„Við gerum bara ráð fyrir því að þetta taki gildi næsta haust og við þurfum að vera reiðubúin með allar námsbrautalýsingar 1. mars og við höfum ekki fengið neinar aðrar dagsetningar, þannig að það verður í nógu að snúast í vetur“. Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir flokkinn: Þjóðmál
Fordæmi til varnaðar og fyrirmyndar í senn
Mér þótti athygli vert að skoski sjálfstæðissinnaformaðurinn sagði í viðtalinu við Boga í sjónvarpinu í fyrradag að mikilvægra fyrirmynda að uppbyggingu nýs og betra skosks samfélags væri að leita til norrænu ríkjanna, m.a. aðferðar Íslands við að setja sér nýja stjórnarskrá. Og þá átti hann ekki við starf núverandi SigurðarLíndalsnefndar.
Það virðist hins vegar hafa farið framhjá honum, á einhvern óskiljanlegan hátt, að komin er aftur til valda á Íslandi ríkisstjórn sem ætlar að forsmá vilja 2/3 hluta kjósenda um nýja stjórnarskrá á grunni þeirrar vinnu og aðferðafræði sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ýtti úr vör: alvöru lýðræði með þjóðfundi, kosningu stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður þess.
Í margháttuðum ólánleika þeirrar ríkisstjórnar, klaufaskapar og vandræðagangs, glóði stjórnarskrármálið skært, eins og gull af eiri. Að þáverandi stjórnarandstöðu skyldi takast að kæfa það með málþófi er bæði til ævarandi skammar fyrir hana og eilífur vitnisburður um lánleysi „vinstristjórnarinnar“, þrátt fyrir fagran ásetning í málinu.
En kannski ætti að upplýsa Skotann um að Íslendingar hafi enn ekki sett sér þá stjórnarskrá sem lagt var upp með að semja fljótlega eftir lýðveldisstofnun 1944, eða í 70 ár.
Skotar gætu þá haft fordæmi Íslendinga í stjórnarskrármálum bæði til varnaðar og fyrirmyndar í senn, þ.e.a.s. kjósi þeir á morgun að stofna sjálfstætt ríki.
Fækkun háskólanema
Fækkun háskólanema er eitt helsta ræktunarmarkmið þjóðernissinna í ríkisstjórn Íslands, eins og fram kemur í fjölmiðlum. Markviss niðurskurður er augljós í öllu ræktunarstarfi – þar næst enginn árangur nema með miskunnarlausu úrvali. Skera þá lélegu og miðlungsgóðu en halda upp á bestu einstaklingana. Úrvalið byggir svo á ræktunarmarkmiðunum hverju sinni. Í hrossarækt, svo dæmi sé tekið, skiptir máli hvort markmiðið er að rækta vinnuhesta eða reiðhesta, vekringa eða brokkara, blesótta hesta eða skjótta, þegar valið er úr stofninum.
Hjá núverandi stjórnarflokkum á Íslandi er háleita markmiðið að halda við og helst að fjölga í kjósendahópnum. Leiðin að markmiðinu er að hleypa einungis sem fæstum og aðeins hinum gáfuðustu í háskólanám (það verður ekkert við þá ráðið hvort eð er). Stytting framhaldsskólanáms til stúdentsprófs er eitt skrefið á þeirri leið að fækka háskólanemum. Hálfvitarnir hafa ekkert þangað að gera! Þetta á auðvitað almennt við um menntakerfið. Því fleiri með takmarkaða menntun, því meiri líkur á stórum kjósendahópi stjórnarflokkanna eins og vísindarannsóknir hafa sýnt. Þannig er fækkun háskólanema leið að auknum gæðum fyrir þessa framsýnu flokka. Þetta má orða svona:
Háleita markmiðið hækkar
ef háskólanemunum fækkar.
Best að múgurinn gorti
af menntunarskorti,
þá stuðningshópurinn stækkar!
