Enn skal brýnt og skorið – Sunnlendingar aftastir á fjárlagamerinni

Það er ekki ofsögum sagt að fjárlagafrumvarpið sem nú er til umræðu í þinginu hafi valdið titringi víða: innibyrgðum gleðihristingi til sjávar, en ónotahrolli bæði í sollinum og til sveita. Töldu margir að eftir hin mögru ár í kjölfar tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans og ríkissjóðs væri botninum náð og niðurskurðarhnífurinn yrði lagður á hilluna um sinn. En aldeilis ekki. Enn skal brýnt og skorið. Það vekur sérstaka athygli margra og óhug að undir hnífinn er leidd sjálf kýrin Velferð, sem þegar má telja í rifin af löngu færi, en tuddinn Stórútvegur, sem rorrar í þverhandarþykku spiklagi, fær a.m.k. næsta aldarfjórðunginn að graðga í sig kjarnfóðrinu, óáreittur í kálgarði kerlingar, sem á tyllidögum er víst kölluð fjallkona. Halda áfram að lesa

Framtíðarsýn afturkallan(n)a

Á hinum erfiðu tímum við hrunið, þegar skuldir ríkissjóðs gerðust stjarnfræðilegar, varð nauðugur einn kostur að skera niður þjónustu, þ.á.m. ýmsa þjónustu sem við lítum á sem grunn velferðarkerfis okkar. Ríkisstjórn áranna 2009-2013 var kosin til þess að takast á við þjóðargjaldþrot, sem var afleiðing óstjórnar hægri flokkanna, sem nú mynda aftur ríkisstjórn, eins og kunnugt er. 

Í öllu niðurskurðarati ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur – sem var blóðugt – gagnrýndu málþófspostular Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hana harðlega fyrir niðurskurð í velferðarkerfinu. Nú blasir hins vegar við í fyrsta fjárlagafrumvarpi Bjarna Ben. að gengið er enn lengra í niðurskurði.

Eitt af því jákvæða sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms reyndi að gera í harðindunum og atvinnuleysinu var að efla menntunarmöguleika atvinnuleitenda, símenntun og ýmiskonar rannsóknar og fræðslustarfsemi. 

Mörg falleg dæmi má nefna um þetta, t.d. verkefni eins og „Nám er vinnandi vegur“, raunfærnimat og aukið fé til náms- og starfsráðgjafar í gegnum fræðslumiðstöðvarnar í tengslum við þessi verkefni. Einnig má nefna í þessu samhengi „sóknaráætlun“ landshlutanna, sem telja má einhverja gáfulegustu byggðastefnu sem rekin hefur verið hér á landi. Ekki er því haldið fram hér að hún sé sköpunarverk stjórnarinnar 2009-2013, en sú stjórn hélt henni á lofti á niðurskurðartímum, góðu heilli.

Nú eru aðrir tímar. Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram í gær boðar slátrun margra uppbyggilegra fræðslu- og atvinnuskapandi nýsköpunarverkefna, ekki síst á landsbyggðinni. 

Gerð er aðför að átaksverkefninu „Nám er vinnandi vegur“. Annars vegar er framlag til raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafar lækkað um 50% eða 30 milljónir og hins vegar er 300 milljóna króna framlag til eflingar á starfstengdu námi, sem var upphaflega veitt í fjárlögum 2012, skorið alveg niður. 

Verkefni sem tengjast þessum málaflokkum, og voru hluti af fjárfestingaráætlun 2013-2015 frá fyrri ríkisstjórn, eru skorin við trog. „Afturkölluð“ eru framlög úr fjárlögum 2013 upp á 400 milljónir til sóknaráætlunar landshluta en gert ráð fyrir því „á næstu árum að fjármagna hluta sóknaráætlana með fjármunum sem nú renna t.d. í vaxtarsamninga og menningarsamninga“ eins og það hljóðar í textanum. Enda á menningin ekki upp á pallborðið og sjálfsagt að færa annað peninga sem eyrnamerktir voru henni.

