Vesalvæðingin

Upp úr 1990 hófst einkavinavæðingarskeiðið mikla á Íslandi. Ekkert var óhult, ef það var í opinberri eigu, og var þá hvorki skeytt um skömm né heiður. Takmarkið var að koma sem mestu af eigum almennings í hendurnar á „réttum aðilum“. Einkavæðingarstefnan var hugarfóstur Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarmenn voru svo lítilþægir að taka þátt í spillingunni – bara ef þeirra menn fengu hluta af kökunni. Og svo skiptu flokkarnir góssinu bróðurlega milli sín.

Á sama tíma, í tíð Friðriks Sophussonar í fjármálaráðuneytinu, hófst það sem átti að vera „uppskurður og tiltekt“ í ríkisrekstri. Þessi tiltekt gekk undir nafninu New Public Management eða Nýskipan í ríkisrekstri og er skilgetið afkvæmi frjálshyggjunnar sem þá hafði tröllriðið hinum vestræna heimi um skeið, og átti eftir að keyra fjármálakerfi heimshlutans í kaf þegar tímar liðu, og við súpum nú seyðið af.

Stefna þessi hafði á margan hátt mikil áhrif á rekstur og starfsemi ríkisstofnana og skólakerfið fór ekki varhluta af því. Lög um framhaldsskólastigið á 10. áratugnum (lög nr. 80/1996) eru t.d. lituð henni sterkum litum. Í skýrslunni Umbætur og nýskipan í ríkisrekstri (1993) segir fjármálaráðherrann í formála að kjarni stefnunnar sé „að dreifa valdi, auka ábyrgð og flytja ákvarðanir sem næst vettvangi og ná með því hagkvæmari rekstri og betri þjónustu“. Þessum markmiðum átti að ná með einkavæðingu, fleiri útboðum verkefna og samningsstjórnun – þ.e. að stofnun fái aukið sjálfstæði í eigin málum gegn því „að ná skilgreindum árangri á tilteknum sviðum“.

Í kjölfarið komu „gæðakerfi“ og sjálfsmat, enda hafi markmiðasetning „takmarkaðan tilgang nema hægt sé að mæla árangur“ með nothæfum mælikvörðum. Boðaður var opinber samanburður á árangri stofnana til að koma á samkeppni milli þeirra og skapa þannig „aðhald og ódýrari þjónustu“. Til að stjórna ríkisstofnunum var talið mikilvægast fyrir stjórnendur að hafa fyrst og fremst menntun í og reynslu af stjórnun, fremur en faglega menntun og reynslu á starfssviði viðkomandi stofnunar. Hvað skólana varðar þýddi þetta að mikilvægara væri að skólastjórar væru með reynslu og menntun í viðskiptum og stjórnun en að þeir væru reyndir kennarar. Annað afkvæmi þessara pólitísku áherslna er „reiknilíkanið“ svokallaða, sem enn er notað til að ákveða fjárveitingar til skólanna.

Allar götur síðan hefur gríðarleg vinna verið lögð í það í skólunum að innleiða einhver gæðakerfi og staðla þau, að koma upp mælanlegum markmiðum. Ytri (á vegum mmrn.) og innri úttektir eru gerðar reglulega og tekið tillit til margra þátta. Alls ekkert hábölvað allt saman, langt því frá, en mikilvægt að halda því til haga að því meiri vinnu af þessu tagi, sem krafist er af kennurum, því minni tíma hafa þeir til að sinna kennslunni og nemendunum.

Mat á skólastarfi er hinsvegar hægara sagt en gert. Hvað er gott skólastarf? Hvað er góður árangur? Einfaldast, og kannski algengast, er að miða við einkunnaskalann. Ef nemendur útskrifast með góðar einkunnir, er þá ekki augljóst að árangurinn af skólastarfinu er góður og skólinn þar af leiðandi góður? Tilgangur samræmdu stúdentsprófanna, sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins lögðu mikla áherslu á, var einmitt sá að veita þann opinbera samanburð og skapa þá samkeppni milli stofnana sem sóst var eftir með NPM, að sögn til að „skapa aðhald og ná fram ódýrari þjónustu“, en í raun og veru aðallega til að hægt væri að sýna fram á það svart á hvítu hvaða skólar eru góðir og hverjir lélegir, svo það þyrfti heldur ekki að vera í einhverjum feluleik með þá umræðu.

Sem betur fer átta flestir hugsandi menn sig á því að ekki er hægt að afgreiða gæði skólastarfs á svo einfaldan hátt.

Fjárframlög úr ríkissjóði til skóla eru reiknuð á nemendaígildi. Reiknilíkanið skilur enginn, nema kannski einn eða tveir kallar í ráðuneytinu. Markmið þess er samt að úthluta fé á sanngjarnan, gagnsæjan hátt og taka tillit til þess að skólarnir eru ólíkir, með misfjölbreytt og misdýrt námsframboð, mismarga nemendur o.s.frv. Allt gott og blessað.

Skólarnir fá úthlutað fjármagni í reksturinn miðað við þau nemendaígildi sem skila sér til prófs. Markmiðið með þessari tilhögun er árangursmæling. Því fleiri nemendum sem skólinn skilar til prófs, því betri árangur er af starfinu, ekki satt? Það er til lítils að afhenda skólum háar fjárhæðir af almannafé, til að mennta lýðinn, ef þeir geta ekki einu sinni skilað nemendunum til prófs, hvað þá meira?

En það er einnmitt nákvæmlega þarna sem vesalvæðingin hefst.

Stjórnendur skólanna eru í klípu. Ef t.d. þúsund manns innrita sig í einhvern skólann að hausti þurfa þeir að ráða kennara, tryggja skólahúsnæði, búnað og stoðkerfi (námsráðgjafa, skrifstofufólk o.s.frv.) sem annar þeim nemendafjölda. Lögum samkvæmt verður framhaldsskólakerfið að taka við öllum sem óska inngöngu. Kostnaðurinn liggur fyrir í upphafi annar, að innritun lokinni, en skólarnir fá bara greitt í samræmi við þann fjölda sem skilar sér í próf við lok annar. Ef hluti nemendanna hverfur á miðri önn, eða kannski bara daginn fyrir próf, hefur skólinn lagt út í kostnað sem fæst ekki greiddur, og situr uppi með tapið. Því fleiri sem hætta, því meira verður rekstrartapið. Ekki er víst hægt að segja upp kennurum og öðru starfsfólki, leigusamningum vegna kennsluhúsnæðis o.s.frv., jafnóðum og nemendum fækkar? En væri það ekki hin æskilega leið markaðshyggjunnar?

Hvaða afleiðingar hefur þetta? Ætli það sé gaman að reka heilan framhaldsskóla með bullandi halla?

