Fordæmi til varnaðar og fyrirmyndar í senn

Mér þótti athygli vert að skoski sjálfstæðissinnaformaðurinn sagði í viðtalinu við Boga í sjónvarpinu í fyrradag að mikilvægra fyrirmynda að uppbyggingu nýs og betra skosks samfélags væri að leita til norrænu ríkjanna, m.a. aðferðar Íslands við að setja sér nýja stjórnarskrá. Og þá átti hann ekki við starf núverandi SigurðarLíndalsnefndar.

Það virðist hins vegar hafa farið framhjá honum, á einhvern óskiljanlegan hátt, að komin er aftur til valda á Íslandi ríkisstjórn sem ætlar að forsmá vilja 2/3 hluta kjósenda um nýja stjórnarskrá á grunni þeirrar vinnu og aðferðafræði sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ýtti úr vör: alvöru lýðræði með þjóðfundi, kosningu stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður þess.

Í margháttuðum ólánleika þeirrar ríkisstjórnar, klaufaskapar og vandræðagangs, glóði stjórnarskrármálið skært, eins og gull af eiri. Að þáverandi stjórnarandstöðu skyldi takast að kæfa það með málþófi er bæði til ævarandi skammar fyrir hana og eilífur vitnisburður um lánleysi „vinstristjórnarinnar“, þrátt fyrir fagran ásetning í málinu.

En kannski ætti að upplýsa Skotann um að Íslendingar hafi enn ekki sett sér þá stjórnarskrá sem lagt var upp með að semja fljótlega eftir lýðveldisstofnun 1944, eða í 70 ár.

Skotar gætu þá haft fordæmi Íslendinga í stjórnarskrármálum bæði til varnaðar og fyrirmyndar í senn, þ.e.a.s. kjósi þeir á morgun að stofna sjálfstætt ríki.

Lykilatriðin

„Arionbanki greiddi rúmlega hundrað lykilstarfsmönnum bankans um 380 milljónir króna í kaupauka á síðasta ári.“ Þetta kemur fram á visir.is.

 

Svo lykilstarfsmenn lifi dús

og litið geti sólina

við helmingum okkar hungurlús

og herðum sultarólina.

 

H(r)aust stemmning

Sumartáta sárum trega

siglir bát í naust.

Farfakáta, klæðilega

kjóla mátar haust.

 

Haustin eru hefðbundin. Náttúran skiptir um föt og tjaldar því sem til er og mannlífið allt kemst í fastari skorður – fyrsta kóræfingin er í kvöld:

 

Sýnir haustið stílbrögð stór,

storð á vetur setur.

Brýnir raust í karlakór

hver sem betur getur.

 

Á dv.is mátti lesa þann 13. september að karlmannlegt útlit á borð við sterka kjálka, áberandi kinnbein, stælta upphandleggi og brjóstkassa, heilluðu gjarnan konur en slíkir karlar byðu ekki upp á besta sæðið:

 

Konur hrausta karlmenn þrá,

um kjálka svera og lungun.
Ef eymingja þær hátta hjá
hætta vex á þungun.

 

 

 

Af Bjarnagreiða og fleiru

Haustið lætur á sér kræla þetta árið með hefðbundnum hætti:

 

Kunnugt er nú komið haust,

kuldableytudrulla

og aftur byrjað, endalaust,

alþingi að bulla.

 

Elfa bróðurdóttir mín er alveg yndisleg. Hún benti fólki á að taka upp léttara hjal á Facebook og gaman væri líka að tala um það sem vel er heppnað. Ég tek hana á orðinu:

 

Ég nú verð að játa að

ég er nokkuð góður.

Rökin sem að sanna það

má sjá í dóttur bróður.

 

Núna er eitt barnið í þingliði Sjálfstæðisflokksins að berjast við að koma brennivíni í matvörubúðir:

 

Þegar bjór og brennivín

í búðum hér mun fást,

kaupstaðarangan óðar dvín,

á mér mun varla sjást.

 

Ekki var blekið þornað á fjármálafrumvarpsdrögum Bjarna og félaga þegar tilkynnt var um verðlækkun á krúseronum, en eins og menn vita er ekki étið mælt í þeim:

 

Í útrás vilja aftur skeiða,

efla ríkra hag.

Toyota býður Bjarnagreiða

bara strax í dag!

