleygu einkennisorð íþróttahreyfingarinnar – „Hærra, lengra, hraðar“ – stjórna um of öllu samfélaginu. Þó hóflegur keppnisandi sé góður þá er krafan um stöðugan, óheftan vöxt að sundra því sem við viljum kalla SAMfélag manna, hreinlega að gera út af við lífríki jarðarinnar.

Þegar að er gáð fer enginn hvorki hærra, lengra né hraðar án þess að standa á grunni, hvort sem það eru sjálfboðaliðar undir starfi íþróttahreyfingarinnar eða skólakerfi, velferðarkerfi og aðrar sameiginlegar auðlindir undir framgangi „athafnamanna“ og ‘gróðapunga’.

Það er fegurðin í umhyggjunni sem einhvers er verð en ferilskráin lítils virði á sjúkrabeði og í mótlæti.Séra Friðrik hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: „Látið kappið ekki bera fegurðina ofurliði“.

 

Vigdís Finnbogadóttir 90 ára

Vigdís Finnbogadóttir, fyrsta konan í víðri veröld sem varð þjóðkjörinn forseti, er 90 ára í dag.

Vigdís kveikti vonarglóð

sem varð að stóru báli:

Syngjum landi ástaróð,

öllu höfnum prjáli.

Klafa brjótið, kannið slóð,

konur, beitið páli!

Saman tali þjóð við þjóð

þýðu friðarmáli.

 

Skáldið frá Kirkjuhóli

Í Norðlingabók Hannesar Péturssonar, seinna bindi (Bjartur/Bókaútgáfan Opna, 2017) er skemmtilegur, stuttur þáttur um Stefán Guðmundsson, betur þekktan sem Stephan G. Stephansson. Hannes segir:

Víðimýrarsel mun vera eina býlið á Íslandi sem tengist Stephani G. í vitund alls þorra manna. […] Mjög fáir munu þeir sem renna þá huganum til Kirkjuhóls, fæðingarstaðar skáldsins, nokkru sunnar og neðar í sveit. Kirkjuhóll virðist nær að öllu horfinn úr sögu Stephans (bls. 125).

Foreldrar Stephans, Guðbjörg Hannesdóttir frá Reykjarhóli þar í sveit og Guðmundur Stefánsson frá Kroppi í Eyjafirði fengu ábúð að Kirkjuhóli árið 1852 og bjuggu þar í 8 ár, til 1860, en eftir það á Syðri-Mælifellsá til 1862 og Víðimýrarseli til 1870. Þá fóru þau búferlum, fyrst norður í Bárðardal og svo vestur um haf þremur árum seinna.

Stefán fæddist á Kirkjuhóli 1853 og ólst þar upp fyrstu 7 ár ævinnar en í Víðimýrarseli frá 10 til 18 ára aldurs.

Frá Arnarstapa yfir sé
örsmátt Sel, í skjóli.
Sterkan fléttuðu Stephan G.
stráin á Kirkjuhóli.

 

 

Hrossanöfn í mótsskrá LM 2018

Sitjandi í brekkunni við kynbótavöllinn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík 2018, blaðandi í mótsskránni og hlustandi á þulina þylja upp nöfn hrossanna sem fyrir augu bar, feðra þeirra, mæðra og stundum móðurforeldranna líka, kom stundum fyrir að mér væri sem strokið andhæris um málvitundina. Þessi tilfinning varðaði stafsetningu, beygingar og nafnaval. Ég ákvað því að skoða nánar nafngiftir hrossanna í mótsskránni og velta fyrir mér „frávikum“ m.v. eigin máltilfinningu. Ekki eru þessar vangaveltur á neinn hátt vísindalegar, til þess skortir mig dýpri málfræðiþekkingu og væri gaman ef vísindamenn á því sviði leiðréttu það sem missagt kann að vera.

Halda áfram að lesa

Fjölskyldutengsl í óreiðu

Ég var að enda við að lesa Karitas án titils. Loksins. Kona mín hefur höfundinn, Kristínu Maríu Baldursdóttur, í uppáhaldi, les allt eftir hana og hvetur mig eindregið til þess sama. Ég hef auðvitað lesið ýmislegt eftir þessa frænku mína, en ekki allt, þó þessar bækur séu flestar til á heimilinu. En svona er nú það. Ekki hægt að lesa allt í einu og stundum þarf að nýta tíma sem gefst frá daglegum önnum til að yrkja.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að geta þess að móðurafi Kristínar, Gestur, kallaður Hrefnu-Gestur á Ísafirði, og móðuramma mín, Elínbjörg, voru systkin, bæði í yngri hlutanum úr 14 barna hópi Sigríðar Jónsdóttur frá Kaldbak í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu og Sigurðar Stefánssonar frá Reykjarvík í sömu sveit. Langafi og langamma okkar Kristínar Maríu bjuggu á Brúará í Bjarnarfirði frá 1906, en þess má geta að Sigurður var 15 árum eldri en eiginkonan, fæddur 1857, en hún 1872 og lifði bónda sinn í 22 ár áður en hún safnaðist til feðra sinna á Blönduósi árið 1956, 5 árum fyrr en ég sá ljós heimsins í fyrsta sinn.

Systkinin frá Brúará voru þessi: Róselía Guðrún, fóstra móður minnar (1890), Halldór Jón (1891), Guðríður (1894), Sigríður (1896), Elías Guðmundur (1898), Benedikt (1899), Stefán Björn (1902), drengur (1903), Gestur (1904), Ingi Einar (1905), Guðbjörn (1907), Elínbjörg (1908), Kristbjörg Róselía (1911) og Sigurbjörn (1912).

