Eitt lítið hornsíli

Velferðarkerfið er á heljarþröm. Það eru ekki nýjar fréttir. Á sk. „góðæristímum“ fyrir hrun, fyrsta áratuginn á 21. öldinni, var þetta stoðkerfi samfélagsins svelt markvisst í pólitískum tilgangi, skv. hugmyndafræði frjálshyggju og einkavinavæðingar Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarflokkurinn spilaði með af fullum þunga.

Heilbrigðiskerfið fékk ekki nauðsynlegar fjárveitingar til að viðhalda sjálfu sér, endurnýja tæki og byggja yfir sig. Skorið var niður um a.m.k. tug milljarða í framhaldsskólakerfinu og skólarnir settir í þá stöðu að geta ekki rekið sig á fjárveitingunum. Þetta var ekki eitthvert athugunarleysi eða misskilin forgangsröðun þar sem peningarnir voru nýttir í aðra samfélagsþjónustu eins og t.d. vegakerfið og samgöngumál, nú eða almannatryggingar svo hægt væri að gera gangskör að því að hlúa að öryrkjum og fötluðum eða búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.

Nei, þvert á móti voru framlög til þessara málaflokka skorin niður líka en gerðar skattkerfisbreytingar til að tryggja hinum efnuðu enn betri stöðu, útgerðinni sleppt lausri á sjávarauðlindina og eftirlit veiklað eða afnumið til að búa í haginn fyrir græðgisbrjálæðið sem heltók „margan góðan drenginn“ með þekktum og skelfilegum afleiðingum.

Þær afleiðingarnar eru arfleifð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þjóðargjaldþrot.

Hrunflokkarnir fengu útreið í kosningum vorið 2009 og fyrsta vinstristjórnin á Íslandi fékk það í fangið að reisa samfélagið við á ný, grafa það upp úr dýpstu gröf efnahagshruns sem um getur á byggðu bóli. Það tókst, í stórum dráttum, á einu kjörtímabili. Á aðeins fjórum árum.

En viti menn. Viðreisnarflokkarnir fengu fyrir þetta afrek aðra eins útreið, eða verri, í næstu kosningum og hrunflokkarnir höfðu fengið fjórum árum fyrr. Kjósendur mátu jafnt annars vegar það afrek hrunflokkanna að koma landinu lóðbeint í versta þjóðargjaldþrot mannkynssögunnar og hins vegar viðreisnarafrek vinstriflokkanna. Segið þið svo að kjósendur láti að sér hæða!

Nú þegar kjörtímabil hrunflokkanna er hálfnað hefur þeim tekist að gera svo mörg risavaxin axarsköft að tær og fingur duga ekki til að telja allt saman – og það við kjöraðstæður. Hrunflokkarnir hófu kjörtímabilið með pálmann í höndunum, við þær aðstæður að boltinn var sjálfkrafa á uppleið eftir að hafa skollið í gólfið, og enn langt í hæsta punkt.

Ástæðan fyrir þessu ólánlega stjórnarfari er fyrst og síðast sá grunnur sem það er reist á. Grunnurinn er tóm froða og upploginn fagurgali og á slíkum grunni fær ekkert staðist, heldur fellur flatt um sjálft sig.

Skýrasta dæmið er svokölluð skuldaleiðrétting. Í því máli má líkja Sigmundi Davíð og Framsóknarflokknum við mann sem lofar sveltandi stjórfjölskyldu sinni að fara og veiða í matinn handa öllum ef hann fær lánaða veiðistöngina. Hann fer, er lengi í burtu en kemur loksins heim aftur í æpandi hungrið – með eitt lítið hornsíli – sem engan veginn dugar einu sinni til að seðja sárasta hungur neins. Uppi verður fótur og fit en „veiðimaðurinn“ rífur bara kjaft og segist víst hafa veitt í matinn og staðið við loforð sitt. Hinir sveltandi vita betur.

Nýjasta axarskaftið er framkoman gagnvart hjúkrunarfræðingum og félögum í BHM.

Heilbrigðiskerfið er á heljarþröm. Rót vandans liggur ekki í axarsköftum núverandi ríkisstjórnar, ekki heldur í efnahagshruninu eða viðreisnarárum vinstristjórnarinnar. Rót vandans liggur aftur í sk. góðæri fyrir hrun og úthugsaða, pólitíska skemmdarverkastarfsemi hrunflokkanna skv. þeirri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins að koma sem mestu af opinberri þjónustu í hendurnar á sínu fólki.