Fleiri verkefni úr fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar eru skorin, enda byggðust þau á tekjuöflun sem núverandi stjórnvöld kæra sig ekki um: sérstöku auðlindagjaldi af umframhagnaði útgerðarinnar. Hér má nefna verkefni upp á ríflega 480 milljónir, þau stærstu „bygging þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri og uppbygging innviða friðlýstra svæða.“

Hvernig líst fólki á landsbyggðinni á þessar áætlanir? Hvað varð um hækkað menntunarstigið? Á sama tíma og hoggið er að rótum menntunar, rannsókna og fræðslustarfsemi, sem er forsenda nýsköpunar og þróunar atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum, er sargað á raddböndum í hinum falska stóriðjukór.

Svei því. Svei þeirri hörmulegu framtíðarsýn sem nýja fjárlagafrumvarpið boðar.

In memoriam – gljúfur fullt af drullu

Ein af mínum allra sterkustu upplifunum á ríflega hálfrar aldar ævi er ferð á hestum um öræfin norðan Vatnajökuls, einmitt á þeim tíma sem framkvæmdir við Kárahnjúkastíflu voru að hefjast. Ég var leiðsögumaður fyrir hópi útlendinga á vegum Íshesta, en óskoraður ferðarforingi var Jón Þór, bóndi á Glúmsstöðum í Fljótsdal. Um þetta ferðalag hefi ég ort kvæði, sem birtist í ljóðabókinni Guðað á gluggann frá 2006.

Lagt var upp nærri Skriðuklaustri og riðið upp á Fljótsdalsheiði, í slóð Eyvindar, sem segir frá í Hrafnkelssögu, að Eyvindarfjöllum þar sem náttað var. Þá um Eyvindarskarð og niður í Hrafnkelsdal að Aðalbóli. Á þriðja degi var stefnan tekin á snarbrattar hlíðar dalsins, um fjöll og hálsa að Hafrahvammagljúfrum. Þaðan sem leið liggur um Desjarárdal meðfram Kárahnjúkum og suður Vesturöræfi að Sauðárkofa. Dýrðlegur staður og sumarnóttin ógleymanleg. Kofinn liggur nú í ómælisdjúpi, sjálfsagt líka á bólakafi í aur og leðju. Frá Sauðá var snúið til austurs; áfangastaðurinn Snæfellsskáli.

Fimmta dagleiðin lá suðurfyrir Snæfell, um Þjófagil ef mig misminnir ekki örnefnin, og fram á Eyjabakka. Hreindýrahjörð brokkaði í hæfilegri fjarlægð, útsýn yfir Eyjabakka er einhver sú fegursta sem hægt er að hugsa sér. Síðasta hluta ferðarinnar fylgdum við Jökulsá niður í Fljótsdal, með sinni ægifögru fossaröð, og enduðum á upphafspunkti ferðalagsins. Á þessu ferðalagi kom ég m.a. bæði í Sauðárkrók og að Laugarási!

Því rifja ég þetta upp að við hjónin nýttum verkalýðsdaginn til þess að renna „suður“, vestur yfir Hellisheiði, til þess að sjá mynd Ómars Ragnarssonar, In memoriam, án spurningarmerkis. Það var ánægjulegt og viðeigandi að Ómar kom í Bíó Paradís í eigin persónu og fylgdi mynd sinni úr hlaði af alkunnum eldmóði.

Starf Ómars verður aldrei metið til fjár. Myndirnar sem hann hefur tekið af hinni drekktu náttúru eru fegurstu eftirmæli sem hugsast getur og ekki þarf að orðlengja um áhrifamátt þeirra. Það sem mér þótti þó áhrifamest var niðurlag heimildamyndarinnar. Þar voru sýndar sumar afleiðingar virkjunarframkvæmdanna. Blindandi leirmökkur í lofti í sunnangjólu, ljót rofsár í þykkum jarðveginum þegar lægst er í Hálslóni og gljúfrið neðan við Kirkjufoss sem er orðið nánast fullt af framburði, yfir eitt hundrað metra þykkri uppfyllingu, jökulleir og fínsandi. Enda fer fossinn á bólakaf þegar vatnsstaðan er hæst í lóninu. Það er ekkert annað en lygilegt hve mikil jökuleðja hefur safnast fyrir á ekki lengri tíma en þessum 10 árum sem liðin eru.

Út frá þessu síðastnefnda eru leiddar að því líkur í myndinni að raunverulegur „líftími“ virkjunarinnar verði mun styttri en opinberar áætlanir kveða á um – að lónið fyllist af drullu á miklu skemmri tíma.

