Undanfarið hefur töluvert verið fjallað um fangelsismál í fjölmiðlum. Þátturinn Kveikur á RÚV 30. janúar sl. var lagður undir málefnið undir fyrirsögninni „Fangar í óboðlegum aðstæðum“, í mörgum þáttum á Samstöðinni og í Heimildinni hefur verið fjallað um stöðu og aðbúnað fanga, og svört skýrsla ríkisendurskoðunar um Fangelsismálastofnun var til umfjöllunar í flestum fjölmiðlum skömmu fyrir síðustu áramót. Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir flokkinn: Menning
Bjarni á Laugarvatni
„ótrauður baráttumaður fyrir hugsjónum sínum“
Gylfi Þorkelsson
(Skrifað sem lokaverkefni í námskeiðinu „Forystuhlutverk stjórnenda í opinberum rekstri“
við Háskóla Íslands, félagsvísindadeild – Opinber stjórnsýsla, MPA, vor 2010)
Inngangur
Um aldamótin 1900 fór bylgja framfarahugsjóna og bjartsýni um íslenskar byggðir. Sjálfstæðisbaráttan var í fullum gangi og ýmsar tækni- og atvinnuframfarir gáfu fyrirheit um betri tíð. Fólk sem var þá á hátindi ævi sinnar, eða ólst í blóma lífsins upp við þessar hugsjónir, er kallað einu nafni „aldamótakynslóðin“. Í þeim hópi var árið 1900 ellefu ára gamall strákur austan úr Landeyjum, Bjarni Bjarnason, síðar jafnan kenndur við Laugarvatn. Þrátt fyrir föðurmissi á unga aldri, flutninga og kröpp kjör í æsku, komst strákur til manns, sótti sér menntun og tók stóran þátt í baráttunni fyrir bættum hag íslenskrar alþýðu, ekki síst bændafólks, með því að tryggja því aðgang, fyrst að almennri grunnmenntun, en síðar framhaldsmenntun. Halda áfram að lesa
„Hvar?“
„Sum skáld fylla margar ljóðabækur, og öldin gerir orð þeirra og hugmyndir að sínum; en svo getur alteins farið að fáar einar línur úr æviverki þeirra lifi þá, og í mörgu falli ekki ein. Ágætur bókmentafrömuður hefur komist svo að orði útaf Söknuði Jóhanns: „Jóhann er eins kvæðis maður og það er honum nóg, margur má una við minna.“ Ég held næstum að óhætt væri að taka meira af: flest skáld verða að láta sér nægja ekki einusinni það. Því þótt þeir hafi ritað þúsund kvæða á þolinmóðan pappírinn, hafa þeir ekki fundið í brjósti þjóðarinnar hið endíngargóða efni er geyma kunni um aldur letur þeirra. Fæst skáld ná því nokkru sinni að skrá letur kvæða sinna í þann stað einn þar sem kvæði eiga heima. Halda áfram að lesa
Er Gunnar Þórðarson ekki nógu fínn fyrir elítuna?
Að kunna ekki að bíta gras
„ … hví ættum vér, sem erum heil þjóð, að horfa í kostnað af fyrirtæki sem eflir fegurðarskyn vort og hefur oss til æðra lífs; alt sem horfir til menníngarauka fyrir þjóðina er ódýrt, hvort sem það kostar mikið eða lítið. Ég veit þeir menn eru til sem fortelja okkur að það sé ódýrast og hagkvæmast að lifa eins og skynlaus skepna og hafa aungva tónlist og aungva leiklist, þeir telja að sá einn ljóður sé á ráði mannkynsins að það kunni ekki að bíta gras.“
(HKL. 1955. Ræða á listamannaþíngi 1950. Dagur í senn (bls. 12). Helgafell, Rvk).
Tilefni ummæla: opnun þjóðleikhúss og stofnun sinfónískrar hljómsveitar.