Amma eignaðist tvö börn, Ragnheiði Ester Guðmundsdóttur, mömmu mína, 1927 og Inga Karl Jóhannesson 1928, þekktan þýðanda og þul hjá sjónvarpinu á árum áður. Ingi Karl er látinn. Gaman er að segja frá því að Jóhannes, faðir móðurbróður míns, Jónsson er fæddur á Svanshóli í Bjarnarfirði 1906, þannig að saga fjölskyldunnar fléttast sterkum böndum inn í Njálu, bók allra bóka, en eins og allir vita bjó þar Svanur, móðurbróðir Hallgerðar langbrókar, Þorleiks, föður Bolla sem frægur er úr Laxdælu, og Bárðar. Ólafur pá, faðir Kjartans, var hinsvegar í engu skyldur fólkinu frá Svanshóli, enda ambáttarson af Írlandi, þaðan sem smjörið kemur nú í kálfana.

Hrefnu-Gestur, afi Kristínar frænku minnar og rithöfundar par exellance, var afkastameiri en amma í barneignum. Hann eignaðist 10 börn og er Hulda Elsa, móðir Kristínar, þriðja í röðinni, fædd 1930. 

Einhvern veginn hafa mál æxlast með þeim hætti að ég þekki allt of fátt af þessu frændfólki mínu, afkomendum systkina ömmu minnar af Ströndunum. Maður getur kynnt sér ættlegginn, nöfn á pappír, og sumt af myndum, í ritinu Pálsætt á Ströndum. Það er forvitnilegt í meira lagi.

En þessi pistill átti ekki að vera ættfræði, heldur bókrýni. Í stuttu máli er ég stórhrifinn af bók frænku minnar, Karitas án titils. Þetta er mögnuð ættar- og örlagasaga, sérstaklega eru mannlýsingarnar stórbrotnar. Sagan er líka vel stíluð, textinn rennur ljúflega fram og allar u.þ.b. 450 síðurnar eru áhugaverðar. 

En þetta veit náttúrulega allt viðræðuhæft fólk – sem dregur það ekki í heilan áratug að lesa helstu fagurbókmenntir.

 

Fiskarnir hafa fengið vængi

Tilvitnun

Loksins komst ég í það sem staðið hefur til allt árið: Að lesa nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Fiskarnir hafa enga fætur. Í sem stystu máli þá fann ég minn Kalman aftur.

Jón Kalman er fyrir minn smekk. Einn af örfáum nútíma skáldsagnahöfundum íslenskum sem náð hafa að heilla mig með skrifum sínum. En ég var samt farinn að efast. Þegar ég var farinn að fletta áfram til að kanna hvort snjóbylnum ætlaði virkilega aldrei að linna?

Í fótalausu fiskunum er Jón upp á sitt allra besta. Textinn er afbragð, ljóðrænn og þykkur eins og feitt smjör sem drýpur af hverri síðu. Það er auðvelt að fara yfir strikið í notkun líkinga. Hér eru líkingar nánast í hverri málsgrein en þær hitta í mark – frumlegar og skemmtilegar. Og djúpar. Það er eins og hver þeirra beri æðri boð, heimspekilegar spurningar um lífið, samfélagið, veröldina.

Sagan er marglaga. Hún er ástarsaga, þroskasaga, ættarsaga. Höfundurinn kafar inn á við, inn í innsta kjarna mannsins. Hún fjallar um tilgang manneskjunnar í heiminum:

„ … ástin, segir hann, það er sú vetrarbraut sem skærast skín og aldrei eyðist! En sárast hlýtur að vera að hafa aldrei elskað nógsamlega, ég er ekki viss um að það sé hægt að fyrirgefa það.“

 

Hún er samfélagsádeila, enginn öskrandi áróður heldur heimspekilega yfirveguð og beittari fyrir vikið:

„Vesalings Jón Sigurðsson sem þarf að horfa dag og nótt á Alþingi Íslendinga, við förum illa með sjálfstæðishetju okkar, hann er líka þungbúinn á svip og hefur lagt hendurnar á jakkaboðunginn, eins og hann sé reiðubúinn að seilast í innri vasann eftir eggi til að kasta í Alþingsihúsið; reiðubúinn að grípa egg upp úr vasa ef forseti landsins ætti leið hjá. Hvað er hægt að gera við þessa þjóð sem á örskömmum tíma varð að fyrirmynd, að hetjum Evrópu, en reyndist síðan, eins og oft áður, meistari í spretthlaupi, ónýt í langhlaupi?“

 

Hún er heimsádeila, ádeila sem á rætur sínar innan í manneskjunni: tilgangurinn lifir innra með manninum, maðurinn lifir í samfélagi og samfélagið er meðal samfélaga.

„ …það er fátt jafn dýrmætt í þessari veröld, jafn mikilsvert, og brosið. Samt voru þeir Brésnev og Jimmy Carter ekki með það á viðræðulista sínum veturinn 1980, […], og þó stóðu allir í þeirri vissu að þeir myndu ræða mikilvægustu málefni jarðarbúa.“

 

Svona eiga skáldsögur að vera. Þær eiga að hreyfa við manni og fá manni sífelld ný viðfangsefni að glíma við. Fiskarnir hafa enga fætur er hreint afbragð.