Jólakveðja 2012

Sendi ættingjum og vinum, og landsmönnum öllum, „hugheilar jólakveðjur“ og óskir um farsæld í bráð og lengd.

Er skuggarnir skríða’ upp á hól
í skammdegi, norður við pól,
þá á ljósið skal benda
og með logunum senda
gæfu og gleðileg jól.

Enn sækja að freistingafól,
með falsið og innantómt gól.
En lausnin er kær:
Líttu þér nær
um gæfu og gleðileg jól.

Hve Siggi er sætur í kjól!
Já, og Solla með tæki og tól!
Ef mót straumi þið syndið
veitir umburðarlyndið
gæfu og gleðileg jól.

Í fjölskyldufaðmi er skjól.
Hann er friðar og kærleikans ból.
Þar ávallt þú veist
að geturðu treyst
á gæfu og gleðileg jól.

Metnaðarfullt menningarverkefni

Þrátt fyrir ungan aldur er Karlakór Hreppamanna fjölmennur og öflugur og óhætt að fullyrða að hann hafi afrekað margt. Eftirminnilegir eru tónleikar til heiðurs Sigurði Ágústssyni á aldarafmæli hans og annar hápunktur í starfi kórsins er tvímælalaust mögnuð tónleikaröð til heiðurs Franz Liszt á 200 ára afmæli snillingsins haustið 2011.

Menningarráð Suðurlands hefur nú í þriðja sinn ákveðið að veita kórnum menningarstyrk, sem sýnir best hve metnaðarfullt starf hans er. Styrkurinn í ár er veittur kórnum til að takast á við óperutónlist, með tónskáldin Verdi og Wagner í forgrunni, en árið 2013 eru 200 ár frá fæðingu beggja þessara meistara. Æft verður af krafti í vetur og síðan eru fyrirhugaðir fernir tónleikar næsta vor, tvennir á Suðurlandi og tvennir á höfuðborgarsvæðinu.

Kórinn hefur í þessu verkefni fengið til liðs við sig tvo þekkta einsöngvara til að túlka allt litróf óperutónlistarinnar. Það eru þau Gissur Páll Gissurarson og Elsa Waage sem slegið hafa í gegn undanfarið, Elsa nú síðast á sviði Hörpu í magnaðri uppfærslu á óperu Verdis, Il Trovatore, sem hópur kórfélagar sá saman fyrr í haust.

Auk tónleika hér á landi mun kórinn halda til Ítalíu næsta haust og syngja á tónleikum á vegum FENIARCO (Federazione Nazionale Italiana Associazioni Corali Regionali), sem eru kórasamtök þar í landi. Því er ekki að leyna að töluverður spenningur er innan kórsins fyrir því verkefni að syngja í föðurlandi óperunnar og anda að sér tónlistarmenningunni með ítölskum söngbræðrum og systrum.

Það er von okkar í Karlakór Hreppamanna að Sunnlendingar, og landsmenn allir ef út í það er farið, taki þessu menningarbrölti öllu saman vel. Það er ekki sjálfgefið að kór af þessu tagi, skipaður áhugamönnum, flestum alls ómenntuðum í söng og tónlistarfræðum, ráðist í slík stórvirki.

Heiðurinn að listrænum metnaði kórsins á stjórnandinn, Edit Molnár, sem hefur árum saman unnið ötullega að því markmiði að færa Sunnlendingum helstu tónlistarperlur heimsins og víkka um leið listrænan sjónhring þeirra. Heimslistin er nefnilega ekki bara fyrir einhverja elítu „fyrir sunnan“. Henni til fulltingis í starfi sínu er svo afburða píanóleikari, Miklós Dalmay, sem setur sterkan svip á kórstarfið með sinni leiftrandi glettni, fyrir utan að taka sjálfum sér sífellt fram með snilldarleik á flygilinn.

