Íslandsmótið í menntun

Margir átta sig á því að menntun er lykill að farsæld, þó vitaskuld megi finna ágæt dæmi um að menn komist vel af án langrar skólagöngu. Ég hygg að allir stjórnmálaflokkar hafi það t.d. á stefnuskrá sinni með einhverjum hætti að „hækka menntunarstig“, enda sé það forsenda fyrir nýjum tækifærum, nýjum störfum, nýjum og auknum útflutningstekjum – já, hagvexti framtíðar. Halda áfram að lesa

Hlauptu, krakki, hlauptu!

Nú er hafið enn eitt áhlaupið að styttingu náms til stúdentsprófs. Menntamálaráðherra hefur í fjölmiðlum sagt að öll rök hnígi að þessu, því í öðrum löndum sé námstíminn ári styttri en hérlendis. Öðrum rökum virðist ekki til að dreifa. Fleiri hafa tekið undir þetta og jafnvel haldið því fram að vegna þessa séu ungmenni á Íslandi „þrepi á eftir“. Aðrir, t.d. Anna María Gunnarsdóttir og Jón Páll Haraldsson hér í Fréttablaðinu, hafa reynt að dýpka umræðuna og bent á að taka verði með í reikninginn margvíslegan aðstöðumun milli Íslands og annarra landa þegar farið er í jafn flókinn samanburð.

Þau áform að stytta framhaldsskólann hafa lengi verið á teikniborðinu og því hefur jafnvel verið haldið blákalt fram að styttingin sé vænleg leið til þess að draga úr brottfalli og bæta skólastarf, sem skili litlum árangri miðað við fjárframlög.

Gott og vel. Lengi má bæta skólastarf og ekki skal dregið úr nauðsyn þess að vera sífellt á tánum hvað það varðar. En margt gott má segja um framhaldsskólakerfið, enda hafa löggjafinn og ráðuneytisfólk, og pedagógar á þeirra vegum, undanfarin a.m.k. 40 ár setið í svitabaði við að kreista fram leiðir til að koma betur til móts við áhuga, þarfir og getu nemenda, fjölga námsleiðum og auka sveigjanleika kerfisins, svo allir gætu fundið sér eitthvað við hæfi. M.a. eru fjölbrautaskólarnir skilgetið afkvæmi þessarar viðleitni, sem og öll löggjöf frá 1970. Þrátt fyrir þetta þrjóskast langflest íslensk ungmenni enn við og innrita sig á bóknámsbrautir til stúdentsprófs.

En þetta var útúrdúr. Stytting framhaldsskólans mun, ein og sér, hvorki bæta skólastarf né draga úr brottfalli. Það sorglega við þetta allt sama er hve innilega hugmyndasnauð umræðan er. Nemendur sem fá 8,0 eða hærra í meðaleinkunn á grunnskólaprófi munu vissulega ljúka stúdentsprófi vandræðalaust á þremur árum. Brottfallsvandinn herjar ekki á þá og stytting námstíma mun lítil áhrif hafa á námsárangur þeirra eða framtíðarplön. Þeir munu bara leysa sín mál, hér eftir sem hingað til, þrátt fyrir skólakerfið. Það hafa þeir lengi sýnt í áfangaskólunum, byrjað á framhaldsskólanámi á grunnskólaaldri og lokið svo stúdentsprófi á mettíma.

Styttingaráformin munu hins vegar uppfylla ríkulega hið dulda markmið, sem ekki virðist mega ræða upphátt: að spara peninga. Vel að merkja: nokkur undanfarin ár hafa verið sparaðir a.m.k. 12 milljarðar í framhaldsskólakerfinu, sem er víst orðið ódýrara hér en víða annars staðar. Hver er þá vandinn?

Öll nálgun menntamálaráðherrans að skólamálum er þess eðlis að hann líti á menntun sem keppnisíþrótt. Haldin eru „héraðsmót“ víða um land sem jafnframt eru úrtökumót fyrir „landsmót“ á þjóðarleikvanginum. U.þ.b. 95% hvers árgangs skráir sig til keppni, langflestir í hlaupagreinar og hingað til hafa allir sem komast í mark átt þess kost að keppa á landsmótinu.

En nú ákveður sem sagt mótsstjórinn að herða tímamörkin í 10 sekúndur, enda hlaupa margir í útlöndum svo hratt. „Öll rök“ hníga sem sagt að þessari breytingu. Þessi ákvörðun breytir að vísu engu fyrir hina fáu fótfráustu, þá sem eru skráðir í 100 metrana. En hvað um „keppendur“ í 200 metrum, maraþoni, 50 km. göngu eða grindahlaupi? Mun þetta leiða til betri árangurs og minna brottfalls meðal þeirra? Þvert á móti munu enn fleiri detta og meiða sig, hverfa á brott á sjúkrabörum án þess að eiga afturkvæmt, eða þurfa að setjast á hnjaskvagninn og fá aðhlynningu við hliðarlínuna áður en þeir geta haldið áfram, auðvitað langt frá tímamarkinu, undir stöðugum köllum úr stúkunni: „Hlauptu, krakki, haluptu!“ Hundraðmetrahlaupararnir eru löngu komnir í sturtu.

Það sem íslensk ungmenni eiga heimtingu á frá menntamálaráðherra eru ekki illa dulbúnar sparnaðarhugmyndir, heldur hugmyndir um það hvernig til stendur að koma til móts við lang- og grindahlauparana, þá sem hentar illa að hlaupa bara nógu hratt, en gætu jafnvel fundið sig í köstum eða stökkum. Hugmyndir um það hvernig má sannfæra afrenndan kúluvarpara til að skrá sig sjálfviljugan í kúluvarp en ekki 3000 m. hindrunarhlaup, sem hann þarf að ljúka á 10 sek.

Slíkar hugmyndir gætu dregið úr brottfalli og bætt skólastarf – og mættu gjarnan vera forgangsmál nýskipaðs menntamálaráðherra. 

Greinin birtist á visir.is 17. september 2013

Hagvöxtur á hæpnum grunni

Samráðsvettvangur forsætisráðuneytisins um leiðir til þess að auka hagsæld Íslendinga fram til ársins 2030 var settur á laggirnar í janúar á þessu ári og hefur nú skilað tillögum sínum. Samkvæmt frétt í Fréttatímanum frá 9. maí sl. miða tillögurnar við þau „metnaðarfullu markmið að meðalhagvöxtur nemi 3,5% á ári“ á þessu tímabili og við það muni Ísland færast „upp í 4. sæti í samanburði OECD ríkja hvað varðar verga landsframleiðslu á mann“ í stað þess að verma 15. sæti listans að óbreyttu, „í félagsskap þjóða eins og Grikkja, Ítala, Pólverja og Ungverja“.

Og auðvitað viljum við ekki vera í slíkum tossabekk!

Sjálfsagt er margt gáfulegt í þessari skýrslu og sjálfsagt er rétt að kynna sér hana í þaula, enda fjallar hún um „flesta þætti atvinnu- og efnahagslífsins“, en að svo stöddu hef ég bara við að styðjast frásögn Fréttatímans og umræðuþátt í sjónvarpinu. Og í þessum heimildum er einmitt sjónum beint að umfjöllun skýrslunnar um menntakerfið, sem vel að merkja er sérstakt áhugamál mitt og starfsvettvangur.