Ekki er ég sá reiknimeistari í framburði að geta lagt á þetta sjálfstætt, vísindalegt mat – en myndirnar af smekkfullu „fyrrverandi“ djúpu gljúfri voru óhuggulegar, sannast sagna.

 

Brennuvargana í slökkviliðið!

Hér áður fyrr á árunum, meðan enn brann eldur í æðum íslenskra karlmanna og hrepparígurinn stóð undir nafni, voru ærleg hópslagsmál viðurkennd aðferð til að gera út um málin. Sveitaböll voru hvað frjóasti akurinn fyrir þessa árangursríku og kraftmiklu félagslegu samningaleið.

Í hverju plássi voru a.m.k. einn, tveir fílhraustir slagsmálahundar sem enginn átti roð í, létu sér fátt fyrir brjósti brenna og komu sínum sjónarmiðum milliliðalaust áleiðis með handafli. Þá var vissara að vera í réttu liði ef maður vildi forðast að snýta rauðu. Fámenn sveit laganna varða réði lítið við slíka beljaka, sem að auki höfðu um sig sveit minni spámanna, til að sendast og sinna ýmsum smáverkum, eins og t.d. að kynda undir ófriði meðal dela úr öðrum plássum. Hver hafði sinn Björn úr Mörk.

En þar sem vöðvaaflið þraut kom til hugkvæmnin. Og þó ótrúlegt megi virðast rann hugkvæmnin undan rifjum yfirvaldsins. Það varð þekkt aðferð og viðurkennd til árangurs að taka hörðustu slagsmálahundana og munstra þá í lögguna. Þegar þeir voru komnir í búning varð orkunni loks beint í réttan farveg.

Þorvaldur Gylfason lét hafa eftir sér í kosningaþætti í sjónvarpinu um daginn að það væri lítið vit í því að setja brennuvargana í slökkviliðið. Þarna er Þorvaldur auðvitað á algerum villigötum. Íslenskir kjósendur, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, vita af gamalli reynslu að besta betrunarráðið er að setja þá sem villast af hinum þrönga vegi dyggðanna til nokkurrar ábyrgðar.

Því hafa þeir nú munstrað brennuvargana í slökkviliðið.

 

Í forheimskunnar landi

Ekki verður sagt að úrslit kosninganna sl. laugardag hafi komið á óvart. Sífelldar skoðanakannanir hafa endanlega fjarlægt „óvissufaktorinn“ úr blessuðu lýðræðinu, þannig að nú er jafn fyrirframvitað hver úrslitin verða eins og í ýmsum þeim ríkjum heimsins sem við hér gerum óspart grín að – t.d. með bananalíkingum – og höfum einnig fléttað ódauðlega inn í tungumálið: „rússnesk kosning“.

Þó að alþingsikosningarnar hafi ekki verið „rússnesk kosning“ nema að því leytinu til að allir vissu fyrirfram hver meginúrslitin yrðu, þá eru þau jafn lygileg fyrir því.

Stjórnviska Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins frá því snemma á 10. áratug 20. aldar og fram til 2007 keyrði íslensku þjóðina í gjaldþrot, hallinn á ríkissjóði var 216 milljarðar. Þessir flokkar ganga dagsdaglega undir heitinu „helmingaskiptaflokkarnir“ meðal landsmanna. Og menn kippa sér orðið ekkert upp við þá nafngift. Það er eiginlega búið að neutralisera orðið, eins og það sé bara sjálfsagt og eðlilegt að stjórnmálaflokkar séu helmingaskiptaflokkar. Inntakið virðist ekki skipta máli lengur, að kjarninn í því sé spilling, lýsing á því að flokkarnir hafi undanfarna áratugi, í skjóli pólitískra valda, skammtað „sínum mönnum“ samfélagsgæðin. Fólk kippir sér ekki upp við slík „aukaatriði“.

Helmingaskiptaflokkunum og gjallarhornum þeirra tókst í stjórnarandstöðu að sannfæra kjósendur um það að Samfylkingin og Vinstri græn „hefðu ekkert gert“ allt kjörtímabilið. Þetta keyptu kjósendur, þó það liggi fyrir að ríkisstjórninni hafi tekist að bæta skuldastöðu ríkissjóðs um rúma 212 milljarða á kjörtímabilinu, úr 216 milljarða halla í 3,6 milljarða halla í fjárlögum 2013. Til að ná þessu hefur þurft að herða sultarólina, bæði skera grunnþjónustu inn að beini og hækka skatta.