Vandi heilbrigðiskerfisins er svo langvinnur, víðtækur og alvarlegur að þær auknu fjárveitingar sem Landspítalinn hefur fengið undanfarið eru eins og dropi í hafið. Kerfi með heilsuspillandi húsnæði, lokaðar deildir, aflóga lækninga- og rannsóknatæki og starfsfólk gengið upp að hnjám af álagi verður ekki bætt með neinum smáskammtalækningum.

Og það er alveg sama hvað stjórnarliðar hneykslast mikið á launakröfum hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna eða hversu lengi þeir hanga eins og hundar á roði á því prinsippi að opinberir starfsmenn eigi ekki meira skilið en samið var um á almennum markaði, því óánægjan með launkjörin og starfsaðstæður er svo megn og gamalgróin að viðunandi heilbrigðisþjónusta verður ekki byggð upp aftur hér á landi nema bæta bæði laun og vinnuumhverfi þessara stétta verulega.

Hér dugar sem sagt ekki að bjóða aftur hornsíli – og mannréttindabrot er ekki skynsamlegasta leiðin til að ná sáttum við langþreytta og niðurlægða stétt. Hún mun ekki leggjast undir vöndinn heldur láta sig hverfa. Sama hvað stjórnarliðar jarma.

Að öllu þessu virtu er knýjandi sú spurning hvort Framsóknarflokkurinn ætlar sér enn að verða virkur þátttakandi með Sjálfstæðisflokknum í því að brjóta niður stoðkerfi samfélagsins til þess að koma því endanlega í hendur einkamarkaðarins?

 

Dagskrárliðurinn: „Formannskosning“!

Það var beinlínis lygilegt að fylgjast með viðbrögðunum við framboði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur til formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem haldinn var um nýliðna helgi. Valdaklíka innan flokksins missti allt niðrum sig við það að sitjandi formaður fékk mótframboð þannig að dagskrárliðurinn „formannskosning“ á landsfundinum varð lýðræðisleg kosning en ekki einbert uppklapp.

Sigríður Ingibjörg þurfti að sitja undir skítkasti alla helgina fyrir þá óskammfeilni að bjóða sig fram á eigin forsendum en ekki á forsendum hofmóðugra flokkseigenda. Það er aumur stjórnmálaflokkur sem ekki getur kosið í helstu embætti án þess að allt fari á annan endann. Kannski ættu þeir sem framboð Sigríðar vakti af dvalanum að horfa í eigin barm í leit að skýringum á fylgishruni flokksins? Í ljósi almennrar þróunar fylgis stjórnmálaflokkanna í skoðanakönnunum undanfarið er morgunljóst að „gamla settið“, jafnt í Samfylkingunni og öðrum flokkum, þekkir ekki sinn vitjunartíma.

Sigríður Ingibjörg bendir á það í yfirlýsingu í morgun að áhrifa framboðs hennar „gætti þegar daginn eftir, þegar nýtt fólk hafi verið valið til ábyrgðarstarfa innan flokksins, margt af því ungt hugsjónafólk með skýrar áherslur og með samþykktum landsfundar á róttækum ályktunum um lífskjör, umhverfisvernd, mannréttindi og frjálslyndi“.

„Landsfundur Samfylkingarinnar varð allt í senn, snarpur, kröftugur og róttækur. Sú heift sem birst hefur vegna framboðs míns er í algjörri andstöðu við þann kraft sem kom fram á landsfundi. Ég kýs að túlka það sem svo að ásakanir áhrifafólks í Samfylkingunni vegna lýðræðislegs framboðs míns hafi verið settar fram í hita leiksins“ , segir Sigríður jafnframt.

Hvað sem segja má um kraft og róttækni ályktana landsfundar Samfylkingarinnar, er ljóst að fólk sem ekki þolir framboð og kosningar til embætta sem „kjósa“ á í, það ætti að finna sér einhvern annan vettvang en stjórnmál til að vasast í. Um það vitnar skýrast staða stjórnmálaflokkanna í skoðanakönnunum.