Ekki kemur á óvart að niðurstaðan sé að skólakerfið þurfi „róttækan uppskurð“ eins og segir í fyrirsögn Fréttatímans. Þegar það er haft í huga að „samráðsvettvangurinn er skipaður helstu stjórnmálaleiðtogum og forsvarsmönnum atvinnulífsins“ kemur heldur ekki á óvart hvað talið er þurfa að skera upp og hvernig það skuli gert.

Rétt er að minna á að meginmarkið hópsins var að finna leiðir til að ná fyrrnefndum meðalhagvexti næstu tæp 20 ár.

Þetta er ekki fyrsta skýrslan á Íslandi um menntakerfið. Hver skýrslan á fætur annarri, nánast árlega eða oftar síðustu áratugi, hefur verið unnin „af ábyrgð og festu“, að sögn til að finna leiðir til árangursríkara skólastarfs. Við höfum komið illa út úr árangurssamanburði í PISA könnunum, við höfum komið illa út úr OECD samanburði um brottfall úr framhaldsskólum og við komum illa út úr samanburði á rekstrarkostnaði grunnskóla. Til allrar hamingju á þetta síðasttalda þó hvorki við framhalds- og háskólana okkar, sem eru víst tiltölulega ódýrir!

Megináhyggjuefnið vegna framhaldsskólakerfisins hefur löngum verið brottfallið. Samráðsvettvangur stjórnmálaleiðtoga og atvinnulífsfrömuða hefur nú fundið í einni aðgerð lausn á brottfallsvandanum og leið til að auka hagvöxtinn. Skv. umfjöllun Fréttatímans felst lausnin í því „að stytta nám í grunnskóla og framhaldsskóla um samtals tvö ár og draga þannig að miklu leyti úr miklu brottfalli íslenskra framhaldsskólanema“. Við það myndi „landsframleiðsla aukast um 3-5%“. Svo er líka talið ráð að fækka skólum verulega og stækka þá.

Nú verður að hafa þann fyrirvara á að þetta er túlkun blaðamanns Fréttatímans á efni skýrslunnar, en hvort sem ofangreint orsakasamhengi er frá honum komið eða skýrsluhöfundum þá lýsir það alla vega algjörum skorti á ályktunarhæfni. Það er óskiljanlegt að nokkrum manni, „þeim er vitandi er vits“, detti það í hug í alvöru að stytting skólagöngu um tvö ár leiði til minnkandi brottfalls. Eða að birta slíkt í skýrslu sem væntanlega á að taka alvarlega í þjóðfélagsumræðu?

Vonandi sjá allir að hagvaxtarmarkmið samráðsvettvangsins á sviði menntamála eru á hæpnum grunni, svo ekki sé meira sagt. Og vonandi eru aðrar tillögur í skýrslunni ekki sama marki brenndar.

Aðrar niðurstöður skýrslunnar varðandi skólakerfið eru gamalkunnur söngur: auka kennsluskyldu, fjölga í bekkjum, sameina og stækka skóla („óhagkvæmar einingar“ heitir það á máli hagvaxtarfræðinganna).

Á sama tíma og forsætisráðuneytið hendir peningum í skýrslugerð af þessu tagi eru engir peningar tiltækir til þess að innleiða nýjustu framhaldsskólalögin, sem þó eiga að vera að fullu komin í gagnið árið 2015.

Og hverjar skyldu þá vera helstu áherslurnar í nýju lögunum? Hvernig skólakerfi er það sem stjórnmálaleiðtogarnir eru tiltölulega nýbúnir að samþykkja á Alþingi að íslensk börn og ungmenni skuli ganga í gegnum? Er það skólakerfi sem byggir á stærðarhagkvæmni, á „hagkvæmum einingum“ reiknilíkananna? Á einsleitni og fjöldaframleiðslu hagkvæmra atvinnulífseininga úr holdi og blóði?

Nei. Svoleiðis skólakerfi stendur ekki til, lögum samkvæmt, að byggja upp hér á landi.

Grunntónninn í núgildandi lögum um öll skólastigin, leik-, grunn-, og framhaldsskóla, er mannréttindi, lýðræði, -þarfir, réttindi og áhugasvið einstaklingsins-, nauðsynlegur sveigjanleiki til að undirbúa nemendur fyrir síbreytilegan heim. Grunntónninn í lögunum er mannúðlegur; að bera virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins, að efla hvern og einn svo honum geti liðið vel í eigin skinni.

Og er ekki skóli án aðgreiningar opinber stefna? Hvernig samræmist skóli án aðgreiningar stækkun skóla og fjölgun nemenda í bekkjardeildum?

Til að ná markmiðum laga þarf að auka sérfræðiaðstoð í skólunum svo hægt sé að taka vandamál, sem eru ærin, föstum tökum strax í upphafi. Eina færa leiðin til að auka kennsluskyldu íslenskra kennara byggist einmitt á þessu. Ráða inn í skólana skrifstofufólk og sérfræðinga á ýmsum sviðum og losa kennarana um leið við fjöldamörg verkefni sem þeim er nú ætlað að sinna meðfram kennslunni. Þeir yrðu manna fegnastir. Ekki hafa þeir beðið um öll „aukaverkin“ sem laumað hefur verið á borðin þeirra smám saman í gegn um tíðina og taka orðið allt of mikla orku frá sjálfri kennslunni. Þeir hafa hins vegar tekið við verkefnunum, að mestu möglunarlaust, af inngróinni samviskusemi og skyldurækni.

Þó margháttuð þróun hafi orðið á skólastarfi undanfarin 30 ár (tölvuvæðing, verkefnamiðað nám, fjarnám, „spegluð kennsla“, einstaklingsmiðað nám og svo frv.), þá er víða og á ýmsan hátt hægt að „skera upp“ í skólastarfi. Kennarar eru almennt tilbúnir til að taka þátt í alvöruvinnu við að bæta skólastarf.

En þessar hugmyndir, sem nú hefur verið kastað fram einu sinni enn, miða ekki að því að bæta skólastarf og efla fjölþætta menntun sem gagnast muni við lausn ófyrirséðra verkefna í þjóðfélagi framtíðarinnar. Þær miða einungis að því að spara peninga í skólakerfinu.

Best færi á því að þessi skýrsla færi sem hljóðlegast í ruslið.

 

 

 

 

 

 

Blessað brottfallið!

Aðalforsíðufréttin í Fréttablaðinu þann 30. apríl sl. fjallaði um brottfall nemenda úr framhaldsskólum. Það má vel kalla það fagnaðarefni að þetta málefni skuli vera mikilvægasta fréttaefnið þann daginn – ekki er menntamálum yfirleitt gert hátt undir höfði í íslensku pressunni. Því má einnig fagna sérstaklega að fréttin er nokkuð vönduð en ekki  jafn grátlega yfirborðskennd og allt of mörg fréttin, leiðarinn eða umfjöllun almennt er um þennan mikilvæga málaflokk.

Blaðið skoðaði ástæður þess að nemendur hættu í námi í þremur framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Samviskusamlega er því haldið til haga í fréttinni að brottfall sé mun hærra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og yfir meðaltali í OECD-ríkjum.

Nemendur þessara þriggja skóla gefa upp margar ástæður fyrir brotthvarfi sínu. Þeir nefna oft, skv. Fréttablaðinu,  áhugaleysi, námserfiðleika, líkamleg veikindi og flutning yfir í annan skóla. Í um 10% tilvika nefna þeir fjárhagserfiðleika og um 9% þeirra sem hættu námi í miðju kafi segja ástæðuna vera kvíða, þunglyndi og andleg veikindi. Ef brottfallið er um 30%, eins og fram kemur í fréttinni, þá hættu um 8500 nemendur námi af þeim 28 þúsund sem skráðir voru í framhaldsskóla árið 2011. Af þessum 8500 hættu um 19%, eða um 1600 nemendur, vegna fjárskorts eða andlegra erfiðleika.