 

Fækkun háskólanema

Fækkun háskólanema er eitt helsta ræktunarmarkmið þjóðernissinna í ríkisstjórn Íslands, eins og fram kemur í fjölmiðlum. Markviss niðurskurður er augljós í öllu ræktunarstarfi – þar næst enginn árangur nema með miskunnarlausu úrvali. Skera þá lélegu og miðlungsgóðu en halda upp á bestu einstaklingana. Úrvalið byggir svo á ræktunarmarkmiðunum hverju sinni. Í hrossarækt, svo dæmi sé tekið, skiptir máli hvort markmiðið er að rækta vinnuhesta eða reiðhesta, vekringa eða brokkara, blesótta hesta eða skjótta, þegar valið er úr stofninum.

Hjá núverandi stjórnarflokkum á Íslandi er háleita markmiðið að halda við og helst að fjölga í kjósendahópnum. Leiðin að markmiðinu er að hleypa einungis sem fæstum og aðeins hinum gáfuðustu í háskólanám (það verður ekkert við þá ráðið hvort eð er). Stytting framhaldsskólanáms til stúdentsprófs er eitt skrefið á þeirri leið að fækka háskólanemum. Hálfvitarnir hafa ekkert þangað að gera! Þetta á auðvitað almennt við um menntakerfið. Því fleiri með takmarkaða menntun, því meiri líkur á stórum kjósendahópi stjórnarflokkanna eins og vísindarannsóknir hafa sýnt. Þannig er fækkun háskólanema leið að auknum gæðum fyrir þessa framsýnu flokka. Þetta má orða svona:

Háleita markmiðið hækkar
ef háskólanemunum fækkar.
Best að múgurinn gorti
af menntunarskorti,
þá stuðningshópurinn stækkar!

Svikið fæði

Þegar fyrstu tillögur að fjárlögum voru kynntar var haft á orði að ábyrgðarmennirnir hugsuðu aðeins um að „elda sínar steikur“. Það sem er í boði fyrir almenning úr eldhúsi stjórnarherranna væri best lýst svona:

Aumt er þeirra eldhúsmakk,
allt er fæðið svikið:
„Eðalsteikin“ úldið hakk,
óæt fyrir vikið.

 

Dagbók frá Krít

Dagur 11: 2. kafli – Síðasta sólbaðið (0:43)

Dagur 11: 1. kafli – Ég ætla ekkert að taka þátt í því… (1:22)

Dagur 10: 3. kafli – Anna María vissi ekkert af því… (1:20)

Dagur 10: 2. kafli – Skyldu einhverjir verða þar? (0:58)

Dagur 10: 1. kafli – Það verður eitthvað á eftir… (0:45)

Ferðarlok:

Dagur 9: 10. kafli – Tzitziki (1:21)

Dagur 9: 9. kafli – …hvernig umhorfs var meðan á hersetu Þjóðverja stóð… (3:30)

Dagur 9: 8. kafli – …og medium handa frúnni? (1:23)

Dagur 9: 7. kafli – …segja ekki orð allan tímann… (3:51)

Dagur 9: 6. kafli – Eins og korktappi (2:21)

Dagur 9: 5. kafli – Púðlukvikindi í bandi (0:25)

Dagur 9: 4. kafli – …þar hafi ekki verið tjaldað árum saman… (0:54)

Dagur 9: 3. kafli – …ekki sami fýlusvipurinn á honum… (2:01)

Dagur 9: 2. kafli – Í manndrápskleif í manndrápsveðri (1:26)

Dagur 9: 1. kafli – …meiningin að nýta daginn vel… (2:24)

Dagur 9 

Dagur 8: 5. kafli – Hangir slappur niður (1:29)

Dagur 8: 4. kafli – Erlend hundsgá (3:41)

Dagur 8: 3. kafli – …og kaupa kannski eitthvað drasl…(1:57)

Dagur 8: 2. kafli – 12 krónu afsláttur (1:39)

Dagur 8: 1. kafli – Allt í allra besta lagi (2:56)

Dagur 8:

Dagur 7: 7. kafli – Að ganga til viðar (3:43)

Dagur 7: 6. kafli – Engin ástæða til að hafa fordóma eftir þau kynni (4:04) 

Dagur 7: 5. kafli – Inngrónir heimalningar (4:50)

Dagur 7: 4. kafli – Gráskeggjaður og sköllóttur, eins og ég (4:55) 

Dagur 7: 3. kafli – Smá tilbreyting fyrir vesalings fólkið (2:29)