Þann 21. nóvember sl. var Karlakór Hreppamanna í útvarpi allra landsmanna. Á Rás 1 er þátturinn Raddir, sem þennan dag var helgaður kórnum. Þáttinn, með söng kórsins og viðtölum við stjórnanda hans og nokkra kórfélaga, er hægt að hlusta á með því að smella á þennan tengil.

 

Kjarabarátta bak við luktar dyr?

Það var forvitnilegt að hlusta á hádegisfréttirnar í dag. Hjúkrunarfræðingar eru komnir af stað af fullum þunga í sína kjarabaráttu. Ekki er að sjá að sú kjarabarátta fari eingöngu fram milli fulltrúa samninganefnda bak luktra dyra – og að forsvarsmenn stéttarfélagsins feli sig á bak við einhverja „friðarskyldu“.

Hjúkrunarfræðingar eru komnir í bullandi „ímyndarbaráttu“ um allt þjóðfélag. Þeir koma sér í hádegisfréttirnar og láta heyra í sér. Og skafa ekkert af því. Enda engin ástæða til. Hjúkrunarfræðingar eru í svipaðri stöðu og kennarar og fleiri stéttir. Kjörin eru alls ekki boðleg.

Það gafst kjörið tækifæri fyrir forsvarsmenn Félags framhaldsskólakennara að fara sömu leið og hjúkrunarfræðingar fara nú, í kjölfar gleðilegra örlaga „samkomulagsins“ um daginn. Þá opnaðist dauðafæri fyrir forystuna að koma fram í fjölmiðlum með beittum hætti og nýta sér þannig byrinn sem félagsmenn gáfu í segl kjarabaráttunnar og vekja rækilega athygli á stöðunni og baráttuvilja kennara.

Hvernig stendur á því að  það var ekki gert? Ekki er það brot á „friðarskyldu“ við gildandi kjarasamning að láta í sér heyra? Ekki eru félagar í FF að senda inn uppsagnir í stórum stíl? Eða hvað?

Í staðinn fyrir að vekja opinberlega athygli á hraklegum launakjörum kennara þá sendir formaður FF félagsmönnum, umbjóðendum sínum, tóninn í tölvupósti: þeir hafi skítfellt samkomulagið fyrir tóman misskilning; þeir séu svo skyni skroppnir að þeir hafi misskilið meira og minna allt í þessu blessaða samkomulagi.

En það gerðu þeir ekki. Þeim einfaldlega leist alls ekkert á það sem formaðurinn undirritaði.

Rétt er að benda forystu FF á það hlutverk sitt að gæta hagsmuna félagsmanna. Það gerir hún ekki með því að tala niður til þeirra. Ef einhverjum á að senda tóninn, þá er það samninganefnd ríkisins og fjárveitingavaldið, ekki félagsmenn í FF.

Í kjölfar hrakfara sinna við samningaborðið ætti forystusveit FF að lágmarki að íhuga að breyta um taktík. Kannski ætti hún að „íhuga stöðu sína“?

Af getuskiptingu

Vanda Sigurgeirsdóttir olli nokkru uppnámi innan hreyfingarinnar um daginn með því að ræða getuskiptingu barna í íþróttum. Hún benti á að mörgum börnum liði illa, eða þau fengju alls ekki það út úr öllum þessum æfingum sem æskilegt væri.

Óðar var tekið til varna fyrir getustkiptingarkerfið og hefur Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, farið þar fremstur í flokki. Helstu rök Sigurðar eru þau að börnum líði mun betur með þeim sem eru á svipuðu róli hvað þroska og færni varðar. Í „ógetuskiptu“ kerfi (kallað „án aðgreiningar“ í skólakerfinu) myndu þeir færustu einoka boltann og sumir hreinlega aldrei fá tækifæri til að sparka í tuðruna. Því væri heillavænlegra að þeir sem hefðu minni færni í fótbolta lékju sér saman og þeir flinkustu kepptu hver við aðra á jafnréttisgrundvelli.