Af skurðgreftri

Ég heyrði einu sinni af flokki manna (konur eru líka menn) sem hafði verið ráðinn til þess að grafa skurði, eða rásir, í gegnum mikinn malarkamb svo hægt væri að veita vatni á frjóan, en þurran jarðveg handan kambsins. Til verksins höfðu verkmenn skóflur, ágætar malarskóflur.

Ekki fylgir sögunni hvar á jarðarkringlunni sagan gerðist, en verkið mun hafa verið á vegum hins opinbera þar í landi og um samdist að það teldist fullt dagsverk að grafa 100 metra langan skurð á mánuði, u.þ.b. metersdjúpan og hálfsmetersbreiðan. Halda áfram að lesa

Árið 2014

Eftir hörmung hafta,

héraðsbresti mesta,

þulu af lygaþvælu,

þéttan reyk af prettum,

veldi tryggt útvaldra

á votri auðlind, brauði,

þreyttir minnimáttar

mola leita’ í holum.

 

Rósir Reykjavíkur

rasísk meðul brasa,

svo kreddufúsir kjósi

kristin teboðslista.

Keflum íhaldsöflin,

aftur finnum kraftinn.

Skipið þjóðar skríði

skár á nýju ári.

 

Stjarneðlisfræðingur naglhreinsar

Í fjölmiðlum hefur undanfarið verið fjallað um erfiðleika fólks frá öðrum löndum að fá menntun sína metna hér á landi. Sögð var saga kvensjúkdómalæknis frá Úkraínu sem fær ekki vinnu við hæfi en starfar sem ófaglærður starfsmaður á leikskóla og eiginmaður hennar samlendur, sem er skurðlæknir að mennt, vinnur í eldhúsi á spítala. Halda áfram að lesa

Einn allsherjar blóðvöllur

Fréttablaðið fjallaði um Landspítalann í hásæti forsíðu sinnar fimmtudaginn 20. nóvember sl. Í fréttinni segir frá því að fækka þyrfti um allt að 100 manns á spítalanum vegna 1,5 milljarðs niðurskurðar á framlögum til hans í fjárlögum. 

Þetta er vægast sagt undarleg frétt. Allir ættu að gera sér grein fyrir því nú að fjármagn til Landspítalans er ekki hægt að skera meira niður. Ofan í langvarandi niðurskurð á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst velferðarsviði, kom efnahagshrun með „tæknilegu gjaldþroti“ ríkissjóðs og algeru auraleysi. Heilbrigðisstarfsfólk, allur almenningur, þáverandi ríkisstjórn og stjórnarandstaða sáu að fjársveltið var ekki bara búið að „naga alla fitu og hold af beinum“ heilbrigðiskerfisins heldur farið að skaða það svo alvarlega að raunveruleg hætta steðjar að heilsuvernd þjóðarinnar til langframa.

Ríkisstjórnin sem tók við þrotabúi ríkissjóðs vorið 2009 átti ekki margra kosta völ við útdeilingu fjár til almannaþjónustu, með sannkallaðar drápsklyfjar, 230 milljarða skuldabagga, á bakinu. Hún kepptist við, hvort sem henni líkaði betur eða verr, að greiða niður skuldir skv. áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og náði að létta baggann um 200 milljarða. Í botnfrosnu hagkerfi var það töluvert afrek. En fyrir vikið sat velferðarkerfið á hakanum, svalt eiginlega til óbóta á meðan.

Stjórnarandstaðan, ekki síst Framsóknarflokkurinn, gagnrýndi þessar áherslur í ríkisfjármálum harðlega og sagðist framar öllu öðru vilja standa vörð um heilbrigðiskerfið og grunnþjónustuna.

Nú er Framsóknarflokkurinn kominn í ríkisstjórn. Og formaður fjárlaganefndar, sem áður talaði af mikilli sannfæringu um eflingu heilbrigðiskerfisins og grunnþjónustunnar, opnar nú ekki munninn nema til þess að sannfæra fólk um mikilvægi hallalausra fjárlaga. Annað skipti ekki máli og lítur því á samfélagið eins og einn allsherjar blóðvöll.

