Af virðisrýrnun

Útgerðin og Mogginn eru sem betur fer óþreytandi í baráttu sinni gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í frétt á mbl.is kemur fram að HB Grandi hafi tapað 1,5 milljónum evra á fyrri hluta ársins – en á sama tímabili og þessi mikli taprekstur skall á fyrirtækinu eins og brotsjór, jukust tekjur þess um 17 milljónir evra, segir í fréttinni.

Úlfar Þormóðsson tekur þetta til umfjöllunar í pistli á Smugunni og snýr auðvitað út úr öllu saman, eins og þeirra er siður sem ekki skilja hið rétta gangverk atvinnulífsins, og raunar samfélagsins alls.

Þó ég hafi útskrifast úr máladeild, og með falleinkunn í stærðfræði á stúdentsprófi, þá átta ég mig samt vel á því að þegar fyrirtæki eykur tekjur sínar um 17 milljónir á ákveðnu, afmörkuðu tímabili, þá tapar það í raun og veru einni og hálfri milljón. Þetta sjá allir, líka hinir innmúruðu ríkisstjórnarsnatar, þó þeir vilji auðvitað ekki viðurkenna það opinberlega.

Eins og útgerðarfyrirtækið bendir á, og Mogginn kemur samviskusamlega til skila, veldur hækkun á veiðigjaldi þvílíkri virðisrýrnun, að öll formerki fordjarfast, plús verður mínus og tekjuaukning bullandi tap.

Í stað þess að vera með útúrsnúninga og samsæriskenningar, eins og Úlfar í fyrrnefndum pistli, væri nær að taka á málinu af alvöru og festu. Nú verður lag á haustþinginu að gera það. Til þess er engum betur treystandi en þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hinum skeleggu varðmönnum lýðræðislegrar, snarprar og málefnalegrar umræðu, framkvæmda í stað langhundafunda: „Athafnir í stað orða“. „Minna mas, meiri framkvæmdir“ (eða var það kannski „flas“).

Einfaldasta leiðin væri að samþykkja viðauka við skattalögin um bætur til útgerðanna vegna þessa. Lögin gætu heitið Lög um virðisrýrnunarbætur, í samræmi við Lög um húsaleigubætur og Lög um barnabætur.

Virðisrýrnunarbæturnar mætti reikna út frá virðisrýrnunarprófum sem endurskoðendur útgerðarfyrirtækjanna myndu sjá um, endan kunnugastir bókhaldinu og ólíklegastir til að klúðra einföldum prósentureikningi. Niðurstöður virðisrýrnunarprófanna yrðu svo birtar í Morgunblaðinu hálfsmánaðarlega og teknar þaðan upp á Fréttablaðinu, á Bylgjunni, Útvarpi Sögu, AMX og þessum helstu hlutlausu fréttamiðlum.

Bæturnar væru uppsöfnuð virðisrýrnun og greiddar út t.d. ársfjórðungslega.

Með þessu móti væri hægt, í gegnum skattkerfið, að hlífa þeim fyrirtækjum landsins sem minnst mega sín, fyrir ofurskattastefnu stjórnvalda. Því allir vita að þó ríkisstjórnin gumi nú af því að hafa haldið hlífiskildi yfir þeim lægst launuðu og þeim þjóðfélagshópum sem eiga undir högg að sækja, þá hafa útgerðarfyrirtækin hingað til verið skilin eftir úti á köldum klaka.

Það er kominn tími til að breyta þessu og koma hér á raunverulegum jöfnuði í fyrirtækjarekstri. Til þess þarf sértækar aðgerðir fyrir útgerðarfyrirtæki – einkanlega stórútgerðir.

Að mála skrattann á vegginn

Öllum er í fersku minni áróðursstríð LÍÚ í málgagni sínu, Morgunblaðinu, ásamt auglýsingaherferð í öllum fjölmiðlum landsins, gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu hér á landi. Þó mesta auglýsingabruðlið virðist um garð gengið – í bili a.m.k. – þá er morgunljóst að sú falska einshljóðfærissynfónía hefst aftur um leið og þingið tekur til starfa í haust.

Lygaáróðurinn var sá að ef þær breytingar sem stjórnvöld boðuðu yrðu að veruleika, breytingar sem þó voru orðnar útvatnaðar af undanlátssemi við svokallaða hagsmunaaðila, þá færi hér allt á hausinn og helst var að skilja að ekki yrði framar dregið bein úr sjó við Íslandsstrendur. Reyndar er það merkilega lýsandi fyrir sjálfhverfuna og einkahagsmunahyggjuna hér á landi að einu hagsmunaaðilarnir sem LÍÚmenn koma auga á í þessu máli eru þeir sjálfir. Engum dettur í hug að eigendur auðlindarinnar, þjóðin sjálf, hafi eitthvað um málið að segja eða sé hagsmunaaðili yfirleitt.