Allt er þetta gott og blessað og ber að þakka Vöndu fyrir að koma þessari umræðu af stað. Sjálfsagt hafa bæði sjónarmiðin sinn tilverurétt. Vanda benti líka á að keppnishyggja væri allt of ráðandi, og allt of snemma, á íþróttaferli barnanna.

Þar liggur sennilega hundurinn grafinn.

Grunnurinn að réttlætingu getuskiptingar hjá ungum börnum liggur nefnilega í keppnishugsuninni. Það er til lítils fyrir pasturslítinn krakka með lítinn hreyfiþroska að keppa við einhverja „Mini-Messia“ á fótboltavellinum.

Þá er spurningin hvort markmiðið með opinberum stuðningi við íþróttahreyfinguna er að framleiða slíka framtíðarafreksmenn eða að tryggja, að því marki sem slíkt er mögulegt, að hver og einn fái tækifæri til að hámarka getu sína, þroska og lífshamingju?

Ætli svarið sé ekki „sitt lítið af hvoru“?

Kannski að hluti vandans liggi í því að foreldrarnir píni börnin sín í fótbolta, þó þau hafi enga hæfileika á því sviði? Það eru nefnilega fleiri kostir í stöðunni fyrir börnin en fótbolti.

Og ekki get ég gert að því, þegar upp blossar umræðan um getuskiptingu barna innan íþróttahreyfingarinnar, að skólakerfið komi mér í hug. Í því kerfi er núna í tísku það sem kallað er „skóli án aðgreiningar“ og er andstæðan við getuskiptingarkerfið sem kvennaknattspyrnulandsliðsþjálfarinn talar fyrir af eldheitri sannfæringu.

Í skólakerfinu er líka uppi þessi tvíhyggja. Fyrir ekki löngu síðan mátti sjá í fjölmiðlum viðtöl við foreldra sem voru ósátt við það að sonur þeirra þyrfti að ganga í „almennan grunnskóla“, skóla án aðgreiningar, en fengi ekki inni í sérskóla þar sem hann myndi njóta sín mun betur með jafningjum, að áliti foreldranna.

Og framhaldsskólarnir eiga, skv. vilja löggjafans, að vera „fyrir alla“. Þar er hinsvegar getuskiptingarkerfið praktíserað þannig að nokkrir skólar komast upp með það að handvelja inn til sín nemendur eftir einkunnum á grunnskólaprófi. Það eru í umræðunni kallaðir „góðir skólar“. Þeim má þá jafna við A-liðin í getuskiptu starfinu hjá fótboltafélögunum. Og, eins og í skólakerfinu, eru félög og þjálfarar metin eftir því hvað yngriflokkarnir vinna marga titla – hvað þeir fá á prófinu. Þjálfari sem ekkert vinnur, er hann ekki rekinn? Skiptir þá litlu máli þó honum hafi tekist að auka hreyfiþroska, almennt heilbrigði og hamingju þeirra barna sem hann hefur á sínum snærum.

Þó kennarar séu ekki enn reknir ef nemendur þeirra falla á prófum eða meðaleinkunn hópsins er lægri en í „góðu skólunum“ (líka kallaðir elítuskólar), þá eru þeir, og skólarnir sem þeir starfa við, að engu metnir í opinberri umræðu fyrir það ef nemendum þeirra tekst að bæta árangur sinn stórkostlega, kannski um marga heila í meðaleinkunn.

„Hvaða rugl er þetta, íþróttir eru ekki það sama og skóli“, gæti nú einhver sagt.

Vissulega er það rétt. En hvort eru íþróttahreyfingin og skólakerfið fyrir börnin eða börnin fyrir íþróttahreyfinguna og skólakerfið? Snýst þetta ekki allt um það sama? Börnin okkar, þroska þeirra, líf og hamningu?