Fátæk þjóð
Fátæk þjóð 1944 – og 2024
Hér að neðan eru birtir bútar úr grein sem Halldór Kiljan laxness skrifaði árið 1944, „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Fátt virðist hafa breyst síðan. Greinin talar beint inn í samtíma okkar árið 2024: þrugl afturhaldsins um listamannalaun, um „ræningjalýðinn“, sem nú er að vísu innlend elíta en ekki útlendingar fyrr á tímum, „sem áttu hlut að Íslandsversluninni“, og í staðinn fyrir þáverandi skort á nauðsynlegum innviðum; snæri til að hengja sig, spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, er nú langt komið með að eyðileggja velferðarkerfið sem alþýða þessa lands byggði upp á eftirstríðsárunum, þrátt fyrir einarða andstöðu auðvaldsins. Halda áfram að lesa
Af menningarnámi, rasisma og kvenfyrirlitningu
Margt er miður fallegt í menningarsögunni. Nýlendukúgun, arðrán, þjóðarmorð, þrældómur, kynhneigðarkúgun, lista- og menningarrán. O.s.frv. Grundvöllur velsældar „hins vestræna heims“ er ekki falleg saga.
Nú er mjög til umræðu hvað má og hvað má ekki. Gamlar „barnagælur“ eru bannaðar vegna rasisma í orðfæri og viðhorfum til blökkumanna. Gömul málverk í stofnunum mega ekki lengur hanga þar á veggjum því þær minna á aldalanga kúgun og hlutgervingu kvenna. Ófatlaður maður má ekki leika fatlaðan á sviði Þjóðleikhússins af því það er niðurlægjandi og dæmigert fyrir jaðarsetningu og útskúfun fatlaðra. Ekki má dubba fólk af hinum hvíta kynstofni upp í asískt gervi í óperu sem gerast á í Japan, því það er menningarnám, niðurlægjandi tákn um ofríki og menningarlega nauðgun hins vestræna heims. Deilt er um hvort breyta megi bókmenntaverkum fyrri tíma til að þau falli að smekk nútímans – að „rétthugsun“ hins upplýsta og frjálslynda nútímamanns, þar sem ekkert ER lengur, enginn sameiginlegur grundvöllur að standa á, heldur einungis þær tilfinningar og „upplifanir“ sem hrærast innan þess sólkerfis sem hver og einn einstaklingur er. Kynin eru ekki lengur tvö heldur jafnmörg þeim lífverum sem teljast til tegundarinnar homo sapiens.
Við hjónin fórum á sýningu Íslensku óperunnar, Madama Butterfly e. Puccini. Sýningin komst í fréttirnar þegar hljóðfæraleikari í Synfóníunni kvartaði undan því menningarnámi sem felst í því að hvítir voru farðaðir sem asískir. Þátttakandi í sýningunni „kom fram“ og lýsti óhugnaði sínum yfir því að hafa tekið þátt í þessari aðför að japanskri menningu og lýsti því yfir að hann myndi ekki taka þátt í þessu framar – þ.e. að láta farða sig. Fólk skiptist óðar í tvær fylkingar um þetta málefni.
Sýningin var ljómandi. Söngurinn var framúrskarandi, svona eins og vit mitt gagnast til að dæma um það. Hye-Youn Lee söng aðalhlutverkið og heillaði óperugesti. Stórkostleg söngkona. Sjálfsagt er það heppilegt í ljósi umræðunnar að hún er einmitt japönsk sjálf. Arnheiði Eiríksdóttur, sem syngur líka afbragðsvel, þurfti hins vegar að farða og klæða í japanska þjónustu, og fleiri lentu í þeim menningarfasisma. Egill Árni Pálsson söng hitt aðalhlutverkið og þessi gamli nemandi minn úr Reykholtsskóla gerði það listavel. Og allir söngarvar stóðu sig vel, þannig að tónlistin naut sín og hreyfði við áheyrendum, jafnvel gömlum þverhaus eins og undirrituðum.
Ekki verður því neitað að sagan í óperunni er alveg dæmigerð óperusaga fyrri tíðar. Þetta er hefðbundin karlrembusaga; konan er saklaust og viðkvæmt blóm, í erfiðri félagslegri og efnahagslegri stöðu, sem er „bjargað“ af forríkum karli, sem svíkur hana auðvitað við fyrsta tækifæri, og hún, með öllu ósjálfbjarga þegar karlsins nýtur ekki við, drepur sig í örvæntingu ástarsorgar í lok leiksins. Um þetta eru nánast allar klassískar óperur.