Nú er hafið annað áróðursstríð. Ríkisstjórnin hefur boðað að virðisaukaskattur á þjónustu veitingahúsa og gististaða verði hækkaður úr 7%a afsláttarþrepi í almennt skattþrep. Fjármálaráðherra lýsti skattaafslættinum, sem hefur verið veittur frá árinu 2007, réttilega sem ríkisstyrk. Hún hefur hlotið bágt fyrir það, eins og ferðaþjónustan skammist sín alveg ógurlega fyrir að þiggja ríkisstyrki. Ferðaþjónustunni til huggunar má benda henni á að heilu atvinnugreinunum er haldið á floti á ríkisstyrkjum – og ekki er að sjá að nein skömm fylgi því. Að minnsta kosti vilja flestir meira – og sumir telja jafnvel að engum komi það við hvernig með styrkina er farið.

En það er önnur saga. Ferðaþjónustan berst nú um á hæl og hnakka, í anda stórútgerðarmanna, og reynir að telja þjóðinni trú um að öll ferðaþjónusta fari á hausinn, leggist hreinlega af og ferðamenn hætti að sækja landið heim. Megum við á næstunni búast við auglýsingum frá samtökum gistihúsaeigenda, þar sem starfsmenn og gestir verða látnir með dramatískum innslögum lýsa því að þeir muni missa vinnuna og hætta að gista, ef áform ríkisstjórnarinnar verða að veruleika? Svo komi kannski á skjáinn prófessor í sálfræði sem upplýsi þjóðina um afleiðingar þess ef ekkert verði sofið á Íslandi, til eilífðarnóns? Allt vegna ríkisstjórnarinnar, auðvitað.

„Nú á að slátra Gullgæsinni og draga úr ferðamannastraumi til Íslands“, lét hóteleigandi í Keflavík hafa eftir sér. Sami hóteleigandi upplýsir lesendur Víkurfrétta um það að ef hótel- og gistihúsaeigendur hefðu talið sig geta hækkað verð undanfarin ár, þá hefðu þeir gert það, enda ekki veitt af til að bæta afkomuna í „harðærinu“.

Þessar yfirlýsingar eru athygli verðar, ekki síst í því ljósi að umrædd þjónusta mun hafa snarhækkað undanfarin ár, þrátt fyrir stórfelldan virðisaukaafsláttinn frá 2007, ef marka má upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu. Og þrátt fyrir stöðugar verðhækkanir hafa ferðamenn hópast inn á hótelin og gististaðina, sem aldrei fyrr. Og þeir hafa ekki heldur látið neitt stöðva sig, þegar kemur að því að kaupa vörur og aðra þjónustu. Og þeir munu ekki heldur láta það á sig fá þó þjónusta veitingahúsa og gististaða verði færð í almennt virðisaukaskattþrep. Vitið bara til.

Málflutningur af þessu tagi er engum til sóma, hvorki ferðaþjónustunni, útgerðinni, né öðrum „hagsmunahópum“. Trúverðugleiki þeirra gufar hreinlega upp með þessum eilífu heimsendaspám.

Því miður er þetta samt lenskan í opinberri umræðu hér á landi. Að mála skrattann á vegginn.

Sama, gamla jukkið

Nú liggja fyrir úrslit í forsetakosningunum og ljóst að fimmta kjörtímabilið er framundan hjá Ólafi Ragnari Grímssyni. Það kemur svo sem ekki á óvart. Eins og bent hefur verið á er engin hefð fyrir því að fella sitjandi forseta í kosningum, hinir frambjóðendurnir voru reynslulausir, nánast eins og bláeyg börn, í samanburði við refinn Ólaf, í kosningaslag. Og hið táknræna tækifæri til að kveðja nú gamla tímann og byrja upp á nýtt er runnið þjóðinni úr greipum.

Ólafur Ragnar hlaut meira en 50% atkvæða, sem kom mér sjálfum á óvart, var búinn að sjá fyrir mér 40-45% og minni mun á honum og Þóru Arnórsdóttur.

Eins og fram kom í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins sótti Ólafur mest fylgi til kjósenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks eins og við var búist. Það var hinsvegar skemmtilega súrrealískt að skyggnast inn í Valhöll á kosningavöku ungra Sjálfstæðismanna þar sem kjöri þessa gamla hatursmanns var fagnað með húrrahrópum. „You aint seen nothing yet!“ kemur ósjálfrátt upp í hugann.