Þetta kerfi skapar þrýsting á það að helst allir nemendur endist fram í prófatímann. Í okkar skólakerfi, þar sem 95% allra þeirra sem ljúka skyldunámi grunnskólans að vori innrita sig í framhaldsskóla að hausti, er auðvitað misjafn sauður í mörgu fé. Flestir vilja bara standa sig og útskrifast, en í svo fjölbreyttum hópi er því ekki að leyna að hópur nemenda, sem fer stækkandi, veit varla hvaða erindi hann á í skóla – og langar ekkert að vera þar. Hópur nemenda brýtur allar reglur sem skólarnir setja um mætingar, verkefnaskil og vinnuframlag. Fara samt furðu margir þeirra að heiman og í skólann á morgnana.

Auðvitað eru í framhaldsskólunum nemendur sem gengur illa í námi vegna ýmiskonar vanda – námslegra, félagslegra, sálrænna, andlegra eða líkamlegra erfiðleika – og ekki má gera lítið úr því eða rétti þeirra á þjónustu við hæfi. Skólakerfið er fyrir nemendur en nemendur ekki fyrir skólakerfið. Og vandi af þessu tagi stendur í engu sambandi við viljann til að standa sig.

En það eru nemendurnir sem ekki hafa neina greiningu, nemendur sem „ekkert er að“, en gengur samt bölvanlega að mæta í skólann, lesa námsefnið og komast áleiðis á menntabrautinni, sem eru áhyggjuefnið – og halda uppi brottfallstölunum!

Hér takast á tvö sjónarmið. Annars vegar þarf að skila sem flestum, helst öllum, til prófs svo útlagður kostnaður fáist greiddur. Það er hvorki gott til afspurnar, né skynsamlegt, að reka skóla með bullandi tapi ár eftir ár. Hinsvegar þarf að halda uppi ákveðnum lágmarkskröfum um gæði náms og kennslu. Á vorum símatstímum liggur það fyrir nokkuð fljótt hverjir nemendanna sækja kennslustundir með viðunandi hætti og sinna náminu af einhverju viti. Þeir dýrðardagar eru liðnir að hægt sé að lesa allt námsefni vetrarins í upplestrarfríi fyrir próf að vori, þar sem allt er lagt undir. Og það er engum til framdráttar að dragnast með hátt í þriðjunginn af nemendahópnum í bekknum algerlega utangátta. Hvorki þeim sjálfum né nemendum sem vilja gera sitt besta. Látum kennarana liggja milli hluta. Þetta hefur slæm áhrif á vinnuandann.

Ímyndum okkur bara hóp manna sem ræður sig sjálfviljugur í vinnu hjá fyrirtæki sem tekur að sér að moka skurði. Þriðjungurinn mætir ekki nema endrum og sinnum, og þegar það ber við, mætir hann allt of seint og skilur skófluna eftir heima. Þó verkstjórunum sé skapi næst að sveifla fætinum í afturendann á iðjuleysingjunum, og biðja þá að koma ekki aftur, getur hann lítið gert, því uppgjör fyrir verkið miðast við það hve margir eru enn við störf við verklok. Það er búið að leggja út í ákveðinn kostnað sem verður að fá greiddan, og framkvæmdastjórinn á bágt með að sýna eigandanum enn eitt ársuppgjörið með hallarekstri. Og því eru iðjuleysingjarnir dekstraðir til að mæta, allavega svona öðru hvoru. Hagkvæmara er að ráða sérstakan starfsmann sem heldur utan um skóflulager til að lána, annan til að sjá um bómullar- og hreinsisprittbirgðirnar og þann þriðja til að hafa alltaf nóg af plástri á skrámur. Verkstjórinn helypur svo á milli og sækir það sem vantar hverju sinni. Verkstjórnin verður bara að sitja á hakanum á meðan. Með þessu móti gæti tekist að halda öllum á staðnum, þó ekki væri nema að nafninu til og með því að hvíla sig á skurðbakkanum, á meðan hinir grafa.

Þetta vinnusiðferði, vesalvæðingin, er bein afleiðing af því „árangurshvetjandi“ umhverfi sem stjórnmálamenn hafa innleitt í skólakerfið. Nú er það verkefni stjórnmálamanna að taka afstöðu til þess hvort það sé þetta sem réttast sé og best að börnin okkar læri í skólunum.

Þrátt fyrir það umhverfi sem unglingunum er búið í skólum landsins eru margir þeirra sem betur fer bæði athugulir og sjálfbjarga. Nemandi sem fór í kynnisferð á Alþingi Íslendinga hafði t.d. þetta að segja að heimsókn lokinni, í greinargerð sem hann skilaði kennara sínum: „Það kom mér mjög á óvart hvað það voru fáir í þingsalnum, bara örfáar hræður sem þá voru annaðhvort sofandi, í símanum eða að lesa Moggann. Er Íslandi stjórnað svona?“

Kannski er ekki endilega von á miklu frá stjórnmálamönnunum?

 

Að lesa (og skrifa) list er góð…

Framhaldsskólakerfið á Íslandi er orðið bæði fjölbreytt og sveigjanlegt og kemur því vel til móts við ólíkar þarfir og getu nemenda. Samt hverfa milli 20 og 30% þeirra frá námi í miðju kafi – án viðunandi árangurs. Verkefni skólamanna og stjórnmálaafla er að grafast fyrir um raunverulegar ástæður fyrir þessu, benda á leiðir til úrbóta – og hrinda þeim í framkvæmd.

Undanfarna áratugi hefur verið unnið sleitulaust að því að fjölga námsleiðum, auka fjölbreytileikann og sveigjanleikann í kerfinu, til að koma til móts við nýjan hóp nemenda, nemendur sem áður fyrr yfirgáfu skólakerfið að loknu skyldunámi og fóru út á vinnumarkaðinn, sem tók þeim oftast opnum örmum.

Nú er þetta orðin gömul saga. Framhaldsskólakerfið hefur á sl. 30 árum aðlagað sig að breyttum veruleika – nemendurnir eru ekki lengur sá einsleiti hópur sem gat með tiltölulega lítilli fyrirhöfn hakkað í sig hvað sem fyrir hann var lagt – á leið sinni inn í rykfallnar deildir háskólans. Þó nokkrir skólar komist upp með það enn, dugir framhaldsskólakerfinu í heild ekki að vera bara læst á fyrstu tvö táknin, það þarf að kunna á allt mannrófið, frá A-Ö.

Nú er kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt, benda á nýjar leiðir og áherslur, í stað þess að spóla áfram í sama hjólfarinu – og stefna enn að því meginmarkmiði næstu árin og áratugina að auka fjölbreytni og sveigjanleika. Það heggur ekki að rót vandans og mun ekki skila árangri.