Og sagan endurspeglar líka ofríki hins vestræna, hvíta heims. Bandaríska herveldið veður yfir japanska þjóð. Hvítur herforingi veður yfir japönsku kvenþjóðina. Forríkur, hvítur, miðaldra karl veður yfir fátæka alþýðu.
Það er margt ógeðfellt í þessari sögu, sem „gerist snemma á síðustu öld“ eins og óperustjórinn skrifar í aðfararorðum sýningarskrár. Þar segir Steinunn Ragnardóttir líka að umfjöllunarefnið sé „tímalaust því tilfinningar okkar breytast ekki og mennskan verður alltaf söm við sig“ og að óperan fjalli „um ódauðlega ást og vonina sem veitir tilgang í ömurlegum aðstæðum.“ Vonin sé „eitt sterkasta aflið sem við eigum og svo lengi sem hún lifir getum við umborið næstum allt.“
Það stakk mig ekki að hvítir leikarar og söngvarar hafi verið farðaðir og dubbaðir upp í japönsk klæði. Það er einmitt það sem leikarar gera; þeir setja sig í gervi annarra, „leika“. Þess vegna köllum við svona gjörning „leikrit“. Og ekkert við það að athuga.
Hins vegar gætu alvöru baráttumenn fyrir frelsi, jafnrétti og efnahagslegum jöfnuði hafið upp raust sína með fullum rétti. Því ef sagan sem óperan segir er dæmi um þær tilfinningar og þá mennsku sem við viljum að verði alltaf söm við sig, lýsi þeirri ást sem við viljum að sé ódauðleg og þá von sem við viljum bera í brjósti til að umbera næstum allt – ja, þá er illa komið fyrir mannkyninu. Viljum við að konur séu valdalausar gólfmottur fyrir ríka karla? Viljum við að eina von fólks í „fjarlægum“ heimsálfum sé að forríkur karl úr velsældarheimi bjargi því úr tilgangsleysi og vonleysi eigin lífs og menningar? Viljum við að hugmyndin um hina sönnu, ódauðlegu ást byggist á því að konan sé undirlægja, sem á hvorki framtíð né von án karls? Forríks auðvitað.
Mín tillaga er að Íslenska óperan hætti að birta þýðingar á texta verkanna á sjónvarpsskjám í salnum. Þá gæti fólk notið tónlistarinnar og söngsins, óvitandi um og ótruflað af allri þessari kvenfyrirlitningu, nýlendufasisma, kúgun og menningarnámi sem frásögnin er uppfull af og er matreidd ofan í það á skjáum.
Fyrir utan það hve mikill endemis leirburður textinn er.
Vaktmaður betra lífs

Tveir góðkunningjar mínir gáfu út ljóðabækur í haust, Jón Hjartarson og Pétur Önundur Andrésson. Um þær hefur verið heldur hljótt, enda ekki náð eyrum þeirrar elítu sem stjórnar bókmenntaumfjöllun í þessu landi og talar við sjálfa sig á víxl í fjölmiðlum. Þær eru þó þess verðar að séu lesnar, og hafðar á náttborðum til að grípa í í framhaldinu.
Pétur Önundur er ódeigt ljóðskáld og gefur sínar bækur út sjálfur. „Þögn vatnsins“ er að því er næst verður komist níunda ljóðabók hans. Pétur yrkir aðgengileg ljóð á skiljanlegu máli, en rembist ekki við að vera torræður og myrkur. Það er ró yfir einföldu ljóðmálinu, sem leiðir lesandann í djúpa dali hugans, þar sem friðsæld ríkir og einlægni.
Náttúran skipar stóran sess í þessari bók, landið, gróðurinn, dýralífið, og fléttast saman við minningar höfundarins.
„Vorkoma
sumarbyrjun
marka líf þitt
eins og lítið lamb
svo þú þekkir
upp frá því
hamingjuna
á litnum“
Ljóðin eru hápólitísk en hvergi að finna boðunartón, stríðsrekstur, jafnt úti í hinum stóra heimi sem gegn náttúrunni, er afgreiddur með sömu stóisku rónni og bernskuminningar.