Af skýjaglópi
Ástandinu og þróuninni hér á landi undanfarinn tæpan áratug má líka við það að maður sem hefur tekið allt of stóran skammt af ofskynjunarlyfjum er sendur af heimilislækninum á sjúkrahús. Þar tekur á móti honum læknateymi sem segir hann fullfrískan, ofurhraustan raunar, sendir hann heim og krefst þess í framhaldinu að heimilislæknirinn verði sendur í endurmenntun.
Skömmu seinna er viðkomandi lagður inn í hasti, nær dauða en lífi. Gamla læknateymið er rekið en nýju teymi falið að reyna að koma sjúklingnum aftur til lífs, og heilsu ef guð lofar. Eftir margar bráðaaðgerðir, m.a. með aðstoð sérfræðinga erlendis frá, á helstu líffærum – s.s. hjarta, lungum, lifur, meltingarvegi, blóðrás og heila – kemst sjúklingurinn úr mestu lífshættu og lífsmörkin, þó lág séu, orðin allstöðug.
Eftir margra missera legu á gjörgæsludeild fer Eyjólfur loks að hressast, er færður á almenna deild og fær að fara á fætur stund og stund á degi hverjum. Sjúklingurinn styrkist dag frá degi, þótt hægt gangi, og sýnt þykir að hann muni ná sér að fullu. Loks er hann útskrifaður af sjúkrahúsi og fær að fara heim til sín, byrjar smám saman þátttöku í daglegu lífi og lengir viðveru í vinnunni vikulega þar til fullum vinnudegi er náð. Afköstin eru aftur á móti ekki enn orðin þau sömu og fyrr, enda áfallið alvarlegt, í raun algert hrun á sál og líkama.
Nú, þegar þokkalegri heilsu er náð, batinn stöðugt hraðari þrátt fyrir nokkuð úthaldsleysi, mæði, stoðkerfisverki og höfuðverkjaköst og fullvíst er að bjartari tímar séu framundan, tekur endurhæfingarteymi við af læknateymi spítalans. Erfitt er að fá tíma á hæfingarstöðinni, nema fyrir útvalda og helst þá sem styrkt hafa meðlimi teymisins fjárhagslega skv. samkomulagi á leynifundum.
En þessi forgangsröðun kemur ekki í veg fyrir hægan bata. Okkar maður er kominn á réttan kjöl og honum skánar af sjálfum sér, burtséð frá / þrátt fyrir „meðferðarúrræði“ nýja teymisins, sem vel að merkja er flesta daga upptekið við að tryggja hagsmuni „sannkristinna“ og að leka trúnaðarupplýsingum um þá sem ekki teljast til „sannra Íslendinga“.
Fyrir þessu dæmalausa teymi fer maður, með óljósar prófgráður, sem heldur því fram í fjölmiðlum að enginn sjúklingur hafi náð jafn hröðum bata á jafn stuttum tíma og eftir endurhæfingu hjá sér.
Hvílíkur skýjaglópur.
Af „eflingu landsbyggðarinnar“
Burtséð frá því hvað mönnum finnst um flutning mikilvægra ríkisstofnana frá höfuðborgarsvæðinu, þá geta allir verið sammála um það að ferlið, ef ferli skyldi kalla, við ákvörðun um flutning Fiskistofu úr Hafnarfirði til Akureyrar er með öllu óboðleg stjórnsýsla.
Meiriháttar inngrip af þessu tagi í líf og velferð fjölda fjölskyldna hlýtur að krefjast vandaðs undirbúnings, samráðs og aðlögunar en ekki eins pennastriks í bakherbergjum og tilkynningar um lokaákvörðun á einum starfsmannafundi. Og alls ekki aulalegra tilsvara frá forsætisráðherra þjóðarinnar um að fólk geti alveg látið sér líða vel einhvers staðar annars staðar en það á heima.