Dagur 7: 2. kafli – Danirnir ekkert svo ligeglad (4:06)

Dagur 7: 1. kafli – Frekar erfið nótt (1:46)

Dagur sjö. Nú sígur á seinni hlutann:

Dagur 6: 12. kafli – Hvað er betra en þrautaganga sem sigrast er á? (0:34)

Dagur 6: 11. kafli – Með höfuðin lotin niður í klofið (2:24)

Dagur 6: 10. kafli – Einn og einn rauður blettur (1:32)

Dagur 6: 9. kafli – Ekkert hægt að plata okkur með það (0:36)

Dagur 6: 8. kafli – Hundar og kettir (0:58)

Dagur 6: 7. kafli – Algengur þjóðflokkur (2:36)

Dagur 6: 6. kafli – Kannski kemst ég lifandi heim (0:37)

Dagur 6: 5. kafli – Hörmungargretta í uppgerðarbros (2:12)

Dagur 6: 4. kafli – Furðuleg ákvörðun (3:30)

Dagur 6: 3. kafli – Það mun vera nokkuð skemmtilegur bær (3:25)

Dagur 6: 2. kafli – Dagarnir hanga (0:24)

Dagur 6: 1. kafli – Tveir bekkir á óæðri stað (4:54)

Dagur sex:

Dagur 5: 2. kafli – Parkerað í afhýsum (2:35)

Dagur 5: 1. kafli – Það er allt heitt hérna, meira að segja kaffið (1:53)

Dagur 4: 2. kafli – Saga niður trén (4:00)

Dagur 4: 1. kafli – Eitthvað ógeðslega vont (2:53)

Nú taka við rólegri dagar:

Dagur 3: 21. kafli – Aðeins of mikið af öllu (1:35)

Dagur 3: 20. kafli – Íslenska sauðkindin (3:08)

Dagur 3: 19. kafli – Ekki fyrir hjartveika (0:37)

Dagur 3: 18. kafli – Liðamótavagn (1:20)

Dagur 3: 17. kafli – Amor sjálfur (0:52)

Dagur 3: 16. kafli – Þrefaldur Messi (0:35)

Dagur 3: 15. kafli – Svimandi upphæðir (1:36)

Dagur 3: 14. kafli – Þetta á að vera svona (3:14)

Dagur 3: 13. kafli – Þar sem klárinn er kvaldastur (1:16)

Dagur 3: 12. kafli – Hún er heldur ekkert blávatn (2:13)

Þriðji og síðasti skammtur

Dagur 3: 11. kafli – Bílstjóraergi (2:03)

Dagur 3: 10. kafli – G.Tyrfingsson (2:58)

Dagur 3: 9. kafli – Sýnikennsla í því að beygja í rétta átt (1:49)

Dagur 3: 8. kafli – Mætti ég biðja um eitthvað íslenskt? (2:15)

Dagur 3: 7. kafli – Best ég geri það bara núna (0:54)

Dagur 3: 6. kafli – Kelað og kysst (0:54)

Dagur 3 – annar skammtur

Dagur 3: 5. kafli – Skyldi Þorgeir eiga leið hjá? (0:58)

Dagur 3: 4. kafli – Innra byrði augnlokanna (0:59)

Dagur 3: 3. kafli – Af matvælaöryggi (5:00)

Dagur 3: 2. kafli – Úrunnar leifar grillveislu síðustu helgar (5:27)

Dagur 3: 1. kafli – Bæði eitt og tvö (0:53)

Dagur þrjú var nokkkuð viðburðaríkur og kemur í nokkrum skömmtum.

Dagur 2: 4. kafli – Fjallajarðir Biskupstungna (1:10)

Dagur 2: 3. kafli – Brekka nr. 2 (1:08)

Dagur 2: 2. kafli – Þetta er allt annað (1:30)

Dagur 2: 1. kafli – Kampavínið (1:44)

Dagur 1: 2. kafli – Vonbrigðin (5:43)  

Dagur 1: 1. kafli – Ferðalagið (3:35) 