Kristín Steinarsdóttir – Minning

Kristín Steinarsdóttir er ein af þeim manneskjum sem tekur sér strax bólfestu í hjarta manns, og dvelur þar ætíð síðan. Kristínu, eða Stínu Steinars eins og hún var jafnan kölluð í vinahópnum, kynntist ég á námsárunum í Kennaraháskólanum 1980-1983. Í bekkjakerfinu í Kennó varð þegar mikill samgangur og samheldni innan bekkja en eftir því sem á leið bættust ný andlit smám saman í kunningjahópinn, ekki síst í kjölfar víðfrægra skólaballa og partýja sem þeim fylgdu. Stína var ekki ein af þeim sem var mest uppi á borðum og þar sem við vorum ekki í sama bekk var það ekki alveg strax sem ég kynntist henni náið.

En það fer ekki hjá því að í stórum hópi dregst hvert að öðru fólk sem finnur samhljóm og á skap saman. Á síðasta árinu okkar í skólanum hafði þannig orðið til vinahópur, þvert á bekkjamörkin, sem gekk kátur og samtaka út í útskriftarvorið og stóð þétt saman, fór t.d. í eftirminnilega helgarferð til Vestmannaeyja. Flest vorum við með B.Ed. gráðunni einmitt að hræra fjölskyldudeigið; að kynnast lífsförunautnum, og gott ef Stína var ekki töluvert upptekin í símanum þessa Eyjahelgi: við hin höfðum a.m.k. um það leyti fengið hugmyndir um einhvern náunga sem hét víst Sigurbjörn.

Eftir skólaárin fer hver í sína áttina, eins og gengur. Sumir verða nánir fjölskylduvinir, aðrir sjást aldrei aftur. Enn aðrir hittast að gefnu tilefni; á útskriftarafmælum eða við aðrar aðstæður. Þannig var því varið með okkur Stínu, þegar frá leið. Við hjónin hittum þau Sigurbjörn t.d. á Landsmótum hestamanna, bæði í Skagafirði og á Gaddstaðaflötum, og gerðum okkur þá glaðan dag saman eina kvöldstund á tjaldsvæðinu. Þrátt fyrir slitrótt samband og allt of fá slík tilefni á þessum bráðum þrjátíu árum sem liðin eru frá Kennóútskriftinni, þá voru vináttuböndin nógu sterk til að sú taug slitnaði aldrei. Okkur þótti einfaldlega svo vænt um hana Stínu.

Kristín var frumkvöðull og leiðtogi, eins og starf hennar að þróun tölvu- og upplýsingatækni í skólakerfinu og baráttan fyrir réttindum og velferð fatlaðra og langveikra barna bera skýrt vitni. Þó er sú mynd af henni ekki sú fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður horfir til baka og virðir hana fyrir sér, sitjandi með bekkjarfélögum sínum við eitt borðið á ganginum framan við kaffistofuna í Kennaraháskólanum. Þá finnur maður allra fyrst hlýjuna og umhyggjuna sem streymir frá henni – þá yfirvegun og ró sem henni var í blóð borin. En þrátt fyrir þessi traustvekjandi megineinkenni í fari hennar er líka áberandi í augnaráðinu sívakandi glettni. Þegar hún brosir, og það gerir hún oft, pírir hún augun svo fallega og gæti alveg átt það til að lauma stríðnislegri athugasemd inn í umræðurnar.

Kristín Steinarsdóttir dó langt um aldur fram þann 12. nóvember síðastliðinn. Hún er ein af þessum fágætu perlum, sem blessunarlega verða þó á vegi manns í lífinu, og mun áfram sindra í minninu.

Við Anna María sendum fjölskyldunni okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Það er mörg skýrslan

Nú hefur enn einn starfshópurinn um menntamál skilað niðurstöðum. Að þessu sinni starfshópur um samþættingu menntunar og atvinnu. Það getur vel verið að ég taki mig til og leggist yfir þessa skýrslu og skrifi svo eitthvað um hana. Þó veit ég ekki hvort ég nenni því. Ég er búinn að skrifa margar greinar um mennta- og skólamál hér á síðuna og er eiginlega alveg viss um að í þeim skrifum hefur komið fram allt það sem ég hef að segja um þessa nýjustu skýrslu. Því þess er ekki að vænta að þar séu nein nýmæli.