Mesti vandinn í skólakerfinu er ekki skortur á fjölbreytni og sveigjanleika, heldur skortur á læsi. Ólæsum eða illa læsum nemendum gagnast lítið fjölbreytni og sveigjanleiki. Þeir eru jafn ólæsir eftir sem áður. Vitaskuld verða alltaf einhverjir sem ekki geta lært að lesa, af ýmsum ástæðum, og þeir þurfa hér eftir sem hingað til þjónustu við hæfi. Sú þjónusta er fyrir hendi.

Í framhaldsskólunum eru langflestir á bóknámsbrautum til stúdentsprófs. Of stóran hluta þessara nemenda má kalla ólæsan, og fer stækkandi. Það eru ekkert endilega nemendur sem glíma við sk. lestrarörðugleika, t.d. lesblindu. Alltof margir, sem hefðu vel getað orðið fluglæsir á barnsaldri, eru stautandi í framhaldsskólum. Svo eru aðrir, sem strax ná góðum tökum á lestrartækninni, en komast svo ekkert lengra, staðna. Þetta er sorglegt. Eitt er að vera læs – og annað er að vera læs.

Af hverjum sættum við okkur við þetta? Foreldrar? Kennarar? Menntamálayfirvöld? Alþingi? Ríkisvald? Samfélag?

Bregðast mætti við með því að herða bara inntökuskilyrðin. Svo er líka hægt að afgreiða skóla sem reyna af fremsta megni að koma sem flestum einstaklingum áleiðis, í samræmi við áhuga þeirra og vonir en kannski að einhverju leyti í blóra við getu þeirra, sem lélega skóla sem útskrifi t.d. „annars flokks stúdenta“. Alltaf er töluverð stemmning fyrir þessum viðhorfum.

Svona aðferðir og sleggjudómar leysa engan vanda. Það er rétt stefna, sem við fylgjum hér á landi, að halda sem flestum dyrum opnum sem lengst í menntakerfinu. Allir eiga að fá sitt tækifæri, í stað þess að ákveðið sé á barns- eða snemma á unglingsaldri, hvaða örlög og starfsvettvangur bíði – lífshalupið í stórum dráttum.

Mikilvægast af öllu er að bæta lestrarfærni. Við höfum nú byggt upp svo góðan grunn, fjölbreyttan og sveigjanlegan, allt frá leikskóla og upp úr, að óviðunandi er að stór hluti æskunnar hrekist þaðan. Góð lestrarfærni er grundvöllur allra lífsgæða, og með því að láta nemendur fljóta illa læsa gegnum skólakerfið, án þess að grípa til þeirra ráðstafana sem duga, eru framin á þeim herfileg mannréttindabrot. Er ekki ólæsið, fremur en skortur á sveigjanleika og fjölbreytni, sá þrítugi hamar sem margir nemendur standa frammi fyrir í framhaldsskólunum, og veldur því að þeir hverfa frá? Langflestir nemendur myndu klára sig prýðilega, á hvaða braut sem er, í hvaða skóla sem er, aðeins ef þeir væru þokkalega læsir.

Þannig útbúnir myndu þeir lesa sig upp hvaða hamar sem er.

Skólakerfið glímir við fleiri drauga en ólæsisdrauginn, og fjallað verður nánar um það næst….

 

 


 

Hvað ætlar þú að verða, væni?

Allir ættu að geta verið sammála því að eitt mikilvægasta hlutverk menntakerfisins sé að efla almenna menntun – að „mennta“ sem flesta einstaklinga sem mest. Þetta gæti á fínu máli heitið „að hækka menntunarstigið“. Trúlega hafa allir stjórnmálaflokkar markmið af þessu tagi á stefnuskrá sinni, enda talið víst að „góð almenn menntun sé lykillinn að velferð þjóðarinnar“ til lengri tíma litið.

Sá tími er löngu liðinn að samfélaginu dugi að láta einungis börn embættismanna og broddborgara lesa íslenskar fornbókmenntir, stærðfræði, ensku, þýsku -og auðvitað latínu- í tveimur eða þremur menntaskólum.

Nú þarf að hafa alla í skólum, eftir að skyldunámi lýkur, og helst sem lengst. Margt ber til þess. Í fyrsta lagi er enga vinnu að hafa og börn og unglingar hafa ekki lengur neinu hlutverki að gegna í atvinnulífinu, hvorki til sjávar né sveita. Í sveitum sjá tölvur nú um að mjólka kýrnar og einn maður getur hæglega séð um allan heyskapinn ofan úr risavöxnum traktórnum. Smalað er á fjórhjólum. Pólskir verkamenn sjá um að snyrta bæði ýsuflök og gulrófu, þ.e.a.s. ef tölvan gerir það ekki líka.

Í öðru lagi hafa orðið til margvísleg störf sem krefjast menntunar, eða a.m.k. töluveðrar sérhæfingar, sem hentugt er að hópmiðla í skólastofum, en hvorki Völuspá, Macbeth né algebra veita hentug svör við, svona á yfirborðinu. Í þriðja lagi eru hvorki mamma né pabbi heima, hvað þá heldur afi og amma, til að passa börnin og kenna þeim góða siði.

Við sendum því krakkana í skólann. Það þarf líka að hækka menntunarstig þjóðarinnar, ef við ætlum ekki „að dragast aftur úr þjóðum sem við viljum miða okkur við“ hvað lífskjör varðar. Þetta skilja allir, er það ekki öruggt?

Og við sendum krakkana okkar svikalaust í skólann. Um það bil 95% af hverjum árgangi innritar sig í framhaldsskóla við 16 ára aldur, þó hlutfallið fari hríðlækkandi úr því. Íslendingar hafa því gullin tækifæri til þess að „gera eitthvað úr“ nánast öllum unglingum og koma þeim rækilega til manns. Ef „minna verður úr“ einhverjum en vonir standa til eða æskilegt væri, eða ef alþjóðlegur samanburður er eitthvað óhagstæður, þá er ekki hægt að kenna því um að unglingarnir hunsi menntunarkerfið í stórum stíl, og dragist þess vegna aftur úr.

Nánast allir leita í hlýjuna, í faðm menntakerfisins.

En hvað gerist svo? Hvers vegna láta á milli 20 og 30 af hundraði ungmenna sig hverfa út úr musterum manndómsins?

Er það út af því að námsframboðið er ekki nógu fjölbreytilegt, að alls staðar er verið að kenna það sama? Nei, það er ekki ástæðan. Mýgrútur af mismunandi námsleiðum er í boði: styttri jafnt og lengri bók-, iðn-, verk-, starfs-, list- og sérnámsbrautir.