Ég mundi loksins eftir því að taka með mér upptökutækið góða, þegar við fórum til Krítar um daginn. Það er þægilegt á ferðalögum að geta talað hugsanir sínar inn á tækið jafnóðum, í stað þess að berjast við að skrifa við misgóðar aðstæður, oftast vondar, eða að skrifa eftirá, á kvöldin, það sem borið hafði við og farið í gegnum hugann þann daginn. Slík skrif eru líka annars eðlis, þau eru ritskoðað úrval, bóklegs eðlis, jafnvel hreinn skáldskapur – ekki verri fyrir það, aðeins allt annars eðlis en þegar maður lætur móðan mása og hugsanir sínar flæða jafnóðum inn á tækið. Það reyndi ég að gera núna og ætla að birta hér smám saman að gamni mínu einhverjar af upptökunum. Þetta er auðvitað mest bölvað kjaftæði, sundurlausar vangaveltur, en kannski hafa einhverjir gaman af slíku? Hinir finna fljótt til leiðindanna og sleppa því að hlusta.

Ferðast um landið – í huganum

Í sumar hef ég óvenjulítið ferðast um landið, í hefðbundnum skilningi, hvort sem er vanabundnar ferðir um óbyggðir og öræfi á hestum eða á bíl milli landshluta eftir hinu nútildags kunnugra vegakerfi. Þó átti ég þess kost að ríða með syni mínum og frændfólki um nálægar slóðir hér sunnanlands: frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi, um Laugarvatn, Laugarvatnsvelli, Kringlumýri, Gjábakka, Skógarkots- og Hrauntúnsstíga í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Svartagil, Mosfellsheiði, Jórukleif, Grafning, Kaldárhöfða, Búrfellsdal, Klausturhóla, Björk – og aftur heim að Þóroddsstöðum. Óvíða gefast jafn góðar reiðgötur í jafn fögru umhverfi – og í afburðafélagsskap tekur fátt slíku ferðalagi fram.

En því minna sem orðið hefur úr ferðalögum í almennum skilningi þess orðs, því meira hef ég ferðast landshorna á milli heima í stofu, uppi í rúmi – eða jafnvel í sólbaði suður í Miðjarðarhafi.

Þetta hefur mér auðnast fyrir tilstilli Árbóka Ferðafélags Íslands, sem flestir munu víst nýta sem uppflettirit, en ekki mögnuð fræðirit, spennandi og gefandi bókmenntaverk, allt í senn. En þannig les ég Árbækurnar. Drekk þær í mig eins og flest fólk kriminala og afþreyingarbækur af ýmsu tagi.

Ég byrjaði þegar árbókin 2014 kom inn um lúguna: Skagafjörður austan Vatna, fyrra bindi, frá jökli að Furðuströndum, eftir Pál Sigurðsson. Þetta var tímabær framhaldslestur, því um Skagafjörð vestan Vatna fjallaði bókin 2012. Seinna bindis Austanvatnabókarinnar bíð ég nú þegar með óþreyju. Þessar tvær lesnu Skagafjarðarbækur fjalla um svæði sem ég er allkunnugur af fjölmörgum hestaferðum um Kjöl og niður í Skagafjörð – fjöll, vötn, klungur og dali sem ég hef margoft haft fyrir augunum í allskyns veðri. Því er auðvelt að ferðast um þetta land ljóslifandi í huganum við lesturinn – og veitir mikla fullnægju.

Þegar Skagafjörður var afgreiddur í bili fór ég upp í hillu og sótti Norðausturland Hjörleifs Guttormssonar frá fyrra sumri, sem mér hafði þá ekki gefist kostur að ljúka við vegna anna í hinum áþreifanlegri ferðalögum. Umfjöllunarefni bókarinnar er land sem mér er ókunnugt að mestu leyti, nema í gegn um bílrúðu, og rís skiljanlega ekki jafn lifandi upp af blaðsíðunum. Fjölmargar myndir og kort bæta þó miklu við textann, sem er með hóflegum og fræðilegum blæ höfundarins. 

Nú varð ekki hjá því komist að skella sér í bók Árna Björnssonar frá 2011, Í Dali vestur, sem ég hafði aðeins byrjað að glugga í útgáfuárið, en ekki haft tíma til að sökkva mér í. Það gildir um Dalina eins og Norðausturland að þar um hef ég aldrei riðið og á raunar enn eftir að aka um stóran hluta svæðisins, Fellsströnd og Saurbæinn, aðeins brunað í gegn eftir þjóðveginum, gegnum Búðardal og vestur á Firði. Árni skrifar skemmtilegan stíl og eftir lesturinn hlakka ég til að ráða bót á þessu sem fyrst. 