Flestir eru held ég sammála því að æskilegt sé að umsvif ríkisins efli byggðir sem víðast um land með staðbundnum starfsstöðvum. Hefðbundnar slíkar stofnanir eru framhaldsskólar, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir af ýmsu tagi, löggæsla o.fl. sem sinna sk. „nærþjónustu“. Slíkar stofnanir, sem gegna lykilhlutverki í daglegu lífi landsmanna á hverjum stað, hafa sætt niðurskurði áratugum saman. Sjúkrahús, heilsugæslur, lögreglustöðvar, sýslumannsembætti svo eitthvað sé nefnt, hafa verið sameinuð eða aflögð, með öllu eða að hluta, svo þjónustan stendur víða ekki undir nafni, þjónusta sem varðar daglegt líf hvers og eins og þarf af þeim sökum að vera í heimabyggð, við hendina. Undantekning frá þessu eru framhaldsskólar, sem hefur fjölgað mjög og víða um land og skipta sköpum hvað byggðaþróun varðar, ekki síður en hið augljósa: jafnari tækifæri til menntunar.
Á meðan t.d. sífellt fleiri landsmenn þurfa að „fara suður“ til að leita sér lækninga og gamalmenni eru flutt hreppaflutningum milli héraða vegna niðurskurðar og sparnaðar, þá er apparat eins og Fiskistofa rifið upp með rótum og flutt norður í land. Væri kannski nær að efla atvinnu og uppbyggingu utan stórreykjavíkursvæðisins á vegum ríkisins með því að halda úti sjálfsagðri grunnþjónustu á byggðum bólum hringinn í kringum landið, þannig að helst sé ekki meira en í mesta lagi klukkutíma akstur í bíl fyrir þá afskekktustu? Skilar það ekki til lengri tíma meiru og víðar, meira öryggi, fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum, hærri tekjum – meiri lífsgæðum?
Flutningur stofnana sem ekki varða daglegt líf sk. almennings í landinu með beinum hætti hlýtur að vera umhugsunarefni. Hverjir þurfa á þjónustu stofnunarinnar að halda? Hvernig er hægast fyrir þá að nálgast þjónustuna? Hvar og hvernig er ódýrast fyrir þá að sækja þjónustuna? Hvar er hagkvæmast að reka þjónustustofnunina? Og síðast en ekki síst: veitir hún sérhæfða eða almenna þjónustu?
Hvernig gagnast flutningur Fiskistofu svokallaðri landsbyggð? Jú, gott fyrir Akureyri og nágrenni að fá 40 góð störf. En hvað með aðra landshluta? Vestfirðinga, Hornfirðinga, Suðurnesjamenn? Þurfa þeir að koma sér fyrst til Reykjavíkur og þaðan norður í Eyjafjörð? Eða þarf kannski enginn að sækja Fiskistofu heim?
Það jákvæðasta í þessu máli er trúlega það að Framsóknarmenn og flugvallarvinir ættu að geta hætt að fjargviðrast út af staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Það ætti ekki að skipta höfuðmáli hvar landsmenn millilenda til að ná flugi í þann landshluta þar sem þjónustunni sem þá vantar hefur verið plantað. Það eina sem þarf að tryggja eru góð upplýsingaskilti í flugstöðinni um ríkisstofnanir á hverjum áfangastað.
Rauðan belg fyrir gráan
Það veldur nokkrum áhyggjum að rasismi skuli aðeins valda fjármálaráðherranum þrýstingi í hné. Í því samhengi er rétt að rifja upp aðra sögu af þrýstingi við hné.
Við uppgröft líkanna kom í ljós að í Njálsbrennu hafði Skarphéðinn aðeins brunnið upp að knjám. Allt annað var óbrunnið á honum, utan krossmörk á brjósti og milli herðablaða. Ætluðu menn að þau hefði hann brennt á sig sjálfur, e.t.v. til að biðjast fyrirgefningar og öðlast eilíft líf, enda orðinn kristinn maður, og þá hafi guð stöðvað brunann því hann er miskunnsamur og lætur fólk ekki brenna bæði þessa heims og annars, samkvæmt orðum hins (mis)vitra Njáls.
Bjarni Ben. reynir að ganga í smiðju Skarphéðins með glotti og kaldhæðnum tilsvörum um silfrað hár og rauðan klút, og verk í hné. Skarphéðinn talaði um að gjalda ‘rauðan belg fyrir gráan’, og þóttist meira að segja vera að fara í laxveiði þegar hann dró fram öxi sína, Rimmugýgi, fyrir vígaferli. Ekki var þá þó um að ræða boðsferð á kostnað annarra, og skilur þar á milli þeirra Bjarna og Skarphéðins, auk hetjuskaparins.