Við hrun helmingaskiptastefnunnar átti það að vera ljóst að erfiðir tímar væru framundan. Engum átti að geta komið það á óvart að það tæki mörg ár að ná jafnvægi. Engum átti að geta komið það á óvart að velferðarkerfið yrði ekki rekið nema með lágmarksafköstum meðan ríkissjóður skuldaði hundruð milljarða. Engum átti að geta komið það á óvart að á meðan verið væri að jaga niður þessa botnlausu skuldahít helmingaskiptastefnunnar, þá myndu ekki jafnhliða verða gerðar miklar rósir í heilbrigðismálum, menntamálum eða almannatryggingakerfinu. Enginn átti að geta vænst þess að á þessum erfiðu tímum yrðu teknar stórar fjárhæðir til skuldaleiðréttinga, burtséð frá því hversu óréttlátur forsendubresturinn var, sem lántakendur stóðu frammi fyrir við hrunið. Forsendubrestur í boði helmingaskiptastefnunnar, vel að merkja.

Eða hvað?

Það hefur nú komið í ljós að meirihluti kjósenda lét sér þetta allt koma á óvart. Kjósendur refsuðu grimmilega þeim flokkum sem komust á fjórum árum langleiðina með að stoppa í ginnungagapið sem helmingaskiptaflokkarnir höfðu rifið á klofbót þjóðbrókarinnar.

Sem betur fer hvikaði ríkisstjórnin ekki frá þessu markmiði. Fyrir vikið verður á næstu árum hægt að fara að byggja aftur upp þetta þjóðfélag. Ef stjórnvöld hefðu gert það sem kjósendur nú hafa refsað þeim fyrir að gera ekki – að nota lánsfé til að leiðrétta skuldir heimila og halda fullum dampi í velferðarkerfinu – þá værum við nú ekki í þeirri stöðu sem við þó erum komin í, með hagvöxt og lítið atvinnuleysi, stöðu sem hefur vakið mikla athygli víðast í heiminum – annars staðar en meðal íslenskra kjósenda. Þá værum við barasta ennþá á hausnum.

Og nú hefur altsvo meirihluti kjósenda (allt of margir sátu heima) kallað til hjúkrunarstarfa þá sem eftir botnlaust fylleríi hátt á annan áratug skildu við kroppinn í hjartastoppi, en hrakið burtu með skömm skyndihjálparsveitina, þá sem sannarlega blés og hnoðaði lífi í líkið.

Þetta er sem sagt aldeilis lygilegt, þrátt fyrir forspárvissu skoðanakannana. Þangað til það rifjast upp að maður er staddur í forheimskunnar landi.

 

Þú getur átt þinn tjakk sjálfur!

Á unglingsaldri heyrði ég fyrst brandarann um tjakkinn. Hegðun aðalpersónunnar í sögunni þótti svo absúrd að menn hlógu með öllum kjaftinum – veltust um í óstjórnlegum hlátursrokum. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt betri brandara síðan. Enginn er jafn eftirminnilegur og „Tjakkurinn“.

Brandarinn er í stuttu máli á þá leið að maður nokkur er einsamall á ferð í bíl sínum yfir fáfarna heiði í myrkri og leiðindaveðri. Skyndilega springur á bílnum. Maðurinn stoppar úti í kanti og undirbýr dekkjaskipti, tekur út varadekkið og tínir til verkfærin. Þá áttar hann sig á því að það er enginn tjakkur í bílnum. Hann bölvar lánleysinu en hugsar með sér að fljótlega komi einhver akandi sem muni lána sér tjakk. Maðurinn bíður. Enginn kemur.

Nú ákveður maðurinn að ganga af stað, það geti ekki verið langt til næsta bæjar. Á göngunni fer hann að hugsa málin og í ljósi alþekktrar gestrisni Íslendinga og við brugðinni hjálpsemi fólks úti á landsbyggðinni sannfærir hann sig um að hann fái hlýjar móttökur, sjálfsagt mál að lána tjakk og trúlega verði honum líka skultað til baka og hjálpað við dekkjaskiptin.