Hvað hefur þá breyst? Það er góð spurning. Í svari við henni kæmi m.a. fram að staða ríkissjóðs hefur snarbatnað frá 2009, frost er að þiðna úr jörðu, framkvæmdir fara vaxandi og tekjur aukast. Væri ekki ráð, og í samræmi við fyrri yfirlýsingar núverandi stjórnarflokka, að nýta hluta þeirra aukatekna til að efla skóla og heilsugæslustofnanir? Hefur formaður fjárlaganefndar öllu gleymt?

Margir gætu séð fyrir sér þá „sviðsmynd“ að efnahagsbatinn væri að stórum hluta nýttur til að greiða niður erlendar skuldir, og lækka um leið grátlegan vaxtakostnað, en framlög til heilbrigðis- og menntamála yrðu jafnframt aukin þannig að skömm væri allavega ekki að. Enginn biður víst um sóma þessi misserin.

Á meðan landið rís jafnt og þétt, og Framsóknarflokkurinn er upptekinn við að deila út sprungnum blöðrum úr kosningabaráttunni, leikur Sjálfstæðisflokkurinn lausum hala í heilbrigðis- og skólakerfinu.

Nýjustu fréttir, ofan í læknaverkföll og landflótta heilbrigðisstétta, að segja þurfi upp hundrað manns til viðbótar á Landspítalanum miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp, er ekki hægt að túlka nema á einn hátt: Flokkurinn ætlar grímulaust að ganga milli bols og höfuðs á hinu opinbera velferðarkerfi til þess að færa svo þjónustuna upp í hendurnar á einkaframtakinu, með tilheyrandi gróðabralli, kostnaði fyrir almenning, bruðli og ringulreið.

Miðað við fjárlög yfirstandandi árs, þar sem ódýrasta heilbrigðisþjónustan var þurrkuð út á bak við tjöldin meðan heilbrigðisráðherra kyrjaði opinberlega sönginn um „að forgangsraða fjármunum til Landspítalans“, og miðað við fyrirliggjandi frumvarp ársins 2015, blasir við alger skortur á heilbrigðri skynsemi í heilbrigðismálum þjóðarinnar.

Vill fólk þetta?

Njósnir

Nýverið upplýsti Styrmir Gunnarsson að hann hefði stundað njósnir. Hann borgaði einhverjum fyrir að upplýsa um athafnir, orð og skoðanir samborgara sinna. Peningana til að standa undir þessari glæpastarfsemi útvegaði bandaríska sendiráðið, Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið.

Nú kemur það í sjálfu sér engum á óvart að þessir aðilar séu njósnarar. Bandaríkjamenn, flest ríki ef út í það er farið, halda úti misöflugu njósnaneti um heim allan og litla Ísland er auðvitað ekki undanskilið. Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn hafa haldið úti eigin eftirlitskerfi um íslenska borgara áratugum saman, en eins og t.d. kemur skýrt fram í ævisögu Gunnars Thoroddsen, hafði Sjálfstæðisflokkurinn njósnara á vinnustöðum og í tómstundafélögum, í landshlutum og borgarhverfum, til að flokkurinn gæti í gegn um pólitískar valdastöður tryggt brautargengi „réttþenkjandi“ en hamlað framgangi annarra, ekki bara á vinnumarkaði, heldur líka í einkalífinu – t.d. með pólitískri úthlutun bankalána – vegna „óæskilegra“ skoðana þeirra.

Og Styrmir sem sagt safnaði upplýsingum um samborgara sína í skýrslur, svo hægt væri að hafa aðgengilegt yfirlit yfir það á einum stað hverjir mættu fá vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna og hverjir ekki, hverja mætti ráða í bankastjóra- og skólastjórastöður hringinn í kringum landið og hverja alls ekki, hjá hverjum lögreglan þyrfti að hlera símann – og svo framvegis. 

Þetta allt hefur svo sem lengi verið almenn vitneskja, en harðlega neitað af Sjálfstæðisflokknum og fótgönguliðum hans, og Morgunblaðinu, sem jafnvel hefur verið kallað fréttablað en ekki það áróðursrit sem það er og hefur alltaf verið.

Það sem er skemmtilegast við allan þennan óhroða, sem lengi hefur verið við lýði en er smám saman að koma upp á yfirborðið, er að Flokkurinn og Blaðið, hafa alla tíð haldið uppi orðræðu um frelsi og lýðræði; frjáls viðskipti og helgan rétt hvers einstaklings til orðs og æðis. Flokkurinn hefur blóðrist næst hjarta sínu orðin: „Gjör rétt. Þol ei órétt“. 