Í samræmi við þetta lá meginstraumurinn í fylgi Ólafs Ragnars í lítið menntuðum frekar en mikið menntuðum, hjá körlum fremur en konum og á landsbyggðinni fremur en á höfuðborgarsvæðinu. Og þar fór Suðurkjördæmi auðvitað fremst, hinn frjói akur Árna Johnsens. Einmitt að þessum hópum eiga fyrrnefndir flokkar greiðasta leið. Kosningabaráttu Ólafs var enda snúið þráðbeint þangað. Höfðað var til þjóðerniskenndar og nauðsynjar á „sterkum leiðtoga á óvissutímum“.

Ólafur Ragnar og hans menn beittu öllum þeim lævísu klækjabrögðum sem útsmognir bragðarefir í pólitík kunna og nota í kosningaslag. Slegið var fram einföldum frösum, og skipti þá engu máli hvort þeir stæðust skoðun, í trausti þess að þeir yrðu gripnir á lofti. Ef hentaði var svo þvertekið fyrir frasana daginn eftir, eins og t.d. þennan með óvissuna. Og Ólafur beit svo höfuðið af skömminni með því að líkja 12 milljóna kosningabaráttu Þóru við „2007 auglýsingaslag“, maðurinn sem sjálfur eyddi 90 milljónum í kosningabaráttu á sínum tíma. „Óforskammað“ var þetta uppátæki réttilega kallað í kosningavöku sjónvarpsins.

Það var einnig „snjöll“ smjörklípa hjá Bessastaðabóndanum, um leið og hann sló sjálfan sig til riddara fólksins gegn óvinsælli ríkisstjórn, að byrja á því allra fyrst að spinna sinn helsta keppinaut við stjórnmálaflokk, Samfylkinguna, og láta hann berjast við það alla kosningabaráttuna að reyna að losa sig úr þeim vef. Og vel að merkja, þetta kemur frá eina frambjóðandanum sem sannanlega hefur verið flokkspólkitískur – já, meira að segja komið víða við og látið vind ráða för hverju sinni. En þarna sló hann sem sagt tvær flugur í einu höggi. Hann kom bæði ríkisstjórninni og Evrópusambandinu á herðar keppinautarins, en sjálfum sér í mjúkinn hjá meirihluta þjóðarinnar, sem er á móti hvoru tveggja.

Öll kosningabarátta forseta vors ber skýr einkenni þeirra klækjastjórnmála sem hann hefur verið órjúfanlegur hluti af – virkur þátttakandi og gerandi í – alla sína tíð.

Í þessu ljósi er það þyngra en tárum taki að Ólafur Ragnar sækir fylgi sitt frekar til ungra kjósenda en þeirra sem eldri eru. Unga fólkið, af öllum, vill ekki breytingar, ekki nýtt Ísland, ekki ný vinnubrögð, heldur áfram um ókomna tíð sama, gamla jukkið. Forsetakosningarnar eru til vitnis um það.

 

„Álver bjargar ekki Austurlandi“

Í nýjasta helgarblaði DV er athyglivert viðtal við knattspyrnumanninn Ívar Ingimarsson. Eða réttara sagt fyrrverandi knattspyrnumanninn, því Ívar ákvað nýverið að leggja skóna á hilluna, hætta eftir farsælan feril atvinnuknattspyrnumanns í útlöndum og snúa heim. Og Ívar og eiginkona hans ákváðu að fara ekki hálfa leið, setjast að í margmenninu við Faxaflóann, eins og einhverjum gæti dottið í hug að væri eðlilegra skref eftir að hafa búið árum saman í stórborgum erlendis. Nei, þau vildu í friðsæld og frelsi heimahaganna á Austurlandi. „Heim í heiðardalinn“, eins og þar stendur.

Og þau hjónin eru uppfull af hugmyndum um það hvernig þau geti skapað sér og sínum tækifæri og grundvöll undir líf og hamingju. Ívar hefur skýra sýn á framtíð landshlutans. Hún felst í því að láta ekki staðar numið þrátt fyrir verksmiðju, sofna ekki værðarsvefni í kjöltu álvers í Reyðarfirði.

„Nú er búið að byggja hér álver og sama hvað hverjum finnst um það þá er um að gera að nýta tækifærið sem fylgir því til að byggja upp aðra atvinnumöguleika. Ef það er ekki hægt að nýta tekjurnar af álverinu til þess þá er það glatað tækifæri. Það væri mjög sorglegt ef það endaði þannig að það væri ekkert eftir nema verksmiðjan og það sem fylgir henni […]. Þá gæti sú stund runnið upp að menn spyrji af hverju við vorum að standa í þessu“.

