Kjarasamningar framhaldsskólakennara runnu út í lok janúar sl. og stéttin er því samningslaus. Samninganefnd ríkisins hefur ekkert að bjóða, og hefur greinilega ekki umboð stjórnvalda til að gera það sem menntamálaráðherra og fleiri stjórnmálamenn hafa sagt opinberlega að þurfi að gera: að hækka laun kennara. Halda áfram að lesa
Greinasafn eftir: Gylfi Þorkelsson
Til varnar framhaldsskólunum
Tilvitnun
Kjarasamningar framhaldsskólakennara eru runnir út. Stéttin er því samningslaus. Samningaviðræður hafa engum árangri skilað og deilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Hann hefur ekki náð neinum árangri enn. Kennarar funduðu í gær í öllum skólum og mikil samstaða ríkir meðal þeirra um grundvallaratriðin. Launin eru óboðleg og hafa þegar valdið því að fjöldi umsókna í kennaranám hefur hrunið og nýliðun í kennarastéttinni er léleg. Meðalaldur framhaldsskólakennara er 56 ár. Framhaldsskólanemendur munu ekki velja kennaranám að loknu stúdentsprófi þegar þeir sjá að byrjunarlaunin sem nýliðum bjóðast eftir 5 ára háskólanám og masterspróf eru 300.000 krónur. Þeir velja sér annað starfsnám. Yngstu kennararnir munu flýja skólana. Fjöldi kennara fer á eftirlaun á næsta áratug. Engir koma í staðinn og skólarnir standa auðir. Halda áfram að lesa
Jólakveðja 2013
Heimi forðum hinstu speki Hávi kvað:
Ef rekur menn á rangan stað
reynist best að hjálpast að.
Ofurgræðgi einkavegi út af fór.
Enginn syngur einn í kór.
Með öðrum verður maður stór.
…
Vinarþel er fundið fé
sem forðar oss frá grandi.
Óskum þess að ætíð sé
allt í góðu standi.
Gefðu þjáðum þelið hlýtt,
þerra sárastrauma
og þá lifir upp á nýtt
alla þína drauma.
…
Ef reynist þungur raunakross
að rata veginn sinn,
þá kærleikur, að kenna oss,
kemur sterkur inn.
Á berum orðum, sem bjarta höll,
byggjum okkar hug.
En baktalsvammið! Veljum öll
að vísa því á bug.
…
Heyrist sagt að sækist enn
sér um líkir.
Þar sem ganga góðir menn
gleðin ríkir.
Jafnt á árið jöfnum út
jólasiðinn:
Argan leysa innri hnút
og elska friðinn.
…
Er gæfan horfin, grafin virðing, gleðin köfnuð?
Hvar sem tekst að tvístra söfnuð
tryggjum mannúð, frelsi, jöfnuð.
Ef að bara endurnýtum ástarvöttin,
upp þá lýsum allan hnöttinn
og enginn fer í jólaköttinn.
Boðlegur málflutningur?
Formaður fjárlaganefndar Alþingis fer nú aftur mikinn í fjölmiðlum, eftir að þjóðin hafði fengið blessunarlegt nokkurra vikna hlé frá henni. í Morgunútvarpi Rásar 2 sl. mánudag sagði hún þetta í umræðu um niðurskurð barnabóta:
„Fjárlögin liggja fyrir og þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, hvað sem verður gert á næsta ári skal ég ekkert segja um, en nú er – þarf að afgreiða fjárlögin fyrir áramót. Við er – Okkur er að takast að snúa skútunni við. Skila hallalausum fjárlögum og taka við slæmu búi frá vinstri flokkunum. Þetta er okkar leið til þess. Árið 2014 liggur að sjálfsögðu allt undir í vinnu fyrir fjárlög 2015. Þetta er bara byrjunin sem koma skal hjá nýrri ríkisstjórn. Þetta stefnan og af þessari stefnu verður ekki vikið.“
Fjármálaráðherra hafði líka eytt mikilli orku helgina á undan til að verja umræddar áætlanir um niðurskurð barnabóta. Ekki leið samt langur tími þar til forsætisráðherra þvertók fyrir þessa stefnu ríkisstjórnarinnar „sem ekki verður af vikið“, þó hún hafi eitthvað verið rædd á einhverju stigi fjárlagavinnunnar.
Svona getur blessað fólkið bullað.