Ekkert þarf að fjölyrða um það að „fyrri námsárangur hafi mikið forspárgildi“ fyrir gengi framhaldsskólanemenda. Það segir sig sjálft að nemendum sem gengur vel í grunnskóla muni líka, ef ekkert sérstakt kemur upp á, ganga vel í framhaldsskóla – og háskóla ef út í það er farið. Á sama hátt er við búið að nemendur sem eiga í erfiðleikum í grunnskóla muni áfram glíma við erfiðleika eftir að því skólastigi er lokið. Skiptir þá engu hver ástæðan er; almennir námserfiðleikar, sértækir námserfiðleikar, hegðunarerfiðleikar, fjölskylduvandi, fíkn, sjúkdómar.

Stór hluti af þessu vandamáli er sá að í mörgum tilvikum er ekki tekið á málum af fullri festu og einurð við upphaf skólagöngunnar, heldur sættir þjóðfélagið sig við það að börn sem eiga við vanda að stríða séu látin veltast áfram í gegnum skólakerfið, án þess að viðunandi bót sé ráðin á. Skólunum er gjarnan kennt um – kennurum og skólastjórnendum.

Svo koma börnin upp í framhaldsskólana og „allt er böl sem fyrr“. Þá eiga framhaldsskólarnir skyndilega að kveikja á perunni, „koma til móts við áhuga, getu og færni hvers nemanda með fjölbreyttu námsframboði, kennsluháttum, námsmati, bla, bla, bla…“, eins og þetta sé ekki allt saman þegar viðhaft, meira og minna, á öllum skólastigum? Rótina að áhugaleysi nemenda er ekki að finna í skorti á „nýbreytni í skólastarfi“, hvort sem er í leikskólum, grunnskólum eða framhaldsskólum. Þær rætur liggja dýpra í samfélaginu. Langflestum kennurum er nefnilega ljós vandinn, og ábyrgð sín, og gera það sem þeir geta til að þjónusta nemendur sína sem best, við erfiðar aðstæður.

Ef marka má upplýsingarnar á forsíðu Fréttablaðsins, sem koma ágætlega heim og saman við þann veruleika sem kennarar standa frammi fyrir í störfum sínum, þá er hinn mikli brottfallsvandi íslenskra framhaldsskólanemenda ekki fyrst og fremst skólapólitískur. Hann er hinsvegar bæði félagslegur, heilbrigðispólitískur og efnahagslegur.

Það þarf annars vegar að stórbæta heilbrigðiskerfið, sérstaklega geðheilbrigðisþjónustuna, og hinsvegar að tryggja íslenskri æsku þær aðstæður að þurfa ekki að stunda vinnu í stórum stíl meðfram námi til að framfleyta sér, til að von sé um bættan námsárangur og minna brottfall. Á að viðurkenna þá framvindu að meðalnemandi geti lokið framhaldssskólanámi á „eðlilegum tíma“ í aukastarfi með fullri vinnu annars staðar? Eru það eðlilegar námskröfur?

Ef þjóðfélagið sættir sig við það að framhaldsskólanemendur vinni jafn mikið og þeir gera, þá verðum við að gjöra svo vel að sætta okkur við það um leið að margir nemendur séu lengur en viðmiðunartíma að ljúka prófum, margir „taki sér frí frá námi“ og aðrir hætti. Ef þjóðfélagið sættir sig við það, án þess að bregðast umsvifalaust við af fullri alvöru, að fjöldi barna og ungmenna eigi við svo mikið þunglyndi og geðræn vandamál að stríða að það hamli þeim stórkostlega í námi, þá verðum við að gjöra svo vel að sætta okkur við mikið brottfall og erfiðleika í skólakerfinu.

Ef við viljum bjóða upp á jafn opið og sveigjanlegt skólakerfi og raunin er, þar sem allir nemendur eiga rétt á því að velja sína leið og breyta um stefnu þegar þeim býður svo við að horfa, í stað þess að draga þá í dilka fyrir lífstíð eftir námsárangri við 10 eða 12 ára aldur  – þá verðum við líka að sætta okkur við það að brottfallið fari yfir meðaltöl OECD. Og hvað gerir það til? Eða eru mannréttindin sem felast í sveigjanleikanum einskis virði?

Leiðin að bættu skólastarfi, hvort sem er í grunnskólum eða framhaldsskólum, er ekki sú sem stjórnmálamenn hafa troðið lengi undanfarið – að reyna að breyta vinnutímaskilgreiningum og aldursafslætti í kjarasamningum kennara svo hægt sé að láta þá kenna lengur og meira innan dagvinnumarka – eða að stytta nám til stúdentsprófs. Slíkar aðgerðir munu hvorki bæta skólastarf né minnka brottfall, eins og margur einfeldningurinn hefur haldið fram.

Fleiri nemendur með fleiri „vandamál“ í fleiri bekkjum í fleiri kennslustundum í stundatöflu eldri kennara er ekki lausnin. Sjáum við fyrir okkur löggur að djöflast í slagsmálum á götunni fram undir sjötugt? Eða að hjúkkur á sjötugsaldri séu píndar til að ganga sambærilegar vaktir og þær gerðu um þrítugt?

Eitt af því mikilvægasta fyrir skólastarfið er það sem nefnt var hér að ofan: bæta þjónustuna og taka á vandamálunum strax í upphafi af meiri festu. Heilbrigðiskerfið má t.d. bæta umtalsvert með því að bjóða upp á aukna þjónustu í skólunum. Þar sárvantar sérmenntað fólk af ýmsu tagi: sálfræðinga, geðlækna, sérfræðinga í almennum og sértækum námsröskunum o.s.frv. Þetta kostar aukið fé, öfugt við töfralausnir pólitíkusanna sem allar miða fyrst og fremst að því að minnka kostnaðinn við skólakerfið – og munu um leið rústa því endanlega.

Þarna stendur hnífurinn í kúnni.

 

Málefni Vísindasjóðs FF/FS

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara föstudaginn 12. apríl sl. gerðu fulltrúar FF í stjórn Vísindasjóðs FF/FS grein fyrir fjárhagsstöðu sjóðsins. Endurskoðandi sjóðsins kynnti ársreikning 2012. Fram kom að þrátt fyrir töluverðan lögfræðikostnað á árinu og ýmsan stofnkostnað vegna flutnings sjóðsins út úr Kennarahúsi, er rekstrarkostnaðurinn síst hærri en þegar sjóðurinn var rekinn í samstarfi með öðrum sjóðum og skrifstofu KÍ. Það liggur því fyrir að Vísindasjóður mun spara fé með því að starfa og leigja eigin aðstöðu utan Kennarahúss.

Eins og fram hefur komið er ekki hægt að ganga frá ársreikningi Vísindasjóðs 2011, án fyrirvara og athugasemda endurskoðanda, vegna þess að nauðsynleg gögn liggja ekki fyrir; sjóðurinn hefur ekki fengið þau afhent hjá skrifstofu KÍ, þrátt fyrir ítrekaða eftirgangsmuni.

Að lokinni kynningu endurskoðanda á reikningum gerði lögmaður Vísindasjóðs grein fyrir niðurstöðu héraðsdóms vegna innsetningarkröfu sjóðsins út af þessu máli. Niðurstaða héraðsdóms var að hafna kröfu Vísindasjóðs.