Ívar segir Austurland eftirbát annarra landshluta í þróun ferðaþjónustu og telur að það gæti stafað af ruðningsáhrifum álversins – með því hafi atvinnumálum í landshlutanum „verið bjargað endanlega“ og menn hafi í kjölfarið sofnað á verðinum. Hann bendir á að þrátt fyrir yfirlýsingar ýmissa um að áhrifa álversins myndi gæta um allan landshlutann, styrkja allar sveitir og firði, og fullyrðingar um eitt atvinnusvæði, þá væri raunveruleikinn annar. Breiðdalsvík og Stöðvarfjörður, þar sem þau hjón ólust upp, eru staðir í tilvistarkreppu og á undanhaldi, þrátt fyrir álver Alcoa.

„„Það er kannski kaldhæðni örlagan[n]a að þegar göngin á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar voru opnuð þá lokaði Samherji frystihúsinu á Stöðvarfirði. Slæmar fréttir voru faldar í góðum fréttum. Sumir sögðu jafnvel að það væri allt í lagi að frystihúsið lokaði því þetta væri allt orðið eitt atvinnusvæði og það gætu allir keyrt yfir á Reyðarfjörð til að vinna í álverinu. Ég held að það hafi ekki verið hugsað til enda.““

Ívar bendir á að álver er ekkert endilega besti „þjónn samfélagsins“, það hafi ekki jafn sterkar og djúpar rætur í mannlífinu eins og umfangsminni starfsemi í eigu íbúanna. Þó álverið hafi skapað störf og laðað að fólk sem annars hefði ekki flutt á svæðið, þá hafi á móti tapast önnur störf vegna þeirrar værukærðar sem fylgdi þessum stóra vinnustað, sem öllu átti að bjarga. Það er ekki gæfulegt, segir Ívar, „að setja öll eggin í sömu körfuna“ eins og gert hefur verið, og nauðsynlegt að hugsa um það sem við tekur þegar álverið fer. „Það gerist á endanum, þótt það gerist ekki á næstu árum eða áratugum“ því álver er bara eins og önnur alþjóðleg stórfyrirtæki sem „eru þar sem þau græða og allt snýst um krónur og aura en ekki samfélagið í kring um þau“.

Ívar bendir einnig á að 12 tíma vaktavinna í verksmiðju henti ekki öllum og sé heldur ekki ákjósanleg fyrir mannlíf í litlum þorpum, því annar hluti bæjarbúa sé alltaf í vinnunni meðan hinn hlutinn sefur. „Það hefur auðvitað áhrif á samfélagið á Stöðvarfirði sem og annars staðar, það er ekki hægt að líta framhjá því. Þetta er langstærsti atvinnurekandinn á svæðinu og hann hefur lífið í þessum bæjum í höndum sér“.

Ívar og kona hans ákváðu að setjast að á Egilsstöðum, og þeim finnst eðlilegt að fólk íhugi hvort það kæri sig um að búa í næsta nágrenni við mengun frá verksmiðju. En þetta, og aðrar neikvæðar hliðar framkvæmdanna, má helst ekki tala um, segir Ívar, og bendir á miklivægi þess að skoða áhrif álversins heildstætt og með hlutlausum hætti, því þau koma ekki öll í ljós strax. „En þá finnst mér líka í lagi að staldra við og öðlast betri yfirsýn áður en það er ákveðið að byggja fleiri álver á Íslandi, en ég veit að það er verið að þrýsta á um það núna“.

Ætli þessi varnaðarorð Ívars eigi ekki við á fleiri sviðum í íslensku samfélagi?

Viðtalið við Ívar Ingimarsson er skólabókardæmi um það að auður hvers samfélags felst í fólkinu sem þar býr. Vissulega er Ívar ekki hver annar verkamaður á mölinni. Hann hefur í krafti hæfileika sinna lagt land undir fót og forframast. Þrátt fyrir áralanga dvöl úti í hinum stóra heimi ber hann einlæga virðingu fyrir litla þorpinu sínu og náttúrunni. Og það sem öllu skiptir er að hann vill koma heim aftur, leggja þar grunn fyrir fjölskyldu sína, en um leið þann grunn sem samfélaginu sem ól hann upp er nauðsynlegur til að eygja von um betri tíð.

Sú von festir nefnilega ekki frjóastar rætur í álverksmiðju.

 

Samræður bannaðar

Þórólfur Matthíasson vogaði sér að leggja fram opinberlega nokkrar spurningar, eftir að hafa kynnt sér ársreikninga Bændasamtaka Íslands. Þetta sýndust vera nokkuð kurteislegar spurningar og ekki óeðlilegar – jafnvel hægt að færa að því rök að þær, og svörin ef einhver bærust, skiptu máli.