Er það út af því að kerfið er svo ósveigjanlegt, að allir verði að fara á sama hraða sömu leiðina, -að ekki verði aftur snúið eftir að lagt er af stað? Nei, það er ekki ástæðan. Hver og einn getur farið á eigin hraða, hætt á einni braut og byrjað á þeirri næstu, nánast hvenær sem hugurinn girnist. Einn getur lokið stúdentsprófi á þremur árum en annar verið að gaufast við það í áratug(i). Annar getur byrjað í trésmíði en útskrifast í vélsmíði, eftir að hafa hætt í miðju kafi til að vinna í sjoppu í tvö ár en byrjað svo aftur þar sem frá var horfið, eins og ekkert hafi í skorist. Sá þriðji getur byrjað í rafiðinum á Suðurnesjum en skipt yfir í bíliðnir í Borgó eða kjötiðnir í MK, bara ef hann langar til. Þeir sem hafa áhuga á hestamennsku eða afreksíþróttum geta svalað áhuga sínum í F.Su. Og þeir sem hafa smekk fyrir því, og nógu háar einkunnir, geta farið í einhvern „elítuskólanna“.

Íslenskir unglingar geta því fundið sér í skólakerfinu nánast allt sem hugurinn girnist. Þeir geta líka valið sér það umhverfi og skipulag sem þeim hentar best. Þeir geta valið stóran skóla eða lítinn. Þeir geta valið heimavistarskóla, heimangönguskóla, eða heimanakstursskóla. Þeir geta valið bekkjarkerfi eða áfangakerfi. Þeir geta valið sveit eða borg eða þorp. Allt þetta geta þeir valið, eftir því hvar áhuginn liggur og hvað hentar þeim sjálfum best.

Og þennan sveigjanleika, valfrelsi og fjölbreytileika getur örþjóðin Ísland boðið upp á. Það má heita rannsóknarefni hvernig 300 þúsund hræður geta, án þess að blikna, haldið úti svo flóknu og fjölþættu framhaldsskólakerfi sem við gerum.

Lausnin við brottfallsvandanum í íslenska framhaldsskólakerfinu felst ekki í því að auka enn meira fjölbreytni skólakerfisins, fjölga enn stuttum námsbrautum og gagnslausum gerviprófum, eða að einblína áfram á að „taka aukið tillit til mismunandi þarfa og hæfileika nemenda“. Við erum þegar komin nógu langt áleiðis á þessari braut, eftir að hafa fetað hana samviskusamlega í 40 ár: Framhaldsskólakerfið okkar ER bæði fjölbreytt og sveigjanlegt og tekur svikalaust tillit til mismunandi áhuga, þarfa, getu, hæfileika og óska nemenda. Skortur á þessu er ekki vandinn.

Nú er komið að því að einbeita sér að öðrum markmiðum.

Stjórnmálaflokkarnir ættu að ræða það innan sinna raða hvaða markmið þeir telji mikilvægust á þessum tímamótum, hvernig þeir telji raunsætt að ná markmiðunum – og kynna að því loknu stoltir fyrir kjósendum „nýja framsækna umbótastefnu í menntamálum“.

Framhald næst…

Af „nýrri“ menntastefnu Samfylkingar

Skúli Helgason kynnir í Fréttablaðinu nú um helgina nýja menntastefnu Samfylkingarinnar, eina af afurðum landsfundar flokksins nýverið. Þó þær áherslur sem Skúli kynnir, og kallar „framsækna umbótastefnu í menntamálum“, geti vel verið nýjar og framsæknar fyrir Samfylkingarfélögum, þá eru þarna á ferðinni gamlir frasar – „nýja“ stefnan er sem sagt bara ódýr endursögn á þeim áherslum sem hafa farið hæst í samfélagsumræðunni undanfarna fjóra áratugi – og lesa má um í öllum lögum og námskrám á Íslandi frá 1970.

Það er þó jákvætt við þessa stefnumörkun Samfylkingarinnar, að ætla má að flokkurinn sé þá þar með kominn nokkurn veginn til nútímans í umræðu um þennan mikilvæga málaflokk.

En það er sjálfsagt til of mikils mælst að biðja um ögrandi framtíðarsýn eða nýjar lausnir?

Skúli byrjar á gömlu tuggunni um fjárframlög til menntmála og samanburð við OECD, stjórnarskrárbundinn rétt þegnanna til almennrar fræðslu og menntunar við sitt hæfi. Þá rifjar hann upp brottfallið úr skólakerfinu og nauðsyn þess að taka tillit til ólíkra þarfa og hæfileika nemenda. Hann gengur svo langt að fullyrða að vægi verklegs náms hafi verið of lítið!! og ályktar að það sé vafalaust einn aðalsökudólgurinn fyrir brottfallinu.

Hver hefur ekki heyrt þennan söng áður? Alveg milljón sinnum síðustu áratugi?

Og hverning skyldi eiga að leysa vandann, skv. hinni „nýju“ stefnu? Jú, „Samfylkingin vill skoða sérstaklega hvernig megi innleiða á jafnræðisgrunni árangursríkar leiðir til að þjóna nemendum með mismunandi þarfir…“

Skúla, og öðrum félögum í Samfylkingunni, til upplýsingar þá hefur þetta verið eitt helsta markmið íslenskra menntamálayfirvalda frá því lög nr. 12/1970 um menntaskóla voru samþykkt. Og nú ætlar Samfylkingin að fara að skoða þetta? Hefði ekki verið nær í „nýrri menntastefnu“ að boða lausnir, nýjar leiðir, í ljósi mistækrar reynslu af þeim leiðum sem farnar hafa verið að þessu markmiði hingað til? Eru fjörutíu ár ekki nógur tími til að láta sér detta eitthvað í hug? Nei, það er víst best að skoða þetta aðeins betur.

Næstu nýjungar Samfylkingarinnar, sem Skúli tínir til, eru að „auka samfellu leik-, grunn- og framhaldsskóla þannig að gæði og skilvirkni menntunar og skólakerfis verði sem mest“ og að „auka samstarf ríkis og sveitarfélaga um starfsemi framhaldsskólans“, meira að segja hvetur flokkurinn til þess að rætt verði um „kosti þess og galla að flytja framhaldsskólann til sveitarfélaga“.

HALLÓ! Er enginn heima? Hefur Samfylkingin ekki kynnt sér þau lög sem í gildi eru? Hefur öll umræða um menntamál síðan fyrir 2000 farið algerlega framhjá flokksmönnum?

Samfella í námi einstaklinga, frá leikskóla og meira að segja alla leið upp í háskóla, er eitt af meginmarkmiðum núgildandi laga, ásamt sveigjanlegum eða fljótandi skilum milli skólastiga. Flutningur framhaldsskólans til sveitarfélaga hefur líka verið í umræðunni árum saman, mest fyrir tilstilli Samfylkingarinnar, grunar mig. Þetta er búið að vera svo lengi til umfjöllunar, að tími er kominn til að benda á raunhæfar leiðir, kynna nauðsynlegar aðgerðir til að koma þessum stefnumálum í framkvæmd, fyrst flokkurinn segist trúa á þau. En það eina sem boðið er upp á í nýju stefnunni er að fara að ræða málin og „greina vandlega alla kosti“. Það er auðvitað mikilvægt, hmm.