Miðað við greiningu Elnu Katrínar Jónsdóttur á visir.is í dag, er skýrslan hrein sóun, enn eitt lagið ofan á gamla góða pappírsstaflann.

Hefur ekki stöðugt verið unnið að auknum tengslum skóla og atvinnulífs frá því um 1970, undanfarin rúm 40 ár? Hvers vegna ætli gangi svo illa að ná þessu, og öðrum göfugum markmiðum í skólakerfinu?

Ætli það sé vegna skorts á lagasetningu þar um? Ætli það sé vegna skorts á starfshópum? Ætli það sé vegna skorts á hugmyndum? Ætli það sé vegna skorts á samstarfsvilja? Ætli það sé vegna skorts á niðurstöðum og skýrslum frá starfshópunum? Ætli það sé vegna skorts á málþingum og kjaftablaðri?

Nei, ætli ástæðan sé ekki einfaldari. Ætli ástæðan sé ekki bara skortur á fjármagni til að hrinda í framkvæmd öllum tillögum skýrslanna og niðurstöðum vinnuhópanna og öllum lagatextunum sem hið háttvirta Alþingi hefur samþykkt?

Ætli það sé ekki bara málið?

Auðvitað þurfa alþingismenn að hafa eitthvað fyrir stafni, einhverjar nefndir og vinnuhópa til að drýgja þingfararkaupið, það er vel skiljanlegt. En dettur ykkur það aldrei í hug, hæstvirtir alþingsmenn, að það breyti engu hvað þið skreytið ykkur oft með þessu sama gamla víni, þó á nýjum belg sé, það muni ekkert breytast fyrr en þið farið að borga kostnaðinn við margtuggnar breytingatillögurnar á skólakerfinu? Dettur ykkur það virkilega aldrei í hug?

Á sama tíma, sem sagt, og eytt er fjármagni í enn einn starfshópinn og enn eina skýrsluna, er ekki hægt að innleiða „nýju“ framhaldsskólalögin, sem alþingi samþykkti með vinstri hendi, vegna þess að þegar hægri höndin samþykkir fjárlögin virðist hún ekkert vita hvað sú vinstri hafði verið að gera.

Nú er sem sagt nóg komið af kjaftæði og tími kominn til að fjármagna allt það tillöguflóð sem þegar liggur í þykkum bunkum á alþingi, í ráðuneytum og skólastofnunum um allt land, flest áratugagamalt. Þar er að finna margt gúmelaði um aukið samstarf við atvinnulífið. Gúmelaði um aukinn sveigjanleika. Gúmelaði um þarfir, getu og áhugasvið nemenda. Gúmelaði um grunnþætti. Gúmelaði um aukna sérfræðiþjónustu.

Ef alþingi hefur hins vegar ekki efni á eigin gúmelaðiframleiðslu -að koma skólakerfinu í það horf sem lög og skýrslur kveða á um að æskilegt sé- þá þarf að viðurkenna það og hætta þessum látalátum. Þar til betur árar. Ef svo ólíklega vildi til að einhverntíma í draumalandi framtíðarinnar muni ára þannig að á alþingi sitji fólk sem forgangsraðar menntakerfinu framar í fjárlagafrumvarpinu en hingað til hefur verið skilningur á.

En í guðanna bænum: Ekki fleiri starfshópa og skýrslur um skólakerfið. Það er nóg til af þeim. Það vantar hinsvegar peninga.