Og formaður fjárlaganefndar getur ekki opnað munninn án þess að minnast á ógnarstjórn vinstri manna. Hún telur núverandi hægristjórn vinna þrekvirki með því að stefna að hallalausum fjárlögum eftir að hafa tekið við „slæmu búi frá vinstri flokkunum“. En hversu slæmt er það bú sem Vigdís Hauksdóttir tók við í vor? Mér skilst að hallinn sé um 30 milljarðar, ef eitthvað er að marka þær tölur sem stjórnarliðar setja fram í fjölmiðlum. Það er slæm staða.
Formaður fjárlaganefndar kemst upp með að tala um þennan halla eins og vinstri stjórnin hafi búið hann til á síðustu fjórum árum – og segir það eðli vinstrimanna að greiða fólki svo háar bætur að það verði að aumingjum sem vilji frekar þiggja bætur en vinna fyrir sér. Þetta var hluti af röksemdafærslu hennar fyrir því að ekki væri óieðlilegt að skera niður barna- og vaxtabætur.
Svona getur blessuð konan bullað.
Gott og vel. Ef búið sem hægristjórnin tók við var mínus 30 milljarðar, hvert var þá búið sem vinstri stjórnin tók við eftir áratuga valdatíma hægrimanna? Mig minnir að það hafi verið mínus 230 milljarðar. Hin hræðilega vinstristjórn, sem „gerði ekkert“, bjó sem sagt svo vel í haginn fyrir núverandi stjórnvöld að möguleiki er að skila hallalausum fjárlögum: minnkaði hallann um 200 milljarða. Það er auðvitað „ekkert“.
Og rétt í því að formaður fjárlaganefndar er búinn að geisa í fjölmiðlum um að það sé vond stefna, og sérstakt einkenni á vinstri mönnum, að greiða fólki of háar bætur, og þess vegna sé í lagi að lækka barnabætur, hvað gerist þá? Jú, einmitt. Þá kemur forsætisráðherrann og hælir sér og sínum af því að ætla að HÆKKA bætur. Til standi að greiða hærri bætur en gert var á síðasta kjörtímabili. Og formnaður fjárlaganefndar tekur undir málflutning hans.
Í umræðum um „vanda Landspítalans“ hefur ítrekað komið fram hjá formanni fjárlaganefndar að núverandi stjórnvöld hafi fengið það verkefni í fangið að bjarga heilbrigðiskerfinu úr rústum vinstri manna. Þar hafi verið gengið allt of nærri beini í niðurskurði.
Augnablik. Nú þarf að hugsa.
Og niðurstaðan er þessi: 1. Fyrrverandi ríkisstjórn sem gerði ekkert, skar ekki nógu mikið niður og skilaði ríkissjóði í óásættanlegum halla. Það mun vera „eðli vinstri manna“ að gera svo. 2. Fyrrverandi ríkisstjórn sem gerði ekkert skar of mikið niður og skildi m.a. heilbrigðiskerfið eftir í rúst. 3. Fyrrverandi ríkisstjórn vinstrimanna sem gerði ekkert eyðilagði líf fólks og vilja til að bjarga sér með því að greiða því of háar bætur. Það mun vera „eðli vinstri manna“ að gera svo. 4. Núverandi ríkisstjórn hælir sér af því að ætla að hækka bótagreiðslur á næsta ári, barnabætur, elli- og örorkubætur. 5. Núverandi ríkisstjórn tók við „slæmu búi“ af vinstristjórninni, 30 milljarða halla. 6. Búið sem vinstristjórnin tók við var halli upp á 230 milljarða. Þá staðreynd á að þagga. Nú er ekki lengur rætt um „svokallað hrun“. „Hvaða hrun?“ Hrun hægrimanna er ekki rætt og allur sá fjármálavandi sem við blasir, bæði í ríkisfjármálum og fjármálum heimilanna er fráfarandi vinstristjórn að kenna. Þannig er orðræðan hjá formanni fjárlaganefndar, og hún kemst upp með þetta bull í fjölmiðlum, nánast án viðspyrnu.
Er þetta boðlegur málflutningur?