En ekki mátti þetta. Upphófust nú draugar ýmsir með venjubundar svívirðingar á hendur hagfræðingnum, sem mun ekki hafa „æskilegar skoðanir“ fyrir starfsmann Háskóla íslands og ef marka má  orð t.d. helstu hugmyndafræðinga Framsóknarflokksins má búast við því að Þórólfur verði rekinn úr starfi sínu ef flokkurinn kemst aftur til valda. Nú er sökin sem sagt ekki óæskileg, úrkynjuð og óþjóðleg list heldur skoðanir. Líkur eru á því að þá fái fleiri að fjúka.

En lykilatriðið er þetta: Ekki spyrja Bændasamtökin um neitt, nema þau semji sjálf spurningarnar. Engar umræður, takk, um það hvernig Bændasamtökin fara með þá fjármuni sem skattgreiðendur láta þeim í té.

Þetta viðhorf er uppi víðar – of langt mál væri að telja það allt. Alls ekki má ræða við Evrópusambandið, alls ekki heldur um breytingar á stjórnarskránni og kvótakerfinu, svo nokkur af hinum stærri málum séu nefnd.

Og stjórnarandstaðan niðri á þingi kappkostar að koma í veg fyrir allar samræður. Þingmenn úr því liði eyða klukkustund eftir klukkustund, heilu sólarhringunum, í það að fjasa sín í milli um það að alls ekki sé nægur tími gefinn til að ræða þetta eða hitt málið, í stað þess að nýta tímann til að ræða þau skipulega og markvisst með rökum.

Getur verið að við eigum það skilið að sitja undir þessu?

Ekki spyrja um það má,
einn skal kyrja sönginn,
sannleik yrja; senn mun þá
sálar byrja þröngin.

Óður verkamannsins

Í dag er 1. maí – dagur verkalýðsins. Dagur verkalýðsbaráttunnar. Eitthvað hefur nú verkalýðsbaráttan breyst í gegnum tíðina, enda „verkalýðurinn“ nú til dags eitthvað allt annað en hann var áður fyrr. „Verkalýðshreyfingin“ sýnist, svona utanfrá séð, vera fátt annað en nokkrir moldríkir kallar (sjálfsagt líka nokkrar konur), svokallaðir verkalýðsleiðtogar, sitjandi á bólgnum sjóðum sem vinnandi hendur hafa lagt til smám saman – hluta launa sinna fyrir hið daglega strit. Ekki verður séð að þær hendur hafi mikið að segja um það hvert öllum þeim milljörðum er ráðstafað – ekki fremur en launamenn um lífeyrissjóðina sem þeir greiða í.

En einu sinni var verkalýðsbaráttan með öðrum blæ. Eftirfarandi kvæði, sem mér finnst 1. maí vera ágætt tilefni til að birta, er frá öðrum tíma og lýsir öðru andrúmslofti – blæ „karlmennsku“ og hreysti, fórnfýsi, þjóðerniskenndar, trúar og samtakamáttar: „Sameinaðir stöndum vér. Sundraðir föllum vér“.

Annars er rétt að geta tilefnis. Kvæðið er þýðing, ein af mörgum sem ég gerði fyrir Karlakór Hreppamanna að beiðni stjórnanda kórsins, til að undirbúa söngdagskrá vegna 200 ára afmælis ungverska tónskáldsins og píanósnillingsins Franz Liszt síðastliðið haust. Ekki komst stjórnandinn, Edit Molnár, þó svo langt með kórinn að æfa þetta lag til flutnings. Kannski það bíði bara betri tíma?

Óður verkamannsins

(„Arbeiter-Chor“: Rossa Ernö / Franz Liszt)
Þýðing: Gylfi Þorkelsson

Stíg fram! með haka, fork og pál.
Stíg fram! Á eggjað blikar stál.
Stíg fram! ef þor og iðni átt,
hér allt er metið, stórt og smátt.

Um enni þvölum svita slær
er sindrar líkt og perla skær.
Með þandar taugar, þor og dug
nú þjóðar vorrar sýnum hug.

Af gleði erfið vinnum verk
því von og hjartans trú er sterk.
Ef saman beitum hug og hönd
þá halda munu engin bönd.

Ef saman göngum sorgum mót,
ef saman brúum óreið fljót,
ef saman réttan syngjum tón,
ef saman bætum annars tjón.

Vort föðurland með frjóa jörð,
af fúsum vinnuhöndum gjörð,
sem efla vilja hennar hag
og heiður verja, nótt sem dag.

Um frelsið syng við hamarshögg,
þá höndin tekur á sig rögg.
Á steðjann hamra styrkur vil
og stoltur vinna morguns til.

Og hvert eitt verk af guði glætt,
af gæðum hans er efnið bætt,
en allt sem geri blessun ber
og byggt á traustum grunni er.

Nú leggi allir hönd við hönd
og hnýti eilíf tryggðabönd,
og rækti sérhvern Drottinsdag
vort dýra, kæra bræðralag.