Nú kemst Skúli alveg á flug og kynnir til sögunnar „glænýjar hugmyndir“ um að minnka brottfall í framhaldsskólum. „Þar er grundvallaratriði að efla og styrkja starfsnám, m.a. með þróun styttri námsbrauta og auknu samstarfi skóla og atvinnulífs“, segir hann.

Þegar hér er komið lestrinum veit maður ekki almennilega hvort á heldur að hlæja eða gráta. Þessa málsgrein mætti taka nánast orðrétt upp úr hvaða framhaldsskólalögum, námsvísum eða aðalnámskrám framhaldsskóla frá því fyrst voru sett heildarlög um framhaldsskólastigið, með lögum nr. 57/1988, til nýjustu aðalnámskrárinnar frá því sl. vor. Að þessu markmiði hefur verið unnið sleitulaust hátt á þriðja áratug, og einmitt með þeim „nýju“ aðferðum sem Samfylkingin kynnir nú til sögunnar: að styrkja vek- og starfsnám, fjölga námsleiðum og þróa styttri námsbrautir í samstarfi við „aðila vinnumarkaðarins“. Kannski Samfylkingin láti sér detta í hug á næsta landsfundi að koma á svokölluðu framhaldsskólaprófi?

Það hefði kannski verið hægt að kalla það „framsækna umbótastefnu“ ef Samfylkingin hefði látið sér detta í hug eitthvað annað en menn hafa rembst við að gera, án sýnilegs árangurs, í þrjátíu ár?

Brottfall úr framhaldsskólum er samfélagslegt vandamál. Þær lausnir sem íslensk menntamálayfirvöld hafa hingað til boðið upp á hafa ekki virkað. Brottfallið minnkar ekki. Fjöldi nýrra, stuttra námsbrauta, með einhverjum gerviprófum sem gefa engin réttindi til neins, gera ekkert annað en í besta falli að fela vandann. Er t.d. nemandi sem hefur lokið tveggja ára „framhaldsskólaprófi “, þegar hann hrökklast út úr framhaldsskólakerfinu, eitthvað betur settur en án þess? Er e.t.v. aðalatriðið að með slíkt „próf“ upp á vasann hættir viðkomandi að vera „dropout“ í kerfinu?

Þetta kann sem sagt að vera leið til að lækka opinberar tölur um brottfall, markmið Samfylkingarinnar um 10%-in gætu jafnvel náðst? En hverju er samfélagið bættara? Og hverju er einstaklingurinn bættari? Mér sýnist að hvorugur aðilinn sé neinu bættari, viðkomandi er jafn illa staddur á vinnumarkaði, jafn réttindalaus -og jafn brottfallinn- hvort sem hans er getið í opinberum prósentutölum og OECD samanburði, eða ekki.

Ég nenni ekki að rekja lengra hina „nýju“ stefnu Samfylkingarinnar í menntamálum. Allt það sem fram kemur í grein Skúla, og ekki hefur verið rakið, er gamalkunnugt, endurtekið efni: Sameining/samstarf háskóla, efling samkeppnissjóða og „úrbætur á fyrirkomulagi námslána á Íslandi“.

Ég verð að viðurkenna vonbrigði mín eftir lestur greinarinnar. Ég gerði þau mistök að búast kannski við einhverju nýju í nýju menntastefnunni.

Eitthvað annað, takk!

Framkvæmdaglaðir Íslendingar hafa árum saman hæðst að þeim samborgurum sínum sem talað hafa gegn stöðugum stórvirkjanaframkvæmdum fyrir erlendan áliðnað og aðra stóriðju. Þeir sem hafa viljað meta einhvers náttúruna af sjálfri sér, en ekki aðeins út frá nýtingarhlutfalli eða hagtölum, eru umsvifalaust dæmdir sekir fyrir að vera á móti atvinnuuppbyggingu og framförum. Þeir eru beðnir um að benda á aðrar leiðir og ef þeim vefst tunga um tönn eða hafa ekki á takteinum fullmótaðar hugmyndir og exelskjöl stútfull af tölum um fjölda beinna starfa og afleiddra, útflutningstekjur, hagvöxt og auknar skatttekjur ríkisins, eru þeir léttvægir fundnir: Þeir eru í hæðnistón sagðir bara vilja gera „eitthvað annað“ – og svo er hlegið með öllum kjaftinum.

En það er styttra í þetta „eitthvað annað“ en sumir virðast kæra sig um að skilja.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að á næstu 15-20 árum muni Íslendingar hafa yfirbugað alla óvirkjaða vatns- og varmaorku sem nýtanleg sé í landinu.

Einn og hálfur til tveir áratugir er ekki langur tími.

Jafnvel þó Hörður þessi sé hugsanlega óþarflega svartsýnn og við höfum enn 30-40-50 ár, þá er ekki langur tími til stefnu. Og jafnvel þó þessar 11 teravattstundir sem Hörður segir vera á 15 ára áætlun, til viðbótar við þær 17 sem þegar eru framleiddar af rafmagni, verði að 15 teravattstundum, öðrum 17 eða jafnvel enn meiru, þá fer ónýttum teravattstundum hratt fækkandi. Allir ættu að skilja að það kemur að þeirri stund að engar teravattstundir verða eftir, ekki einu sinni til að virkja á næsta ári, hvað þá áratugi fram í tímann. Skilja þetta ekki örugglega allir? Eða hvað?

Hvað ætla íslenskir jarðýtumenn að gera eftir örfáa áratugi, þegar jarð- og vatnsorkan er fullnýtt? Ætla þeir þá að kyngja hæðnishlátrinum og byrja að „gera eitthvað annað“? Eða ætla þeir kannski bara að berja hausnum áfram við steininn (eða stinga honum í steininn, eftir atvikum)?

Þurfum við sem nú lifum endilega að klára allar teravattstundirnar? Er það ábyrg afstaða að láta ófæddar kynslóðir alfarið um það að „gera eitthvað annað“? Alveg burtséð frá því að við tökum um alla eilífð frá ófæddum Íslendingum fegurð fossa og annarra náttúruvætta, þá held ég að það sé bæði hófsöm og sanngjörn fullyrðing að segja að svo sé ekki.

Getum við ekki öll sammælst um að hætta þessari vitleysu? Fara að selja dýrmæta orkuna okkar á sanngjörnu verði, í smærri skömmtum og á lengri tíma, en einbeita okkur fyrir alla muni að því strax að fara að „gera eitthvað annað“?

Ömmi – you made my day!