Sennilega er það rétt að of mikið hafi verið skorið niður í heilbrigðiskerfinu á valdatíma vinstristjórnarinnar. Það á að gagnrýna. Þá væri halli ríkissjóðs að vísu ekki 30 milljarðar, heldur eitthvað töluvert meiri. Vinstri stjórnina á líka að gagnrýna fyrir að hafa ekki haft í sér nægan manndóm til að koma raunverulegum yfirráðarétti yfir fiskimiðunum til eigenda sinna, svo auðlindin gæti staðið undir stærri hluta velferðarkerfisins og samfélagið allt gæti notið góðs af henni. Þar fara umtalsverðar tekjur í súginn. Það litla skref sem tókst þó að stíga í rétta átt, gerði hægristjórnin vitaskuld að sínu fyrsta viðbragði að stíga til baka, í öfuga átt, skv. niðurstöðum svokallaðra „leynifunda“ með LÍÚ sl. vor.
En hvað sem um þessi mistök vinstristjórnarinnar má segja, geta hægrimenn nú þakkað henni fyrir að minnka halla ríkissjóðs um 200 milljarða, svo nú hyllir undir að mögulegt sé að skila hallalausum fjárlögum? Nei, það geta þeir ekki. Til þeirra verka (sem einhverjir myndu jafnvel kalla töluvert afrek við erfiðar aðstæður) er vísað sem „hins slæma bús frá vinstri flokkunum“.
PISA – Stóridómur er fallinn!
Nú er hafið enn eitt upphlaupið í skólamálaumræðunni á Íslandi. Niðurstöður úr PISA-könnun komu í dagsljósið og það var eins og við manninn mælt: Allir fjölmiðlar voru uppfullir af niðurstöðunum og viðbrögðum við þeim. Mikil speki víða, satt að segja! Halda áfram að lesa
Vér hrægammar
VÉR HRÆGAMMAR
Bjarg-Ráður
hefur látið boðin
út ganga:
„Hrægammar
mati Forsendu-Brest
af sjálfheldufé
afdala“.
Ég er hrægammur.
Sit yfir
minni séreignarhjörð
í þokuslæðingi
og degi tekið að halla.
Framundan
er Vogunarskarð
til friðsælli byggða
og í boði
að tína í sig á leiðinni
einn og einn skrokk
af eigin fé.
„Hrægammar
skulu ekki fá
að kemba hærurnar.“
Hverju er brýnast að breyta í skólakerfinu?
Margt gott kom fram hjá Sölva Sveinssyni í Viðtalinu á RÚV. Eitt af því lýtur að umræðu um ónógan sveigjanleika í skólakerfinu. Stjórnmálamenn sjá í því samhengi ekkert annað en vinnutíma kennara og kennsluskyldu. Sölvi benti á lög sem hindra eðlilegt flæði milli skólastiga. Halda áfram að lesa
Flóttaleiðin
PR-ræða forsætisráðherrans á framsóknarfundi á Hótel Selfossi um síðustu helgi var að mörgu leyti alveg meinfyndin. Hann varaði fundarmenn ábúðarfullur við því að auðvitað myndi hin illa stjórnarandstaða bæði snúa út úr öllu saman og ljúga hikstalaust þegar skuldaleiðréttingatillögurnar hans yrðu kynntar í lok þeirrar viku sem nú er brátt á enda runnin:
Bera andstæðingar sig,
útúrsnúning feta,
ætla’ að ljúga upp á mig
öllu sem þeir geta.
Þá er tónninn sleginn: ekki skiptir máli úr þessu hver mun hugsanlega gagnrýna tillögurnar sem allir bíða spenntir eftir, né fyrir hvað eða á hvaða forsendum. Allri gagnrýni verður svarað þannig að um sé að ræða útúrsnúninga eða lygar. Enda hafi svo sem engu verið lofað beint (jafnvel þó hægt sé að endursýna loforðaupptökurnar).
Þessi ræða var að vísu ekki ætluð þeirri sauðtryggu hjörð sem mætt var á fundinn, heldur var hún til útflutnings – í gegnum fjölmiðlana til þjóðarinnar allrar. Þessi ræða var tilraun til að hafa einhverja stjórn á umræðunni og atburðarásinni, forsætisráðherra var að skapa sér og fylgismönnum sínum varnarstöðu – og flóttaleið ef nauðsyn krefði. Almannatenglar og blaðafulltrúar forsætisráðuneytisins hafa áttað sig á því að brýn þörf væri fyrir áætlun af þessu tagi. Það skemmtilega er hve „gagnsætt“ allt þetta ferli er. Og á ekki öll stjórnsýslan einmitt að vera gagnsæ?