Formaður sjóðsstjórnar, Þórey Hilmarsdóttir, reifaði málið lauslega og vitnaði í útsend bréf og skýrslur sjóðsstjórnar, sem hafa reglulega verið verið send öllum sjóðfélögum til upplýsingar um framvindu mála. Þórey svaraði og nokkrum fyrirspurnum frá fundarmönnum um einstök atriði í ársreikningi.

Skrifstofustjóri KÍ tók til máls og ræddi samskipti skrifstofu KÍ við sjóðsstjórnina. Hann kom nokkuð inn á það hver hefði óskað eftir fundi með hverjum, og hvenær, og bar af sér sakir um óheilindi eða að verið væri að fela eitthvað í reikningunum. Undir slíkum ásökunum hefði verið erfiðast að sitja. Hann sagði að umræddur BIK-reikningur KÍ, sem m.a. fjármunir Vísindasjóðs hefðu verið færðir á, væri í varðveislu Íslandsbanka og stjórn Vísindasjóðs fengi ekki aðgang að honum þar, vegna trúnaðarskyldu bankans. Meira að segja fengi starfsfólk á skrifstofu KÍ ekki aðgang að þessum reikningi.

Skrifstofustjórinn sagði einnig að ef hann væri að hefja þetta ferli (samskiptin við Vísindasjóð vegna krafna sjóðsins um aðgang að bókhaldsgögnum) nú upp á nýtt myndi hann vissulega gera margt öðruvísi en hann hefði gert. Ekki kom nánar fram í máli hans hvað hann hefði gert öðruvísi, né hvers vegna. Undirritaður gat þó ekki skilið þetta öðruvísi en svo að um væri að ræða viðurkenningu á því að framkoma skrifstofu KÍ gagnvart stjórn Vísindasjóðs hefði ekki verið eins og hún helst hefði átt að vera. Dýpri skilning var ekki hægt að leggja í orð hans, ekki var t.d. um að ræða ótvíræða afsökunarbeiðni, eða viðurkenningu á ámælisverðri framkomu.

Það athyglisverðasta í máli skrifstofustjórans, að mati undirritaðs, var tvímælalaust yfirlýsing þess efnis að hann hefði aldrei fyrr, í öllum samskiptum sínum við stjórnir allra þeirra sjóða sem starfa undir hatti KÍ, kynnst neinni kjörinni stjórn sem væri jafn áhugasöm og nákvæm í störfum sínum. Jafnan hefðu sjóðsstjórnir sýnt takmarkaðan áhuga á umsýslu eða málefnum sjóðanna og því hefði sú venja skapast að hann sæi sjálfur um málin, tæki ákvarðanir og hefði rekstur þeirra einn á sinni könnu.

Undirritaður skilur þetta svo að þegar allt í einu var komin stjórn í Vísindasjóði sem vann vinnuna sína og var ljós eigin ábyrgð, fór að spyrja spurninga og krefjast svara, þá brást skrifstofustjórinn stirðlega við, enda miklu þægilegra fyrir hann að gera þetta sjálfur að gömlum vana, heldur en að vera að tína til gögn og svara einhverjum spurningum „þriggja móðgaðra kvenna“, eins og einum sjóðfélaga finnst hæfa að kalla sjóðsstjórnina.

Linda Rós Michaelsdóttir, einn þriggja stjórnarmanna í Vísindasjóði, tók til máls og lýsti upplifun sinni af því að þurfa að sitja undir vantraustsbókun stjórnar KÍ á störf sín og stjórnar Vísindasjóðs. Hún hefði aldrei lent í því, hvorki fyrr né síðar að efast væri um heilindi sín. Formaður FF stóð upp og sagði að hún hefði hringt í þær allar í stjórn Vísindasjóðs og beðist afsökunar á því að hafa samþykkt vantraustsbókunina, sem hún hefði gert „undir gríðarlegum þýstingi“. Ekki kom fram í máli formanns FF frá hverjum sá þrýstingur kom eða nákvæmlega hvers eðlis hann var. Linda sagði að eðlilegt hefði verið að sú afsökunarbeiðni hefði birst á sama stað og vantraustið, á heimasíðu KÍ.

Þá upplýsti Linda Rós fundarmenn um það að þegar stjórn Vísindasjóðs fór að spyrja hvers vegna KÍ tæki sér það vald að millifæra fjármuni sjóðsins fram og til baka hefðu þau svör verið gefin að um það væri samningur milli aðila. Stjórn Vísindasjóðs óskaði í kjölfarið eftir því að fá að sjá þann samning. Ekki var orðið við því, enda enginn slíkur samningur til, heldur því svarað að gerður hefði verið munnlegur samningur. Linda kvaðst hafa haft samband við forvera sína og spurt þá hvort þeir hefðu gert slíkan munnlegan samning við KÍ. Viðkomandi brugðust ókvæða við spurningunni, að sögn Lindu, og spurðu á móti hvað hún héldi að þeir væru? Hvort henni dytti í hug að heiðvirt fólk gerði munnlegan samning um annað eins?

Þá stendur eftir að

    • enginn löglegur samningur er til um það að KÍ hafi haft heimild til að forfæra innistæður Vísindasjóðs út af reikningum sjóðsins og inn á reikninga KÍ, og hirða þar með vaxtatekjur sem sjóðurinn á. Er það ásættanlegt?
    • stjórn Vísindasjóðs ber ein ábyrgð á fjárreiðum sjóðsins og fær reikninga hans ekki endurskoðaða nema með fyrirvara meðan bókhaldsgögn vantar. Er það ásættanlegt?
    • skrifstofustjóri KÍ viðurkennir að hann hefði, í ljósi reynslunnar, gert margt öðruvísi en hann gerði, ef þetta mál væri að koma upp nú. Enn er tækifæri til að biðjast afsökunar.
    • skrifstofustjóri KÍ hefur aldrei á sínum starfsferli hjá sambandinu kynnst jafn áhugasamri, ábyrgri og nákvæmri stjórn í nokkrum sjóði innan vébanda KÍ eins og núverandi stjórn Vísindasjóðs FF/FS. Starfsmenn KÍ: Takið sjóðsstjórnina til fyrirmyndar.
    • stjórn KÍ, þar með talinn formaður FF, bókaði opinberlega vantraust á þessa áhugasömu, ábyrgu og nákvæmu stjórn Vísindasjóðs á fundi 25. mars 2011. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ „harmar þá gagnrýni á vinnubrögð stjórnar Vísindasjóðs“ á fundi 14. október 2011 og biður „velvirðingar á henni“ en hefur hvorki beðist afsökunar á frumhlaupi sínu, né dregið vantraustsbókun sína formlega til baka. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ hefur ekki gefið neinar skýringar á því hvað við vinnubrögð sjóðsstjórnar hún taldi svo ámælisvert að verðskuldaði opinbert vantraust, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Er það ásættanlegt?
    • formaður FF segist hafa í einkasamtölum beðið stjórn Vísindasjóðs afsökunar á þætti sínum í málinu, en hefur ekki gert það með formlegum hætti opinberlega. Er það ásættanlegt?
    • rekstrarkostnaður Vísindasjóðs er lægri á eigin skrifstofu úti í bæ heldur en í samrekstri og samnýtingu starfsfólks í Kennarahúsinu. Er það ásættanleg niðurstaða fyrir skrifstofu KÍ?
    • stjórn Vísindasjóðs hefur sjálf unnið ómælda, í raun ótrúlega vinnu, við að halda sjóðnum gangandi og tryggja sjóðfélögum réttindi sín og óheftar greiðslur. Takk fyrir það.
    • þau vandkvæði sem upp hafa komið skýrast af ófullkomnu tölvukerfi, sem ræður ekki við það sem það á að gera. Unnið er að lagfæringum á kerfinu, en fyrir vikið hefur stjórn sjóðsins þurft að handvinna úr styrkumsóknum félagsmanna. Takk fyrir það.