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sló alveg í gegn hjá mér í Fréttablaðinu í morgun. Eins og kunnugt er hafði ríkisendurskoðun gert alvarlegar athugasemdir við það að ríkislögreglustjóri hefði keypt fullt af allskyns dóti handa löggunni -af löggunni. Upphæðin sem um ræddi var langt yfir útboðsmörkum en löggan hafði passað samviskusamlega upp á það að senda löggunni bara nógu marga reikninga til að hver þeirra væri innan „siðlegra marka“.

Og Ögmundur brást auðvitað skörulega við og tók málið til skoðunar. Að ítarlegri skoðun lokinni kemst hann sem sagt að þeirri niðurstöðu að það sé ekki ríkislögreglustjóri heldur ríkisskattstjóri sem sé „ekki í réttum farvegi með málið“. Ríkisskattstjóri „er ekki að setja umrædd atriði í rétt samhengi“ eins og mikilvægt er að gera í hverju máli.

Nú ætti Ögmundur að beita sér fyrir því að ríkisskattstjóri og embætti hans fái námskeið hjá ríkislögreglustjóra í því að sjá rétt samhengi hlutanna og koma þeim í réttan farveg. Það þarf ekkert að bjóða svoleiðis námskeiðahald út, skipta bara reikningnum í tvennt eða þrennt eða fernt, eftir því hvað skattstjóri þarf marga tíma. Það er hætt við að þeir gætu orðið margir.

Og hvert er hið rétta samhengi fyrir þetta mál?

Það sem skiptir mestu máli er „að menn horfi á aðalatriði þessa máls en séu ekki í karpi um einstök smáatriði“. Aðalatriðið er að allir séu sammála um að gera svona aldrei aftur. Það sem ógert er er mikilvægara en það sem gert er, „þangað eigum við að horfa, en ekki festast í einhverju sem fyrir er“, segir Ömmi innanríkis.

Þetta er rétt hjá Ögmundi. Hvað eigum við alltaf að vera að horfa í baksýnisspegilinn? Gert er gert og verður ekki aftur tekið. Og ef menn eru sammála um að gera betur næst, hverslags meinbægni er þetta þá í ríkisskattstjóra?

Það er alveg ótrúlegt hvað sumir menn eru þröngsýnir og hefnigjarnir. Þeim virðist alveg fyrirmunað að sjá heildarmyndina. Horfum fram á veginn og hættum að böggast í þeim sem kunna að hafa farið á svig við smáatriði eins og lagabókstaf eða siðareglur. Vitið til, þetta reddast!

Ömmi – you made my day!

Franz Liszt í 200 ár

Unglingakór og félagar úr Karlakór Hreppamanna á æfingu í SelfosskirkjuLaugardaginn 22. október næstkomandi eru 200 ár liðin frá fæðingu Ungverjans Franz Liszt. Af því tilefni stendur Karlakór Hreppamanna fyrir tónleikaröð til heiðurs þessum ástsæla píanósnillingi og tónskáldi. Kórinn heldur ferna tónleika á næstu vikum og þeir fyrstu verða sannkallaðir afmælistónleikar, á afmælisdaginn sjálfan. Í kjölfarið fylgja tónleikar í Þorlákshöfn, Salnum í Kópavogi og í Selfosskirkju eins og hér segir:

Laugardaginn 22. október 2011, kl. 15.00 í félagsheimilinu á Flúðum
Mánudaginn 24. október 2011, kl. 20.00 í Ráðahúsi Ölfuss í Þorlákshöfn.
Þriðjudaginn 25. október 2011, kl. 20.00 í Salnum í Kópavogi.
Miðvikudaginn 2. nóvember 2011, kl. 20.00 í Selfosskirkju.

Það er stjórnandi Karlakórs Hreppamanna, Edit Molnár, sem hefur veg og vanda af skipulagningunni. Hún hefur verið að búa kórinn undir þennan viðburð síðastliðin tvö ár og á vortónleikum árið 2010 var eitt laga Liszts á söngskránni. Söngárið 2010-2011 bættust fimm lög í sarpinn og fjögur þeirra voru á efnisskránni síðastliðið vor. Á afmælistónleikunum framundan mun kórinn syngja sex verk eftir Liszt.

Hér eru ekki á ferðinni bara hverjir aðrir tónleikar, heldur er um tónlistarviðburð að ræða. Karlakór Hreppamanna er brautryðjandi í flutningi kórverka Liszts hér á landi og hefur frumflutt þau verk sem hér um ræðir. Edit Molnár hefur því með frumkvæði sínu brotið blað í íslenskri tónlistarsögu. Hún hefur ekki aðeins kynnt verkin og kennt kórnum að syngja þau, heldur staðið fyrir því að samin hafa verið við lögin ljóð á íslensku, eða þýskir söngtextar þýddir yfir á hið ástkæra ylhýra.

Meðal laganna sem kórinn syngur er hið þekkta einsöngslag Liebestraum, sem heitir í íslenskri þýðingu þess sem hér skrifar Ó, líf! Örlygur Benediktsson raddsetti lagið sérstaklega fyrir Karlakór Hreppamanna af þessu tilefni.

Og það er ekki bara Karlakór Hreppamanna sem kemur fram á þessum einstæðu tónleikum. Unglingakór Selfosskirkju kemur einnig við sögu, en Edit er einnig stjórnandi hans. Þá leikur annar ungverskur píanósnillingur, Miklos Dalmay eiginmaður Editar, nokkur einleiksverk, ásamt því að leika undir hjá karlakórnum.

Síðast en ekki síst mun Ágúst Ólafsson barítón syngja við undirleik Miklósar. Ágúst er án vafa einn fremsti söngvari Íslendinga um þessar mundir. Hann hefur tvisvar verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna; í flokknum Rödd ársins árið 2009 og fyrir störf sín á árinu 2008 var hann tilnefndur sem Flytjandi ársins í sígildri/samtímatónlist. Hann hlaut Grímuna árið 2010 fyrir hlutverk sitt í Ástardrykknum í Íslensku óperunni hastið 2009. Ágúst hefur komið víða fram á ljóðatónleikum og sungið þekkt hlutverk í ýmsum óperum.

Ágúst mun syngja á tvennum tónleikum í tónleikaröðinni, í Salnum 25. október og í Selfosskirkju 2. nóvember. Hann er annars upptekinn í hlutverki sínu í Töfraflautunni, sem frumsýnd verður í Hörpu næstkomandi laugardag.

Enginn tónlistarunnandi má láta þessa tónleika framhjá sér fara. Hér er um einstakan viðburð að ræða.

Hlutverk kynjanna – mamma og pabbi nútímans?

Athygli mína vakti auglýsing í Fréttablaðinu í dag, laugardaginn 15. október 2011, (bls. 17). Þar var mynd af ungu pari með kornabarn, undir fyrirsögninni: „Það er margt sem felst í því að vera ábyrgir FORELDRAR“.