Hvenær kemur að því að Bjarni, eins og Skarphéðinn, þurfi að láta af oflæti sínu og mikilmennsku, og biðjast auðmjúklega fyrirgefningar á orðum sínum og gjörðum, er óljóst. En þeir tímar munu koma.
Kennarar krefjast engra ofurlauna
Kjarasamningar framhaldsskólakennara runnu út í lok janúar sl. og stéttin er því samningslaus. Samninganefnd ríkisins hefur ekkert að bjóða, og hefur greinilega ekki umboð stjórnvalda til að gera það sem menntamálaráðherra og fleiri stjórnmálamenn hafa sagt opinberlega að þurfi að gera: að hækka laun kennara. Halda áfram að lesa
Boðlegur málflutningur?
Formaður fjárlaganefndar Alþingis fer nú aftur mikinn í fjölmiðlum, eftir að þjóðin hafði fengið blessunarlegt nokkurra vikna hlé frá henni. í Morgunútvarpi Rásar 2 sl. mánudag sagði hún þetta í umræðu um niðurskurð barnabóta:
„Fjárlögin liggja fyrir og þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, hvað sem verður gert á næsta ári skal ég ekkert segja um, en nú er – þarf að afgreiða fjárlögin fyrir áramót. Við er – Okkur er að takast að snúa skútunni við. Skila hallalausum fjárlögum og taka við slæmu búi frá vinstri flokkunum. Þetta er okkar leið til þess. Árið 2014 liggur að sjálfsögðu allt undir í vinnu fyrir fjárlög 2015. Þetta er bara byrjunin sem koma skal hjá nýrri ríkisstjórn. Þetta stefnan og af þessari stefnu verður ekki vikið.“
Fjármálaráðherra hafði líka eytt mikilli orku helgina á undan til að verja umræddar áætlanir um niðurskurð barnabóta. Ekki leið samt langur tími þar til forsætisráðherra þvertók fyrir þessa stefnu ríkisstjórnarinnar „sem ekki verður af vikið“, þó hún hafi eitthvað verið rædd á einhverju stigi fjárlagavinnunnar.
Svona getur blessað fólkið bullað.
Og formaður fjárlaganefndar getur ekki opnað munninn án þess að minnast á ógnarstjórn vinstri manna. Hún telur núverandi hægristjórn vinna þrekvirki með því að stefna að hallalausum fjárlögum eftir að hafa tekið við „slæmu búi frá vinstri flokkunum“. En hversu slæmt er það bú sem Vigdís Hauksdóttir tók við í vor? Mér skilst að hallinn sé um 30 milljarðar, ef eitthvað er að marka þær tölur sem stjórnarliðar setja fram í fjölmiðlum. Það er slæm staða.
Formaður fjárlaganefndar kemst upp með að tala um þennan halla eins og vinstri stjórnin hafi búið hann til á síðustu fjórum árum – og segir það eðli vinstrimanna að greiða fólki svo háar bætur að það verði að aumingjum sem vilji frekar þiggja bætur en vinna fyrir sér. Þetta var hluti af röksemdafærslu hennar fyrir því að ekki væri óieðlilegt að skera niður barna- og vaxtabætur.
Svona getur blessuð konan bullað.
Gott og vel. Ef búið sem hægristjórnin tók við var mínus 30 milljarðar, hvert var þá búið sem vinstri stjórnin tók við eftir áratuga valdatíma hægrimanna? Mig minnir að það hafi verið mínus 230 milljarðar. Hin hræðilega vinstristjórn, sem „gerði ekkert“, bjó sem sagt svo vel í haginn fyrir núverandi stjórnvöld að möguleiki er að skila hallalausum fjárlögum: minnkaði hallann um 200 milljarða. Það er auðvitað „ekkert“.