Í þessu ljósi er það bæði ljúft og skylt, nú sem fyrr, að lýsa yfir óskoruðu trausti á stjórn Vísindasjóðs FF/FS og fullum stuðningi við hana í þessu máli til loka.

Selfossi, síðasta vetrardag 2013.
Gylfi Þorkelsson,
formaður Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands

Af „sanngjörnum ábataskiptum“

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara, sem haldinn var föstudaginn 12. apríl síðastliðinn, héldu erindi, undir liðnum Kjaramál, samningar og staða framhaldsskólans, þau Ingibjörg Guðmundsdóttir skólameistari Kvennaskólans, Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ og Guðmundur H. Guðmundsson, frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þetta fólk flutti okkur, óbreyttum „fulltrúunum“, tíðindin af stöðu mála í íslenska framhaldsskólakerfinu og launakjörum framhaldsskólakennara. Ekki verður sagt að neitt nýtt hafi komið fram, sem við vissum ekki fyrir, fremur tölfræðilegar staðfestingar á þeim nöturlega veruleika sem blasir við nemendum og starfsfólki í skólunum á hverjum degi. Meginniðurstaðan er sú að skólakerfið, alveg eins og heilbrigðiskerfið, verður rústir einar innan skamms ef ekki verður rækilega spyrnt við fótum.

Í máli Ingibjargar kom fram að dagvinnulaun í framhaldsskólunum hafa að meðaltali dregist saman um tæp 2% frá 2007, yfirvinna um 36,6% og ýmsar aukagreiðslur um 48%. Þrátt fyrir þennan gríðarlega sparnað í launakostnaði hafa launatengd gjöld hækkað um 7,6% á sama tíma! Rekstrarkostnaður skólanna (annar en laun) hefur verið skrúfaður niður um 64%.

Á meðan á þessu hefur gengið hefur ársnemendum fjölgað mikið, skólarnir þjóna nú 3982 fleiri nemendum en þeir gerðu árið 2007, en fjölgunin ein kostar 3,2 milljarða. Meðal annars hafa skólarnir tekið þátt í því átaki með stjórnvöldum að hvetja atvinnuleitendur til að drífa sig í skóla í atvinnuleysinu og bæta þannig stöðu sína. Til að tryggja þessum tæplega 4000 fleiri nemendum „besta atlæti“ hefur starfsfólki skólanna verið fækkað á sama tíma um 3,4% og heildarlaunakostnaður á hvert stöðugildi dreginn saman um 11%. Við allan þennan niðurskurð hefur rekstrarkostnaður hvers ársnemanda í framhaldsskólakerfinu lækkað um meira en 100 þúsund krónur, fjárheimildirnar úr 813 þúsund og niður fyrir 695 þúsund.

Samtals er sparnaðurinn 10,5 milljarðar í ríkisskólunum á fimm árum og með „einkaskólunum“ bætist við tæpur einn og hálfur milljarður: samtals 12 milljarða niðurskurður í framhaldsskólakerfinu. Til að bæta gráu ofan á svart verður að geta þess að inni í þessum tölum eru aðeins nemendur sem hafa skilað sér til prófs, ekki allir nemendurnir sem skólarnir hafa „þurft að kosta upp á“.

Til að ná þessum „árangri“ hefur þurft að „auka afköstin“ hjá hverjum kennara með því að stækka námshópana og skera grimmilega niður fámenna valáfanga, helst að bjóða upp á sem fæst annað en almenna kjarnaáfanga, þar sem hægt er að stappa inn sem næst 30 nemendum, helst fleiri.

Formúlan er þessi: Fleiri nemendur » færri störf » stærri hópar. Þá er bara spurningin hvort niðurstaðan sé betri námsárangur? En kannski er það ekki markmiðið með rekstri skólakerfis á landinu bláa? Kannski er einmitt meginmarkmiðið að minnka kostnaðinn, hvað sem það kostar?

Auðvitað vitum við kennarar allt um þetta, þ.e.a.s. hver áhrifin eru á daglegt starf í skólunum. Þar ríkir víða hörmungarástand og margir kennarar að bugast undan ómanneskjulegu álagi. Að ekki sé talað um nemendurna sem njóta ekki þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á, lögum samkvæmt.

Niðurskurður í skólakerfinu er heldur engin nýlunda, eða fylgifiskur efnahagshrunsins. Jafnvel á árunum fyrir hrun, þegar tekjur ríkissjóðs voru í sögulegu hámarki, var markviss og grímulaus niðurskurður hafinn, jafnvel þegar á fyrstu árum 21. aldar. Að þessu leyti eru heilbrigðiskerfið og skólakerfið saman á báti.

Fulltrúi fjármálaráðuneytisins ræddi á fundinum m.a. tilgang og markmið þeirrar stefnu sem kölluð hefur verið Nýskipun í ríkisrekstri, eða New public management á erlendum tungum, og á rætur sínar í nýfrjálshyggju 10. áratugar 20. aldar. Ekki verður farið náið út í þá sálma hér, en þó hent á lofti orð hans um einn megintilgang svokallaðra „stofnanasamninga“ sem voru mikilvægur liður fyrrnefndar stefnu, með það að markmiði að auka sjálfstæði og ábyrgð einstakra stofnana. Grundvallarhugsunin var sú að ef stjórnendur næðu fram hagræðingu í rekstri átti stofnunin sjálf að njóta hluta ábatans. Þannig átti t.d. skólameistari að geta umbunað starfsmönnum sínum með auknum fríðindum eða hærri launum ef þeim tókst í sameiningu að lækka rekstrarkostnaðinn. Kennari væri þá (vonandi) tilbúinn til að leggja meira á sig í þeirri vissu að honum yrði umbunað með sanngjörnum hætti fyrir aukið álag. Þetta kallaði Guðmundur „sanngjörn ábataskipti“ og sagði vera eina af grunnforsendum stofnanasamninga.

Í praktíkinni hefur kennarinn aftur á móti ekki orðið var við nein ábataskipti, hvorki sanngjörn né ósanngjörn. Engum ábata hefur nefnilega verið skipt. Öll þau „vötn“ sem undin hafa verið af sífellt meira afli út úr hverjum kennara hafa fallið í eina átt – til Ríkisfjarðar. Þessa praktík, sem iðkuð hefur verið nánast alla tíð frá upphafi stofnanasamninga, kallaði fulltrúi fjármálaráðuneytisins réttilega forsendubrest, með vísan í tískuyrði samtímans. Hvaða stjórnmálaflokkar ætli hafi leiðréttingu vegna þessa forsendubrests á stefnuskrá sinni fyrir komandi kosningar?