Ekki þarf að leggjast í mikla orðsifjafræði til að átta sig á því að starfsemi og skipulag Sjálfstæðisflokksins og málgagns hans, sem lýst hefur verið hér að ofan, stangast algerlega á við hina meintu helgidóma; raunveruleikinn lýsir miklu þoli fyrir hverskyns órétti en fátæklegu réttlæti – og gríðarlegum, pólitískum hömlum á frelsi einstaklinga.

Það sem er aftur á móti sorglegast við allan óþverrann sem þeir Styrmir og Gunnar lýsa í starfi Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins er þetta: Ekkert hefur breyst. Eftirlitskerfið er þarna, og enn í fullu brúki. Vitaskuld er því harðlega neitað, en sannleikurinn mun koma í ljós síðar, á sama hátt og dæmin sem hér hafa verið rakin.

Ekkert er við það að athuga að fólk hafi mismunandi skoðanir á því hve mikil þátttaka hins opinbera í samfélaginu eigi að vera, hve umfangsmikið opinbert velferðarkerfi sé, skattheimta o.s.frv. Ekkert er heldur við það að athuga þó fólk taki afstöðu, jafnvel trúarlega, gegn ákveðinni pólitík, eins og t.d.  jafnaðar- og vinstristefnu, nú eða frjálshyggu. Sjálfsagt og eðlilegt er að takast á um pólitískar stefnur og áherslur og berjast fyrir sannfæringu sinni.

Óskiljanlegt er aftur á móti að heiðvirt fólk skuli leggja nafn sitt við þau myrkraverk sem Styrmir Gunnarsson og Gunnar Thoroddsen hafa lýst að Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið stunda.

„Vil ég nú, að þú hugsir nokkra ráðagerð og leggist djúpt.“

Nú er hafin í fjölmiðlum skipulögð gagnsókn Framsóknarflokksins vegna hroðalegrar útreið-ar í skoðanakönnunum nýlega. Grunnstefið í gagnsókninni er margfræg skuldaleiðrétting sem enn einu sinni mun vera á næstu grösum. 

Tónninn sem spunameistarar flokksins hafa slegið, og hljómar nú í blað- og Netheimum, er þessi: Spunameistarar á vegum fyrri stjórnvalda slá því ryki í augu almennings að skulda-leiðrétting Framsóknarflokksins sé „köld pizza í boði skattgreiðenda“. 

Gallinn við spuna framsóknarmanna nú er hins vegar sá að það eru ekki bara nokkrir launaðir lygalaupar sem tjá sig og sjá í gegn um blekkingarleikinn, heldur allur almenningur. Nánast allir kjósendur Framsóknarflokksins hafa glatað trúnni, nema helst þeir sem gegna trúnaðarstörfum eða eru flokksbundnir. 

Trúnaðarbrestur hefur orðið vegna þess að fólki var lofað miklum peningum frá útlendum hrægömmum til að lækka húsnæðisskuldir sínar en það fær eitthvað allt annað. Það fær a) heimild til að borga sjálft niður eigin skuldir með viðbótarlífeyrissparnaði sínum, b) tugi en ekki hundruð milljarða, c) skattfé úr ríkissjóði – en sér á sama tíma á bak tugmilljarða auðlindaarði til sægreifa. Þessu hefur fólk nú áttað sig á, jafnt tortryggnir sem vongóðir og trúgjarnir. Það hefur ekki þurft neina spunameistara til að útlista þennan veruleika. Hann blasir við. 

Segja má að kosningaspuninn hitti nú skapara sinn, forsætisráðherrann og hans fólk, í andlitið eins og blaut tuska. 