Neðst til hægri í myndinni er áberandi rauður, hringlaga flötur þar sem stendur með hvítu letri „Lífís“. Þó manni gæti dottið í hug við fyrsta lestur að þarna væri á ferðinni ný tegund frá Kjörís er ekki svo. Það er VÍS sem hér auglýsir „líf- og sjúkdómatryggingar“.

En það sem vakti athygli mína var myndmálið í auglýsingunni. Myndmálið sendir skýr skilaboð um hlutverk kynjanna. Til að tryggja öryggi og velferð barns síns og fjölskyldunnar takast foreldrarnir á hendur mismunandi hlutverk. Skoðum þau nánar:

Pabbi á að axla ábyrgð, skipuleggja tímann, deila verkefnum innan heimilisins og stappa stálinu í hina fjölskyldumeðlimina þegar á móti blæs. Hann á að sýna tómstundum annarra fjölskyldumeðlima áhuga, fylgja litla krílinu á íþróttaleiki, tónleika eða annað sem áhuginn beinist að.

Pabbi á líka að vera þolinmóður og gefa sér tíma til að hlusta, hrósa þegar vel er gert og ræða málin af yfirvegun ef einhver fer út af sporinu. Hann á að hlúa að fjölskyldu- og vinaböndum, kalla á liðið í grill um helgar.

Þegar pabbi er búinn að öllu þessu má hann njóta stunda í góðra vina hópi, þ.e.a.s. ef hann temur sér holla lifnaðarhætti og er ekki á einhverju útstáelsi.

Mamma á að vera góð fyrirmynd. Hún á að búa í haginn fyrir breytta tíma og halda góðri rútínu á heimilinu. Enga óreiðu, takk! Hún á ekki að eyða í vitleysu, heldur sýna aðhald í fjármálum sínum. Hún verður að vera sveigjanleg, tilbúin að tileinka sér nýja hluti og sýna tillitssemi gagnvart öðrum í fjölskyldunni.

Það er í verkahring mömmu að miðla málum og hún verður að læra að treysta öðrum, vera ekki alltaf með nefið ofan í öllu! Hún á að vera jákvæð en staðföst og halda uppi passlegum aga. Og svo á mamma að passa að hvílast vel svo hún geti ræktað ástina í hjónabandinu.

Og í hvað eiga mamma og pabbi að nota höfuðið?

Mamma á að nota það til að rækta líkama og sál – fara kannski í ræktina og jóga. Pabbi á hinsvegar að afla sér þekkingar. Velferð fjölskyldunnar er undir því komin.

Hart er í heimi

Í 45. vísu Völuspár segir svo:

Bræðr munu berjaz
ok at bönum verða,
munu systrungar
sifjum spilla;
hart er í heimi,
hórdómur mikill,
skeggöld, skálmöld,
skildir ro klofnir,
vindöld, vargöld
áðr veröld steypiz;
mun engi maðr
öðrum þyrma.

Um þetta erindi kvæðisins segir Sigurður Nordal m.a. í útfgáfu sinni frá 1952 (bls. 120): „Mannfélagið er að liðast sundur, jafnvel helgustu ættarbönd eru slitin. Allt far mannkynsins sýnir, hvað hlýzt af því að rjúfa orð og eiða: fjandskapur, grimmd og hvers konar siðleysi“.

Því verður víst ekki á móti mælt að líkindin við samtímann eru sláandi.

Þó maður leyfi sér að skauta framhjá bræðravígum, spilltum sifjum, hórdómi og sjálfum heimsendi (þar með er ekki sagt að allt þetta eigi ekki við), þá stendur samt nóg eftir: Það eru ófriðartímar þar sem trúnaðarbrestur hefur orðið, hver höndin er uppi á móti annarri, hatur og ringulreið einkennir samfélagið og þröngir eiginhagsmunir ráða.

Hver reynir að hrifsa til sín sem mest af sameiginlegum gæðum. En það verður víst ekki gert nema á kostnað einhverra annarra, því miður.

Þetta er augljóst á öllum sviðum. „Almenningur“ mótmælir harðlega pólitískri spillingu og leyndarhyggju, sem einkenni starf stjórnmálamanna og -flokka. Í staðinn er krafist gagnsæis, opinna ferla og faglegra sjónarmiða. Mikill skortur kvað vera á þessu. Virðing Alþingis og stjórnmálastéttarinnar þykir hafa beðið afhroð. Burt með þetta lið frá stjórnsýslunni! Burt með pólitískar ráðningar! Burt með pólitísk afskipti!

Íslenskur almenningur krefst þess líka að ríkisstjórnin „grípi í taumana“. Fyrst sú sem nú situr getur ekki gert það, þá verður bara að fá aðra! Ríkisstjórn á í skjóli pólitísks valds að hreinsa út úr bönkum og fjármálafyrirtækjum. Fjármálaráðherrann á að stöðva þessa arfavitlausu ráðningu í forstjórastól bankasýslunnar! Ríkisstjórnin á að deila og drottna yfir skuldum og arðgreiðslum, verklegum framkvæmdum og bjarga atvinnulífinu.

Þess er bæði krafist að „fulltrúar almennings“ handstýri þjóðfélaginu og komi sér burt, allt í sömu andránni!

Allir þingmenn átta sig á nauðsyn þess að skera niður ríkisútgjöld. „Það verður að ná jafnvægi á ríkissjóð og stöðva skuldasöfnun“ segja þeir. Það dugar víst ekki að eyða meiru en aflað er. En þegar aðgerðir í þessa veru líta dagsins ljós rjúka þeir upp til handa og fóta. Það má nefnilega alls ekki skera niður í þeirra kjördæmi. Það sér það hver maður, þegar niðurskurður er kynntur, að sú þjónusta sem um ræðir er algjörlega bráðnauðsynleg og mun meira að segja spara ríkinu stórfé til langs tíma litið! Vita menn ekki að þeir sem missa vinnuna fara á atvinnuleysisbætur og allskyns félagslegur vandi mun aukast verulega og valda miklu hærri kostnaði en sem nemur sparnaðinum, þegar allt er talið? „Á að færa allt til Reykjavíkur?“ æpa menn svo úr ræðustól.

Ekki skera þetta! Skerið eitthvað annað! Það verður að spara. En ekki hjá okkur. Það sjá allir.

Og svo eru það blessaðir hagsmunaaðilarnir. Það er alveg sama á hvaða sviði það er – allir hagsmunaaðilar hafa pottþétt rök fyrir því að á þeirra sviði megi alls ekki skera niður. Með því er margra ára uppbygging eyðilögð, gjarnan ráðist ómaklega gegn „þeim sem minnst mega sín“. Nú er svo komið að þessi frasi er ónýtur af ofnotkun.