Hagfræðingur KÍ gerði að umtalsefni misjafna „virðingu“ þjóða fyrir kennarastarfinu. Hann setti dæmið þannig upp að af vergri landsframleiðslu á mann fengi íslenskur meðalkennari aðeins 0,85%. Þetta þýðir að ef vergri landsframleiðslu væri skipt í jafnar kökusneiðar eftir íbúafjölda, miðað við að allir fengju eina sneið, þá duga kennaralaunin ekki fyrir einni meðalsneið, heldur aðeins 85%-um af henni. Það er því óhætt að segja að skorið sé við nögl handa kennurum og þeir séu í þessu tilliti undirmálsstétt í íslensku samfélagi. Til samanburðar fá kennarar í OECD-ríkjum eina heila sneið og 1/3 af annarri, í Danmörku eina heila sneið og næstum 2/3 af annarri, sem er hæsta hlutfallið á Norðurlöndunum, og í Tyrklandi munu kennarar metnir ríflega tvígildir (2,03 sneiðar), sem dugar víst fyrir svipuðum launum og kennarar fá á Íslandi. Þetta var býsna forvitnilegt sjónarhorn, þótti mér.

En þetta vitum við kennarar allt saman ósköp vel. Við höfum reynt það á eigin skinni.

Skólameistari Kvennaskólans lét svo um mælt að ekki yrði gengið lengra eftir braut afkastaaukningar með stækkun námshópa. Eitthvað annað yrði undan að láta.

Og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.

Árum saman hefur dunið á kennurum og þjóðinni allri að engin þróun sé möguleg í skólakerfinu, þar standi allt fast og þversum – vegna vinnutímaskilgreininga í kjarasamningum kennara. Í þeim söng hafa sveitarfélögin sungið hæstu raddirnar, með Samband íslenskra sveitarfélaga sem forsöngvara, eftir að sveitarfélögin tóku yfir rekstur grunnskólanna. Ríkisvaldið, bæði ýmsir ráðherrar og alþingsmenn, hafa svo tekið hraustlega undir í dramatískum aríum.

En um hvað snýst þessi söngur? Hann snýst um það að í kjarasamningum er skilgreint hve margar kennslustundir kennari í fullu starfi skuli kenna í viku hverri. Þetta er kallað kennsluskylda. Með þessu fyrirkomulagi er það viðurkennt að kennarastarfið sé viðameira en bara að standa (eða sitja eftir atvikum) yfir nemendum inni í kennslustofu. Það að fjöldi stunda í kennsluskyldu sé ekki jafn og vikulegur vinnustundafjöldi flestra annarra stétta er viðurkenning á því að til þess að geta „kennt“ sómasamlega þurfi kennarinn bæði að undirbúa sig fyrir samveruna með nemendum og líka að „ganga frá“ á eftir (námsmat o.fl.).

Þetta virðist bæði eðlilegt og sjálfsagt fyrirkomulag. Allir hljóta að sjá það að kennari getur ekki „kennt“ látlaust frá átta til fjögur, fimm daga vikunnar. Fyrir utan að slíkt fyrirkomulag myndi bitna hvað harðast á nemendunum, þá myndi það fljótt gera út af við kennarana, því starfinu fylgir fyrst og fremst mikið andlegt álag, og framleiðsla á nýjum kennurum er ekki slík hér á landi að dygði til að fylla í skörðin. Fyrir nú utan það að geðheilbrigðisþjónustan réði alls ekki við vandann, eins og henni er ástatt.

Nýverið var vinnutímaboltinn enn hentur á lofti. Tilefnið var vinnudeila danskra kennara og sveitarfélaga. Í fréttum RÚV var vitnað í einhver danskan sem fullyrti að vinnutímaskilgreiningar kennara þar í landi væri hinn mesti dragbítur á allt skólastarf. Og í kjölfarið var bæjarstjórinn í Hveragerði dubbaður upp til að taka undir þennan söng fyrir hönd íslenskra skólarekenda. Boðskapur bæjarstjórans var ekki uppbyggilegur: í íslenskum skólum væri öll þróun í kaldakoli vegna þess að vinnutími kennara væri rígbundinn í kjarasamningum. Skilja mátti að ef tækist að leysa þá hörðu hnúta myndi allt horfa til betri vegar. Framþróun hæfist loks. Og bæjarstjórinn klykkti út með því í viðtalinu að auðvitað ætti að nýta starfskrafta kennara í það sem þeir gera best: að kenna!

Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að því meira sem kennarar kenni, því betra verði skólastarf. Því þeir eru bestir í kennslu. Og best verður skólastarfið auðvitað með því að láta kennarana gera sem mest af því sem þeir eru bestir í.

Vonandi sjá allir heilvita menn rökleysurnar og öfugmælin í þessu viðhorfi. Hvernig þrælpíning kennara leiðir til betra skólastarfs er nefnilega vandséð.

Bæjarstjórinn gat þess ekkert í viðtalinu að með því að láta kennarana gera meira af því sem þeir eru bestir í, kenna meira – fleiri tíma á viku, þá geta sveitarfélögin, og ríkið í sínum hluta skólakerfisins, fækkað kennurum umtalsvert og sparað stórar fjárhæðir.

Ætli refirnir séu ekki til þess skornir?

Hér er sem sagt kominn nýr afleggjari af þeim vegi sem skólameistari Kvennaskólans fullyrti að væri til enda genginn. Það er ekki hægt að stækka bekkina meira. En það er einlæg ósk og ásetningur íslenskra skólayfirvalda að láta kennarana kenna meira innan dagvinnumarka. Miklu meira. Til þess þarf að brjóta niður vinnutímaskilgreiningarnar í kjarasamningum þeirra.

Og svo þarf líka að stytta nám til stúdentsprófs. Skera burt dálítið af stærðfræði, tungumálum og öðrum óþarfa. Já, alveg rétt. Styttingin á m.a. að vinna bug á hinu mikla og eilífa brottfalli, sem er helsti höfuðverkur íslenskra stjórnmálamanna. Stundum virðist hlutfallstala brottfallinna í samanburði við „viðmiðunarlöndin“ vera það eina sem þeim hefur tekist að festa hönd á í umræðu um íslenska skólakerfið. Flóknari breytur í þeim samanburði virðast þeim oftast huldar þokumóðu.

Staðreyndin er auðvitað sú að það eru ekki vinnutímaskilgreiningar kennara sem standa í vegi fyrir þróun skólakerfisins. Í fyrsta lagi er stöðug og öflug þróun víða í skólakerfinu, þökk sé hugsjónaeldi kennara, og það er orðið fjári þreytandi að hlusta á stjórnmálamenn ómerkja það starf allt með stöðugu tali sínu um annað. Í öðru lagi er nægur sveigjanleiki í kjarasamningum kennara til að kaupa meiri vinnu af þeim sem kæra sig um að vinna meira.

Það sem skortir hins vegar er aukið fjármagn inn í skólakerfið. „Það vantar fóður í stofnanasamningana“, sagði skólameistari Kvennó. Skólameistarar fá ekki fé til að reka skólana. Fjármagnið sem þeir fá til að greiða kennurum laun er 16% lægra en meðalkennaralaunin sannanlega eru, þó lág séu! Alþingi hefur verið duglegt undanfarin 40 ár að setja ný lög, á öllum skólastigum. Alþingi hefur hins vegar ALDREI látið nýjum lögum fylgja þær fjárveitingar sem það sjálft hefur þó látið reikna út að innleiðing nýrra laga kosti. Þarna liggur meginvandi íslenska skólakerfisins. Og sveitarfélögin eru ekkert skárri en ríkið þegar kemur að rekstri skóla, nema síður sé.

Á undanförnum fimm árum hefur verið skorið niður í framhaldsskólunum um 12 milljarða. Þegar búið er að skila þeim til baka, og bæta svo einhverjum milljörðum við, þá skulum við fara að tala saman.