Og rétt í því að formaður fjárlaganefndar er búinn að geisa í fjölmiðlum um að það sé vond stefna, og sérstakt einkenni á vinstri mönnum, að greiða fólki of háar bætur, og þess vegna sé í lagi að lækka barnabætur, hvað gerist þá? Jú, einmitt. Þá kemur forsætisráðherrann og hælir sér og sínum af því að ætla að HÆKKA bætur. Til standi að greiða hærri bætur en gert var á síðasta kjörtímabili. Og formnaður fjárlaganefndar tekur undir málflutning hans.
Í umræðum um „vanda Landspítalans“ hefur ítrekað komið fram hjá formanni fjárlaganefndar að núverandi stjórnvöld hafi fengið það verkefni í fangið að bjarga heilbrigðiskerfinu úr rústum vinstri manna. Þar hafi verið gengið allt of nærri beini í niðurskurði.
Augnablik. Nú þarf að hugsa.
Og niðurstaðan er þessi: 1. Fyrrverandi ríkisstjórn sem gerði ekkert, skar ekki nógu mikið niður og skilaði ríkissjóði í óásættanlegum halla. Það mun vera „eðli vinstri manna“ að gera svo. 2. Fyrrverandi ríkisstjórn sem gerði ekkert skar of mikið niður og skildi m.a. heilbrigðiskerfið eftir í rúst. 3. Fyrrverandi ríkisstjórn vinstrimanna sem gerði ekkert eyðilagði líf fólks og vilja til að bjarga sér með því að greiða því of háar bætur. Það mun vera „eðli vinstri manna“ að gera svo. 4. Núverandi ríkisstjórn hælir sér af því að ætla að hækka bótagreiðslur á næsta ári, barnabætur, elli- og örorkubætur. 5. Núverandi ríkisstjórn tók við „slæmu búi“ af vinstristjórninni, 30 milljarða halla. 6. Búið sem vinstristjórnin tók við var halli upp á 230 milljarða. Þá staðreynd á að þagga. Nú er ekki lengur rætt um „svokallað hrun“. „Hvaða hrun?“ Hrun hægrimanna er ekki rætt og allur sá fjármálavandi sem við blasir, bæði í ríkisfjármálum og fjármálum heimilanna er fráfarandi vinstristjórn að kenna. Þannig er orðræðan hjá formanni fjárlaganefndar, og hún kemst upp með þetta bull í fjölmiðlum, nánast án viðspyrnu.
Er þetta boðlegur málflutningur?
Sennilega er það rétt að of mikið hafi verið skorið niður í heilbrigðiskerfinu á valdatíma vinstristjórnarinnar. Það á að gagnrýna. Þá væri halli ríkissjóðs að vísu ekki 30 milljarðar, heldur eitthvað töluvert meiri. Vinstri stjórnina á líka að gagnrýna fyrir að hafa ekki haft í sér nægan manndóm til að koma raunverulegum yfirráðarétti yfir fiskimiðunum til eigenda sinna, svo auðlindin gæti staðið undir stærri hluta velferðarkerfisins og samfélagið allt gæti notið góðs af henni. Þar fara umtalsverðar tekjur í súginn. Það litla skref sem tókst þó að stíga í rétta átt, gerði hægristjórnin vitaskuld að sínu fyrsta viðbragði að stíga til baka, í öfuga átt, skv. niðurstöðum svokallaðra „leynifunda“ með LÍÚ sl. vor.
En hvað sem um þessi mistök vinstristjórnarinnar má segja, geta hægrimenn nú þakkað henni fyrir að minnka halla ríkissjóðs um 200 milljarða, svo nú hyllir undir að mögulegt sé að skila hallalausum fjárlögum? Nei, það geta þeir ekki. Til þeirra verka (sem einhverjir myndu jafnvel kalla töluvert afrek við erfiðar aðstæður) er vísað sem „hins slæma bús frá vinstri flokkunum“.
Vér hrægammar
VÉR HRÆGAMMAR
Bjarg-Ráður
hefur látið boðin
út ganga:
„Hrægammar
mati Forsendu-Brest
af sjálfheldufé
afdala“.
Ég er hrægammur.
Sit yfir
minni séreignarhjörð
í þokuslæðingi
og degi tekið að halla.