Húnaþing eystra, frá jöklum til ystu stranda hafði ég alltaf geymt mér, vildi alls ekki hlaupa í þessa bók á hundavaði. Tvær meginástæður eru fyrir því. Annars vegar hef ég riðið þarna um margoft, um Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðar, Blöndudal og Vatnsdal. Hins vegar er móðir mín alin upp í sýslunni, á Þröm í Blöndudal og í Litladal í Sléttárdal. Og nú fór að verða gaman. Bæði var að um hluta landsins hef ég „þvingað slyngan hófahund“ og myndirnar hrönnuðust sjálfkrafa upp við lesturinn og að Jón Torfason, fyrrum kennari minn í Árnagarði, lýsir heimasveitum sínum með persónulegum hætti og af tilfinningu og hikar ekki við að stíga fram og lýsa skoðunum sínum á ýmsu er varðar mannleg inngrip í náttúruna, t.d. af vali vegarstæða, svo eitthvað sé nefnt. Ómögulegt er annað en að hrífast með – sjálfsagt ekki síst af því að ég er innilega sammála skoðunum Jóns í þessu efni.

Nú voru hátt í 1000 blaðsíður af landslags-, landshátta-, menningar-, byggðaþróunar- og búskaparháttalýsingum komnar í hinn andlega sarp – og þykir sjálfsagt flestum nóg um. Handan við hornið var ferðalag suður til Krítar. Kona mín var alltaf að spyrja mig hvaða bók ég ætlaði að taka með til að lesa undir sólhlífinni, og þegar engin svör bárust, hvort ég ætlaði EKKI AÐ TAKA NEINA BÓK með?

Á endanum, daginn fyrir brottför sótti ég Fjallajarðir og Framafrétt Biskupstungna eftir Gísla Sigurðsson frá Úthlíð, og stakk henni niður í tösku. Það reyndist mikið happ, því bókin er gull. Jón Torfason er persónulegur en Gísli tekur honum fram hvað það varðar. Hann er svo nákunnugur öllu svæðinu sem um er fjallað að hann þekkir hverja hundaþúfu, hefur troðið það fótum frá barnæsku, ýmist fótgangandi eða á hesti, í smalamennskum og öðrum bústörfum eða í skemmti- og náttúruupplifunarferðum – auk þess að hafa málað fjölmargar myndir af náttúruperlum svæðisins. Náttúra, menning og saga heimahaganna eru höfundinum svo hjartfólgin að kærleikurinn beinlínis vermir upp bókstafina – og hjarta lesandans. Hann setur hófsamlega ofaní við menn, t.d  fyrir að planta öspum eða sígrænum trjám í náttúrulegt birkikjarrið, rækta skóg í reglustrikureitum og hafa ekki rænu á að varðveita konungsveginn sem bæri. Og svo lofsamar hann af innileik það sem vel hefur verið gert, t.d. við uppgræðslu á þessu viðkvæma svæði. Þó ég hafi farið um mestallt þetta svæði oft og mörgum sinnum eru þar líka staðir mér ó- eða lítt kunnir, t.d. í kringum Hagavatn og hluti Haukadalsheiðar, Fljótsbotnar og stærsti hluti Úthlíðarhrauns, sem gaman var að kynnst svo rækilega í gegnum frásögn Gísla heitins.

Í hitamollunni á Krít, þar sem mistrið byrgði oft verulega sýn til fjalla, fann maður foksandinn úr lýsingum Gísla milli tannanna.

 

 

 

Heitir dagar

Kona mín varð sextug 14. ágúst sl. og samdægurs var tíu ára brúðkaupsafmælið okkar. Þó liðnir séu rúmir þrír áratugir frá því við „byrjuðum saman“, eins og það er kallað, erVLUU L100, M100  / Samsung L100, M100 hún samt alltaf þessi fallega kona á þrítugsaldri sem ég kynntist fyrir margt löngu og heillaðist af. 

Við héldum upp á tímamótin með því að bregða okkur til Krítar í 10 daga og til að gera nú eitthvað til hátíðarbrigða samdi ég handa henni þetta litla ljóð:

Heitir dagar

Glóðheitir dagar

á Krít.

 

Hrifnæm kona

kemur til mín

með heillandi bros

og hreint.

 

Vakinn en orðlaus

á hana lít,

 

þessi fallegu,

tindrandi augu

sem engu

fá leynt;

 

það eru glóðheitir dagar

á Krít.