Það er mörg skýrslan

Nú hefur enn einn starfshópurinn um menntamál skilað niðurstöðum. Að þessu sinni starfshópur um samþættingu menntunar og atvinnu. Það getur vel verið að ég taki mig til og leggist yfir þessa skýrslu og skrifi svo eitthvað um hana. Þó veit ég ekki hvort ég nenni því. Ég er búinn að skrifa margar greinar um mennta- og skólamál hér á síðuna og er eiginlega alveg viss um að í þeim skrifum hefur komið fram allt það sem ég hef að segja um þessa nýjustu skýrslu. Því þess er ekki að vænta að þar séu nein nýmæli.

Miðað við greiningu Elnu Katrínar Jónsdóttur á visir.is í dag, er skýrslan hrein sóun, enn eitt lagið ofan á gamla góða pappírsstaflann.

Hefur ekki stöðugt verið unnið að auknum tengslum skóla og atvinnulífs frá því um 1970, undanfarin rúm 40 ár? Hvers vegna ætli gangi svo illa að ná þessu, og öðrum göfugum markmiðum í skólakerfinu?

Ætli það sé vegna skorts á lagasetningu þar um? Ætli það sé vegna skorts á starfshópum? Ætli það sé vegna skorts á hugmyndum? Ætli það sé vegna skorts á samstarfsvilja? Ætli það sé vegna skorts á niðurstöðum og skýrslum frá starfshópunum? Ætli það sé vegna skorts á málþingum og kjaftablaðri?

Nei, ætli ástæðan sé ekki einfaldari. Ætli ástæðan sé ekki bara skortur á fjármagni til að hrinda í framkvæmd öllum tillögum skýrslanna og niðurstöðum vinnuhópanna og öllum lagatextunum sem hið háttvirta Alþingi hefur samþykkt?

Ætli það sé ekki bara málið?

Auðvitað þurfa alþingismenn að hafa eitthvað fyrir stafni, einhverjar nefndir og vinnuhópa til að drýgja þingfararkaupið, það er vel skiljanlegt. En dettur ykkur það aldrei í hug, hæstvirtir alþingsmenn, að það breyti engu hvað þið skreytið ykkur oft með þessu sama gamla víni, þó á nýjum belg sé, það muni ekkert breytast fyrr en þið farið að borga kostnaðinn við margtuggnar breytingatillögurnar á skólakerfinu? Dettur ykkur það virkilega aldrei í hug?

Á sama tíma, sem sagt, og eytt er fjármagni í enn einn starfshópinn og enn eina skýrsluna, er ekki hægt að innleiða „nýju“ framhaldsskólalögin, sem alþingi samþykkti með vinstri hendi, vegna þess að þegar hægri höndin samþykkir fjárlögin virðist hún ekkert vita hvað sú vinstri hafði verið að gera.

Nú er sem sagt nóg komið af kjaftæði og tími kominn til að fjármagna allt það tillöguflóð sem þegar liggur í þykkum bunkum á alþingi, í ráðuneytum og skólastofnunum um allt land, flest áratugagamalt. Þar er að finna margt gúmelaði um aukið samstarf við atvinnulífið. Gúmelaði um aukinn sveigjanleika. Gúmelaði um þarfir, getu og áhugasvið nemenda. Gúmelaði um grunnþætti. Gúmelaði um aukna sérfræðiþjónustu.

Ef alþingi hefur hins vegar ekki efni á eigin gúmelaðiframleiðslu -að koma skólakerfinu í það horf sem lög og skýrslur kveða á um að æskilegt sé- þá þarf að viðurkenna það og hætta þessum látalátum. Þar til betur árar. Ef svo ólíklega vildi til að einhverntíma í draumalandi framtíðarinnar muni ára þannig að á alþingi sitji fólk sem forgangsraðar menntakerfinu framar í fjárlagafrumvarpinu en hingað til hefur verið skilningur á.

En í guðanna bænum: Ekki fleiri starfshópa og skýrslur um skólakerfið. Það er nóg til af þeim. Það vantar hinsvegar peninga.

 

 

 

Nú er nóg komið

Nú liggur fyrir niðurstaða í atkvæðagreiðslu um samkomulag SNR og samninganefndar FF/FS. Framhaldsskólakennarar kolfelldu samkomulagið, eins og við mátti búast, með 3/4 hluta atkvæða og hafa nú sent bæði ríkisvaldinu og eigin samninganefnd skýr skilaboð: „Reynið ekki aftur að bjóða okkur upp á annað eins“.

Áður hefur verið fjallað ítarlega um samkomulagið hér á síðunni og ekki ástæða til að rekja enn og aftur hvað í því felst. Framhaldsskólakennarar hafa verið teygðir að þolmörkum undanfarin ár. Niðurskurður í menntakerfinu og sparnaðaraðgerðir innan skólanna hafa beinst að stórum hluta að kennurum. Stóraukinni vinnu hefur verið hlaðið á herðar þeirra,  vinnuumhverfið ómanneskjulegt og í raun fjandsamlegt öllum faglegum viðmiðum.

Það er ekki vinnutímaskilgreining kennara sem stendur í veginum fyrir faglegri þróun og það eru ekki kennarar sem vinna gegn umbótum í skólastarfi, með því að hafna þessu samkomulagi sem niðurstaða liggur nú fyrir um, heldur er það á ábyrgð menntamálayfirvalda, fjárveitingavaldsins og skólastjórnenda í hverjum skóla.

Það eru yfirvöld og stjórnendur skólanna sem hafa boðið kennurum og nemendum upp á óviðunandi starfsaðstæður. Það hafa kennarar látið yfir sig ganga, með fullum skilningi á því að hér hefur verið kreppa og nauðsyn á niðurskurði og aðhaldsaðgerðum. Kennarar hafa tekið þátt í þessum aðgerðum af fullri einurð og ábyrgð. Þeir hafa undanfarin ár hvergi vikist undan heldur lagst á árarnar í þeim lífróðri sem staðið hefur – og stendur enn.

En þeir ætla ekki að halda því áfram, bótalaust. Þeir ætla ekki að láta hlekkja sig við þófturnar. Nú er nóg komið.

Snúum vörn í sókn – fellum samkomulagið

Mennta- og menningarmálaráðherra skrifar í Fréttablaðið í gær, 9. nóvember, þar sem hún reynir að sýna fram á að „nú liggi leiðin upp á við“ í menntakerfi landsins og tiltekur sérstaklega framhaldsskólana. Hún segir að eftir niðurskurðar„átak síðustu ára verður mögulegt að snúa vörn í sókn“ og þess sjái „þegar stað í frumvarpi til fjáraukalaga þar sem gert er ráð fyrir aukafjárveitingu til framhaldsskóla“ og að auki sé „gert ráð fyrir viðbótarfjármagni til framhaldsskóla fyrir aðra umræðu fjárlagafrumvarps.“

Þarna vísar ráðherra væntanlega til þeirra 216 milljóna sem lofað er, í samkomulagi samninganefndar ríkisins og KÍ f.h. FF, til vinnukaupa af kennurum við námskrárgerð, til eflingar náms- og starfsráðgjafar og til stuðnings nýliða í kennslu, auk 3ja% hækkunar á launataxta framhaldsskólakennara á næstu 13 mánuðum.

Ráðherra ítrekar í grein sinni að aukin vinnukaup af kennurum, eða „aukin fagleg forysta kennara og þróunarvinna“ eins og hún orðar það sjálf, eru lykilatriði til þess að innleiðing nýrra námskráa gangi eftir.