En gangan er lengri en maðurinn hafði reiknað með, veðrið slæmt og myrkrið þétt. Hvergi grillir í ljóstýru frá sveitabýli. Smám saman fer efinn að sá fræjum í huga hans. Það eru nú víða furðufuglarnir, ekki síst á einangruðum bæjum lengst inn til dala. Og til að gera langa sögu stutta hefur manninum tekist að sannfæra sig um það, þegar hann loks greinir útiljósin á innsta bænum í dalnum, að bóndinn þar sé ekki aðeins furðufugl og sérvitringur, heldur hreinasta illmenni sem aldrei geri nokkrum gott. Hann fer því heim að bæ um miðja nótt og vekur upp með barsmíðum. Þegar heimamaður vaknar, skreiðist til dyra með stírurnar í augunum og opnar dyrnar til að kanna gestakomur, fær hann fyrirvaralaust framan í sig frá komumanni: „Þú getur átt þinn helvítis tjakk sjálfur“. Að svo búnu snýr „okkar maður“ sér á hæl og rýkur burt í fússi.

Ekki verður hjá því komist að setja þessa sögu í samhengi við stjórnmálaumræðu nútímans. Þarna eru lifandi komnir Framsóknarmennirnir í ýmsum flokkum sem vilja undir eins slíta viðræðum við ESB, án þess svo mikið að spyrja fyrst hvort á þeim bæ sé til tjakkur, hvort bóndi vilji lána tjakkinn, sé hann til, eða að láta svo lítið að kanna hvort tjakkurinn er í nothæfu ástandi, sé hann til láns.

Þetta er allt á uppleið

Fyrir 15 mánuðum skrifaði ég pistil hér á síðuna um brunaútsölu á húsnæðisskuldum íslenskra heimila úr gömlu, föllnu bönkunum til þeirra „nýju“ – auðvitað útsölu „án auglýsingar“ enda slík skuldakjör ekki fyrir meðalflónin, heldur einungis alvöru stórskuldara, eins og dæmin hafa sannað æ síðan.

Í pistlinum rakti ég hvernig efnahagsstefna og pólitík Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, á tveggja áratuga samfelldri valdatíð fyrir hrun, færði húsnæðisskuld okkar hjóna upp um heil 40% á einni nóttu, án þess að við getum með nokkrum rétti eignað okkur neinn hlut í þeirri hækkun, því miður.

Skuldin á litla raðhúsinu okkar hækkaði sem sagt úr 18,4 milljónum í 25,3 milljónir og um leið minnkaði eignarhluturinn úr 25% og niður fyrir núll. Nýi bankinn fékk 25,3 milljóna skuldina okkar á hálfvirði en rukkar okkur auðvitað um hverja krónu. Það er ekki afskrifað nema hjá alvöru stórskuldurum og þeim sem sannanlega eru farnir á hausinn.

Og hvað hefur gerst á þessum 15 mánuðum sem liðnir eru frá því ég skrifaði þennan pistil, með nokkuð súrt bragð í munni.

Ríkisstjórnin og talsmenn hennar þreytast ekki á því að tilkynna okkur veslingunum sem þó borgum skatta og skyldur með rentum mánaðarlega að nú sé allt á uppleið í þjóðfélaginu. Best ég fari nú aftur í heimabankann minn og tékki á stöðunni.

Hún er í stuttu máli sú að upphaflegu 18,4 milljóna lánin frá 2005 sem höfðu endurfæðst eftir hrun í 25,3 milljónum standa nú í 26.823.209 krónum, þar af rúmlega 970 þúsund á svokölluðum jöfnunarreikningi vegna „greiðsludreifingar“ sem við urðum náðarsamlegast að þiggja svo mánaðarlaunin dygðu fyrir húsnæðisskuldunum. Vel að merkja: þarna eru lifandi komin úrræðin við „skuldavanda heimilanna“.

Á 15 mánuðum hafa húsnæðisskuldir heimilisins því hækkað um 1,5 milljónir, þrátt fyrir að borgað hafi verið samviskusamlega samkvæmt útreikningi bankans, nú síðast mánaðargreiðsla upp á kr. 165.342,-. Á 15 mánuðum gerir það kr. 2.480.130 krónur.