Já, tengjum saman strönd við strönd
og styrka bjóðum vinar hönd,
treystum okkar tryggðabönd
og ræktum sérhvern Drottinsdag
vort dýra, kæra bræðralag.

Félagshegðun í dýraríkinu

Ég gerði mér ferð á laugardaginn í hrossarag. Ætlunin var að taka á hús eitt hross, leirljósa meri stjörnótta, ágætt hross á besta aldri, sem er geld þetta árið. Einnig stefndi ég að því að taka elstu klárana mína þrjá og færa þá á betri haga. Með mér í för var Jasmín, dótturdóttir á 13. ári sem er útsett fyrir hestabakteríunni – og dvaldi hjá ömmu og afa á Selfossi yfir helgina. Og hundtíkin Þula var aftur í skotti, gríðarlega spennt.

Við komum á staðinn og köllum í klárana, sem koma „med det samme“, þiggja brauðbita og múl, og elta viljugir upp á kerru. Þeir eru allir í gullfallegu standi. Þá er að færa sig í næsta hólf, þar sem eru nokkur hross í heyi, m.a. sú leirljósa og fylfull hryssa jarpnösótt, við Þóroddi, hvorki meira né minna. Einnig eru þar tveir klárar sem ég hef nýlega tekið á gjöf og ein þrjú hross önnur, í annarra eigu.

Við Jasmín veifum brauðpokanum og allt hópast í kringum okkur. Ljósbrá, sú leirljósa, lætur leggja við sig án vandræða og teyma upp á kerru viðstöðulaust. Allt er þetta nú alveg yndislegt!

En Galdurssynirnir og albræðurnir Freyr og Þeyr, tiltölulega nýkomnir í hópinn, halda sig í óeðlilegri fjarlægð. Af hverju koma þeir ekki í brauðið? Við röltum af stað til þeirra með plastpokann á lofti og þeir átta sig strax, reisa háls og sperra eyru. En koma ekki á móti okkur. Þegar við erum komin vel hálfa leið til þeirra, gerist það óvænta að þeir hörfa á brott, sveiflandi tagli. Ég botna ekkert í þessu!

En svo átta ég mig. Kemur ekki kvikindi brúnt á fullum spretti fram úr okkur, með hausinn teygðan fram og eyrun límd aftur og hjólar í blessaða klárana mína! Það er alveg eins og þetta illfygli hafi nýlega verið hrakið úr Seðlabankanum, svo illskeytt er það. Hefur auðvitað varið, bæði með kjafti og hófum, helstu gæðin – heyrúlluna – til einkanota fyrir sína nánustu klíku, og lagt á sig langa spretti til að bíta aðra og berja frá, halda þeim tryggilega „utangarðs“.

Ég sé að engra annarra kosta er völ en að forða reiðhestunum mínum úr þessu mötuneyti, en þarf fyrst að fara eina ferð með fulla kerruna. Þegar við Jasmín komum aftur þarf að hrekja þann brúna í örugga fjarlægð áður en klárarnir stillast, svo hægt sé að leggja við þá. Þar sem ég teymi þá í áttina að kerrunni, kemur þá ekki meinhornið einn ganginn enn á fullum spretti! Hvílík heift og langrækni!

Og ég ákveð að forða þeirri fylfullu burtu líka. Þó hún sé í náðinni í augnablikinu er aldrei að vita hvað gerist þegar hún kastar og ég kæri mig ekki um að eiga það á hættu að láta slasa eða drepa fyrir mér folaldið, þegar þar að kemur.

Ólafur Ragnar kippir í liðinn

Ekki varð ég jafn sannspár um stórlyndi forsetans og ég hefði kosið. Þegar til kom var þetta allt saman ein leikflétta og farsi – sjónarspil af verstu gerð, eins og fjölmargir höfðu bent á, og maður vissi svo sem undir niðri, þó vonin um eitthvað stórmannlegra hefði vissulega blundað þar líka. Og nú vonar Ólafur Ragnar að…

„þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda“.

Úrslitin eru sem sagt ráðin. Það er búið að kjósa manninn einu sinni enn. Þá þarf heldur ekkert að vera að henda peningum í rándýrar kosningar, sem er óneitanlega jákvætt á þessum síðustu og verstu tímum.

En það er önnur saga. Áhugaverðari sögu má lesa út úr tilvitnuninni hér að ofan:

1) Stjórnskipan landsins verður óstöðug ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn og hættir svo. Enginn annar núlifandi Íslendingur er fær um þetta.

2) Stjórnarfar á Íslandi verður óstöðugt áfram ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn og stígur svo til hliðar. Enginn annar núlifandi Íslendingur er fær um þetta.

3) Staða Íslands í samfélagi þjóðanna verður óviss og óskýr ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn á næstu 2-3 árum en snýr sér svo að því að bjarga öðrum brýnum vandamálum heimsbyggðarinnar. Af nógu er víst að taka.