 

 

 

Af rétthugsun

Undanfarið hefur eitthvert sprell í framhaldsskólakrökkum riðið húsum í fjölmiðlum, ekki síst Netmiðlum og í athugasemdakerfum bloggheima. Nú má ekki skilja mig svo að ég telji að „sprell“ eigi einungis að lúta eigin lögmálum, utan og ofan við siðgæði samfélagsins og hægt sé að afsaka hvað sem er með: „æi, þetta var nú bara sprell“, eða ámóta yfirlýsingum. En ég var samt orðinn hálf orðlaus yfir umræðunni.

Því hvenær hafa framhaldsskólanemendur hagað sér eins og ‘rétthugsuðir’ hvers tíma ætlast til? Skiptir þá engu máli hvort um er að ræða femíníska rétthugsuði nútímans, jafnréttisrétthugsuði, pólitíska- eða uppeldismálarétthugsuði. Þegar ég hugsa til baka geri ég mér alla vega grein fyrir því að margt hefði vissulega mátt betur fara í hegðun og framkomu minni og janfaldra minna, og sumt er sjálfsagt illa prenthæft. En flestir hlupu af sér hornin á tiltölulega stuttum tíma, með góðri hjálp samfélagsins, og lögðu af „óprenthæfa hegðun“ án þess þó að vera úthrópaðir, eftir því sem ég best man. Sem betur fer varð þó enginn alveg „gerilsneiddur“. En ríkti kannski meira umburðarlyndi í þá daga?

Nú á dögum er femínísk rétthugsun í tísku. Það þykir mjög fínt að segjast vera femínisti og ræða brúnaþungur um samsvarandi isma. Jafnvel heilu stjórnmálaflokkarnir taka þátt í þessu. Þó held ég að það sé síður en svo ljóst fyrir hvað allir þeir standa, sem skreyta sig með orðinu. Þrátt fyrir það eru þeir sem játa það ekki opinberlega, eins og á vakningarsamkomu hjá Hernum, að þeir sjái ljósið og séu sannfærðir femínistar, jafnharðan stimplaðir útsendarar andskotans: svörtustu karlrembur, kvennakúgarar, klámdólgar og gott ef ekki nauðgarar líka.

Ég verð að játa það hreinskilnislega að um leið og ég heyri eða sé orð sem enda á isti og ismi, þá fer ég allur í vörn. Þá líður mér eins og skollið sé á trúarbragðastríð. Og í því trúarbragðastríði er ekkert „einskismannsland“: „Ef þú ert ekki með mér í liði, þá ertu á móti mér“. Þannig er víst Ísland í dag.

Ég las um daginn eitthvað af skrifunum um þetta „sprell“ framhaldsskólakrakkanna. Í einum pistli var það, af heilagri vandlætingu, kallað „fávitavæðing“. Þó mér finnist vandlæting af þessu tagi fara langt yfir strikið, þá er ekki þar með sagt að ég sé sérstakur talsmaður sk. klámvæðingar. Ég er reyndar svo íhaldssamur og mikil tepra að mér þótti meira en nóg um fyrir 2-3 árum þegar það var aðaltíska meðal stúlkna á framhaldsskólaaldri að klæðast fötum sem voru þannig sniðin að það var mjó klæðisræma utan um mittið, en allsbert neðan við og að mestu leyti ofan við. Ekki gekk ég samt svo langt að mér dytti í hug að kalla þessar ungu stúlkur fávita. Margar þeirra auðvitað fluggáfaðar og þessi tímabundna tíska nú blessunarlega gengin yfir – í bili.

En allavega líkaði mér mun betur hófstilltari tónninn í Evu Hauksdóttur í helgardjevaffinu en háhelgislepjan á mörgu blogginu. Eva segist ekkert kæra sig um femínisma en vera jafnréttissinni. Samt er Eva Hauksdóttir kölluð „norn“ og hún er víða stimplaður „öfgamaður“. Er við hæfi að vísa í nornabrennur fyrri alda í þessu samhengi? Hvar liggja öfgarnar? „Ekki var ég rassgat hamingjusöm við skúringar eða saltfiskverkun en þó reyndi enginn að banna skúringar eða saltfisk til að „bjarga“ mér,“ segir Eva m.a. Þó maður eigi erfitt með að taka upp trú Evu á „hamingjusömu hóruna“, kannski vegna eintómra eigin fordóma, er þá ekki sannleikskorn í orðum hennar, þ.e.a.s. þessum um skúringarnar og saltfiskinn?

