Hrímnir

Flestir hugsa margt við áramót,
minnast þess sem færði ást og gleði.
Kannski líka kemst á hugann rót
kvikni það, sem betur aldrei skeði.
Munum þá að gera bragarbót
og bera sig, því lífið er að veði.

Í mysu lífsins maðkur víða sést,
manninn, svik og pretti, oft skal reyna.
Það er sem blessuð skepnan skilji flest,
skynji hugann, engu má þar leyna.
Það veit sá sem eignast úrvalshest
að aldrei vin sinn svíkur lundin hreina.

Kæri vin! Ég kveð með hjartasting.
Þín kroppuð tótt nú himni móti starir
sem áður horfði frán um fjallahring.
Þó fram úr öðrum hinum megin skarir,
ég aldrei framar óð minn til þín syng
og engin von með hneggi þú mér svarir.

Ég man þinn langa, mjúka, sveigða háls
ég man, þitt skarpa auga knapann spurði:
„Viltu með mér núna, nýr og frjáls,
njóta listagangs, í fullum burði“?
Á gamlársdag finn grimmd. Mér varnar máls
að ganga að þér, dauðum oní skurði.

 

Jólakveðja 2017

Drungalegur dagur skammur
deyfir lund og vinnuþrek.
Niður bælir næturhrammur,
niðasvartur, eins og blek.
Huggun er að ljósið lifir,
lengir göngu sína brátt,
vakir lífi öllu yfir,
eflir von og kærleiksmátt.

 

Jólakveðju ég vil senda;
jarðarbúar öðlist frið!
Þeim er eitthvað illt kann henda,
af öllum mætti veitum lið.
Það er list að þola saman,
þraut fær traustur vinur eytt,
maður er víst mannsins gaman,
þó margur hafi rjómann fleytt.

 

Glíman við tungumálið

Hvað annað sem um rímur og rímnahætti má segja eru bragarhættirnir hreint afbragð til að æfa sig í meðferð tungumálsins, til að efla orðaforða, sníða hugsun sinni stakk og koma frá sér, þegar best lætur, meitluðum, vitrænum hendingum. Sléttubönd eru hvað vandmeðfarnasti bragarhátturinn, en lesa má slíkar vísur jafnt aftur á bak sem áfram án þess bragarhátturinn riðlist. Best er ef merkingin snýst við, eftir því hvorn veginn er lesið. Slíkar vísur eru kallaðar „refhverf sléttubönd“. Meðfylgjandi eru nokkrar hringhendar sléttubandavísur, jafnvel dýrari, og þó skáldskapurinn í þeim sé ekki rishár eru þær afrakstur skemmtilegrar glímu höfundarins við tungumálið. Og það er einmitt galdurinn: Að glíma við tungumálið, svo það deyi ekki átakalaust!

Halda áfram að lesa

Vigdís ársgömul – Kveðja frá afa

Liðið núna eitt er ár,
ævin varla hafin.
Bæði gefið bros og tár,
blíðu og kærleik vafin.
Lýsa upp heiminn ljósar brár,
ei lítið montinn afinn.

Vinna munt þú marga dáð,
málin stöðugt ræðir.
Yndi hefur um þig stráð,
ömmuhjörtun bræðir.
Um fingur þér, sem fínan þráð,
foreldrana þræðir.

Óskrifað er æviblað,
enn þarf vernda haginn
svo dembir þér ekki á dýpsta vað,
af dæmum lærist aginn.
Vigdís, þú töltir tign af stað!
Til hamingju með daginn!

Við áramót 2016-2017

„Nú árið er liðið í aldanna skaut“
og aldrei það komi til baka
með Icehot, sem Borgun til skyldmenna skaut,
í skjólin þeir auðmagni raka,
og forsætisráðherrann flagsækið naut,
fnæsandi, siðspillt og gaga,
vort Alþingi, hæstvirt, er lægst núna laut,
samt ljóst að af miklu’ er að taka,
því lífeyrisfrumvarp á launþegum braut
sem lítt höfðu unnið til saka.

 

Nýtt ár er í vændum, og útlitið svart,
því afturhaldsstjórn er í pípum
sem gefa mun almenningseigurnar skart
til útvaldra’, í passlegum klípum,
og auðmönnum hleypa á fljúgandi fart,
þessum forhertu, siðlausu týpum,
en sjúklingur! fljóta til feigðar þú þarft
í fenjum með botnlausum dýpum.
Ég játa, mér finnst þetta helvíti hart.
Til heilbrigðra meðala grípum!

 

Jólakveðja 2016

Stríðs í heimi hrjáðum,
hungursneyðar, leiðum,
er fjöldi enn, sem um aldir,
óttasleginn á flótta.
Eins og Jósef Jesúm
úr jötu tók, um götur
hrakinn, úr landi sem hundur,
svo hlífa mætti lífi.

Þennan mæta manninn
myrtu valdsmenn kaldir
sem þelið ekki þoldu
þýða, og hylli lýðsins.
Nú á tímum „nýjum“
neglum á krossa, steglum,
þá sem valdi velgja
vel undir uggum, við stugga.

Augum lítum ætíð
Assange þannig og Manning.
Af lífi, og sögulegu,
lærum, vinir kærir.
Aðeins andófslundin
oki lyftir. Tyftir
illan bifur. Hjá öllum
til árs og friðar miði.

Hérna blessuð börnin
brosa sem sól um jólin.
Annars staðar þau stuðar
stríð með sprengjuhríðum.
Selja vesturveldi
vopnin. Huga opnum!
Innum oss að þessu:
Eru þau mannverur?

 

Vikan

Út er sofinn, orku með

sem eykur blundur fagur.

Ekkert meira gleður geð

en góður mánudagur.

 

Sýni bæði djörfung, dug,

svo dívan nýta megi.

Fátt eitt meira herðir hug

en hvíld á þriðjudegi.

 

Ég kúri, en seilist til kökunnar

í kyrrð, milli svefnsins og vökunnar.

Hve mildur og fagur

er miðvikudagur

um sláttinn, ef nýttur til slökunar.

 

Fluggreind tík og friðsamleg
til fyrirmyndar oft
svo fimmtudegi fagna ég
með fætur upp í loft.

 

 Við grundun boðorðs guð oft sat,
sem gott er fram að draga:
„Eigðu náðugt eftir mat
alla föstudaga“.

 

Ávallt skaltu leita lags
að losna flest við störfin.
Besta lofgjörð laugardags
er lítil vinnuþörfin.

 

Víst má í því fróun fá,
og finna eflast haginn,
að liggja sínu liði á
langan sunnudaginn.

 

Um þá hegðan að hlaupast undan ábyrgð og láta öðrum eftir að halda uppi samfélagsþjónustu en nýta sér hana að fullu eftir sem áður

Sett á haus með svikafléttum

og í sárum þjóðin lá.

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

Lagt var herðar á.

Lagt var herðar á.

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

 

Virtist allt á réttu róli

rummungunum hjá.

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

Skildingurinn lá.

Skildingurinn lá.

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

 

Nú er Bjarni‘ í nokkrum vanda

nú fer að koma‘ í ljós

hvort tíund innan tryggðabanda

var talin „undir rós“.

Talin „undir rós“.

Talin „undir rós“.

Hvort tíund innan tryggðabanda

var talin „undir rós“.