„Greiddu hár þitt
kolsvarta tíð
fléttaðu í það vor
gróandann
fangaðu ilminn
megnan af lífi og ást
greiddu gangstíg draumsins
vaktmaður betra lífs“
og
„Múr sem féll
reistur af
hugsjónamönnum
harðstjórum sjálfshyggjunnar
hruninn vegna smitandi isma
draumum auðsins
gamlir garðar sögunnar
réttlæta ekki nýja“
Öll hugsun og boðskapur Péturs rennur fram í þungum straumi en án boðafalla. Hann yrkir
„fyrir venjulegt fólk
lesið syngið elskið
mætist á miðri leið
og hlustið“
Það er hægt að ferðast um þessa bók í einum áfanga án þess að hnjóta í úfnu orðahrauni. En þangað er líka hægt að fara aftur og aftur og nesta sig í friðsælum lautum.
Segja má að Pétur Önundur sé sannkallaður „vaktmaður betra lífs“.
Lifað með landi og sjó

Eins og nafnið bendir til, „Lifað með landi og sjó“, er bók Jóns Hjartarsonar óður til náttúrunnar. Hún fjallar um heimahaga höfundarins, Strandir æskunnar og fullorðinsár „milli sanda“. Ljóðin einkennast af næmri tilfinningu fyrir undrum náttúrunnar og umhyggju fyrir
„sögunni,
menningunni,
tungunni
og landinu.
Vættir
lands og þjóðar,
varðveita
fjöreggið,
augastein þjóðar,
og gæta þess
að það brotni ekki.“
(14)
Það er samhengi í öllu lífi jarðar en auðfundið á lestrinum að endalok nálgast:
„Ef ræturnar rofna
fýkur umhyggjan
út í veður og vind.“
(48)
„Einn morgunn
stendur amma
á miðju gólfi
og virðir fyrir sér
auðan stólinn.“
(42)
Jón er hápólitískur í sínum kveðskap. Þar er undirliggjandi kvíði fyrir framtíðinni og yfirvofandi endalokum:
„Bergbúinn
stendur vaktina,
undir svörtu hamrastálinu,
brúnaþungur
og langþreyttur
á daufingjahætti
landans.“
(25)
…
„Manneskjurnar
skríða í holur sínar,
bíða af sér storminn.
Of seint að iðrast.“
(23)
En þrátt fyrir váboðana, sem alls staðar eru sýnilegir í náttúrunni, er von, því vorvindurinn
„afísar mýrina
kveikir líf
í veikburða frjóöngum
stararinnar
á nýju vori.“
Þetta er fyrsta ljóðabók Jóns, sem skrifað hefur nokkrar bækur, flestar sögulegar. „Lifað með landi og sjó“ endurspeglar næman skilning á stóra samhengi lífs á Jörðinni, sem allt sprettur af sömu rótinni: Náttúran, sagan, menningin, landið.
Sannkallað gúmelaði

Bergsveinn Birgisson og Þormóður Torfason fylgdu mér í gegn um jólahátíðina. Það verður að segjast að þeir voru góðir fylgdarmenn. Bergsveinn skrifar góðan texta og saga Þormóðar er forvitnileg, svo ekki sé meira sagt. Þormóður mun hafa verið nánast þagaður í hel af seinni tíma mönnum, sem héldu á móti Árna Magnússyni vel og skilmerkilega á lofti.
Ekki eru til ítarlegar heimildir um alla þætti í sögu Þormóðar og leyfir Bergsveinn sér að skálda í eyðurnar, m.a. samtöl og líklega atburðarás þegar þannig stendur á. Þeim innleggjum sínum gerir höfundur skilmerkilega grein fyrir.
Hvað sem öðru líður eru heimildir nægar til að halda því fram að Þormóður var frumkvöðull í handritarannsóknum og söfnun. Hann er nefndur í framhjáhlaupi í bókmenntasögu, sem hálfgerður svikari við málstaðinn, sennilega af því hann vann fyrir erlent konungsvald, sem ekki var upp á pallborðið á tímum þjóðernisrómantíkur.
En þetta er sem sagt sannkallað gúmelaði.