Við erum sem sagt búin að borga tæpar 2,5 milljónir síðustu 15 mánuðina til að hækka húsnæðislánið okkar um 1,5 milljónir. Það eina sem ég skil ekki í þessum reikningum er hvað varð um þessa u.þ.b. einu milljón sem upp á vantar? Sem sagt: Ef ég borga 2,5 milljónir inn á lánið mitt – hvers vegna hækkar það þá ekki um sömu upphæð?

Það er víst algengur misskilningur víða í útlöndum að þegar menn borga af skuldum þá eigi þær að lækka. En þetta vita flestir venjulegir Íslendingar að er helber blekking. Því meira sem þú borgar, því meira skuldar þú. Það eru ekki nema örfáir eðalmálmar frá eyjunni fögru, sem eru hagvanir í útlöndum, sem vita að skuldir er einfalt að láta hverfa með hókus-pókus trixum.

En boðskapur stjórnvalda er sem sagt hárréttur – þetta er allt á uppleið. Og af þessu litla dæmi úr heimabankanum mínum, þar sem heilli milljón króna munar á innborgun minni og hækkun lánsins, bankanum í óhag, má glöggt sjá að heilmiklir fjármunir, sem vel gætu nýst til enn frekari hækkana, fara í raun forgörðum.

Ríkisstjórnin getur því gert mun betur.

 

Kjarabarátta bak við luktar dyr?

Það var forvitnilegt að hlusta á hádegisfréttirnar í dag. Hjúkrunarfræðingar eru komnir af stað af fullum þunga í sína kjarabaráttu. Ekki er að sjá að sú kjarabarátta fari eingöngu fram milli fulltrúa samninganefnda bak luktra dyra – og að forsvarsmenn stéttarfélagsins feli sig á bak við einhverja „friðarskyldu“.

Hjúkrunarfræðingar eru komnir í bullandi „ímyndarbaráttu“ um allt þjóðfélag. Þeir koma sér í hádegisfréttirnar og láta heyra í sér. Og skafa ekkert af því. Enda engin ástæða til. Hjúkrunarfræðingar eru í svipaðri stöðu og kennarar og fleiri stéttir. Kjörin eru alls ekki boðleg.

Það gafst kjörið tækifæri fyrir forsvarsmenn Félags framhaldsskólakennara að fara sömu leið og hjúkrunarfræðingar fara nú, í kjölfar gleðilegra örlaga „samkomulagsins“ um daginn. Þá opnaðist dauðafæri fyrir forystuna að koma fram í fjölmiðlum með beittum hætti og nýta sér þannig byrinn sem félagsmenn gáfu í segl kjarabaráttunnar og vekja rækilega athygli á stöðunni og baráttuvilja kennara.

Hvernig stendur á því að  það var ekki gert? Ekki er það brot á „friðarskyldu“ við gildandi kjarasamning að láta í sér heyra? Ekki eru félagar í FF að senda inn uppsagnir í stórum stíl? Eða hvað?

Í staðinn fyrir að vekja opinberlega athygli á hraklegum launakjörum kennara þá sendir formaður FF félagsmönnum, umbjóðendum sínum, tóninn í tölvupósti: þeir hafi skítfellt samkomulagið fyrir tóman misskilning; þeir séu svo skyni skroppnir að þeir hafi misskilið meira og minna allt í þessu blessaða samkomulagi.

En það gerðu þeir ekki. Þeim einfaldlega leist alls ekkert á það sem formaðurinn undirritaði.

Rétt er að benda forystu FF á það hlutverk sitt að gæta hagsmuna félagsmanna. Það gerir hún ekki með því að tala niður til þeirra. Ef einhverjum á að senda tóninn, þá er það samninganefnd ríkisins og fjárveitingavaldið, ekki félagsmenn í FF.

Í kjölfar hrakfara sinna við samningaborðið ætti forystusveit FF að lágmarki að íhuga að breyta um taktík. Kannski ætti hún að „íhuga stöðu sína“?

Af getuskiptingu

Vanda Sigurgeirsdóttir olli nokkru uppnámi innan hreyfingarinnar um daginn með því að ræða getuskiptingu barna í íþróttum. Hún benti á að mörgum börnum liði illa, eða þau fengju alls ekki það út úr öllum þessum æfingum sem æskilegt væri.