Framundan
er Vogunarskarð
til friðsælli byggða
og í boði
að tína í sig á leiðinni
einn og einn skrokk
af eigin fé.
„Hrægammar
skulu ekki fá
að kemba hærurnar.“
Flóttaleiðin
PR-ræða forsætisráðherrans á framsóknarfundi á Hótel Selfossi um síðustu helgi var að mörgu leyti alveg meinfyndin. Hann varaði fundarmenn ábúðarfullur við því að auðvitað myndi hin illa stjórnarandstaða bæði snúa út úr öllu saman og ljúga hikstalaust þegar skuldaleiðréttingatillögurnar hans yrðu kynntar í lok þeirrar viku sem nú er brátt á enda runnin:
Bera andstæðingar sig,
útúrsnúning feta,
ætla’ að ljúga upp á mig
öllu sem þeir geta.
Þá er tónninn sleginn: ekki skiptir máli úr þessu hver mun hugsanlega gagnrýna tillögurnar sem allir bíða spenntir eftir, né fyrir hvað eða á hvaða forsendum. Allri gagnrýni verður svarað þannig að um sé að ræða útúrsnúninga eða lygar. Enda hafi svo sem engu verið lofað beint (jafnvel þó hægt sé að endursýna loforðaupptökurnar).
Þessi ræða var að vísu ekki ætluð þeirri sauðtryggu hjörð sem mætt var á fundinn, heldur var hún til útflutnings – í gegnum fjölmiðlana til þjóðarinnar allrar. Þessi ræða var tilraun til að hafa einhverja stjórn á umræðunni og atburðarásinni, forsætisráðherra var að skapa sér og fylgismönnum sínum varnarstöðu – og flóttaleið ef nauðsyn krefði. Almannatenglar og blaðafulltrúar forsætisráðuneytisins hafa áttað sig á því að brýn þörf væri fyrir áætlun af þessu tagi. Það skemmtilega er hve „gagnsætt“ allt þetta ferli er. Og á ekki öll stjórnsýslan einmitt að vera gagnsæ?
Þó planið sé gott er eiginlega vandræðalegt hve stjórnarandstaðan hefur verið hógvær og varkár í gagnrýni sinni, enda engar tillögur fram komnar og fátt sem hönd á festir í því sambandi. Menn hafa mest verið að velta vöngum og lýsa áhyggjum af afleiðingum hugsanlegra möguleika.
Gagnrýnin hefur ekkert síður komið úr öðrum hornum en stjórnarandstöðuhorninu og sumpart beinst að ráðaleysinu, að ekkert hafi gerst mánuðum saman þrátt fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra bæði fyrir og eftir kosningar um að skuldaniðurfellingarloforðin byggðu á þaulhugsuðum áætlunum sem ráðist yrði í STRAX. Allt væri þetta kristalstært, og snilldin fælist ekki síst í því að enginn kostnaður myndi falla á ríkissjóð!
Sumir hafa kallað þetta lýðskrum, óframkvæmanlega barbabrellu ætlaða að slá glýju í augu kjósenda. Við fáum að vita um það í vikulokin hvort svo er, og hvort ríkissjóður verður eins stikkfrí og lofað hefur verið.
Miklu meira áberandi en gagnrýni stjórnarandstöðunnar hafa verið hróp framsóknarmanna sjálfra á torgum um ósanngjarnar árásir úr öllum áttum. Þeir hafa verið alveg einfærir um að halda því á lofti hvað aðrir eru voðalega vondir við þá: smá meðvirkni kæmi sér víst ekki illa.
Það eru ekki síður Seðlabankinn, samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, hagfræðingar og sérfræðingar af ýmsu tagi sem hafa haft uppi varnaðarorð. En allt eru þetta víst grunsamlegir aðilar og ekki síður líklegir til að grípa til útúrsnúninga og lyga en óforbetranlegt stjórnarandstöðuliðið!
Nú er ekkert annað að gera en bíða eftir því hvað forsætisráðherrann dregur upp úr hatti sínum. Fjallið hefur loks tekið jóðsóttina. Öll vonumst við eftir einhverju brilljant-íni.