Þó planið sé gott er eiginlega vandræðalegt hve stjórnarandstaðan hefur verið hógvær og varkár í gagnrýni sinni, enda engar tillögur fram komnar og fátt sem hönd á festir í því sambandi. Menn hafa mest verið að velta vöngum og lýsa áhyggjum af afleiðingum hugsanlegra möguleika.
Gagnrýnin hefur ekkert síður komið úr öðrum hornum en stjórnarandstöðuhorninu og sumpart beinst að ráðaleysinu, að ekkert hafi gerst mánuðum saman þrátt fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra bæði fyrir og eftir kosningar um að skuldaniðurfellingarloforðin byggðu á þaulhugsuðum áætlunum sem ráðist yrði í STRAX. Allt væri þetta kristalstært, og snilldin fælist ekki síst í því að enginn kostnaður myndi falla á ríkissjóð!
Sumir hafa kallað þetta lýðskrum, óframkvæmanlega barbabrellu ætlaða að slá glýju í augu kjósenda. Við fáum að vita um það í vikulokin hvort svo er, og hvort ríkissjóður verður eins stikkfrí og lofað hefur verið.
Miklu meira áberandi en gagnrýni stjórnarandstöðunnar hafa verið hróp framsóknarmanna sjálfra á torgum um ósanngjarnar árásir úr öllum áttum. Þeir hafa verið alveg einfærir um að halda því á lofti hvað aðrir eru voðalega vondir við þá: smá meðvirkni kæmi sér víst ekki illa.
Það eru ekki síður Seðlabankinn, samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, hagfræðingar og sérfræðingar af ýmsu tagi sem hafa haft uppi varnaðarorð. En allt eru þetta víst grunsamlegir aðilar og ekki síður líklegir til að grípa til útúrsnúninga og lyga en óforbetranlegt stjórnarandstöðuliðið!
Nú er ekkert annað að gera en bíða eftir því hvað forsætisráðherrann dregur upp úr hatti sínum. Fjallið hefur loks tekið jóðsóttina. Öll vonumst við eftir einhverju brilljant-íni.
Fundinn fjársjóður
Á sunnudaginn var Anna María að grúska eitthvað í skápum og kössum með gömlu dóti. Svo kemur hún, þessi elska, og réttir mér samanbrotið, línustrikað blað sem hún hafði fundið. Þegar ég brýt sundur blaðið þekki ég strax rithöndina hans pabba heitins. Og viti menn. Á blaðið hefur hann skrifað mér kveðju í tilefni fertugsafmælis míns, fyrir hönd þeirra mömmu. Kveðjan er fallegt ávarp og fjórar frumsamdar vísur, sem ég var búinn að steingleyma að væru til, og eru mér því sannarlega fundinn fjársjóður. Vísurnar eru svona:
Íþróttunum alla tíð,
einkum snjall í körfu.
Finnur lausn í harðri hríð,
hugarflugi djörfu.
Hesta sína heiðra kann,
hátt á fjöllum ríður.
Á fullum kostum flengist hann,
fjörðið ólgar, sýður.
Áfram lítur æfileiðar
undralönd.
Tíðast hefur tvo til reiðar,
tölt við hönd.
Farsæll hefur fjóra tugi
farið keikur.
Enda er hann ofurhugi,
aldrei smeykur.
Annars gáfu foreldrar mínir mér hestastein í fertugsafmælisgjöf, stuðlaberg úr Hrepphólum sem stendur í hlaðinu og festur hefur verið við járnhringur – og svolítill áletraður málmplatti með tilefninu og tveimur vísum, þar sem minnst er fyrsta alvöru gæðingsins sem ég eignaðist og geymi alla tíð næst hjarta:
Átti Hreimur hylli í för,
hratt þó steymdu árin.
Ennþá dreymir ólgufjör,
aldrei gleymist klárinn.
Vítt um landið velja má
vegi margrar gerðar.
Leystu hestinn, leggðu á,
löngun er til ferðar.
Pabbi kunni sannarlega að setja saman vísur – og hefði gjarnan mátt gera meira af því.
Óbótastefna
Nú styttist í að margir kjarasamningar á vinnumarkaði renni út. Margir búast við hörðum átökum. Kennarar eru meðal þeirra stétta sem þurfa að setjast að samningaborðinu á næsta ári. Samningar framhaldsskólakennara renna út 31. janúar, grunnskólakennara stuttu seinna og leikskólakennara síðar á árinu. Halda áfram að lesa