Svona lítur Ólafur Ragnar Grímsson á málin. Hroki? Nei, nei. Þetta sjá nú allir, ekki satt?

Ólafur Ragnar er búinn að sitja í embætti forseta Íslands í tæp 16 ár. Á þeim tíma hefur honum verið einkar lagið að skapa sundrung og óvissu um stjórnskipan og stjórnarfar og staða Íslands hefur sennilega aldrei verið óskýrari í samfélagi þjóðanna, eða meira efast um íslenskt þjóðfélag frá stofnun lýðveldisins en einmitt um þessar mundir. Nú ætlar hann að kippa þessu í liðinn á hálfu kjörtímabili eða svo. Þá er óhætt að boða til forsetakosninga á ný og hleypa að einhverju meðalmenninu, enda allur vandi leystur og engin verkefni eftir til að sinna, nema helst að veifa lýðnum af svölunum. Þetta ætlar hann að leggja á sig, bara fyrir okkur – af því við höfum grátbeðið hann um það, með bænaskjölum þegar ekki vildi betur til.

En af hverju var hann ekki löngu búinn að þessu öllu saman? Það á ég bágt með að skilja.

Aumingja forsetinn

Nú hefur kaleik verið troðið upp í andlitið á forseta vorum – kaleik sem hann kærir sig ekkert um að súpa af. Flokkur manna, með Guðna Ágústsson í broddi fylkingar, hefur safnað undirskriftum 30.000 kjósenda til að hvetja Ólaf Ragnar til að bjóða sig fram enn einn ganginn – í fimmta sinn.

Þrátt fyrir mjög afdráttarlausar yfirlýsingar í nýársræðu sinni um að hann ætlaði að láta staðar numið í þessu embætti, sér flokkur manna sér leik á borði að hvetja Ólaf til dáða – eingöngu til að þjóna þröngum pólitískum hagsmunum, þ.e.a.s. andstöðu gegn inngöngu í Evrópusambandið. Með þessu athæfi er forsetaembættið dregið fram á hið pólitíska svið sem aldrei fyrr – og fannst sumum þó orðið nóg komið af svo góðu.

Óskiljanlegur fjölmiðlafarsi hefur gengið fyrir fullu húsi sl. tvo mánuði um það hvort forsetinn hafi sagt í nýársávarpinu hvort hann hygðist hætta eða halda áfram í embætti – eða hvort hann hafi sagt þetta nógu skýrt – eða að hann hafi „skilið eftir glufu“ fyrir einn eða annan skilning á því hvað hann sagði.

Ræða forsetans um þetta efni var þegar allt kemur til alls alveg kýrskýr. Hann sagðist ætla að hætta.

Ég var sjálfur á tímabili ekki viss um það hvort Ólafur ætlaði að hætta eða halda áfram. Það var bara ein ástæða fyrir þessari óvissu minni: Ég nennti ekki að hlusta á nýársræðuna. Fjölmiðlafarsann komst ég ekki hjá því að heyra og sjá. En þegar betur var að gáð var engin leið að vera í nokkrum vafa um þetta.

Þeir sem fram á þennan dag hafa haldið því fram að vafi léki á fyrirætlunum forsetans hafa, eins og ég, greinilega ekkert hlustað á ræðuna, og gera honum því í skjóli fáfræði, misskilnings og pólitískra flokkadrátta þennan ógurlega óleik sem við blasti á Bessastöðum í dag. Ólafur Ragnar kunni ekki við það að gera allan þennan sjálfumglaða flokk afturreka fyrir framan myndavélarnar, af eintómri kurteisi og tillitssemi, enda þarna á ferðinni margir þungavigtarmenn.

Hann mun svo endurtaka fyrri yfirlýsingar sínar seinna í þessari viku, eða þeirri næstu, því fjölskyldan hefur þegar gert margskonar ráðstafanir og hafið undirbúning að nýju lífi.

Og þá verður Guðni Ágústsson bara að berjast gegn inngöngu í ESB með eigin verðleika að vopni, þó hann hafi ekki treyst þeim hingað til.

Normalísering siðblindunnar

Einhvern veginn stend ég í þeirri trú að í íslenskum lögum (jafnvel í stjórnarskránni, eða hvað?) séu greinar um jafnrétti: jafnrétti allra þegna þjóðfélagsins burtséð frá kyni, húðlit, kynhneigð, trú, heilsufari, skoðunum eða stöðu að öðru leyti. Ef þetta er misskilningur hjá mér ættu þar alla vega að vera slík ákvæði.

Í þessum pappírum trúi ég líka séu ákvæði um skoðana- og tjáningarfrelsi: að allir þegnar séu frjálsir að skoðunum sínum og að tjá sig um þær.