Í grein sinni veitir Katrín Jakobsdóttir ágæta innsýn í það hve álag á kennara og annað starfsfólk framhaldsskólanna hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Niðurskurðurinn hefur í fyrsta lagi leitt til stórfjölgunar nemenda í námshópum, raunar út yfir öll velsæmismörk með tilliti til vinnusiðferðis, að ekki sé talað um þá forsmán á faglegri sýn á gæði skólastarfs sem í þessu felst.

Í öðru lagi hafa framhaldsskólarnir á sama tíma „tekið við fleiri nemendum en nokkru sinni fyrr undir merkjum átaksins Nám er vinnandi vegur“ og í þriðja lagi hafa framhaldsskólakennarar unnið mikla þróunarvinnu við samningu og innleiðingu námskráa vegna nýjustu framhaldsskólalaganna.

Í öllum niðurskurðinum hafa kennarar framhaldsskólanna sem sagt þurft að þola stóraukið álag í starfi sínu og bæta þar fyrir utan á sig meiri vinnu og fleiri verkefnum, án þess að þess sjái nokkurn stað í launum þeirra.

„Þegar kjör íslenskra kennara“, segir menntamálaráðherra, „eru borin saman við kjör starfssystkina þeirra í nágrannalöndum okkar komum við Íslendingar því miður ekki nægilega vel út.“ Þetta vitum við og svo hefur verið lengi. Raunar eru fá teikn á lofti um að kjör íslenskra kennara verði nokkurn tíma tengd við launakjör kennara í nágrannalöndunum. Slíkar hugmyndir eru víst aðeins fyrir skýjaglópa, því illa gengur að standa við umsamin viðmið innanlands.

Áður en ráðherra fer að velta upp slíkum skýjaborgum væri nær að hún beitti sér af hörku fyrir því að staðið yrði við bókanir sem gerðar voru með síðasta kjarasamningi um að leiðrétta skyldi jafn óðum, ef í ljós kæmi launamunur milli félagsmanna í FF og FS annars vegar og viðmiðunarstétta innan BMH hinsvegar. Nú er þessi launamunur um 60 þúsund krónur á mánuði að meðaltali.

Ráðherra endar grein sína á frómum óskum um að kennarar samþykki fyrirliggjandi samkomulag og „það verði einn liður í að bæta kjör kennara og efla stöðu þeirra“.

Því miður er ekkert í þessu nýja samkomulagi sem vísar þann veg. Sexþúsund króna launahækkun á næstu 13 mánuðum segir lítið upp í 60 þúsund króna gap. Og kennarar líta ekki heldur á það sem sérstakan virðingarvott eða mikla eflingu á stöðu sinni að gert sé skriflegt samkomulag um það að ríkisvaldið ætli loksins að fara að greiða þeim yfirvinnu samkvæmt taxta kjarasamnings fyrir örfáa tíma við innleiðingarvinnu, í staðinn fyrir þær ólöglegu „sjóræningjagreiðslur“ fyrir þessi störf sem viðhafðar hafa verið undanfarin ár, skv. orðum forsvarsmanna samninganefndar framhaldsskólakennara.

Kennarar ættu því alls ekki að samþykkja þetta samkomulag. Engin rök hníga til þess. Þeir hafa núna gullið tækifæri til að snúa vörn í sókn með því að fella samkomulagið og hefja raunverulega baráttu fyrir kjörum sínum og starfsheiðri – og um leið bættu skólastarfi.

Betra menntakerfi verður ekki reist á þrautpíndum og útjöskuðum kennurum á lágmarkslaunum.

Samkomulag um ekkert – og út í bláinn

Það er athyglisvert að enginn, ENGINN, sem tjáð hefur sig um samkomulag milli samninganefnda framhaldsskólakennara og ríkisins telur að um sé að ræða gott samkomulag. Meira að segja þeir sem mæla heldur fyrir því, forysta Félags framhaldsskólakennara og samninganefndarfólk, viðurkenna svikalaust að þetta er lélegt samkomulag hvað varðar launakjör kennara. Enda er samkomulagið SVO AUMT hvað þetta varðar að útilokað er annað en að viðurkenna það.

Hvað er það þá í samkomulaginu, sem samninganefndin okkar telur svo mikilvægt framfaraskref, að það geri meira en að bæta úr algerri katastrófu á þeim lið kjarasamninga sem öllu máli skiptir fyrir flesta?

Það er tvennt.

Í fyrsta lagi gerir ríkisvaldið um það samkomulag við kennarastéttina að það ætli á næstunni að leggja fram örlítið brot af þeim fjármunum sem það kostar að innleiða nýjustu framhaldsskólalögin, til að kaupa fáeina vinnutíma af kennurum í því skyni.

Í öðru lagi ætlar ríkisvaldið að skipa fulltrúa af sinni hálfu í nefnd með kennurum, til að endurskoða vinnutíma þeirra, svo hægara verði, að sögn, að koma almennilega í framkvæmd lögum sem ríkið hefur samþykkt á Alþingi. Nefndinni er ætlað að skila tillögum um breytingar á vinnutíma kennara áður en næsta kjarasamningalota hefst, væntanlega í upphafi árs 2014.

Þetta er nú allt og sumt. Hvers vegna ættu kennarar að leggja í kostnað við allsherjaratkvæðagreiðslu út af þessu?

Allt það sem í samkomulaginu felst, og samninganefndin okkar telur svo mikilvægt að það yfirskyggi launaliðinn, má gera án þessa viðauka við gildandi kjarasamning kennara: Ríkisvaldið sendir bara eins mikla peninga út í skólana, í innleiðingu og námskrárgerð, eins og það treystir sér til á hverjum tíma. Svo einfalt er það. Það mun vera á ábyrgð ríkisins að framfylgja lögum, og standa undir kostnaði við þau, en ekki stéttarfélaga.

Þannig að ég segi glaður við fulltrúa fjárveitingavaldsins: Komið bara með peningana, ef þið viljið fullkomna lögin ykkar. Það verða örugglega margir kennarar fegnir að fá nokkra tíma í yfirvinnu fyrir jólin.

Og ríkisvaldið getur hæglega óskað eftir því við forsvarsmenn kennarastéttarinnar að stofnuð verði nefnd þessara aðila til að ræða vinnutímaskilgreiningar stéttarinnar. Til þess þarf ekki þennan ónýta klíning utan á kjarasamninginn. Ef ríkið er sannfært um að þetta séu góð lög sem mikilvægt er að koma í fulla framkvæmd sem fyrst, og vinnutími kennara sé hindrun á þeirri vegferð, hlýtur þá ekki samninganefnd þess að mæta á fundi samviskusamlega? Ekki mun standa á fulltrúum kennara að mæta.

Ef þetta tvennt, innleiðingarpeningarnir og vinnutímanefndin, er tekið út fyrir sviga, því ástæðulaust með öllu er að tengja það samningum um launakjör, hvað er þá eftir?

Þá er aðeins eftir niðurlægjandi „launahækkun“ upp á svona 4 þúsundkalla á mánuði núna og 2 þúsundkalla til viðbótar eftir 13 mánuði. Á sama tíma og fyrir liggur að umsamin viðmiðunarlaun eru orðin 60 þúsundköllum hærri á mánuði en framhaldsskólakennaralaun.

Þar með er samkomulag þetta sjálffellt. Og ekki orð um það meir.