Fagstéttirnar eru ófeimnar við að beita svokölluðum skjólstæðingum sínum fyrir sig: kennarar nemendum, heilbrigðisstéttirnar sjúklingum, löggan öryggi almennings o.s.frv. Fagstéttirnar hafa sjálfdæmi í eigin málum: engir aðrir segja læknum hvað er „faglega rétt“ að gera eða ekki gera. Forstjóri Landspítalans fullyrti t.d. í sjónvarpinu í gær að ákvarðanir um nýjasta niðurskurðinn þar á spítalanum væru teknar á „faglegum forsendum“ en ekki út frá byggðasjónarmiðum. Getur einhver andmælt því?

Að minnsta kosti hættu þingmenn Suðurkjördæmis sér ekki inn á hinar faglegu brautir í rökræðunni um lokun réttargeðdeildarinnar á Sogni.

Og svona má halda áfram endalaust. Útgerðin bendir á það að breytingar á kvótakerfinu muni „rústa grundvelli efnahagslífsins“ eða eitthvað álíka. Kvikmyndagerðarmenn fullyrða með þunga að ALLS EKKI megi skera niður nám í kvikmyndagerð. Það sé svo heimskulegt að til annars verði ekki jafnað. Kvikmyndagerð beinlínis moki fé inn í ríkissjóð og þess vegna ætti ríkissjóður að moka enn meira fé í kvikmyndagerð! Jafnvel stuðningur við ríkisstjórn veltur á þessu.

Ásbjörn Óttarsson bendir listamönnum á það að fá sér alvöru vinnu og listamenn heimta meira fé í „hinar skapandi greinar“ af því það borgi sig margfalt þegar upp er staðið.

Það verður að spara. Það sjá allir að þjóðin hefur lifað um efni fram. En ekki hjá mér. Það sjá nú líka allir, er það ekki?

Svona hamast allt samfélagið í hróplegri mótsögn við sjálft sig. Má biðja um vitræna umræðu og framtíðarsýn?

 

Kleppur-Sogn

Landspítalanum er gert að spara ríflega 600 milljónir á næsta ári skv. fjárlagafrumvarpi því sem nú hefur verið lagt fram. Það er svipuð upphæð og spítalinn þurfti að skera niður á þessu ári. Bjössi Zoëga sagði um niðurskurðinn sem hann var krafinn um fyrir ári síðan að lengra yrði ekki komist – ekki án þess að skera niður þjónustuna, loka deildum og hætta hreinlega að veita suma þjónustu. Segja þarf upp 85-90 starfsmönnum hvort ár.

Afleiðingar 600 milljóna niðurskurðarkröfu annað árið í röð eru nú að koma í ljós smám saman. Sérhæfðri öldrunarlíknardeild á Landakoti verður lokað. St. Jósefsspítala í Hafnarfirði verður lokað. Réttargeðdeildinni á Sogni verður lokað og þjónustan flutt að Kleppi. Sparnaðurinn við þessar tvær síðasttöldu aðgerðir eru að sögn um 230 milljónir króna á ári. Það munar svo sem um minna í harðæri, ef út í það er farið.

Samkvæmt yfirlækni á öldrunardeild er lokun líknardeildarinnar á Landakoti mikil fagleg afturför: „Það er eins og það sé verið að fara 10-15 ár aftur í tímann“, segir hann í Fréttablaðinu í dag. Hér er því um að ræða hreina sparnaðaraðgerð.

Sveitarstjórnarmenn í Hafnarfirði og á Suðurlandi, ásamt þingmönnum Suðurkjördæmis, bregðast ókvæða við lokunum stofnana í sínum heimabyggðum undir gunnfána byggðastefnu og atvinnuöryggis kjósenda sinna. Þeir beita í málflutningi sínum engum faglegum rökum um gæði þjónustunnar eða hagsmuni sjúklinganna. Og til hvers ættu þeir að gera það? Er ekki þjónusta við sjúklinga á Sogni og St. Jósefsspítala eins og best verður á kosið?

Forstöðumaður á geðsviði Landspítalans heldur því fram að rökin fyrir flutningi þjónustunnar sem fram til þessa hefur verið veitt á Sogni séu ekki síður fagleg en fjárhagsleg. Nefnt hefur verið að á Kleppi sé pláss fyrir fleiri sjúklinga og aðstæður betri en í „gömlu barnaheimili“ fyrir austan Fjall. Einnig að nálægð við sérfræðinga og hjúkrunarlið á Kleppi skapi öryggi. Þá sé styttra og fljótlegra að kalla á liðsauka ef eitthvað kemur upp á, og síðast en ekki síst sé það sjúklingum í hag að á Kleppi séu meiri og betri tækifæri fyrir þá til að hafa samskipti við sína nánustu.

Allt er þetta gott og blessað. En á móti má spyrja hvort og þá hve oft komið hafi upp vandræði vegna plássleysis á Sogni? Hefur geðsjúkum afbrotamönnum fjölgað svo að Sogn rúmar ekki lengur alla sem þar þyrftu að dvelja? Eða hefur Sogn verið notaður til að leysa í neyð ófremdarástand í fangelsismálum, t.d. yfirfullt fangelsið á Litlahrauni? Hve oft hefur þurft að kalla til liðsauka vegna „uppákoma“ á Sogni? Og hefur það skapað vandræði að liðsaukinn er ekki í næsta húsi?

Þessum spurningum þarf að svara opinberlega. Ef svörin eru öll neikvæð gagnvart áframhaldandi rekstri Sogns, ja, þá er sjáfsagt ekkert við því að segja. Aðeins lífsviðurværi um 35 Sunnlendinga tapast. Væntanlega er það ásættanlegur fórnarkostnaður fyrir hagsmuni sjúklinganna.

Bent hefur verið á að starfsmönnum á Sogni verði boðin áframhaldandi störf við deildina á Kleppi. Er þá nokkur skaði skeður? Geðlæknar og sérfræðingar koma eins og kunnugt er akandi frá Reykjavík austur á Sogn í vinnuna. Geta þá ekki sunnlenskir starfsmenn réttargeðdeildarinnar eins keyrt til Reykjavíkur? Er ekki jafn langt frá Reykjavík á Sogn eins og frá Sogni til Reykjavíkur?

Allir átta sig auðvitað á því að svo er ekki. Það verður mun lengra að aka frá Sogni til Reykjavíkur. Þeir sem þurfa að renna austur á Sogn í vinnunni fá bæði tímann og aksturskostnaðinn greiddan upp í topp, eins og eðlilegt er. Þeir Sunnlendingar sem taka tilboði um vinnu á Kleppi munu þurfa að aka í eigin frítíma og á eigin kostnað til að koma sér í vinnuna.

Í því felst mikill sparnaður fyrir Landspítalann.