Óðar var tekið til varna fyrir getustkiptingarkerfið og hefur Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, farið þar fremstur í flokki. Helstu rök Sigurðar eru þau að börnum líði mun betur með þeim sem eru á svipuðu róli hvað þroska og færni varðar. Í „ógetuskiptu“ kerfi (kallað „án aðgreiningar“ í skólakerfinu) myndu þeir færustu einoka boltann og sumir hreinlega aldrei fá tækifæri til að sparka í tuðruna. Því væri heillavænlegra að þeir sem hefðu minni færni í fótbolta lékju sér saman og þeir flinkustu kepptu hver við aðra á jafnréttisgrundvelli.

Allt er þetta gott og blessað og ber að þakka Vöndu fyrir að koma þessari umræðu af stað. Sjálfsagt hafa bæði sjónarmiðin sinn tilverurétt. Vanda benti líka á að keppnishyggja væri allt of ráðandi, og allt of snemma, á íþróttaferli barnanna.

Þar liggur sennilega hundurinn grafinn.

Grunnurinn að réttlætingu getuskiptingar hjá ungum börnum liggur nefnilega í keppnishugsuninni. Það er til lítils fyrir pasturslítinn krakka með lítinn hreyfiþroska að keppa við einhverja „Mini-Messia“ á fótboltavellinum.

Þá er spurningin hvort markmiðið með opinberum stuðningi við íþróttahreyfinguna er að framleiða slíka framtíðarafreksmenn eða að tryggja, að því marki sem slíkt er mögulegt, að hver og einn fái tækifæri til að hámarka getu sína, þroska og lífshamingju?

Ætli svarið sé ekki „sitt lítið af hvoru“?

Kannski að hluti vandans liggi í því að foreldrarnir píni börnin sín í fótbolta, þó þau hafi enga hæfileika á því sviði? Það eru nefnilega fleiri kostir í stöðunni fyrir börnin en fótbolti.

Og ekki get ég gert að því, þegar upp blossar umræðan um getuskiptingu barna innan íþróttahreyfingarinnar, að skólakerfið komi mér í hug. Í því kerfi er núna í tísku það sem kallað er „skóli án aðgreiningar“ og er andstæðan við getuskiptingarkerfið sem kvennaknattspyrnulandsliðsþjálfarinn talar fyrir af eldheitri sannfæringu.

Í skólakerfinu er líka uppi þessi tvíhyggja. Fyrir ekki löngu síðan mátti sjá í fjölmiðlum viðtöl við foreldra sem voru ósátt við það að sonur þeirra þyrfti að ganga í „almennan grunnskóla“, skóla án aðgreiningar, en fengi ekki inni í sérskóla þar sem hann myndi njóta sín mun betur með jafningjum, að áliti foreldranna.

Og framhaldsskólarnir eiga, skv. vilja löggjafans, að vera „fyrir alla“. Þar er hinsvegar getuskiptingarkerfið praktíserað þannig að nokkrir skólar komast upp með það að handvelja inn til sín nemendur eftir einkunnum á grunnskólaprófi. Það eru í umræðunni kallaðir „góðir skólar“. Þeim má þá jafna við A-liðin í getuskiptu starfinu hjá fótboltafélögunum. Og, eins og í skólakerfinu, eru félög og þjálfarar metin eftir því hvað yngriflokkarnir vinna marga titla – hvað þeir fá á prófinu. Þjálfari sem ekkert vinnur, er hann ekki rekinn? Skiptir þá litlu máli þó honum hafi tekist að auka hreyfiþroska, almennt heilbrigði og hamingju þeirra barna sem hann hefur á sínum snærum.

Þó kennarar séu ekki enn reknir ef nemendur þeirra falla á prófum eða meðaleinkunn hópsins er lægri en í „góðu skólunum“ (líka kallaðir elítuskólar), þá eru þeir, og skólarnir sem þeir starfa við, að engu metnir í opinberri umræðu fyrir það ef nemendum þeirra tekst að bæta árangur sinn stórkostlega, kannski um marga heila í meðaleinkunn.

„Hvaða rugl er þetta, íþróttir eru ekki það sama og skóli“, gæti nú einhver sagt.

Vissulega er það rétt. En hvort eru íþróttahreyfingin og skólakerfið fyrir börnin eða börnin fyrir íþróttahreyfinguna og skólakerfið? Snýst þetta ekki allt um það sama? Börnin okkar, þroska þeirra, líf og hamningu?