En jafnréttisákvæðin fela í sér fleira en bara það að þegnarnir hafi jafnan rétt til að vera karlar og konur, eða að vera svartir, gulir, hvítir, rauðir, bláir eða grænir á hörund, sam-, gagn- eða tvíkynhneigðir, haltir eða óhaltir, blindir eða sjáandi, heyrnarlausir eða heyrandi, sjúkir eða heilsuhraustir, kristnir, múslimar, ásatrúar, búddistar eða trúlausir, kommar, kratar, þjóðrembingar eða íhald, frjálslyndir eða afturhald, að þeir megi vera litlir eða stórir, feitir eða mjóir, ríkir eða fátækir, hærðir eða sköllóttir, dökkhærðir, rauðhærðir eða ljóshærðir.

Jafnréttisákvæðin, eins og ég skil þau, fela það í sér fyrst og fremst að fólk geti fengið að vera allt þetta, eins og það er skapað, í friði og spekt, geti lifað hamingjusömu lífi í sjálfu sér, hvernig svo sem það er saman sett af ofangreindum eiginleikum, eða óteljandi öðrum eiginleikum og einkennum hér ónefndum.

Jafnréttisákvæðin, eins og ég skil þau, fela það í sér að árásir og svívirðingar, meiðandi yfirlýsingar um fólk vegna einhverra eiginleika þess, eru lögbrot – og það sem verra er: siðrof.

Þeir sem ráðast að fólki með svívirðingum vegna húðlitar þess eða kynhneigðar, svo dæmi séu tekin, brjóta með hegðun sinni ekki bara lög, heldur þann siðferðisgrundvöll sem við hér (og víða annarsstaðar) höfum komið okkur saman um að byggja samfélagið á. Þetta samkomulag er skynsamlegt, því það stuðlar að friði og sátt en vinnur gegn árekstrum, átökum og ófriði. Stuðlar að velsæld og hamingju en vinnur gegn heift og vanlíðan. Andi þessa samkomulags hefur einna best verið orðaður á þenna hátt: „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“.

Sem sagt: Allir eiga skilyrðislausan rétt til þess að „vera þeir sjálfir“ og þroska hæfileika sína og hamingju á eigin forsendum. Þessi réttur gengur lengra en tjáningarfrelsið. Tjáningarfrelsið er nefnilega háð siðferðismörkum. Þeir sem misnota tjáningarfrelsið með því að svívirða fólk vegna húðlitar þess, kynhneigðar, fötlunar, trúar, útlits eða skoðana eru svíðingar.

Meira að segja í knattspyrnuheiminum, þar sem „frumskógarlögmálið“ og peningagræðgin er hvað mest áberandi í veröldinni, er tekið á kynþáttaníði með keppnisbanni og sektum. Dettur nú einhverjum í hug að þar ráði ferðinni árásir Samfylkingarinnar á tjáningarfrelsið?

Þegar við hugsum um og metum yfirlýsingar Snorra Óskarssonar (og skoðanasystkina hans) skulum við hafa þetta í huga. Þá er okkur einnig hollt að leita í þjóðararfinn og minnast visku Þorgeirs Ljósvetningagoða: „Svo líst mér sem málum vorum sé komið í ónýtt efni, ef eigi hafa ein lög allir, en ef sundur er skipt lögunum, þá mun sundur skipt friðinum, og mun eigi við það mega búa.“ Og Þorgeir felldi sinn úrskurð, eins og kunnugt er, en rak aftan við úrskurðinn þann varnagla, að „ef leynilega er með farið, þá skal vera vítislaust.“

Skoðanir sínar um samkynhneigð verður Snorri Óskarsson að fá að hafa í friði, og ef hann fer leynilega með þær „skal vera vítislaust“. En opinberar svívirðingar hans mega aldrei verða vítislausar, því með þeim er sundur skipt friðinum. Með þeim særir hann fjölda einstaklinga, veldur kvíða og vanlíðan, ekki síst meðal „umbjóðenda“ sinna, barna og óharðnaðra unglinga. Með yfirlýsingum sínum ofbýður Snorri samborgurum sínum og gerist svíðingur.

Ef þjóðfélagið ætlar að láta framferði af þessu tagi viðgangast þá er verið að normalisera svíðingshátt. Látum það ekki henda, því þetta mál hefur ekkert að gera með tjáningarfrelsið, heldur aðeins heilagan rétt hvers einstaklings til að vera sáttur í sjálfum sér, og laus við svívirðingar annarra.

Og yfirlýsingar Árna Johnsen um annað eru aðeins enn ein staðfestingin á því að kjósendur hans hafa normaliserað yfirgang, eiginhagsmunapot og siðblindu.