„Spunameistari“ er nýyrði í málinu, skrauthvörf fyrir gamalt samheiti sem ekki þykir nógu fínt nú á „öld mannauðsstjórans“, en á djúpar rætur í málinu, alla leið aftur í Brennu-Njáls sögu. Þar segir (kaflar 65 og 67): „Þorgeir [Starkaðarson] bað þá feðga [Valgarð gráa og Mörð son hans] liðveizlu og aðgöngu, en þeir fóru lengi undan og mæltu til fé mikið.“ Skömmu seinna fór Þorgeir að finna Mörð og undi illa við stöðu mála, hafði enda keypt liðsinni hans dýru verði, segir: „Vil ég nú, að þú hugsir nokkra ráðagerð og leggist djúpt“, og lofar góðum bónus ef vel tekst til. „„Sýnist það jafnan,“ segir Mörður, „að ég er fégjarn, enda mun svo enn[…]““, og leggur á ráðin sem duga.

Hvað hefur breyst frá söguöld? Helst það, að séð verður, að í stað eins þá þiggur nú fjöldinn allur góð laun fyrir ráðgjafarstörf hjá stjórnvöldum. En markmiðin virðast lítið breytast:

Hálfan sannleik segir oss,

sérhagsmunavörður.

Spinnur, vendir kvæði í kross,

kallast Lyga-Mörður.

 

Ekki er allt illt og bölvað – bara sumt

Af því ég kvartaði hér á síðunni um daginn yfir læknisheimsókn finnst mér ég skyldugur  að segja frá framhaldinu. Ekki af því neinum komi læknisheimsóknir mínar við, né að vanheilsa mín eða heilbrigði eigi erindi við nokkurn mann, heldur vegna þess að pistillinn var dálítill áfellisdómur yfir þjónustunni, og um leið heilbrigðiskerfinu.

Þess vegna vil ég segja frá því að ég pantaði nýjan tíma, til að ljúka því sem út af stóð síðast, og ákvað að prufa um leið annan lækni. Ég hringdi náttúrlega milli 8 og 9 á föstu-degi, í vetrarfríinu, og fékk tíma strax í vikunni á eftir. Og skemmst er frá því að segja að ég fékk afbragðsþjónustu. Þurfti varla að biðja um neitt sjálfur, því læknirinn virtist vera með það á hreinu hvað væri sjálfsagt og eðlilegt að athuga hjá karli þessum. Sendi beiðni til bæklunarsérfræðings um myndatöku á hnénu, aðra um blóðprufu og så videre.

Svo hringdi ég í röntgen og fékk hentugan tíma þannig að ég gæti afgreitt bæði hálsliða-myndatökuna og blóðprufuna í sömu ferðinni. Og þar fékk ég líka afbragðs þjónustu, mun betri en ég hafði búið mig undir. Frá því ég meldaði mig í afgreiðslunni og þangað til ég var kominn aftur út í bíl, leið innan við hálftími. Mér fannst það barasta vel gert. Engum virtist detta það í hug í þessari heimsókn að „tíminn væri útrunninn“ áður en lokið var við að gera það sem um var beðið. 

Lærdómurinn af þessu er auðvitað sá að starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar er undantekn-ingarlítið framúrskarandi. Ekki er við það að sakast vegna biðraða, tímaskorts, álags eða óhóflegs biðtíma eftir þjónustu. 

Við hverja er þá að sakast?

Það er við þá að sakast sem skipta þjóðarauðnum. Það er við þá að sakast sem hefur á 70 árum tekist að byggja upp þjóðfélag sem sólundar arðinum af óhemju verðmætum auðlindum svo forkastanlega, að ekki er hægt að veita öllum þessum fáu hræðum sem hér hafast við sómasamlega grunnþjónustu. Bara sumum.

Verðmæti auðlindanna innan okkar lögsögu er meira en yfirdrifið til að tryggja hverri einni og einustu af þessum 300 þúsund hræðum sem hér hafa kastað akkerum ásættanlega lífsafkomu og velferð. Til þess þyrfti ekki einu sinni að skipta nokkurnveginn jafnt, eins og margir óttast meira en pestina. Þrátt fyrir hófleg en sæmileg lífskjör fyrir alla, gætu þeir sem burðast með þörf til maka krókinn, samt gert það.

Núverandi þjóðfélagsgerð er mannanna verk sem auðvelt er að breyta. Auðurinn er nægur og fólkið er fátt. Landið er að vísu stórt miðað við fólksfjölda og innviðir hlutfallslega dýrir í samanburði við milljónaþjóðir. En það er engin afsökun. Hér á landi er vandinn fyrst og fremst alger skortur á stjórnvisku. 

Það er illt og bölvað.