Í athugasemd með „fávitavæðingarpistlinum“ rakst ég á eftirfarandi tilvitnun, sem ég hef reyndar ekki gert neina sannfræðirannsókn á en finnst segja það sem segja þarf, burtséð frá heimildagildinu:

The youth of today love luxury; they have bad manners and contempt for authority; they show disrespect for elders and love chatter in place of exercise. Youth are now tyrants, not the servants of their households. They no longer rise when elders enter the room. They contradict their parents, chatter before company, gobble up food at the table, and tyrannize their teachers.“ Socrates, ca. 500 BC.

Auðvitað eru „þolmörkin“ mjög mismunandi hjá fólki, en ég hef það á tilfinningunni að um þessar mundir séu þau almennt lág og á flestum sviðum vaði uppi skaðlegur rétttrúnaðarismi. Það er kannski auðveldasta leiðin að ganga í rétttrúnaðarbjörg. En um leið er það einhver hættulegasti flóttinn frá siðuðu samfélagi, eins og dæmin sanna.

Vissulega var „sprell“ framhaldsskólanemanna siðferðilega „óviðeigandi“, sumir myndu segja „óprenthæf hegðun“. En viðbrögðin hafa líka farið út úr öllu korti, og ekki verið til þess fallin að leiða ungdóminn á hinar „réttu brautir“ hófsemi og umburðarlyndis.

Nú er nóg komið

Nú liggur fyrir niðurstaða í atkvæðagreiðslu um samkomulag SNR og samninganefndar FF/FS. Framhaldsskólakennarar kolfelldu samkomulagið, eins og við mátti búast, með 3/4 hluta atkvæða og hafa nú sent bæði ríkisvaldinu og eigin samninganefnd skýr skilaboð: „Reynið ekki aftur að bjóða okkur upp á annað eins“.

Áður hefur verið fjallað ítarlega um samkomulagið hér á síðunni og ekki ástæða til að rekja enn og aftur hvað í því felst. Framhaldsskólakennarar hafa verið teygðir að þolmörkum undanfarin ár. Niðurskurður í menntakerfinu og sparnaðaraðgerðir innan skólanna hafa beinst að stórum hluta að kennurum. Stóraukinni vinnu hefur verið hlaðið á herðar þeirra,  vinnuumhverfið ómanneskjulegt og í raun fjandsamlegt öllum faglegum viðmiðum.

Það er ekki vinnutímaskilgreining kennara sem stendur í veginum fyrir faglegri þróun og það eru ekki kennarar sem vinna gegn umbótum í skólastarfi, með því að hafna þessu samkomulagi sem niðurstaða liggur nú fyrir um, heldur er það á ábyrgð menntamálayfirvalda, fjárveitingavaldsins og skólastjórnenda í hverjum skóla.

Það eru yfirvöld og stjórnendur skólanna sem hafa boðið kennurum og nemendum upp á óviðunandi starfsaðstæður. Það hafa kennarar látið yfir sig ganga, með fullum skilningi á því að hér hefur verið kreppa og nauðsyn á niðurskurði og aðhaldsaðgerðum. Kennarar hafa tekið þátt í þessum aðgerðum af fullri einurð og ábyrgð. Þeir hafa undanfarin ár hvergi vikist undan heldur lagst á árarnar í þeim lífróðri sem staðið hefur – og stendur enn.

En þeir ætla ekki að halda því áfram, bótalaust. Þeir ætla ekki að láta hlekkja sig við þófturnar. Nú er nóg komið.